Hinsegin saga

40 Þau sem berjast gegn, og eru andsnúin, réttindabaráttu hinsegin fólks segja stundum að hinseginleiki eigi sér ekki langa sögu heldur sé bara eitthvað sem kom fram á síðustu áratugum. Því þurfi alls ekkert að veita hinsegin fólki nein sérstök réttindi, eða gera breytingar í þeirra þágu, því allt sé þetta bara einskonar tískufyrirbrigði sem eigi svo eftir að hverfa jafn snöggt og það birtist. En eins og við höfum farið yfir í þessari bók er hinseginleiki alls engin tískubóla. Hinsegin fólk — bæði samkynhneigt og tvíkynhneigt fólk, og trans og kynsegin fólk — hefur alltaf verið til, á Íslandi og allstaðar í heiminum. Um það finnast fjölmörg dæmi í sögunni, þó svo lengi hafi fólk ekki haft tækifæri til að tjá sig, kynvitund sína og kynhneigð, opinberlega á þann hátt sem það hefði kannski helst kosið. Þó svo að orð eins og lesbía og hommi, trans og hinsegin séu tiltölulega ný í sögulegu samhengi, þá hefur fjölbreytileiki í kynvitund, kynhneigð og kyntjáningu alltaf verið til í mennskum samfélögum. Í þessari bók eru sagðar nokkrar sögur af fólki fyrr á árum, sem kannski hefði skilgreint sig sem hinsegin væri það á lífi í dag. En þess í stað mætti það fáfræði, þöggun og fordómum. Til eru margar fleiri áþekkar sögur, allt frá því á fornöld, hvaðanæva að úr heiminum. Í bókinni er líka fjallað um mikla sigra sem unnist hafa í réttindabaráttu hinsegin fólks á Íslandi á undanförnum áratugum. En, þó svo að stór skref hafi verið stigin í átt til jafnréttis fyrir hinsegin fólk á Íslandi, er baráttunni ekki lokið. Á síðustu árum hefur orðið bakslag í réttindabaráttunni og ýmsir hópar hinsegin fólks finnur fyrir auknum fordómum í samfélaginu í sinn garð, ekki aðeins hér á Íslandi heldur víða um heim. Mikilvægt er að standa vörð um það sem hefur áunnist og halda baráttunni áfram. Til þess er einmitt gott að þekkja söguna, það sem á undan er komið. Ef hinsegin fólk og stuðningsfólk þeirra getur eitthvað lært af sögunni til þessa er það líklega mikilvægi þess að gefast ekki upp þó að á móti blási, og að í samstöðu er mikill kraftur. Það er mikilvægt að þekkja söguna og það sem á undan hefur gengið. Af henni má draga þann lærdóm að hinsegin fólk og stuðningsfólk þess hefur ávallt þurft að standa gegn mótlæti, en að samstaða og þrautseigja hafi reynst lykillinn að árangri. Lokaorð

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=