38 „Gott og vel, komdu þá,“ segir Þórir loks og nú heyrir Kunnan vel því hann svamlar að borðstokknum. Skipið vaggar þegar Þórir togar hann um borð. Kunnan nuddar sér þakklátur utan í Þóri. Síðan hristir hann hressilega af sér vatnið svo að kyrtillinn hans Þóris rennblotnar. Þórir æpir en Kunnan er svo glaður að það er ekki hægt að skamma hann. Hann starir stórum brúnum augum á Þóri og dillar skottinu. Nú erum við orðin þrjú í áhöfninni. Það verður reyndar gott að hafa Kunnan með á nýjum slóðum. Hann er traustur varðhundur og getur fælt burtu illar vættir. Hver veit hvað bíður okkar í mannlausri eyju. Þórir dregur aftur upp seglið. Það tekur vel við blæstrinum og báturinn skríður hratt eftir lygnri Eyjafjarðará. Við siglum framhjá Þórunnarhólma sem mér þykir svo vænt um. Þar fæddist ég þegar mamma og pabbi voru að flytja að Kristnesi. Pabbi segir þessa sögu stundum til að skemmta fólki, hvernig dóttir hans ákvað að koma í heiminn í hólma úti í Eyjafjarðará.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=