Hitt og þetta

Til kennara! Um námsefnið. Námsefnið Hitt og þetta, leskaflar og verkefni fyrir unglinga, er einkum hugsað fyrir nemendur í 8.–10. bekk sem eru að læra íslensku sem annað tungumál. Bókin er ætluð nemendum sem náð hafa nokkurri færni í íslensku máli en ráða enn ekki vel við almennt lesefni ætlað þessum aldurshópi. Hún getur því nýst sem hluti af brú yfir í almennt námsefni. Textar og verkefni eru að hluta til þýðingar úr námsefninu Listen first 1, 2 og 3 eftir Jacqueline Friðriksdóttur, sem kom út hjá Námsgagnastofnun á árunum 2004–2007. Aðrir textar eru frumsamdir. Íslenska þýðingu og aðlögun ásamt gerð verkefna, annaðist Ragnheiður Valgerður Sigtryggsdóttir. Textar. Á vinstri blaðsíðu bókarinnar er stuttur samfelldur texti sem einnig má finna á hljóðbók. Leitast var við að semja texta sem höfða til unglinga, óháð þjóðerni þeirra. Víða er komið við, fjallað um fólk, siði og menningu þess, gleði og sorgir, hátíðir og venjulega daga. Hvorki er nauðsynlegt að allir nemendur lesi alla kafla bókarinnar né lesi þá í þeirri röð sem þeir koma fyrir. Glósubók. Í textunum koma án efa fyrir fjölmörg hugtök sem nemendur þekkja ekki. Efst á hægri blaðsíðu er því glósubók þar sem þeir geta glósað orð eða orðasambönd á sínu móðurmáli og borið saman hvernig hlutirnir eru sagðir. Sumir nemenda þurfa e.t.v. að þýða fleiri orð en þar eru talin upp og er þá mælt með að þeir hafi við hendina litla glósubók til að safna orðunum í. Munnleg tjáning. Samtöl og samskipti eru lykilatriði í tungumálanámi og undirstaða þess að virkja og festa í sessi nýjan orðaforða. Efni bókarinnar gefur tilefni til margs konar umræðna sem auðveldlega má tengja t.d. upprunalandi nemandans eða saman- burði. Leggja þarf áherslu á að nemendur fái sem flest tækifæri til að æfa og beita nýjum orðaforða. Verkefni. Verkefni á hægri blaðsíðu reyna ýmist á lesskilning eða miðast við að rýna nánar í orðaforðann í textanum. Þótt verkefnin séu margs konar ganga vissar verkefnagerðir í gegnum bókina sem auðveldar nemendum að átta sig á til hvers er ætlast. Í flestum tilfellum geta nemendur fundið svör við verkefnum í textanum, aðeins í örfáum tilvikum er ætlast til þess að nemendur skrifi svör frá eigin brjósti. Erfitt getur reynst að finna samheiti og andheiti orða. Þau eru því feitletruð í textanum. Þessi verkefni miða að því að opna vitund nemenda fyrir nýjum orðum og auka þannig orðaforða þeirra. Hljóðbók og lestur. Miðað er við að nemendur leysi verkefnin eftir að hafa lesið textann og hlustað á hann. Í mörgum lesskilningsverkefnum er gert ráð fyrir að nemendur endurtaki lesturinn í hljóði eftir að hafa skoðað orðin og glósað. Reynslan sýnir að endurtekinn lestur stuðlar að betri skilningi og eykur öryggi og lestrarfimi. Mikilvægt er að nemendur nýti sér hljóðbókina til að læra réttan íslenskan framburð. Matsblað. Æskilegt er að nemendur venji sig á að merkja við á matsblaði þegar þeir hafa lokið við kafla. Á þann hátt gera þeir sér betur grein fyrir hvernig þeim gengur námið auk þess sem þeir hafa yfirsýn yfir hvernig þeim miðar áfram. Eins áður segir má hugsa sér að nemendur velji vissa kafla eða vinni þá í annarri röð en þeir koma fyrir í bókinni. Notkun. Bókina má nota á ýmsan hátt með nemendum, bæði í litlum hópum og með einum nemanda. Nemendur geta tekið bókina með sér inn í bekk og leyst verkefnin þar og síðast en ekki síst má nota efnið fyrir heimavinnu. Æskilegt er að kennarar kynni efnið fyrir foreldrum og leiti samvinnu við þá um að glósa eða skýra hugtök fyrir nemendum eftir því sem kostur er.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=