Hinsegin saga

23 Árið 1992 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Sú vinna lagði svo grunninn að lögum um staðfesta samvist fólks af sama kyni sem tóku formlega gildi 27. júní 1996, sama dag og uppreisnin hófst á Stonewallkránni í New York 1969, en 27. júní hefur hérlendis verið kallaður frelsisdagur hinsegin fólks vegna þessa. Ísland var fjórða landið í heiminum sem samþykkti lög um staðfesta samvist samkynja para, á eftir Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Samkvæmt lögunum jafngilti staðfest samvist hjónabandi gagnkynhneigðra á flestan hátt en samkynhneigð pör í staðfestri samvist fengu þó ekki rétt til að ættleiða börn eða fara í tæknifrjóvgun. Þau réttindi fengust ekki fyrr en síðar. Þá máttu prestar ekki vígja pör, heldur einungis borgaralegir vígslumenn. Kirkjan var enn mótfallin því að gefa saman tvo karla eða tvær konur. Samtökin ’78 héldu veislu í Borgarleikhúsinu í Reykjavík 27. júní 1996 til að fagna nýju löggjöfinni. Mörg samkynhneigð pör notuðu tækifærið og létu staðfesta samvist sína strax sama dag. Þar á meðal voru pör sem höfðu verið saman og búið saman í mörg ár en aldrei haft tækifæri til að öðlast sömu réttindi og gagnkynhneigð pör gerðu við að ganga í hjónaband. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands var meðal veislugesta í Borgarleikhúsinu, en aldrei áður í heiminum hafði nokkur þjóðarleiðtogi mætt til opinberrar móttöku hinsegin fólks. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvers vegna heldur þú að áður fyrr hafi hjónaband eingöngu verið leyfilegt milli karls og konu? 2. Leitaðu á netinu að þjóðarleiðtogum sem eru samkynhneigðir. Hvað fannstu marga og frá hvaða löndum eru þeir? Hvað kom á óvart við leitina? 3. Hvers vegna er mikilvægt fyrir hinsegin fólk að fjallað sé opinberlega um hinsegin samfélag? Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands og hinir nýgiftu Percy Stefánsson og Sigurður Rúnar Sigurðsson.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=