Hinsegin saga

9 Glæpur gegn náttúrulegu eðli Árið 1869 samþykkti Alþingi lagagrein sem bannaði „samræði gegn náttúrulegu eðli“ og var þar meðal annars átt við samræði tveggja fullorðinna karlmanna. Lögin voru í gildi til ársins 1940 en aðeins einn maður hlaut dóm fyrir brot á lögunum svo vitað sé. Það var glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson. Hann fæddist í Mývatnssveit 1883. Hann ólst upp í sárafátækt en vakti snemma athygli sem afreksmaður í íslenskri glímu. 1908 sýndi hann glímu á Ólympíuleikunum í London. Hann lærði íþróttaþjálfun í Winnipeg í Kanada og í fyrri heimsstyrjöld var hann í kanadíska hernum. 1920 flutti Guðmundur heim til Íslands og starfaði sem íþróttaþjálfari og nuddari og var virkur í hreyfingu góðtemplara gegn áfengisneyslu. Í janúar 1924 barst lögreglu kæra á hendur Guðmundi þar sem fullyrt var að hann hefði „sterka tilhneigingu til að hafa samræði við sitt eigið kyn“. Kærandi dró kæruna til baka nokkrum dögum síðar en rannsókn á málinu var þá farin af stað. Fjórir karlmenn báru vitni um að hafa stundað kynlíf með Guðmundi, sem játaði sök. Í mars 1924 var Guðmundur því dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir „samræði gegn náttúrulegu eðli“. Mennirnir sem vitnuðu gegn honum voru aldrei dæmdir þó að þeir hefðu í raun líka játað sök. Guðmundur sat inni í þrjá mánuði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en hlaut svo náðun. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvað heldur þú að átt sé við með „samræði gegn náttúrulegu eðli“? 2. Settu þig í spor hinsegin unglings árið 1900 og skrifaðu dagbók um einn dag í lífi þínu. Lýstu deginum og tilfinningum þínum. Guðmundur sótti síðar um uppreist æru frá Kristjáni X. Danakonungi 1935 – en uppreist æru er gamalt lagalegt hugtak og merkir að einstaklingur sem hefur verið dæmdur fyrir glæp fær aftur ákveðin borgaraleg réttindi, eins og rétt til að gegna opinberum embættum. Guðmundur lést 1967.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=