30 Við megum öll giftast Í júní 2010 samþykkti Alþingi frumvarp um breytingu á almennum hjúskaparlögum. Í þeim lögum sem þá voru í gildi var talað um „hjúskap karls og konu“. En eftir breytinguna var í staðinn talað um hjúskap tveggja einstaklinga. Það þýddi að lögin giltu nú jafnt bæði fyrir gagnkynja pör, karl og konu, og samkynja pör, tvo karla eða tvær konur sem vildu giftast. Lög um staðfesta samvist frá 1996 féllu líka úr gildi. Héðan í frá voru einungis ein, almenn hjúskaparlög þar sem áður höfðu verið tvenn, mismunandi lög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða. Samkynja pör sem áður höfðu staðfest samvist sína gátu nú skráð sig „í hjúskap“. Enn fremur varð sú breyting að samkynja pör gátu látið presta Þjóðkirkjunnar gefa sig saman en það hafði ekki áður verið hægt. Prestar máttu þó neita því að gefa saman samkynja pör fram til ársins 2015 en það var kallað „samviskufrelsi“ presta. Langur aðdragandi var að því að hjúskaparlögin yrðu samþykkt á Alþingi og þau höfðu verið lengi til umræðu í samfélaginu. Margt áhrifamikið fólk innan Þjóðkirkjunnar var lengi mjög á móti því að samkynja pör gætu gift sig. Þáverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, sagði til að mynda í sjónvarpsviðtali 2006 að hjónabandinu yrði „kastað á sorphaugana“ fengju samkynja pör að giftast. Ummælin vöktu hörð viðbrögð hinsegin fólks og stuðningsfólks þess og særðu mörg djúpt. Karl baðst afsökunar á þessum orðum sínum fjórum árum síðar, eftir að ný hjúskaparlög voru samþykkt af Alþingi. Rétt eins og lögin um staðfesta samvist tóku gildu 27. júní 1996 tóku nýju hjúskaparlögin formlega gildi 27. júní 2010, á alþjóðlegum baráttudegi hinsegin fólks. Og líkt og 1996 notuðu fjölmörg pör tækifærið og létu gifta sig strax sama daginn sem lögin tóku gildi. Þar á meðal var þáverandi forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, sem giftist konu sinni, Jónínu Leósdóttur rithöfundi. Karlar ganga í hjónaband.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=