22 Sýnileiki hinsegin fólks á Íslandi jókst til muna á árum alnæmisfaraldursins. Staða þeirra í samfélaginu fór líka að breytast og það eignaðist bandamenn í stjórnkerfinu og úti í þjóðfélaginu. Því fór réttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi loksins að komast á skrið. Hjónaband var á þessum tíma skilgreint í íslenskum lögum sem einungis milli karls og konu. Samkynja pör, tveir karlar eða tvær konur, gátu því ekki gift sig. Þau misstu þá af réttindum sem fylgdu hjónabandinu, til dæmis þegar kom að heilbrigðismálum og erfðum. Mörg samkynja pör fundu fyrir þessu misrétti á alnæmisárunum. Makar HIV-smitaðra höfðu engan formlegan rétt til að fá upplýsingar um heilsufar ástvina sinna, því þótt fólk hefði kannski búið saman í mörg ár var það ekki formlegt par í augum stjórnvalda. Þessu þótti hinsegin fólki brýnt að breyta – enda gátu afleiðingarnar verið alvarlegar. Dæmi voru um að fólk væri útskúfað af fjölskyldum látinna maka sinna, ekkert minnst á samband þeirra í útför eða minningargreinum. Fólk gat misst heimili sín þegar maki lést og engin skjöl voru um að viðkomandi hefðu verið í sambúð. Aukinn sýnileiki, aukin réttindi
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=