Hinsegin saga
ISBN: 978-9979-0-2952-6 © 2025 Vera Illugadóttir © Skrá yfir ljósmyndir er innan á baksíðu Ritstjórn: Sigrún Sóley Jökulsdóttir Faglegur yfirlestur: Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna ’78, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, sagnfræðingur með áherslu á kvenna- og kynjasögu, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Heillabrautar hjá Barnaheillum, Svandís Anna Sigurðardóttir, fræðslustýra Stígamóta. Höfundur verkefna og yfirlestur: Eygló Sigurðardóttir grunnskólakennari Málfarslestur: Ingólfur Steinsson SÖGUGÁTTIN Efnisyfirlit Öll réttindi áskilin 1. útgáfa 2025 Miðstöð menntunar og skólaþjónstu Kópavogur Hönnun og umbrot: Miðstöð menntunar og skólaþjónstu Leturgerð meginmáls: Formata light 11 pt. Prentvinnsla: Ísafoldarprentsmiðja ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja HINSEGIN SAGA Hvað er „hinsegin“? . . . . . . . . . ......... 2 Hinsegin fólk hefur alltaf verið til . . . .... 4 Hinsegin fólk hefur líka alltaf verið til á Íslandi . . . . . . . . . . . . ............. 6 „Hann er unnustan mín“ . . . . . . . ....... 8 Upphaf baráttunnar: Stonewall 1969 . . .. 10 Það verður sprengja . . . . . . . . . ......... 12 Baráttan byrjar . . . . . . . . . . . ........... 14 Barátta og böll . . . . . . . . . . ........... 16 Alnæmisárin . . . . . . . . . . . . ............ 20 Aukinn sýnileiki, aukin réttindi . . . . ..... 22 „Okkur tókst þetta“! Gleðiganga og Hinsegin dagar . . . . . . . . . . . ........... 24 Trans á Íslandi . . . . . . . . . . . ........... 28 Við megum öll giftast . . . . . . . . ........ 30 Er baráttunni lokið? . . . . . . . . . ......... 32 Regnbogakort Evrópu . . . . . . . . ........ 34 Tímalína íslenskrar hinsegin sögu . . . .... 36 Tákn hinsegin samfélagsins . . . . . . ...... 38 Lokaorð . . . . . . . . . . . . . . .............. 40
Hinsegin saga Vera Illugadóttir
2 Orðið hinsegin er notað í íslensku sem regnhlífarhugtak yfir allt fólk sem fellur ekki inn í það sem samfélagið telur vera hefðbundin kyn, kynhlutverk, kynhneigð, kyntjáning og kynhegðun. Innan hugtaksins hinsegin rúmast ýmsir hópar fólks: samkynhneigðir (lesbíur og hommar), tvíkynhneigðir, trans og kynsegin fólk, intersex fólk og fleiri. Farið var að nota orðið hinsegin í þessum skilningi í kringum árið 2000. Þá höfðu samkynhneigðar konur, lesbíur, og samkynhneigðir karlar, hommar, lengi verið mest áberandi meðal hinsegin fólks í íslensku samfélagi og í mannréttindabaráttu. Aðrir hópar voru síður sýnilegir, meðal annars vegna fordóma og ótta við að koma opinberlega fram. Stærstu baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, Samtökin ’78, kölluðu sig lengi „félag lesbía og homma á Íslandi“ en árið 2009 var undirtitli Samtakanna breytt í „félag hinsegin fólks á Íslandi“. Orðin hommi og lesbía eru þó enn notuð. En orðið hinsegin nær yfir stærri hóp fólks. Í ensku og fleiri tungumálum er hefð fyrir því að nota skammstafanir um hinsegin fólk. Þannig stendur enska skammstöfunin LGBTQIA fyrir Lesbian (lesbía), Gay (hommi), Bisexual (tvíkynhneigð), Transgender (trans), Queer (hinsegin), Intersex, Asexual (eikynhneigð) en svona skammstafanir geta tekið breytingum eftir því hvaða hópa samfélagsins er verið að ræða um. Þessi hefð hefur ekki fest sig í sessi á Íslandi. Svona skammstafanir verða oft langar og flóknar („stafasúpa“, segja sum!) og samt ná þær sjaldnast til allra hópa. Því getur verið gott að eiga stutt regnhlífarhugtak eins og hinsegin. Orðið er líka gott fyrir þau sem ekki vilja endilega skilgreina sig, eða eru kannski enn að uppgötva sjálf sig. Fyrir mörg getur verið gott að tilheyra hópi fólks sem skilur og styður hvert annað. Þá getur verið frelsandi að vita að það er í lagi að vera bara maður sjálfur – án þess að þurfa að skilgreina sig nákvæmlega. Þá er hægt að vera ekki svona, heldur hinsegin! Hvað er „hinsegin“? TIL UMHUGSUNAR: 1. Af hverju heldur þú að hommar, lesbíur, tvíkynhneigðir, trans fólk og intersex fólk hafi valið sér orðið „hinsegin“ sem regnhlífarhugtak? 2. Hvers vegna telur þú að það geti verið mikilvægt fyrir hinsegin fólk að skilgreina sig sérstaklega? Getur þú nefnt dæmi um óhefðbundna kyntjáningu?
3 Kynvitund: hvernig við upplifum kyn okkar Kyntjáning: hvernig við tjáum kyn og kynvitund okkar, til dæmis með klæðaburði og líkamstjáningu Kynhneigð: hverjum við löðumst að og viljum vera með Samkynhneigð: að vera hrifin af eigin kyni – karl sem verður hrifinn af öðrum körlum (hommi) og kona sem er hrifin af öðrum konum (lesbía) Gagnkynhneigð: það að laðast að því kyni sem menningin okkar skilgreinir sem „gagnstætt“ þínu eigin kyni Tvíkynhneigð: að laðast að fleiri en einu kyni. Trans: upplifir sig ekki sem það kyn sem úthlutað var við fæðingu Sís/cis: fólk sem upplifir sig í því kyni sem því var úthlutað við fæðingu Intersex: fólk sem fæðist með ódæmigerð kyneinkenni, sem þýðir að líkaminn telst ekki algjörlega karlkyns og ekki algjörlega kvenkyns Kynsegin/kvár: fólk sem upplifir sig hvorki sem karl né konu, eða bæði karl og kona, flakkar þá á milli eða upplifir sig vera utan kynjatvíhyggjunnar Kynvitund Kona Karl Kynsegin Kvenlæg Karllæg Hlutlaus Kvenkyns Karlkyns Ódæmigerð Konum/kvenleika Körlum/karlmennsku Öðrum kynjum/tjáningu Konum/kvenkyns, kvenleika Körlum/karlmennsku Öðrum kynjum/tjáningu Kyntjáning Kyneinkenni Kyni úthlutað við fæðingu Stúlka Drengur Annað/X Laðast kynferðislega að Laðast tilfinningalega að
4 Svo lengi sem manneskjan hefur gengið þessa jörð hefur verið til fólk sem laðast að sama kyni, báðum eða fleiri kynjum. Líka fólk sem vill lifa lífi sínu í öðru kynhlutverki en því var úthlutað við fæðingu, eða lifa lífinu á einhvern hátt öðruvísi en samfélagið segir til um. Fólk sem við myndum í dag segja að væri hinsegin. Þetta fólk hefur þó ekki alltaf haft frelsi til að vera það sjálft á opinskáan hátt, eða haft orð og hugtök til að lýsa sér og reynslu sinni. Sögulegar heimildir um hinsegin fólk áður fyrr eru því af skornum skammti. Óhefðbundin kyntjáning hefur líka tíðkast og verið viðurkennd í mörgum samfélögum um heim allan í gegnum tíðina. Það er annar skilningur á kyni og kynvitund en að kynin séu bara tvö, karl og kona, og ekkert þar á milli. Til dæmis má finna í ýmsum samfélögum frumbyggja Norður-Ameríku hugtakið two-spirit. Það er notað til að lýsa fólki sem býr yfir eiginleikum karla og kvenna, er hvorki karl né kona eða getur flakkað á milli kynja. Hijra á Indlandi eru einstaklingar sem voru álitnir drengir við fæðingu en lifa lífi sínu sem konur, oft í samfélögum með öðrum hijra í sömu stöðu. Svipuð hugtök eru og hafa lengi verið til í fleiri menningarheimum víða um heim. Hinsegin fólk hefur alltaf verið til Samkynhneigðar ástir tíðkuðust í mörgum samfélögum til forna, eins og í Grikklandi. Til er fjöldi heimilda um ástar- og kynlífssambönd milli tveggja karlmanna frá Forn-Grikklandi. Líka um ástir milli kvenna. Ljóðskáldið Saffó bjó á grísku eyjunni Lesbos á sjöttu öld fyrir okkar tímatal og er eitt af þekktustu ljóðskáldum FornGrikkja. Hún samdi eldheit ástarljóð til annarra kvenna. Það er vegna Saffó á Lesbos sem samkynhneigðar konur eru kallaðar lesbíur.
5 Elsta myndin af hinsegin pari? Khnumhotep og Niankhkhnum hétu tveir menn sem voru í þjónustu faraóans Nyuserre Iri, sjötta faraós fimmtu konungsættar Forn-Egyptalands, á seinni hluta 25. aldar fyrir okkar tímatal. Þeir höfðu umsjón með nagla- og handsnyrtingum faraós; það var mikilvægt að passa upp á að neglur faraós væru alltaf í toppstandi! Eftir dauðann voru Khnumhotep og Niankhkhnum lagðir saman til hinstu hvílu í grafhýsi í borginni Saqqara. Á vegg grafhýsisins er mynd sem sýnir þá standa þétt hvor upp við annan í eins konar faðmlagi. Yfirleitt voru einungis hjón sýnd á þennan hátt á grafarveggjum og því telja margir fornleifafræðingar að Khnumhotep og Niankhkhnum hafi verið elskendur. En aðrir telja að kannski hafi þeir verið bræður. TIL UMHUGSUNAR: 1. Af hverju er það mikilvægt fyrir hinsegin fólk að finna sig í sögunni? 2. Teljið þið að fornleifafræðingar álíti að karl og kona, sýnd á sama hátt, séu systkini? Af hverju ætli það sé tregða við að tala um tvo karla sem homma eða elskendur? 3. Finnið á netinu gamlar myndir af hinsegin fólki, myndir frá tímum Rómverja eða fornar myndir sem sýna náin samskipti fólks af sama kyni og af fólki af ólíku kyni. Hvað er líkt og hvað er ólíkt á myndunum?
6 Stærstan hluta Íslandssögunnar er lítið minnst á hinsegin fólk. Það þarf þó ekki að þýða að hinsegin fólk hafi ekki verið til á Íslandi. Þvert á móti er líklegt að hinsegin fólk hér áður fyrr hafi bara ekki haft tækifæri til að tjá sig opinskátt eða lifað eins og því var eðlilegast. Þegar rýnt er í söguna má finna lýsingar á einstaklingum sem við myndum í dag tengja við fjölbreytileika í kynhneigð eða kyntjáningu – fólk sem kannski gæti kallað sig hinsegin væri það uppi í dag. Þuríður formaður: kona í buxum Þuríður Einarsdóttir fæddist í Árnesþingi árið 1777. Faðir hennar sótti sjóinn og hún byrjaði ellefu ára gömul að róa með honum. Þuríður vakti snemma athygli fyrir að vera mikill skörungur og varð að lokum „formaður“ á árabát eða skipstjóri, en á þessum tíma var nær óheyrt að konur væru formenn á bátum. Þuríður vakti líka athygli fyrir annað sem fáar konur gerðu, hún klæddist buxum að hætti karlmanna. Fyrst aðeins við vinnu sína á sjónum en svo fór hún að vera í buxum dags daglega á þurru landi líka. Hún mun raunar hafa fengið sérstakt leyfi hjá sýslumanni til að klæðast karlmannsfötum og eftir það gekk hún ekki aftur í hefðbundnum kvenmannsklæðum. Hún klæddi sig jafnvel upp í lafafrakka og var með pípuhatt á höfði. Óhefðbundinn klæðaburður Þuríðar vakti athygli í sveitinni og einn sveitungi hennar kallaði hana eitt sinn „tvíkynja“. Þuríður stefndi honum fyrir illmælgi. Sagt er að stundum þegar Þuríður var spurð til nafns hafi hún, allavega í gamni, sagst heita karlmannsnafni, ekki Þuríður heldur Þormóður. Við vitum ekki hvort Þuríður hefði skilgreint sig sem „hinsegin“ á einhvern hátt væri hún uppi nú, enda passa hugtök og hugmyndir dagsins í dag ekki endilega við upplifun og reynslu kvenna í fortíðinni. Hinsegin fólk hefur líka alltaf verið til á Íslandi
7 Vinurnar Á vefnum Huldukonur.is er fjallað um hinsegin kynverund kvenna á Íslandi á tímabilinu 1700 til 1960. Þuríður formaður er þar á meðal. Það voru ekki endilega bara lesbíur og trans manneskjur heldur konur sem á einhvern hátt voru á skjön við ríkjandi viðhorf þessa tíma og hefðu kannski skilgreint sig sem hinsegin á einhvern hátt. Þar er líka fjallað um konur sem bjuggu saman tvær, árum saman, alveg eins og par en voru samt aldrei kallaðar annað en „vinkonur“ af fólki úti í samfélaginu. Það eru mörg dæmi um slík „vinkonusambönd“ í Íslandssögunni. Til dæmis bjuggu þær Gunnþórunn Halldórsdóttir leikkona og Guðrún Jónasdóttir bæjarfulltrúi saman á Amtmannsstíg í miðborg Reykjavíkur í hálfa öld frá árinu 1908 en þær voru stundum kallaðar „vinurnar“. TIL UMHUGSUNAR: 1. Haldið þið að tveir karlar hefðu getað búið saman með sama hætti og konur án vandræða? Af hverju? Af hverju ekki? 2. Hvers vegna heldur þú að það hafi þótt sérstakt áður fyrr að konur klæddust buxum? 3. Hvernig heldur þú að litið hafi verið á fólk sem bjó saman af sama kyni í gamla daga? Til dæmis þegar amma þín og afi voru ung. Gunnþórunn og Guðrún.
8 „Hann er unnustan mín“ Ólafur Davíðsson (1862–1903) var prestssonur frá Norðurlandi sem stundaði nám við Lærða skólann, eða Menntaskólann í Reykjavík, á árunum 1874 til 1882. Hann hélt mjög opinskáa dagbók á skólaárum sínum þar sem hann „lét allt fjúka“, eins og hann orðaði það sjálfur. Hann skrifaði meðal annars um samband sitt við samnemanda sinn, Geir Sæmundsson, sem síðar varð vígslubiskup á Hólum: Ólafur flutti að loknu námi í Lærða skólanum til Danmerkur og lærði náttúrufræði í Kaupmannahafnarháskóla en sneri sér svo að þjóðfræði. Hann flutti aftur heim til Íslands 1897 en drukknaði í Hörgá 1903. Sumir telja að hann hafi fyrirfarið sér. Dagbækur Ólafs hafa verið gefnar út á bók, meðal annars undir titlinum Hundakæti – Dagbækur Ólafs Davíðssonar. Ólafur Davíðsson „Skelfing þykir mér vænt um Geir. Hann er líka allra laglegasti piltur og virðist vera vel viti borinn. Hann er unnustan mín. Ég kyssi hann og læt dátt að honum hreint eins og hann væri ungmey. Mér hefur aldrei þótt eins vænt um neinn eins og Geir. Hvað það var indælt að vefja hann að sér, leggja hann undir vanga sinn og kyssa hann svo.“
9 Glæpur gegn náttúrulegu eðli Árið 1869 samþykkti Alþingi lagagrein sem bannaði „samræði gegn náttúrulegu eðli“ og var þar meðal annars átt við samræði tveggja fullorðinna karlmanna. Lögin voru í gildi til ársins 1940 en aðeins einn maður hlaut dóm fyrir brot á lögunum svo vitað sé. Það var glímukappinn Guðmundur Sigurjónsson. Hann fæddist í Mývatnssveit 1883. Hann ólst upp í sárafátækt en vakti snemma athygli sem afreksmaður í íslenskri glímu. 1908 sýndi hann glímu á Ólympíuleikunum í London. Hann lærði íþróttaþjálfun í Winnipeg í Kanada og í fyrri heimsstyrjöld var hann í kanadíska hernum. 1920 flutti Guðmundur heim til Íslands og starfaði sem íþróttaþjálfari og nuddari og var virkur í hreyfingu góðtemplara gegn áfengisneyslu. Í janúar 1924 barst lögreglu kæra á hendur Guðmundi þar sem fullyrt var að hann hefði „sterka tilhneigingu til að hafa samræði við sitt eigið kyn“. Kærandi dró kæruna til baka nokkrum dögum síðar en rannsókn á málinu var þá farin af stað. Fjórir karlmenn báru vitni um að hafa stundað kynlíf með Guðmundi, sem játaði sök. Í mars 1924 var Guðmundur því dæmdur til átta mánaða fangelsisvistar fyrir „samræði gegn náttúrulegu eðli“. Mennirnir sem vitnuðu gegn honum voru aldrei dæmdir þó að þeir hefðu í raun líka játað sök. Guðmundur sat inni í þrjá mánuði í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en hlaut svo náðun. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvað heldur þú að átt sé við með „samræði gegn náttúrulegu eðli“? 2. Settu þig í spor hinsegin unglings árið 1900 og skrifaðu dagbók um einn dag í lífi þínu. Lýstu deginum og tilfinningum þínum. Guðmundur sótti síðar um uppreist æru frá Kristjáni X. Danakonungi 1935 – en uppreist æru er gamalt lagalegt hugtak og merkir að einstaklingur sem hefur verið dæmdur fyrir glæp fær aftur ákveðin borgaraleg réttindi, eins og rétt til að gegna opinberum embættum. Guðmundur lést 1967.
10 Ást er aldrei glæpur Ég er eins og ég er Aðfaranótt 28. júní 1969 réðst lögreglan inn á Stonewall, eins og oft áður. Lögreglumenn skipuðu öllum að yfirgefa staðinn eða verða handtekin. En þessi nótt var öðruvísi. Fólk hafði fengið nóg og neitaði að láta kúga sig lengur. Þegar lögreglan beitti valdi svöruðu gestir staðarins með andspyrnu og neituðu að hlýða lögreglu. Fólk fylltist kjarki og mótmælin urðu að óeirðum sem stóðu fram eftir nóttu. Hommar, lesbíur, dragdrottningar, trans konur og annað hinsegin fólk barðist við lögregluna. Í lok júní 1969, á bar í New York, urðu einir afdrifaríkustu atburðir í sögu réttinda- baráttu hinsegin fólks. Á sjöunda áratugnum var erfitt að vera hinsegin í Bandaríkjunum, lög um samkynhneigð voru mjög ströng, strangari en í einræðisríkjum eins og Sovétríkjunum og Kúbu. Fólk gat verið ofsótt, útskúfað, rekið úr starfi, misst forræði yfir börnum sínum eða jafnvel sett í fangelsi væri það grunað um að vera samkynhneigt. Barir og skemmtistaðir þar sem hinsegin fólk gat komið saman óáreitt voru fáir. Erfitt var fyrir slíka staði að fá leyfi frá yfirvöldum og tækist það var lögreglan samt sífellt að koma í heimsókn að ofsækja og handtaka gesti. Það var helst mafían sem gat staðið í að reka hinsegin staði. Mafíósar gátu mútað lögreglumönnum svo að þeir skiptu sér ekki af. Einn mafíustaðurinn var Stonewall Inn, krá í Greenwich Village í New York, sem var í eigu Genovese-mafíufjölskyldunnar. Á Stonewall-kránni gat hinsegin fólk komið saman og dansað en staðurinn var sérstaklega vinsæll meðal ungs heimilislauss hinsegin fólks sem hafði flúið fordóma og ofsóknir heima fyrir. Upphaf baráttunnar: Stonewall 1969 Frá baráttugöngu samkynhneigðra á frelsisdegi þeirra árið 1970.
11 Stonewall-kráin er enn starfandi í dag og vinsæll viðkomustaður hinsegin fólks í New York. TIL UMHUGSUNAR: 1. Finndu fréttir og myndir frá Stonewall 1969 á netinu eða timarit.is og segðu samnemendum frá atburðinum. 2. Settu þig í spor hinsegin fólks árið 1969 sem er að fara í mótmælagöngu. Búðu til mótmælaspjöld með texta sem leggur áherslu á réttindi hinsegin fólks. Hvað stendur á þínum kröfuspjöldum? 3. Finndu Stonewall-krána á Googlekorti á netinu. Næsta kvöld safnaðist fólkið aftur saman við Stonewall og mótmælti. Hinsegin fólk í Bandaríkjunum hafði ekki áður mótmælt misrétti með svo afgerandi hætti. Einhver lýstu því sem svo að stífla hefði brostið. Þessar óeirðir urðu upphaf að kröftugri réttindabaráttu hinsegin fólks í Bandaríkjunum og víðar. Mörg ný samtök voru stofnuð, róttækari og hugrakkari en áður. Stonewall-óeirðirnar breyttu gangi réttindabaráttunnar og enn í dag eru hinsegin dagar, gleði- og kröfugöngur haldin í kringum 27. og 28. júní til að minnast þessara atburða.
12 Árið 1975 var sýnileiki hinsegin fólks í íslensku samfélagi nær enginn. Þótt bann við samræði „gegn náttúrulegu eðli“ hefði verið afnumið árið 1940 var lítið breytt í viðhorfum samfélagsins 35 árum síðar. Í íslensku samfélagi var hinsegin fólk litið hornauga. Margir töldu það „óeðlilegt“ eða hreinlega veikt, og niðrandi orð eins og „kynvillingar“ voru oft notuð. Slík viðhorf gerðu það að verkum að fá treystu sér til að lifa opinskátt sem hinsegin einstaklingar. Samkynhneigðir karlmenn hittust á ákveðnum stöðum eins og barnum á Hótel Borg en aðeins í skjóli nætur og mikil leynd hvíldi yfir öllu hinsegin lífi. Margir Íslendingar í þessum hópi völdu að flytja til útlanda, til Danmerkur eða stórborga í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem auðveldara var að finna viðurkenningu og tengsl við annað hinsegin fólk. Um verslunarmannahelgi 1975 birtist viðtal í tímaritinu Samúel sem vakti mikla athygli. Samúel var þá eitt vinsælasta tímarit landsins, krassandi blað sérstaklega stílað á karlmenn. Í viðtalinu ræddi Hörður Torfason, þá þrítugur og þjóðþekktur sem leikari og söngvaskáld, opinskátt um líf sitt. Hann naut mikilla vinsælda og hafði ákveðið að ræða einnig Það verður sprengja Hljómsveitin MX-21 spilar á Borginni á 9. áratugnum. Frá vinstri: Lárus H. Grímsson, Jens Hansson, Jakob Magnússon, Bubbi Morthens og Þorsteinn Magnússon.
13 samkynhneigð sína við blaðamanninn Guðjón Smára. Með birtingu viðtalsins varð Hörður fyrsti Íslendingurinn til að stíga fram opinberlega sem samkynhneigður í fjölmiðlum. Viðtalið vakti mikla athygli, enda hafði nær aldrei verið fjallað á svo opinskáan hátt um samkynhneigð í íslenskum fjölmiðli. Hörður hafði gert sér grein fyrir þessu þegar hann féllst á viðtalið og segir meðal annars: „Það verður sprenging. En ég held að það sé líka vel þess virði. Ég fæ sennilega mest af þessu á mig. Það verður samt aldrei verra en það hefur verið“. Það reyndist rétt að viðtalið olli sprengingu. En viðbrögðin urðu meiri en Hörður hafði gert sér í hugarlund og líka verri. Eftir birtingu viðtalsins bárust honum hatursbréf og hótanir. Fólk hrópaði á hann úti á götu og hrækti jafnvel á hann. Hann missti fjölmörg verkefni sem söngvari og leikari og plöturnar hans seldust minna. Að lokum sá Hörður sér ekki annað fært en að fara úr landi. Hann flutti til Kaupmannahafnar, þar sem hann ætlaði að svipta sig lífi. En honum snerist hugur á síðustu stundu og ákvað að gefast ekki upp fyrir hatursfólki sínu. TIL UMHUGSUNAR: 1. Skoðaðu fréttir um samkynhneigð á netinu frá árinu 1975. Þú getur leitað á timarit.is (prófaðu að slá inn leitarorð eins og kynvillingur, hinsegin fólk eða samkynhneigð). Veljið frétt, lesið hana eða endursegið í bekknum. Síðan er öllum fyrirsögnunum safnað saman á eitt veggspjald. Skoðið allar fyrirsagnirnar og ræðið. Eru þetta jákvæðar eða neikvæðar fyrirsagnir, leynast fordómar þarna, er augljós virðing eða virðingarleysi? 2. Hvers vegna heldur þú að margir samkynhneigðir hafi flutt úr landi á árum áður? 3. Hvers vegna brást samfélagið svona illa við viðtalinu við Hörð? Hvernig vinnum við gegn fordómum? Hörður Torfason og Guðjón Smári Valgeirsson.
14 Árið 1976, ári eftir að viðtalið við Hörð Torfason birtist í Samúel, stofnuðu nokkrir samkynhneigðir íslenskir karlmenn félagsskap eða samtök sem þeir kölluðu Iceland Hospitality. Þessi samtök voru að erlendri fyrirmynd og tilgangur þeirra var ekki síst að efla samskipti homma og vinna gegn fordómum og fáfræði um málefni þeirra. Póstfang Iceland Hospitality var auglýst erlendis í tímaritum fyrir samkynhneigða. Stofnendur Iceland Hospitality sendu líka tilkynningu á íslenska fjölmiðla og var umfjöllunin sem samtökin fengu lýsandi fyrir viðhorf þessa tíma. Í blöðunum var skrifað um ný samtök „kynvillinga“ og „öfugugga“. Haustið 1977 flutti Hörður Torfason aftur til Íslands frá Danmörku. Í Danmörku hafði hann kynnst baráttusamtökum samkynhneigðra þar í landi, sem hétu Forbundet af 1948 eða Samtökin 1948, og höfðu verið stofnuð 1948. Hörður hafði heillast af vinnu þeirra og kom heim til Íslands gagngert til að vinna að stofnun sambærilegra samtaka, til að berjast fyrir réttindum homma og lesbía á Íslandi. Stofnfundurinn fór fram í Reykjavík 9. maí 1978. Tólf mættu á fundinn, allt karlmenn. Tvær konur höfðu komið á undirbúningsfund fyrr um vorið en mættu svo ekki á Baráttan byrjar Mánudagsblaðið var íslenskt vikublað gefið út í Reykjavík frá 1948 til 1982. Hörður Torfason með baráttuspjald í mótmælagöngu.
15 stofnfundinn. Samkynhneigðir karlmenn voru langmest áberandi fyrstu árin í samtökunum. Þau hlutu nafnið Samtökin ’78 með vísun í stofnárið 1978, rétt eins og nafn dönsku samtakanna vísaði til ársins 1948. Guðni Baldursson viðskiptafræðingur varð fyrsti formaður samtakanna, en Hörður sjálfur tók ekki sæti í stjórninni. Fyrst um sinn nutu flestir félagar í Samtökunum ’78 nafnleyndar og ekki var vel séð að talað væri mikið um starf þeirra út á við. Markmiðið var þó að gera hinsegin fólk sýnilegra úti í samfélaginu og vinna gegn fordómum. Í stofnskrá Samtakanna sagði meðal annars: „Við lesbíur og hommar á Íslandi viljum miðla þekkingu til hómósexúal einstaklinga og efla með þeim skilning þeirra á sjálfum sér og treysta afstöðu þeirra til sjálfra sín. Við viljum miðla þekkingu á málefnum okkar til alls samfélagsins svo að það öðlist skilning á þeim og á því að við erum eðlilegur hluti af samfélaginu. Við viljum njóta fyllstu réttinda, siðferðilegra og lagalegra án nokkurs manngreinarálits.“ TIL UMHUGSUNAR: 1. Hver var aðaltilgangurinn með stofnun Samtakanna ’78? 2. Hvers vegna heldur þú að nafnleynd hafi verið í upphafi meðal félagsmanna í Samtökunum ’78? 3. Vinnið 2–3 saman í hópi, leitið upplýsinga á netinu um Hörð Torfason. Kynnið ykkur sögu hans og baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks. Búið til veggspjald, hlaðvarp, bækling, leikrit eða söngtexta til að koma sögu hans á framfæri. Dragið fram þau atriði sem ykkur þykja merkileg og áhugaverð. Samtökin voru stofnuð 1978 og það endurspeglast í nafni og merki samtakanna í dag. Litirnir vísa í regnbogann sem er tákn hinsegin fólks og stendur fyrir fjölbreytileika og von. Merkið var hannað árið 2006 af Bjarka Lúðvíkssyni. 1. desember 1982 mótmæltu hommar og lesbiur skorti á prentfrelsi fyrir framan Alþingishúsið á Austurvelli.
16 Á fyrstu árum Samtakanna ’78 sinntu samtökin réttindabaráttu auk þess að reyna að efla félagslíf hinsegin fólks á Íslandi. Fyrsta aðstaða Samtakanna var í kjallara í Garðastræti þar sem haldin voru opin hús. Fyrstu árin komu aðallega karlmenn en smátt og smátt fóru ungar samkynhneigðar og tvíkynhneigðar konur líka að taka þátt. Í desember 1981 skipulögðu Samtökin ’78 glæsilegt ball á Manhattan, sem var skemmtistaður í Kópavogi. Ballið var mjög vel sótt. Lögreglan kom þó á staðinn og skellti öllu í lás klukkan eitt eftir miðnætti þar sem skipuleggjendur höfðu ekki undir höndum leyfi til að hafa opið lengur. Seinna rötuðu myndir frá ballinu í blaðið Samúel og vöktu mikla athygli. Það var umdeilt meðal hinsegin fólks, því margir ballgestir voru enn í skápnum gagnvart sínum nánustu. Á árunum 1982 til 1985 gáfu Samtökin ’78 út tímaritið Úr felum, þar sem fjallað var um hinsegin mál á opinskáan hátt. Á þessum árum fóru Samtökin líka að stunda fræðslustarf og heimsækja skóla og nemendafélög. Það var ekki alltaf vel séð hjá skólayfirvöldum að fá Samtökin í heimsókn en fundirnir voru oftast vel sóttir og skiptu margt ungt hinsegin fólk í skólunum miklu máli. Barátta og böll Ballið á Manhattan var einsdæmi og vakti mikla athygli og þangað kom fólk á öllum aldri. Úr felum var fréttabréf Samtakanna ’78,
17 Baráttan um orðin En Ríkisútvarpið hafnaði auglýsingunni, þar sem orðin hommi og lesbía brytu í bága við „almennan smekk“ og „velsæmi“. Miklar deilur urðu um orðamálið en mörg ár liðu samt þar til segja mátti orðin hommi og lesbía í útvarpi. Árið 1983 stakk Orðanefnd Kennaraháskóla Íslands upp á því að í stað orðanna hommi og lesbía yrðu frekar notuð orðin hómi og lespa. Nefndin taldi þau orð bæði „íslenskari á svip“ og „kurteisari“. Þessi nýju orð festust þó aldrei í málinu. Það er líka eðlilegt að fólk fái sjálft að hafa áhrif á þau orð sem notuð eru um það sjálft – og ekki er vitað til að neinn hommi eða lesbía hafi verið í Orðanefndinni. Lo HINSEGIN HOMMI LESBÍA Trans Tvíkynhneigð Intersex EIKYNHNEIGÐ Samkynhneigð Pan KYNSEGIN FjölkynhneiGD Persónuhrifning Samtökin ’78 kölluðu sig fyrst félag hómósexúal fólks á Íslandi, en orðið hómósexúal er notað um samkynhneigð í mörgum erlendum tungumálum. 1981 var nafninu breytt í Félag lesbía og homma á Íslandi. Orðin „lesbía“ og „hommi“ höfðu þá lengi verið notuð af samkynhneigðum Íslendingum en úti í samfélaginu þóttu þessi orð vera skammarleg. Það kom í ljós sama ár, 1981, þegar Samtökin ’78 reyndu að koma auglýsingu um félagsfund í Ríkisútvarpið. Hún átti að vera svona: „Hommar og lesbíur, munið fundinn í safnaðarheimili Langholtskirkju í kvöld. Samtökin ’78.“
18 Fyrstu mótmælin. Mynd frá mótmælunum við Alþingi 1982. Á fullveldisdaginn 1. desember 1982 héldu Samtökin ’78 fyrstu mótmæli sín til að mótmæla orðabanni Ríkisútvarpsins og öðru misrétti. Mótmælin fóru fram á Austurvelli fyrir framan Alþingishúsið. Einungis sex félagar tóku þátt. Þeir sýndu þó mikið hugrekki, enda gat það á þessum tíma haft miklar afleiðingar fyrir fólk að opinbera sig sem homma og lesbíur.
19 TIL UMHUGSUNAR: 1. Af hverju heldur þú að lesbíur og tvíkynhneigt fólk hafi ekki alltaf fundið sig velkomin í Samtökunum ’78 í gamla daga? 2. Vinnið saman tvö og tvö. Farið inn á síðuna svonafolk.is, veljið eitthvað sem ykkur finnst áhugavert og segið bekknum frá því sem þið lærðuð. 3. Hver voru helstu verkefni Samtakanna ’78 á fyrstu árunum eftir stofnun þeirra? Lilja Steingrímsdóttir og Lára Martin. Fyrstu árin voru samkynhneigðir karlmenn mest áberandi í baráttu hinsegin fólks og konur nær ósýnilegar. Árið 1983 vakti mikla athygli viðtal í Helgarpóstinum við tvær íslenskar lesbíur, Lilju og Láru, sem voru par. Þær komu fram undir eigin nöfnum, sem þótti mjög djarft á þeim tíma. Um miðjan níunda áratuginn fóru samkynhneigðar og tvíkynhneigðar konur að kveðja sér hljóðs í samfélagi hinsegin fólks í auknum mæli. Þeim fannst þær þó ekki alltaf eiga samleið með körlunum og árið 1985 stofnuðu hinsegin konur sérstakt félag, Íslensk-lesbíska. Það lagði þó niður störf eftir nokkur ár og lesbíurnar fóru aftur inn í Samtökin ’78. Eftir að lesbíur höfðu fundið sig aftur innan Samtakanna var síðan stofnað félag tvíkynhneigðs fólks, sem þá upplifði sig ekki velkomið í Samtökunum ’78. Það félag starfaði í nokkur ár en var svo lagt niður. Lára og Lilja
20 Í byrjun níunda áratugarins bárust fréttir til Íslands af alvarlegum sjúkdómi sem virtist leggjast helst á samkynhneigða karlmenn og gat dregið hrausta unga menn til dauða á skömmum tíma. Sjúkdómurinn, sem síðar fékk nafnið alnæmi (AIDS), er af völdum HIV-veirunnar. Veiran brýtur niður ónæmiskerfið í líkamanum, þannig að fólk á erfiðara með að verjast sýkingum og veikist auðveldlega. Fyrstu árin ríkti mikil óvissa um hvernig sjúkdómurinn smitaðist og umræðan einkenndist af ótta og fordómum, þar sem fyrstu sjúklingarnir voru hommar. Alnæmi var nefnt „kynvillingaplágan“ í Morgunblaðinu árið 1983, og í öðru blaði var spurt hvort sjúkdómurinn væri „guðleg refsing“. Rætt var um að einangra samkynhneigða til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins, jafnvel eftir að ljóst varð að sjúkdómurinn smitaðist aðallega með kynlífi án smokks og með blóði, en alveg óhætt væri að vera í sama rými og HIV-smitaður (eða HIV-jákvæður) einstaklingur. Fyrsta staðfesta HIV-smitið á Íslandi greindist 1983 í samkynhneigðum karlmanni. Þremur árum síðar, 1986, höfðu 35 manns greinst, flestir hommar. Fyrsta andlát af völdum HIV hér á landi var 1985. Alnæmisárin Hinsegin fólk á Íslandi gagnrýndi heilbrigðisyfirvöld fyrir skort á samráði í forvarnar- og fræðslustarfi. Baráttufólk benti á að til að berjast gegn sjúkdómnum þyrfti að tryggja hinsegin fólki meiri sýnileika og réttindi. Þegar á leið og fleiri íslenskir karlmenn veiktust og létust gátu íslensk yfirvöld þó ekki litið framhjá hinsegin fólki lengur.
21 Samtökin ’78 fengu þá styrki til að sinna fræðslu um forvarnir og heilbrigði til félaga sinna og upplýsingaþjónustu í síma. Á þessum tíma skorti Samtökin gott húsnæði, svo að árið 1987 fengu þau frá Reykjavíkurborg bárujárnshús á Lindargötu til umráða. Hús sem varð bækistöð og félagsheimili Samtakanna til 1999. Alnæmissamtökin, stofnuð 1988, héldu einnig til á Lindargötu fyrst um sinn. Það voru ekki einungis hommar sem smituðust af HIV en faraldurinn hafði mikil áhrif á hinsegin samfélagið á Íslandi. Á árunum 1990 til 1996 létust meira en 20 samkynhneigðir karlmenn, margir mjög ungir. Ungt hinsegin fólk þurfti sífellt að fara í jarðarfarir vina sinna og kunningja. Stundum þurfti fólk þó að sitja á aftasta bekk í kirkjunni því fjölskylda hins látna vildi ekki samþykkja þennan hluta af lífi ástvinar síns. Árið 1996 varð bylting í lyfjameðferð, sem gerði HIV-smituðum kleift að lifa mun lengur með sjúkdómnum. Þó að lækning TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvað er alnæmi (AIDS)? Útskýrið sjúkdóminn, einkenni og smitleiðir. Finndu upplýsingar á netinu. 2. Hvers vegna er mikilvægt að fræða fólk um alnæmi? 3. Af hverju heldur þú að faraldurinn hafi gjörbreytt stöðu sam- og tvíkynhneigðra gagnvart bæði ríkisvaldinu og samfélaginu öllu? Hús Samtakanna ´78 við Lindargötu. hafi ekki enn fundist geta HIV-jákvæðir einstaklingar í dag lifað vel og lengi með réttum lyfjum og heilbrigðu líferni. Þá hefur forvarnarlyfið PrEP komið fram, en með réttri notkun þess minnka líkurnar á HIV-smiti um allt að 99%.
22 Sýnileiki hinsegin fólks á Íslandi jókst til muna á árum alnæmisfaraldursins. Staða þeirra í samfélaginu fór líka að breytast og það eignaðist bandamenn í stjórnkerfinu og úti í þjóðfélaginu. Því fór réttindabarátta hinsegin fólks á Íslandi loksins að komast á skrið. Hjónaband var á þessum tíma skilgreint í íslenskum lögum sem einungis milli karls og konu. Samkynja pör, tveir karlar eða tvær konur, gátu því ekki gift sig. Þau misstu þá af réttindum sem fylgdu hjónabandinu, til dæmis þegar kom að heilbrigðismálum og erfðum. Mörg samkynja pör fundu fyrir þessu misrétti á alnæmisárunum. Makar HIV-smitaðra höfðu engan formlegan rétt til að fá upplýsingar um heilsufar ástvina sinna, því þótt fólk hefði kannski búið saman í mörg ár var það ekki formlegt par í augum stjórnvalda. Þessu þótti hinsegin fólki brýnt að breyta – enda gátu afleiðingarnar verið alvarlegar. Dæmi voru um að fólk væri útskúfað af fjölskyldum látinna maka sinna, ekkert minnst á samband þeirra í útför eða minningargreinum. Fólk gat misst heimili sín þegar maki lést og engin skjöl voru um að viðkomandi hefðu verið í sambúð. Aukinn sýnileiki, aukin réttindi
23 Árið 1992 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um afnám misréttis gagnvart samkynhneigðu fólki. Í kjölfarið var skipuð nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðra á Íslandi. Sú vinna lagði svo grunninn að lögum um staðfesta samvist fólks af sama kyni sem tóku formlega gildi 27. júní 1996, sama dag og uppreisnin hófst á Stonewallkránni í New York 1969, en 27. júní hefur hérlendis verið kallaður frelsisdagur hinsegin fólks vegna þessa. Ísland var fjórða landið í heiminum sem samþykkti lög um staðfesta samvist samkynja para, á eftir Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Samkvæmt lögunum jafngilti staðfest samvist hjónabandi gagnkynhneigðra á flestan hátt en samkynhneigð pör í staðfestri samvist fengu þó ekki rétt til að ættleiða börn eða fara í tæknifrjóvgun. Þau réttindi fengust ekki fyrr en síðar. Þá máttu prestar ekki vígja pör, heldur einungis borgaralegir vígslumenn. Kirkjan var enn mótfallin því að gefa saman tvo karla eða tvær konur. Samtökin ’78 héldu veislu í Borgarleikhúsinu í Reykjavík 27. júní 1996 til að fagna nýju löggjöfinni. Mörg samkynhneigð pör notuðu tækifærið og létu staðfesta samvist sína strax sama dag. Þar á meðal voru pör sem höfðu verið saman og búið saman í mörg ár en aldrei haft tækifæri til að öðlast sömu réttindi og gagnkynhneigð pör gerðu við að ganga í hjónaband. Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands var meðal veislugesta í Borgarleikhúsinu, en aldrei áður í heiminum hafði nokkur þjóðarleiðtogi mætt til opinberrar móttöku hinsegin fólks. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvers vegna heldur þú að áður fyrr hafi hjónaband eingöngu verið leyfilegt milli karls og konu? 2. Leitaðu á netinu að þjóðarleiðtogum sem eru samkynhneigðir. Hvað fannstu marga og frá hvaða löndum eru þeir? Hvað kom á óvart við leitina? 3. Hvers vegna er mikilvægt fyrir hinsegin fólk að fjallað sé opinberlega um hinsegin samfélag? Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands og hinir nýgiftu Percy Stefánsson og Sigurður Rúnar Sigurðsson.
24 „Okkur tókst þetta“! Gleðiganga & hinsegin dagar 28. júní 1970, þegar ár var liðið frá óeirðunum á Stonewall-kránni í New York, gekk hinsegin fólk í kröfugöngu í New York og fleiri bandarískum borgum. Næstu ár breiddust svokallaðar pride-göngur út um heiminn, þar sem hinsegin fólk minntist með stolti brautryðjendanna á Stonewall og krafðist jafnréttis. Þessi alda barst seint til Íslands. Samtökin ’78 efndu til fyrstu fjöldagöngu hinsegin fólks eða frelsisgöngu 27. júní 1993. Gengið var niður Laugaveg og á bilinu 60–70 manns tóku þátt. Þátttakendur báru skilti með slagorðum eins og „Maður er manns gaman“ og „Kona án karlmanns er eins og fiskur án reiðhjóls“. Þessi ganga var endurtekin ári síðar, 1994, með svipaðri þátttöku, en svo var gert hlé. Gleðigangan í Reykjavík.
25 Í lok júní 1999, þegar 30 ár voru liðin frá Stonewall-óeirðunum, stóðu Samtökin ’78 ásamt fleiri skyldum samtökum fyrir Hinsegin helgi í Reykjavík. Hápunktur hennar var útihátíð á Ingólfstorgi þar sem Páll Óskar, Sigur Rós og fleiri listamenn komu fram. Um 1.500 manns sóttu hátíðahöldin.
26 Eftir þessa miklu velgengni hinsegin helgarinnar var ákveðið að stofna sérstök samtök til að gera hátíðahöldin að árlegum viðburði. Þau samtök fengu nafnið Hinsegin dagar og fyrsta gleðiganga þeirra var gengin í Reykjavík ári síðar, 12. ágúst árið 2000. Mikið var lagt í að skipuleggja glæsilega göngu sem lagði af stað niður Laugaveg frá Hlemmi. Það kom skipuleggjendum samt á óvart hversu margt fólk lagði leið sína í miðborg Reykjavíkur til að fylgjast með og ganga með göngunni. Heimir Már Pétursson fjölmiðlamaður var einn stofnenda Hinsegin daga. Hann lýsti því í viðtali við tímarit Hinsegin daga árið 2016 hvernig það var þegar gangan lagði af stað og göngufólk sá mannfjöldann sem beið efst á Laugavegi: „Okkar biðu um 12 þúsund manns. Ekki til að stríða okkur. Ekki til að berja okkur. Ekki til að gera lítið úr okkur, heldur til að ganga með okkur. Þá vissi ég að okkur hefði tekist þetta og tárin streymdu niður kinnarnar.“ Æ síðan hafa Hinsegin dagar verið með stærstu viðburðum sumarsins í Reykjavík og tugþúsundir flykkjast í bæinn til að fylgjast með gleðigöngunni og taka þátt í hátíðahöldunum.
27 TIL UMHUGSUNAR: 1. Teiknaðu fána sem þér finnst táknrænn fyrir hinsegin samfélag. Hann þarf ekki að vera neitt líkur hinum opinbera fána Samtakanna ’78. 2. Finndu myndir frá gleðigöngu í ólíkum löndum og búðu til glæru/myndakynningu. Kynntu fyrir samnemendum. 3. Af hverju heldur þú að gleðigangan sé mikilvæg fyrir hinsegin fólk? Hefur þú farið í gleðigöngu á Íslandi? Segðu frá því sem þér fannst athyglisverðast.
28 Trans á Íslandi Trans fólk hefur alltaf verið hluti af hinsegin samfélaginu, bæði á Íslandi og erlendis. Á Íslandi liðu þó mörg ár þar til trans fólk fékk sömu viðurkenningu og réttindi og aðrir hópar innan hinsegin samfélagsins. Lengst af var trans fólk lítið sýnilegt í samfélaginu og mátti telja þau sem komu opinberlega fram á fingrum annarrar handar. Anna Kristjánsdóttir er ein af fyrstu íslensku trans konunum sem komu opinberlega fram í fjölmiðlum. Þegar hún fæddist árið 1951 var hún álitin drengur en hún vissi snemma að hún væri í raun stúlka. Á unglingsárum frétti hún að hægt væri að fara í kynleiðréttingarferli úti í heimi en vegna skorts á upplýsingum á Íslandi fannst henni það vera fjarlægur draumur fyrir sjálfa sig. Árið 1989 flutti Anna til Svíþjóðar til að fá læknisþjónustu og lifa sem hún sjálf. Í Svíþjóð voru málefni trans fólks þá mun lengra komin en á Íslandi. Anna varð virk í samtökum trans fólks í Svíþjóð og kom meira að segja fram í fjölmiðlum þar. En
29 þegar hún flutti aftur heim til Íslands 1996 mætti henni mjög neikvætt viðhorf, í garð hennar og annars trans fólks. Í viðtali árið 2016 sagði hún: „Fólk vildi bara ekki vita af mér. Óþægilegast var samt þegar fólk sneri sér við á götu og starði á eftir mér. Um leið og það fréttist að ég væri flutt heim voru allir duglegir við að fylgjast með mér og glápa.“ Smám saman varð trans fólk þó sýnilegra á Íslandi, bæði innan hreyfingar hinsegin fólks og úti í samfélaginu. Trans Ísland, stuðnings- og baráttusamtök trans fólks, voru stofnuð 2007. Árið 2012 samþykkti Alþingi fyrstu lögin um réttarstöðu trans fólks, sem auðveldaði því að sækja sér kynstaðfestandi meðferð og breyta nafni sínu og kynskráningu í Þjóðskrá. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvernig finnst þér umræða um trans fólk vera á Íslandi í dag? Nefndu dæmi. 2. Finndu dæmi í fréttum þar sem trans fólki er mismunað. Hvað heldur þú að hægt sé að gera til þess að verja réttindi þess? 3. Ímyndaðu þér að þér hafi verið breytt í vélmenni. Hvers kyns ertu? Hvernig veistu hvaða kyn þú ert? Árið 2019 var annað stórt skref tekið, þegar Alþingi samþykkti lög um kynrænt sjálfræði. Þau lög gera fólki sem hefur náð 15 ára aldri kleift að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun, án þess að þurfa að fara í gegnum greiningarferli og meðferð í heilbrigðiskerfinu, eins og áður var. Þá var einnig hægt að fá hlutlausa kynskráningu í kerfinu fyrir kynsegin fólk. Árið 2012 samþykkti Alþingi fyrstu lögin um réttarstöðu trans fólks.
30 Við megum öll giftast Í júní 2010 samþykkti Alþingi frumvarp um breytingu á almennum hjúskaparlögum. Í þeim lögum sem þá voru í gildi var talað um „hjúskap karls og konu“. En eftir breytinguna var í staðinn talað um hjúskap tveggja einstaklinga. Það þýddi að lögin giltu nú jafnt bæði fyrir gagnkynja pör, karl og konu, og samkynja pör, tvo karla eða tvær konur sem vildu giftast. Lög um staðfesta samvist frá 1996 féllu líka úr gildi. Héðan í frá voru einungis ein, almenn hjúskaparlög þar sem áður höfðu verið tvenn, mismunandi lög fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða. Samkynja pör sem áður höfðu staðfest samvist sína gátu nú skráð sig „í hjúskap“. Enn fremur varð sú breyting að samkynja pör gátu látið presta Þjóðkirkjunnar gefa sig saman en það hafði ekki áður verið hægt. Prestar máttu þó neita því að gefa saman samkynja pör fram til ársins 2015 en það var kallað „samviskufrelsi“ presta. Langur aðdragandi var að því að hjúskaparlögin yrðu samþykkt á Alþingi og þau höfðu verið lengi til umræðu í samfélaginu. Margt áhrifamikið fólk innan Þjóðkirkjunnar var lengi mjög á móti því að samkynja pör gætu gift sig. Þáverandi biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, sagði til að mynda í sjónvarpsviðtali 2006 að hjónabandinu yrði „kastað á sorphaugana“ fengju samkynja pör að giftast. Ummælin vöktu hörð viðbrögð hinsegin fólks og stuðningsfólks þess og særðu mörg djúpt. Karl baðst afsökunar á þessum orðum sínum fjórum árum síðar, eftir að ný hjúskaparlög voru samþykkt af Alþingi. Rétt eins og lögin um staðfesta samvist tóku gildu 27. júní 1996 tóku nýju hjúskaparlögin formlega gildi 27. júní 2010, á alþjóðlegum baráttudegi hinsegin fólks. Og líkt og 1996 notuðu fjölmörg pör tækifærið og létu gifta sig strax sama daginn sem lögin tóku gildi. Þar á meðal var þáverandi forsætisráðherra Íslands, Jóhanna Sigurðardóttir, sem giftist konu sinni, Jónínu Leósdóttur rithöfundi. Karlar ganga í hjónaband.
31 Jóhanna Sigurðardóttir (f. 1942) varð forsætisráðherra Íslands í febrúar 2009. Jóhanna átti langan feril í stjórnmálum að baki og hafði setið á þingi samfleytt frá árinu 1978, fyrst fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Á níunda áratug síðustu aldar kynntist Jóhanna Jónínu Leósdóttur. Þær voru þá báðar giftar karlmönnum en urðu ástfangnar, skildu við eiginmenn sína og hófu samband. Árum saman héldu þær sambandinu leyndu og langur tími leið þar til þær fóru að búa saman. Með árunum hætti samband þeirra að vera leyndarmál en íslenskir fjölmiðlar fjölluðu sjaldan um þær og hvorki Jóhanna né Jónína voru áberandi út á við sem samkynhneigðar manneskjur. Þegar Jóhanna varð forsætisráðherra komst hún í heimsfréttirnar. Hún var fyrsta konan til að verða forsætisráðherra á Íslandi og fyrsta opinberlega hinsegin manneskjan til að verða forsætisráðherra í heiminum. Í kjölfarið komu Jóhanna og Jónína fram á ýmsum hinsegin viðburðum, eins og WorldPride í Toronto í Kanada 2014. TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvað þýðir það að skrá sig í hjúskap? Hvaða breytingar voru gerðar á hjúskaparlögum árið 2010? 2. Hvers vegna heldur þú að stundum þurfi sérstök lög til að tryggja jafnrétti, jafnvel þó að það virðist sjálfsagt fyrir suma? 3. Af hverju vakti það athygli um allan heim þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra Íslands árið 2009? Fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherrann, á Íslandi og í heiminum
32 Er baráttunni lokið? Þegar sameiginleg hjúskaparlög tóku gildi 2010 hafði hinsegin fólk á Íslandi náð miklum lagalegum réttindum á tiltölulega stuttum tíma. Á sama tíma hafði viðhorf margra í samfélaginu í garð hinsegin fólks breyst verulega – frá því að það væri álitið „öfuguggar“ og „kynvillingar“ í að það væri viðurkenndur og eðlilegur hluti af fjölbreyttu samfélagi. Í dag má til dæmis finna hinsegin félög í flestum framhaldsskólum landsins og boðið er upp á hinsegin fræðslu í grunnskólum. Á næstu árum fóru því ýmsir að velta því fyrir sér hvort mannréttindabaráttu hinsegin fólks væri hreinlega lokið, búið væri að ná fullkomnu jafnrétti og öllum markmiðum hinsegin fólks. En svo kom í ljós að baráttunni var alls ekki lokið. Um og upp úr 2020 fór að bera á aukinni neikvæðri umræðu í garð hinsegin fólks á samfélagsmiðlum og úti í samfélaginu og farið var að tala um „bakslag“ í þessum málum. Kannski hefur aukinn sýnileiki hinsegin fólks í samfélaginu og opinberri umræðu gert það að verkum að fordómar í garð
33 TIL UMHUGSUNAR: 1. Hvernig hefur umræða um samkynhneigt fólk breyst í gegnum tíðina? Hvers vegna heldur þú að umræðan hafi breyst frá því að fólk talaði niðrandi um það til þess að viðurkenna það sem hluta af samfélaginu? 2. Hvenær heldur þú að mannréttindabaráttu hinsegin fólks ljúki? Hvað telur þú að valdi því að það komi bakslag í baráttuna? 3. Hvað getur þú gert til að tryggja að réttindi hinsegin fólks séu virt? Nefndu nokkur dæmi. Skrifaðu nokkur baráttuorð sem standa fyrir auknum réttindum hinsegin fólks. þessa hóps sem höfðu kraumað undir niðri áttu líka greiðari leið upp á yfirborðið. Þetta sýndi að staða hinsegin fólks í samfélaginu var alls ekki jafn góð og fólk vildi trúa. Þegar fleiri tjá fordómafullar skoðanir opinberlega, til að mynda á samfélagsmiðlum, verður auðveldara fyrir aðra að taka undir, með sínum fordómum. Svipað bakslag varð, á sama tíma í umræðu um hinsegin fólk í fleiri löndum en á Íslandi. Og afleiðingarnar geta verið alvarlegar. Í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar hafa einhverjir stjórnmálamenn unnið að því að svipta hinsegin fólki sumum þeim réttindum sem það hefur áunnið sér á undanförnum árum og áratugum. Trans fólk hefur sérstaklega orðið fyrir barðinu á þessu. Hver svo sem ástæða bakslagsins er hefur það sýnt hinsegin fólki á Íslandi mikilvægi þess að halda baráttu fyrir mannréttindum áfram. Þó að mikill árangur hafi náðst á undanförnum áratugum er alltaf verk að vinna og mikilvægt að sofna ekki á verðinum. Þá er alltaf möguleiki á að árangurinn tapist, eða að staðan verði hreinlega verri en áður. Íslenskt hinsegin samfélag er meðvitað um þetta, og þema eða yfirskrift Hinsegin daga árið 2023 var „baráttan er ekki búin“. Úr kröfugöngu hinseginfólks 2013.
34 ILGA-Europe eru alþjóðleg samtök sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks í löndum Evrópu og Mið-Asíu. Þau gefa árlega út það sem þau kalla „Regnbogakortið“. Það er eins konar mæling á lagalegri stöðu hinsegin fólks í hverju landi, á opinberri stefnu ríkja í málefnum sem varða hinsegin fólk og hversu vel réttindi þess eru tryggð. Meðal þess sem Regnbogakortið tiltekur eru lög gegn hatursglæpum og áróðri um hinsegin fólk, hvort fólk geti nálgast heilbrigðisþjónustu, þjónusta við hinsegin hælisleitendur og fleira. Að baki Regnbogakortinu liggur mikil vinna. Samtök hinsegin fólks í hverju landi fyrir sig aðstoða ILGA-Europe við að útbúa kortið og uppfæra það árlega. Samtökin ’78 sjá um það á Íslandi ásamt samtökum eins og Trans Ísland og Intersex Ísland. Nýtt regnbogakort er birt árlega á 17. maí, sem er alþjóðlegur dagur gegn fordómum í garð hinsegin fólks, eða IDAHOT-dagurinn (International Day Against Homophobia and Transphobia). Fyrsta Regnbogakortið var gefið út árið 2009 og frá árinu 2013 hafa ríkin á kortinu fengið einkunn, prósentutölu, eftir því hversu vel þau uppfylla skilyrði um lagaleg réttindi sem ILGA-Europe setur. Til þess að fá 100%, fullkomna einkunn þarf ríkið að uppfylla öll skilyrðin en það hefur enn sem komið er ekkert ríki Evrópu náð að gera. Á Regnbogakorti ársins 2013 var einkunn Íslands 56% og Ísland í tíunda sæti af 49 ríkjum sem þá voru á kortinu. Það var þegar margir Íslendingar töldu að lagaleg réttindi hinsegin fólks væru fullkomlega tryggð og kom því einhverjum á óvart að landið væri ekki hærra á þessum lista. Samtökin ’78 lögðust í kjölfarið í vinnu með stjórnvöldum til að koma Íslandi hærra upp á kortinu og bæta um leið ýmis lagaleg réttindi hinsegin, trans og intersex fólks. Það bar árangur. Rúmum áratug síðar, á Regnbogakortinu árið 2025, fékk Ísland einkunnina 84% og var í þriðja sæti af 48 löndum á kortinu! Árið 2025 er það enn hin litla eyja MALTA sem stendur fremst í Evrópu í vernd og réttindum hinsegin fólks. Malta hefur verið í efsta sæti á Regnbogakortinu allt frá árinu 2016. RÚSSLAND var í neðsta sæti Regnbogakortsins árið 2025 með 2%. Landið uppfyllir nær engar kröfur ILGA-Europe og réttindi hinsegin fólks í landinu hafa farið versnandi á síðustu árum. Regnbogakort Evrópu
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=