Hólmasól í háska

44 Ég held áfram með söguna þegar þeir þagna. „Pabbi rak svínin síðan í dalinn hérna upp af Galtarhamri og skildi þau þar eftir. Þremur árum síðar gerði hann sér ferð hingað til að kanna hvort þau lifðu. Sölvi og gyltan hans höfðu aldeilis spjarað sig vel í náttúrunni. Þau voru orðin virðuleg gamalsvín með ótal grísi og grísagrísi. Þegar hann kannaði dalinn fann hann þar sjötíu svín. Síðan heitir þessi dalur Sölvadalur.“ Þórir hlær. „Þú kannt sannarlega að segja sögu.“ Ég brosi út að eyrum. Það nemur enginn nýtt land án þess að hafa með sér sögur og kvæði. Þórir starir enn á svínin. „Sjötíu svín eru svakalega stór hópur. Afi tekur ekkert eftir því þótt einn eða tveir grísir hverfi,“ segir hann og strýkur glottandi á sér magann. Ég þori ekki annað en að gefa honum að borða. Matarkistillinn er sneisafullur af girnilegum mat sem ætti að endast þar til við getum bjargað okkur sjálf um fugl og fisk. Við fáum okkur slátur og drekkum skyr með. Þetta er himnesk máltíð. Kunnan fær líka bita af slátri og svolítið vatn að drekka. Hvaða máli ætli sögur og kvæði hafi skipt á þessum tíma?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=