Hinsegin saga

34 ILGA-Europe eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks í löndum Evrópu og Mið-Asíu. Þau gefa árlega út það sem þau kalla „Regnbogakortið“. Það er eins konar mæling á lagalegri stöðu hinsegin fólks í hverju landi, á opinberri stefnu ríkja í málefnum sem varða hinsegin fólk og hversu vel réttindi þess eru tryggð. Meðal þess sem Regnbogakortið tiltekur eru lög gegn hatursglæpum og áróðri um hinsegin fólk, hvort fólk geti nálgast heilbrigðisþjónustu, þjónusta við hinsegin hælisleitendur og fleira. Að baki Regnbogakortinu liggur mikil vinna. Samtök hinsegin fólks í hverju landi fyrir sig aðstoða ILGA-Europe við að útbúa kortið og uppfæra það árlega. Samtökin ’78 sjá um það á Íslandi ásamt samtökum eins og Trans Ísland og Intersex Ísland. Nýtt regnbogakort er birt árlega á 17. maí, sem er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks, eða IDAHOT-dagurinn (International Day Against Homophobia and Transphobia). Fyrsta Regnbogakortið var gefið út árið 2009 og frá árinu 2013 hafa ríkin á kortinu fengið einkunn, prósentutölu, eftir því hversu vel þau uppfylla skilyrði um lagaleg réttindi sem ILGA-Europe setur. Til þess að fá 100%, fullkomna einkunn þarf ríkið að uppfylla öll skilyrðin en það hefur enn sem komið er ekkert ríki Evrópu náð að gera. Á Regnbogakorti ársins 2013 var einkunn Íslands 56% og Ísland í tíunda sæti af 49 ríkjum sem þá voru á kortinu. Það var þegar margir Íslendingar töldu að lagaleg réttindi hinsegin fólks væru fullkomlega tryggð og kom því einhverjum á óvart að landið væri ekki hærra á þessum lista. Samtökin ’78 lögðust í kjölfarið í vinnu með stjórnvöldum til að koma Íslandi hærra upp á kortinu og bæta um leið ýmis lagaleg réttindi hinsegin, trans og intersex fólks. Það bar árangur. Rúmum áratug síðar, á Regnbogakortinu árið 2025, fékk Ísland einkunnina 84% og var í þriðja sæti af 48 löndum á kortinu! Árið 2025 er það enn hin litla eyja MALTA sem stendur fremst í Evrópu í vernd og réttindum hinsegin fólks. Malta hefur verið í efsta sæti á Regnbogakortinu allt frá árinu 2016. RÚSSLAND var í neðsta sæti Regnbogakortsins árið 2025 með 2%. Landið uppfyllir nær engar kröfur ILGA-Europe og réttindi hinsegin fólks í landinu hafa farið versnandi á síðustu árum. Regnbogakort Evrópu

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=