Hinsegin saga

2 Orðið hinsegin er notað í íslensku sem regnhlífarhugtak yfir allt fólk sem fellur ekki inn í það sem samfélagið telur vera hefðbundin kyn, kynhlutverk, kynhneigð, kyntjáning og kynhegðun. Innan hugtaksins hinsegin rúmast ýmsir hópar fólks: samkynhneigðir (lesbíur og hommar), tvíkynhneigðir, trans og kynsegin fólk, intersex fólk og fleiri. Farið var að nota orðið hinsegin í þessum skilningi í kringum árið 2000. Þá höfðu samkynhneigðar konur, lesbíur, og samkynhneigðir karlar, hommar, lengi verið mest áberandi meðal hinsegin fólks í íslensku samfélagi og í mannréttindabaráttu. Aðrir hópar voru síður sýnilegir, meðal annars vegna fordóma og ótta við að koma opinberlega fram. Stærstu baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, Samtökin ’78, kölluðu sig lengi „félag lesbía og homma á Íslandi“ en árið 2009 var undirtitli Samtakanna breytt í „félag hinsegin fólks á Íslandi“. Orðin hommi og lesbía eru þó enn notuð. En orðið hinsegin nær yfir stærri hóp fólks. Í ensku og fleiri tungumálum er hefð fyrir því að nota skammstafanir um hinsegin fólk. Þannig stendur enska skammstöfunin LGBTQIA fyrir Lesbian (lesbía), Gay (hommi), Bisexual (tvíkynhneigð), Transgender (trans), Queer (hinsegin), Intersex, Asexual (eikynhneigð) en svona skammstafanir geta tekið breytingum eftir því hvaða hópa samfélagsins er verið að ræða um. Þessi hefð hefur ekki fest sig í sessi á Íslandi. Svona skammstafanir verða oft langar og flóknar („stafasúpa“, segja sum!) og samt ná þær sjaldnast til allra hópa. Því getur verið gott að eiga stutt regnhlífarhugtak eins og hinsegin. Orðið er líka gott fyrir þau sem ekki vilja endilega skilgreina sig, eða eru kannski enn að uppgötva sjálf sig. Fyrir mörg getur verið gott að tilheyra hópi fólks sem skilur og styður hvert annað. Þá getur verið frelsandi að vita að það er í lagi að vera bara maður sjálfur – án þess að þurfa að skilgreina sig nákvæmlega. Þá er hægt að vera ekki svona, heldur hinsegin! Hvað er „hinsegin“? TIL UMHUGSUNAR: 1. Af hverju heldur þú að hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir, trans fólk og intersex fólk hafi valið sér orðið „hinsegin“ sem regnhlífarhugtak? 2. Hvers vegna telur þú að það geti verið mikilvægt fyrir hinsegin fólk að skilgreina sig sérstaklega? Getur þú nefnt dæmi um óhefðbundna kyntjáningu?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=