5 Elsta myndin af hinsegin pari? Khnumhotep og Niankhkhnum hétu tveir menn sem voru í þjónustu faraóans Nyuserre Iri, sjötta faraós fimmtu konungsættar Forn-Egyptalands, á seinni hluta 25. aldar fyrir okkar tímatal. Þeir höfðu umsjón með nagla- og handsnyrtingum faraós; það var mikilvægt að passa upp á að neglur faraós væru alltaf í toppstandi! Eftir dauðann voru Khnumhotep og Niankhkhnum lagðir saman til hinstu hvílu í grafhýsi í borginni Saqqara. Á vegg grafhýsisins er mynd sem sýnir þá standa þétt hvor upp við annan í eins konar faðmlagi. Yfirleitt voru einungis hjón sýnd á þennan hátt á grafarveggjum og því telja margir fornleifafræðingar að Khnumhotep og Niankhkhnum hafi verið elskendur. En aðrir telja að kannski hafi þeir verið bræður. TIL UMHUGSUNAR: 1. Af hverju er það mikilvægt fyrir hinsegin fólk að finna sig í sögunni? 2. Teljið þið að fornleifafræðingar álíti að karl og kona, sýnd á sama hátt, séu systkini? Af hverju ætli það sé tregða við að tala um tvo karla sem homma eða elskendur? 3. Finnið á netinu gamlar myndir af hinsegin fólki, myndir frá tímum Rómverja eða fornar myndir sem sýna náin samskipti fólks af sama kyni og af fólki af ólíku kyni. Hvað er líkt og hvað er ólíkt á myndunum?
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=