86 Síðan tala þær hvor í kapp við aðra. „Hvar voruð þið í nótt? Hvernig datt ykkur í hug að fara? Hvað eigum við að gera við ykkur ...?“ Mjárún hyrna og Högni mjói taka undir með þeim inni í sjalinu mínu. Ég set kettina niður á jörðina og Kunnan sleppir beininu til að gelta á þá. „Þegiðu, Kunnan!“ skipar pabbi en hundurinn geltir bara hærra. „Hundóféti,“ tautar pabbi móðgaður og sparkar í beinið. Það er líklega þyngra en hann reiknaði með því hann æpir og haltrar um. Síðan tekur hann beinið upp og þefar af því. „Skógarbjörn,“ segir hann undrandi. „Ég hef ekki bragðað bjarnarsteik síðan í Noregi.“ Hann virðir okkur Þóri rannsakandi fyrir sér. Við erum sakleysið uppmálað. „Hvar fékkstu þennan dýrindis rýting, drengur?“ spyr pabbi svo og bendir á hnífinn sem hangir við beltið hans Þóris. Þórir yppir öxlum. Hann dregur hnífinn úr slíðrinu og fægir hann á kyrtilfaldinum. Pabbi starir á beinhvítt skaftið sem er bryddað silfri. „Þetta er rostungstönn,“ segir hann eins og við sjálfan sig.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=