Hinsegin saga

26 Eftir þessa miklu velgengni hinsegin helgarinnar var ákveðið að stofna sérstök samtök til að gera hátíðahöldin að árlegum viðburði. Þau samtök fengu nafnið Hinsegin dagar og fyrsta gleðiganga þeirra var gengin í Reykjavík ári síðar, 12. ágúst árið 2000. Mikið var lagt í að skipuleggja glæsilega göngu sem lagði af stað niður Laugaveg frá Hlemmi. Það kom skipuleggjendum samt á óvart hversu margt fólk lagði leið sína í miðborg Reykjavíkur til að fylgjast með og ganga með göngunni. Heimir Már Pétursson fjölmiðlamaður var einn stofnenda Hinsegin daga. Hann lýsti því í viðtali við tímarit Hinsegin daga árið 2016 hvernig það var þegar gangan lagði af stað og göngufólk sá mannfjöldann sem beið efst á Laugavegi: „Okkar biðu um 12 þúsund manns. Ekki til að stríða okkur. Ekki til að berja okkur. Ekki til að gera lítið úr okkur, heldur til að ganga með okkur. Þá vissi ég að okkur hefði tekist þetta og tárin streymdu niður kinnarnar.“ Æ síðan hafa Hinsegin dagar verið með stærstu viðburðum sumarsins í Reykjavík og tugþúsundir flykkjast í bæinn til að fylgjast með gleðigöngunni og taka þátt í hátíðahöldunum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=