Hinsegin saga

6 Stærstan hluta Íslandssögunnar er lítið minnst á hinsegin fólk. Það þarf þó ekki að þýða að hinsegin fólk hafi ekki verið til á Íslandi. Þvert á móti er líklegt að hinsegin fólk hér áður fyrr hafi bara ekki haft tækifæri til að tjá sig opinskátt eða lifað eins og því var eðlilegast. Þegar rýnt er í söguna má finna lýsingar á einstaklingum sem við myndum í dag tengja við fjölbreytileika í kynhneigð eða kyntjáningu – fólk sem kannski gæti kallað sig hinsegin væri það uppi í dag. Þuríður formaður: kona í buxum Þuríður Einarsdóttir fæddist í Árnesþingi árið 1777. Faðir hennar sótti sjóinn og hún byrjaði ellefu ára gömul að róa með honum. Þuríður vakti snemma athygli fyrir að vera mikill skörungur og varð að lokum „formaður“ á árabát eða skipstjóri, en á þessum tíma var nær óheyrt að konur væru formenn á bátum. Þuríður vakti líka athygli fyrir annað sem fáar konur gerðu, hún klæddist buxum að hætti karlmanna. Fyrst aðeins við vinnu sína á sjónum en svo fór hún að vera í buxum dags daglega á þurru landi líka. Hún mun raunar hafa fengið sérstakt leyfi hjá sýslumanni til að klæðast karlmannsfötum og eftir það gekk hún ekki aftur í hefðbundnum kvenmannsklæðum. Hún klæddi sig jafnvel upp í lafafrakka og var með pípuhatt á höfði. Óhefðbundinn klæðaburður Þuríðar vakti athygli í sveitinni og einn sveitungi hennar kallaði hana eitt sinn „tvíkynja“. Þuríður stefndi honum fyrir illmælgi. Sagt er að stundum þegar Þuríður var spurð til nafns hafi hún, allavega í gamni, sagst heita karlmannsnafni, ekki Þuríður heldur Þormóður. Við vitum ekki hvort Þuríður hefði skilgreint sig sem „hinsegin“ á einhvern hátt væri hún uppi nú, enda passa hugtök og hugmyndir dagsins í dag ekki endilega við upplifun og reynslu kvenna í fortíðinni. Hinsegin fólk hefur líka alltaf verið til á Íslandi

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=