BERGRÚN ÍRIS SÆVARSDÓTTIR ARÚÐ – VARÚÐ – VAR
VARÚÐ HÉR BÝR VARÚLFUR Bergrún Íris Sævarsdóttir
VARÚÐ, HÉR BÝR VARÚLFUR ISBN 978-9979-0-2754-6 © 2022 Bergrún Íris Sævarsdóttir © 2022 Teikningar: Bergrún Íris Sævarsdóttir Ritstjóri: Sigríður Wöhler Yfirlestur og álit: Andri Már Sigurðsson ritstjóri Málfarsyfirlestur: Ingólfur Steinsson 1. útgáfa 2022 Menntamálastofnun Kópavogi Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Prentmiðlun ehf. / Lettland Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo semmeð ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar, myndhöfundar og útgefanda.
Persónur 4 Dökkgrá og drungaleg 7 Háværar hrotur 11 Var mig að dreyma? 13 Varúlfafræðarinn 18 Get ekki meira 25 Hvað éta úlfar? 30 Hnusað upp í vindinn 34 Hvað er í gangi? 40 Þurrkaðar jurtir 45 Krukka nornarinnar 48 Doktorinn í heimsókn 54 Viltu ekki te? 60 Varúlfavesen 64 Þetta má ekki gerast 70 Vonandi bítur hún engan 76 Sleikt út um 85 EFNISYFIRLIT
4 PERSÓNUR MARIUS Hinn ábyrgi Marius er sannur vinur sem víkur ekki frá Mörtu þegar hún þarf á honum að halda. Hann er jákvæður og mjög lausnamiðaður. MARTA Marta er hvatvís og ákveðin. Hún þolir ekki að vera óþolinmóð og er oft frekar pirruð. Hún er líka ákveðin og óhrædd, jafnvel í ógnvekjandi aðstæðum.
5 HVÆSI Kötturinn Hvæsi er skapstór. Hann er líka frábær mannþekkjari og finnur strax á sér ef eitthvað er dularfullt. Það er alltaf öruggara að hafa Hvæsa með sér í liði. ÚLFHILDUR Dýralæknirinn Úlfhildur Alfa heillar mömmu Mörtu upp úr skónum enda falleg, gáfuð og brosmild. En hvað ef hún er ekki öll þar sem hún er séð? LÁRA Lára er mamma Mörtu. Hún er morgunfúl en hressist strax eftir fyrsta kaffibolla. Lára elskar Hvæsa út af lífinu en væri til í að finna ástina utan veggja heimilisins.
6
7 DÖKKGRÁ OG DRUNGALEG „Hvar varstu?“ hrópa ég æst á mömmu. Hún horfir hissa á mig og leggur frá sér búrið. Án þess að svara lokar hún hurðinni á eftir sér. Svo beygir hún sig niður og hleypir Hvæsa lausum. Hann virðist frelsinu feginn og þýtur inn í stofu. „Mamma! Ég er búin að leita að Hvæsa ÚT UM ALLT!“ „Nú? Hvers vegna varstu að því?“ spyr mamma hissa. „Ég hélt hann hefði sloppið út!“ svara ég hneyksluð. „Jæja, Marta mín, muna gleðina,“ svarar mamma brosandi. „Hann Hvæsi átti tíma í skoðun. Hjá þessum líka glæsilega dýralækni.“ „Er Hvæsi veikur?“ spyr ég stressuð. Mamma lætur sem hún heyri ekki í mér.
8 „Hún er svo falleg, Marta. Þú ættir að sjá brosið hennar … og augun. Þessi augu,“ segir mamma og horfir dreymin upp í loft. „Hvað er að Hvæsa?“ spyr ég svo ákveðin að mamma kemst ekki hjá því að svara mér. „Iss, ekkert alvarlegt. Hann þurfti bara að fá ormalyf.“ „Oj … hvað meinarðu með ORMAlyf?“ „Sko, kettir geta fengið orma inn í sig,“ útskýrir mamma. „Þá verða þeir voðalega veikir og feldurinn breytist. En engar áhyggjur, ástin. Hann Hvæsi fékk ormalyfin sín hjá lækninum. En …. Marta … “ „Hvað?“ spyr ég og reyni að kúgast ekki við tilhugsunina um iðandi orma. „Þú verður að vera ein heima í smá stund í kvöld. Sæti dýralæknirinn bauð mér sko á stefnumót!“ Mamma verður eldrauð í framan eins og tómatur. Svo fer hún inn í herbergi til að finna föt fyrir kvöldið. „En … Hvað á ég að borða í kvöldmat?“ kalla ég á eftir henni.
9 „Gerðu þér bara samloku,“ hrópar mamma á móti. Litlu síðar kemur hún fram, í kjól og hælaskóm. „Er það ekki allt í lagi, ástin mín?“ spyr mamma brosandi. Áður en ég næ að svara er bankað á útidyrnar. Mamma gengur hikandi í anddyrið en stoppar við spegilinn. Hún horfir rannsakandi augum á spegilmyndina. Svo togar hún kjólinn til og frá og lagar á sér hárið. „Æmamma. Það skiptir engu máli hvernig þú lítur út, heldur hvernig þú ert.“ Ég hélt að mamma yrði ánægð með þessa athugasemd en hún ranghvolfir bara augunum. Svo opnar hún dyrnar. Fyrir utan sé ég hávaxna konu. Hún tekur skref inn fyrir og stendur nú í anddyrinu. „Marta, þetta er Úlfhildur. Dýralæknirinn sem ég sagði þér frá,“ segir mamma og brosir. „Sæl, unga dama,“ segir konan og setur upp gervilegasta bros sem ég hef séð. „Hæ,“ svara ég eins þurr á manninn og ég get.
10 Mamma flissar þegar Úlfhildur hjálpar henni í kápuna og heldur útidyrunum opnum. Sjálfri finnst mér þessi kona frekar hallærisleg. Hún lætur eins og mamma geti ekki einu sinni klætt sig sjálf! „Við sjáumst elskan … “ segir mamma og fer út. Á meðan ég borða hugsa ég um dýralækninn. Hún minnir mig á eitthvert dýr en ég átta mig ekki alveg á því hverju hún líkist. Ég teygi mig í tómatsósuna og sprauta á samlokuna. Fyrst set ég tvo punkta, svo nokkrar línur og horfi svo á andlitið á disknum. Refur? Nei … úlfur! Það er dýrið sem hún líkist!
11 HÁVÆRAR HROTUR Ég elska föstudaga því þá má ég vaka lengi. Ég horfi á tvær hryllings-myndir í röð og lognast svo út af á sófanum. Þegar ég rumska er mamma komin heim. Hún fylgir mér í rúmið, klæðir mig úr sokkunum og breiðir yfir mig sængina. Það er ekki auðvelt að sofna aftur. Ég hefði kannski ekki átt að horfa á hryllings-mynd áður en ég fór að sofa. Loksins sofna ég en fæ ljóta martröð og vakna með andfælum. Það er dimmt í herberginu en dauft ljós berst frá ganginum. Ég er í spreng svo ég læðist inn á baðherbergi. Mamma hlýtur að vera steinsofnuð, hugsa ég og opna dyrnar að baðherberginu. Mér bregður í brún þegar ég sé hana standa á miðju gólfi. Hún starir út um gluggann. Tunglskinið baðar andlit hennar mildri birtu. „Mamma … “ segi ég hikandi. Hún svarar ekki. Ég ýti laust við mömmu en hún er alveg stjörf. Líklega hefur hún gengið í svefni og endað hér. Inni á baðherbergi, með störu á tunglið. Ég tek varlega í handlegg mömmu og fylgi henni
12 í rúmið. Eftir nokkrar tilraunir tekst mér loks að leggja hana á koddann. Hún sofnar strax og byrjar að hrjóta. Hærra en ég vissi að væri hægt! Hún hrýtur svo hátt að mér finnst rúmið hristast en það semmeira er, hárið hennar hristist og þá tek ég eftir því að andlitið virðist … loðið. Ég veit að konur fá líka hár í andlitið en þessi eru dökk og gróf. Þau stingast í allar áttir, eins og veiðihárin á Hvæsa! Þetta var spes, hugsa ég og fer aftur í rúmið. Það tekur mig dágóða stund að sofna aftur. Ég heyri varla í eigin hugsunum fyrir hrotunum í mömmu!
13 VAR MIG AÐ DREYMA? Næsta dag vakna ég við að barið er að dyrum. Ég þekki bara eina manneskju sem bankar svona snemma á laugardegi. Marius! Yfirleitt væri ég pirruð út í hann fyrir að vekja mig. Í dag er ég hins vegar fegin. Ég verð að tala við hann um það sem gerðist í nótt. Segja honum hvað ég sá … og hvernig mér líður. Ekki get ég rætt það við mömmu! Hún yrði bara móðguð. Svo myndi hún halda ræðu um að allir séu með líkamshár og ég sé bara með fordóma. Ég fer til dyra og hleypi Mariusi inn. Mamma sefur enn þá svo við getum rætt málin. „Sæl, vinkona,“ segir Marius, hátíðlegur að vanda. Við setjumst við eldhúsborðið með sitthvora skálina af morgunkorni. Ég rek alla söguna eins nákvæmlega og ég get. „Var þig ekki bara að dreyma?“ spyr Marius með fullan munninn. „Nei, Marius. Ég var GLAÐvakandi.“
14 „Merkilegt orð … glaðvakandi. Mér heyrist þú ekki hafa verið neitt sérlega glöð.“ „Hættu að snúa út úr, Marius. Þetta er eitthvað dularfullt.“ Við Marius höfum lent í ýmsumævintýrum saman. Hann hlýtur að trúa því sem ég segi ummömmu. Ef ekki hann, þá hver?
15 „Kannski er mamma þín bara að breytast.“ segir Marius án þess að blikna. „Hvað meinarðu með því?“ „Það er eitthvað sem gerist þegar konur verða eldri. Amma talar oft um það. Henni er alltaf svaka heitt og svona. Var mamma þín ekki bara að kæla sig við gluggann í nótt.“ „Kæla sig?“ endurtek ég svo reið að mig langar að öskra. Ég passa mig þó, til að vekja ekki mömmu. „Já. Kannski var hún í svitakasti. Það er mjög algengt.“ „En hroturnar?“ „Þær versna líka með aldrinum.“ Marius fyllir skálina aftur af morgunkorni og heldur áfram að borða. „En hárin í andlitinu á henni? “ spyr ég pirruð. „Það fylgir víst. Þetta er allt mjög eðlilegt.“ Stundum er Marius svo asnalegur að mig langar að sparka honum öfugum út. Hann hefur hins vegar oft rétt fyrir sér svo ég reyni að hemja mig.
16 „Heldurðu það? Hún er sem sagt bara að breytast í gamla konu? Ekki varúlf?“ Marius reynir að halda niðri í sér hlátrinum. Það gengur ekki betur en svo að hann frussar mjólk þvert yfir borðið. Allt í einu heyrum við þrusk á ganginum. Mamma gengur hægum skrefum inn í stofu. Hún er ekkert ólík sér. Í andliti hennar eru engin löng eða gróf hár. Marius horfir furðu lostinn á mig. Var mig kannski að dreyma? „Nei, ert þú hérna vinur?“ segir mamma og sendir Mariusi ósköp venjulegt helgarbros. Svona bros sem segir að hún sé ekkert að flýta sér í vinnu. „Vá, hvað ég svaf fast,“ segir hún og teygir úr sér.
17 Ég klóra mér í höfðinu. Þetta virtist svo raunverulegt. Stundumman ég draumana mína mjög skýrt en ég veit að það sem gerðist í nótt var enginn draumur. Hvæsi kemur undan sófanum, teygir úr sér og malar. Eins og alltaf labbar hann fram hjá mér og í áttina að mömmu. Allt í einu stoppar hann og setur upp kryppu. Svo gefur hann frá sér hljóð sem ég hef aldrei heyrt áður. Eins konar hvæs … en lágt og ógnandi. Mömmu bregður. Yfirleitt er hún sú eina sem má klappa Hvæsa. Nú stekkur hann frá henni eins og hann hafi séð draug. Hann skransar á gólfinu og kastar sér aftur undir sófa.
18 VARÚLFAFRÆÐARINN Ég dreg Marius inn í herbergi og loka hurðinni. „Þetta var ekki draumur Marius. Mamma mín er varúlfur!“ „En …“ byrjar Marius. „Sástu Hvæsa!?“ „Ókei, reyndar. Hún virtist samt ekkert öðruvísi,“ segir hann. „Nei, auðvitað ekki! Það er kominn dagur. Tunglið sést ekki lengur á himninum. Þess vegna er hún venjuleg núna.“ Augnaráð Mariusar ber enn þá vott um efa. „Treystu mér bara! Það er eitthvað skrítið í gangi. Hún breytist örugglega aftur í nótt. Þú verður bara að gista til að sjá það með eigin augum.“ Marius hefur aldrei gist hjá mér áður. Hann hefur reyndar aldrei gist hjá neinum vini áður og er hálf asnalegur yfir þessu öllu saman.
19 „Klukkan hvað er háttatími?“ spyr hann. „Háttatími? Ertu smábarn?“ spyr ég á móti en sé strax eftir því. „Bara, þegar þú vilt sko … Ertu vanur að fara snemma að sofa eða?“ „Mér finnst gott að lesa á kvöldin. Ég myndi vilja sækja nokkrar bækur heim til mín. Og tannburstann auðvitað.“ „Já, einmitt,“ svara ég og reyni að sýna ekki hversu hneyksluð ég er. Ég gleymi oft tannburstanum þegar ég gisti hjá vinkonummínum. Set bara tannkrem á puttann. Marius er svo nákvæmur. Alltaf með allt á hreinu. „Getum við kíkt á bókasafnið hans afa þíns?“ „Ja ... af hverju?“ spyr Marius hissa. „Er hann ekki frá Rúmeníu? Kannski á hann bækur um varúlfa.“ „Marta … Hvað heldurðu eiginlega um Rúmeníu, að það séu vampírur og varúlfar úti um allt?“ „Umm … já,“ svara ég hreinskilnislega. „Þú ert rugluð,“ segir Marius og hlær. „Ég veit að
20 fólk býr ekki í snjóhúsum á Íslandi. Að hér eru ekki víkingar með horn á hjálmunum og álfar í hverjum steini.“ „Ókei … en þú hefur líka búið á Íslandi í mörg ár. Ég hef aldrei komið til Rúmeníu. Þú verður samt að viðurkenna að afi þinn á svakalegt bókasafn.“ „Umm, já reyndar. Við getum svo sem athugað málið,“ segir Marius. Við opnum spjaldtölvuna og lesum allt sem við finnum um varúlfa á netinu. Það er samt svo mikið af bulli inn á milli og erfitt að vita hverju við getum treyst. Okkur finnst við komin niður á botn netsins þegar við gefumst upp. Við göngum hikandi fram á
21 gang. Mamma ristar sér brauð á náttsloppnum og teketillinn flautar. „Við erum farin út að leika! Bless!“ kalla ég og skelli hurðinni áður en mamma nær að svara. Afi Mariusar býr í lítilli risíbúð í sama húsi og Marius. Hann opnar fyrir okkur og gengur svo rakleitt að eldhúsinu til að sækja sér kaffi. Aðalrými íbúðarinnar er undirlagt bókum. Hillurnar þekja alla veggi og hylja meira að segja eina gluggann í herberginu. Þetta eru svo margar bækur að ég gæti ekki talið þær þótt ég fengi frí í skólanum í heila viku. „Áttu bækur um varúlfa?“ spyr ég og Marius þýðir yfir á rúmensku. Afi Mariusar fylgir okkur inn í herbergi og bendir grönnum fingri að efstu hillunni í bláu bókahillunni. Þar eru þrjár bækur sem tengjast varúlfum á einhvern hátt. Sem betur fer er Marius með mér því ég skil ekki stakt orð í bókunum. „Þó að afi eigi bækur um varúlfa þá er Rúmenía samt ekkert varúlfaland.“ „Nei, nei. Ég veit.“
22 „Hann hefur bara áhuga á fornbókmenntum. Mjög mikinn … “ Ég opna eina bókina semMarius segir að heiti Varúlfafræðarinn. Í henni eru svarthvítar teikningar af ólíkum varúlfum. „Hvað þýðir þetta?“ spyr ég og bendi á eina blaðsíðuna. Marius les fyrir mig upp úr bókinni. „Ókei, hér stendur: Til eru nokkrar tegundir af varúlfum. Hér á eftir verður farið yfir þær helstu … “ „Nokkrar tegundir? Hvernig vitum við í hvaða tegund mamma er að breytast?“ „Bíddu, Marta, leyfðu mér bara að lesa.“ Ég reyni að sitja kyrr og hlusta en það er erfitt. Marius hljómar eins og gamall útvarpsmaður á meðan hann les. Hann þýðir rúmensku orðin jafnóðum.
23 „Alfa-varúlfurinn er leiðtoginn í hópnum … “ Ég stoppa Marius áður en hann kemst lengra. „Alfa? En það er kvenmannsnafn.“ „U, já, það er líka fyrsti stafurinn í gríska stafrófinu. Þannig að þeir sem eru aðal kallast alfa. Má ég halda áfram að lesa.“ „Ókei séní,“ svara ég og glotti. Stundum stríði ég Mariusi fyrir að vita allt. Fyrir að vera eins og prófessor með ofurheila. Satt best að segja öfunda ég hann bara. Ég vildi óska að heilinn í mér virkaði svona. Ég reyni að halda einbeitingu á meðan Marius les. „Alfa-úlfurinn fæðist sem Alfa og hefur mestu völdin af þeim varúlfum sem honum fylgja. Vilji valdaminni varúlfur komast til valda þarf hann að skora á Alfa-úlfinn í slag. Takist honum að drepa Alfa verður hann hinn nýi Alfa.“ „Fæðist sem Alfa,“ endurtek ég. „Mamma fæddist ekki sem varúlfur, svo það passar ekki.“ Marius kinkar kolli og heldur áfram að lesa.
24 „Sá næsti í röðinni kallast Beta-varúlfur. Beta fæðist inn í hlutverk sitt. Hann er undirgefinn Alfa-úlfinum og hlýðir honum. Ef Alfa-úlfur drepur Beta-úlf fær hann sjálfkrafa kraftana úr fórnarlambinu. Augu Beta-úlfsins glóa yfirleitt skærgul en lýsa bláu ef hann drepur saklausa veru.“ „Beta fæðist líka sem úlfur… “ segi ég ákveðin. „Hérna er þriðja týpan … Gamma … Þegar Alfa bítur manneskju verður til Gamma-varúlfur. Mynda þeir strax sterk tengsl sín á milli. Bitið gerir Gamma úlfinn mjög hlýðinn og tryggan Alfa úlfinum.“ Marius hættir að lesa og horfir ákafur á mig. Við erum greinilega að hugsa það sama.
25 GET EKKI MEIRA „Mamma hefur verið bitin af Alfa-varúlfi!“ „Það gæti passað,“ segir Marius. „En bíddu það er meira. Hér stendur að Gamma geri allt til að vernda Alfa úlfinn.“ „En … Hvernig breytum við henni til baka?“ spyr ég, svo æst að ég get ekki á mér setið. „Ekki hugmynd. Kannski stendur eitthvað um það í hinum bókunum. Eða seinna í þessari. Þetta er sko alveg 700 blaðsíðna bók. Ég þarf meiri tíma til að komast í gegnum þetta.“ Eftir að Marius hefur suðað í afa sínum dágóða stund fær hann leyfi til að taka bækurnar með sér heim til mín. Varúlfafræðarinn kemur með en líka Handbók fyrir Varúlfa-veiðimenn, Lífshlaup varúlfsins og Vampírur, varúlfar og draugar. Þegar við komum heim er mamma sem betur fer farin út. Við röðum bókunum á rúmið mitt og Marius byrjar að fletta sig í gegnum fyrstu kaflana. Að lesa er ekki það skemmtilegasta sem ég veit.
26 Sumar bækur eru fínar en svona þykkar fræðibækur ætti helst að nota sem hurðastoppara. Ég er hálf fegin að textinn er á rúmensku. Þá get ég látið Marius um erfiðisvinnuna. Sjálf les ég hratt í gegnumWikipedia og horfi á nokkur myndbönd. Ég finn þó ekkert sem hjálpar mér að bjarga mömmu. „Ég get ekki meira,“ segi ég og loka tölvunni. „Við vitum ekki hvernig við getum breytt mömmu þinni til baka,“ segir Marius og opnar eina bókina. „Getum við ekki aðeins spilað eða eitthvað. Ég á Varúlfaspilið!“ „Ha? Lærum við eitthvað af því?“ spyr Marius hissa. „Kannski ekki en ég vakna þá allavega! Heilinn í mér er sko löngu sofnaður! Við getum líka fundið einhverja varúlfaþætti í sjónvarpinu!” Mér tekst loks að sannfæra Marius og dreg hann fram í stofu. Eftir að hafa grillað tvær samlokur setjumst við fyrir framan sjónvarpið. „Þetta eru stórskrítnir þættir,“ segir Marius og dæsir. Helst myndi hann vilja horfa á heimildarþætti,
27 gerða af vísindamönnum. Gallinn er að varúlfar eru bara goðsögn! Þeir eiga ekki að vera til í raun og veru. Þess vegna er erfitt að vita hvaða upplýsingar eru nothæfar og hverjar ekki. Marius heldur áfram að tuða á meðan við horfum. Fjórum þáttum síðar erum við hins vegar bæði sokkin djúpt í söguþráðinn. Við höfum komið okkur vel fyrir undir teppi, hrædd við ógnandi varúlfana á skjánum. Spennan er svo mikil að við hrökkvum upp við lágt hljóð úr anddyrinu. Lykli er stungið í lás útihurðarinnar og snúið. „Ó, nei! Mamma þín … Hún má ekki sjá … “ segir Marius hræddur.
28 Ég gríp fjarstýringuna og skipti um þátt á ógnarhraða. Andartaki síðar er mamma komin inn í stofuna. „Er þetta þáttur fyrir ykkur?“ spyr mamma undrandi. Án þess að átta mig hafði ég skipt yfir á Hvolpasveitina. Köggur og Píla eru í óðaönn að bjarga Hænulínu úr bráðum háska. „Umm … Þetta er sko uppáhaldið hans Mariusar.“ Ég finn hvernig Marius sparkar í mig undir teppinu. Mamma setur upp skrítinn svip og fer inn í eldhús. Til að biðjast afsökunar mynda ég orðið fyrirgefðu með vörunum. Marius grettir sig og hristir höfuðið. Eftir kvöldmat sækir mamma gestadýnu upp á háaloft. Hún býr umMarius á gólfinu í herberginu mínu. Við fáum popp og spilum rommý. Svo skríðum við undir sængurnar okkar. Ég velti fyrir mér hegðun mömmu síðan hún kom heim. Hún virðist mjög eðlileg. Reyndar bara frekar skemmtileg og hress. „Marius,“ hvísla ég niður í átt að dýnunni. „Kannski var mig bara að dreyma þetta allt.“
29 Ekkert svar berst frá gólfinu. Marius virðist hafa sofnað um leið og hann lagði höfuðið á koddann. Ég ligg í myrkrinu og stari upp í loftið. Mamma er enn vakandi. Ég heyri til hennar ganga í átt að svefnherberginu sínu. Þaðan fer hún inn á bað þar sem hún burstar tennurnar með háværum rafmagns-tannbursta. Ég heyri mömmu skrúfa fyrir vatnið og ganga frá tannburstanum inni í skáp. Frá því að ég var lítil hef ég hlustað á mömmu gera það sama á hverju kvöldi. Næst mun hún leggjast í rúmið og bylta sér í smá stund. Svo fer hún aftur fram til að gá hvort útidyrnar séu læstar. Þaðan fer hún beina leið í rúmið. Skömmu síðar fer hún enn einu sinni fram og pissar og svo sofnar hún loksins. Svona eru kvöldin alltaf og kvöldið í kvöld er engin undantekning. Ég er alveg að sofna en reyni að halda mér vakandi. Mig langar að fylgjast með því þegar mamma umbreytist. Sko, mig langar ekki að sjá það en mér finnst eins og ég þurfi þess. Smám saman verða augnlokin þyngri og þyngri. Loks límast þau föst og nóttin nær mér á sitt vald. Vonandi var þetta allt bara draumur.
30 HVAÐ ÉTA ÚLFAR? Við Marius hrökkvum upp á sama tíma við hávært væl. Það er einhver að spangóla! Hér, í ósköp venjulegu úthverfi á Íslandi, heyrist spangól, líkt og við séum stödd á sléttumMexíkó. „Marius ... heyrðir þú líka … ?“ „Já,“ hvíslar hann á móti skjálfandi röddu Ég stend hikandi upp úr rúminu og rétti Mariusi höndina. Hann tvístígur en fæst svo loks með mér fram á gang. „Hvað ef … “ byrjar hann en ég sussa lágt. Ég býst við að finna mömmu inni á baði. Það er eina herbergið með glugga sem vísar að tunglinu. En mamma er ekki þar. Um leið átta ég mig á því að það er ískalt í íbúðinni. Við Marius læðumst fram á gang þar sem útidyrnar standa opnar upp á gátt. Ég smeygi mér í skó og geng hikandi út. Marius fylgir á eftir og rígheldur í höndina á mér. A A A A A Ú Ú Ú
31 Ú Ú!
32 Þarna, í miðjum garðinum fyrir framan húsið stendur loðin vera og spangólar í átt að björtu tunglinu. „Mamma,“ kjökra ég ósjálfrátt. Marius kreistir hönd mína og dregur mig inn í anddyrið. „Við þurfum að ná henni inn!“ segir hann ákveðinn. Sjálf get ég ekki hreyft mig heldur stend sem frosin og endurtek lágt: „Mamma mín er varúlfur … Mamma mín er varúlfur … “ „Ég veit, en Marta, nú þurfum við að hugsa skýrt. Hvernig fáum við hana aftur inn?“ „Varúlfur … Mamma … “ „Hún gæti hlaupið af stað og ráðist á einhvern! Hvað ef við bjóðum henni mat og lokkum hana inn? Hvað éta úlfar eiginlega?“ Síðasta spurning Mariusar kippir mér aftur í raunveruleikann. „Hvað éta úlfar? Hvers konar spurning er þetta? Heldurðu að ég viti það!?“
33 Stundum, þegar ég er reið, bitnar það á Mariusi. Hann á það yfirleitt ekki skilið. Ég þoli bara ekki heimskulegar spurningar. „Úlfar eru af hundakyni … þú veist, náskyldir hundum. Þeir hljóta þá að éta hundamat!“ „Ég á engan hundamat, Marius!“ svara ég pirruð. „Ah …,“ segir Marius og klórar sér í enninu. „Kannski getum við bankað hjá nágrönnum þínum … en þá sjá þeir reyndar varúlfinn. Ég meina mömmu þína.“ Uppástunga Mariusar er gagnslaus. Síst af öllu viljum við betla hundamat af nágrönnummínum og hætta á að þeir sjái loðinn varúlf í garðinum. „En .. Marius!“ segi ég og brosi. „Ég á FULLT af kattamat! Það er næstum því eins. Það er allavega sama ógeðslega lyktin af þessu dósasulli!“
34 HNUSAÐ UPP Í VINDINN Marius hefur augun á mömmu í garðinum og ég stekk inn í eldhús til að sækja kattamat. Í neðstu skúffunni blasa við mér ótal dósir. Þarna eru til dæmis nýrnabaunir, kókosmjólk og tómatmauk. Einu sinni gerði mamma lasagna og notaði óvart kattamat í sósuna. Sem betur fer fattaðist það um leið. Síðan þá hef ég reynt að sannfæra mömmu um að geyma kattamatinn í geymslunni. Hún segir að Hvæsi sé hluti af fjölskyldunni og eigi að hafa matinn sinn í eldhúsinu eins og aðrir. Ég gríp eina dósina og opna hana yfir vaskinum. Um leið finn ég grófan feld Hvæsa strjúkast við annan fótlegginn á mér. „Þetta er ekki fyrir þig.“ Hvæsi virðist skilja mig því hann sendir mér illt augnaráð og snýr sér móðgaður undan. Ég fer fram í anddyri með dósina og rétti hana í átt að Mariusi.
35 „Þú gerir þetta,“ segi ég ákveðin. „Ekki séns. Þetta er mamma þín,“ svarar hann hneykslaður. „Oh, Marius!“ dæsi ég örg. Ég fikra mig niður tröppurnar og held dósinni eins langt frá mér og ég get. Mamma stendur enn í miðjum garðinum. Eða, ég vona að mamma sé undir öllum þessum rauðbrúna feldi. Hún snýr baki í mig, í skrítinni stellingu. Hraður andardrátturinn hreyfir loðna kryppuna upp og niður. Um leið og ég nálgast grasið snýr hún sér við og hnusar upp í vindinn. Mamma hefur greinilega fundið lyktina af kattamatnum. „Fljót, Marta,“ heyri ég Marius hvísla fyrir aftan mig. Agnarsmá hárin rísa á handleggjunum á mér þegar mamma læsir augun á mig. Hún hefur áttað sig á því hvaðan lyktin kemur og sleikir svöng út um. Svo hendir hún sér niður á fjóra fætur og læðist hikandi í átt að mér. Ég þori ekki að hreyfa mig, en ég verð að gera það! Fyrst bakka ég til að athuga hvort hún elti mig. Það er undarlegur glampi í augummömmu þegar hún
36 sleikir hún út um. Það skín í beittar tennur sem gætu bitið af mér höndina ef ég fer ekki varlega. Ég fikra mig aftur á bak upp stigann. Mamma er á fjórum fótum og ber sig alveg eins og svangt en óöruggt dýr. Marius er kominn inn og stendur bak við opnar útidyrnar. Um leið og mamma kemur inn í íbúðina lokar hann hurðinni varlega. Mamma urrar þegar ég kippi dósinni enn lengra til baka. Hún er greinilega orðin svöng og pirruð. Mamma verður alltaf mjög pirruð þegar hún er svöng. Þá er hún reyndar ekki með flugbeittar tennur og klær. Ég leiði hana eftir ganginum að svefnherberginu hennar. Svo legg ég dósina niður á gólf og renni henni inn í herbergið. Mamma spyrnir sér í gólfið svo klærnar skilja eftir djúp för í parketinu. Hún byrjar strax að háma í sig kattamatinn og umlar af ánægju. „Vá, hvað henni finnst þetta gott. Hún klárar þetta örugglega strax,“ segir Marius með ótta í röddinni. „Náum í meira,“ segi ég og hleyp af stað. Við snúum aftur með tvær dósir til viðbótar og rennum þeim inn til mömmu. Hún lítur upp og
37 mælir okkur út. Svo heldur hún áfram að borða. Ámátlegt mjálm berst frá Hvæsa sem stendur fyrir aftan mig. „Ég veit, Hvæsi minn. Ég veit … “ Marius teygir sig eftir hurðarhúninum og lokar dyrunum að herbergi mömmu. „Getum við læst?“ spyr hann og klórar sér hugsandi í kollinum. „Bara innan frá held ég,“ svara ég og yppi öxlum. „Áttu reipi?“ „Marius … ég fer ekki að binda mömmu mína fasta!“ svara ég hneyksluð. „Æ, Marta, láttu ekki svona. Áttu reipi eða ekki?“ Marius er alveg hættur að vera feiminn við mig. Ég kunni eiginlega betur við hinn ofur kurteisa Marius sem hlýddi bara án þess að þræta. Nú er það hins vegar ég sem hlýði þegar ég næ í sterkt band inn í geymslu. „Dugar þetta?“ spyr ég og held rauðu bandinu uppi.
38 Marius tekur við bandinu og handleikur það hugsandi. Svo bindur hann einhvers konar skátalykkju á annan endann. Hann smeygir lykkjunni utan um hurðarhúninn og strengir bandið yfir ganginn, að geymsluhurðinni. Hann strekkir bandið fast og það gefur frá sér eins konar gítartón þegar hann kippir í það. „Svona. Nú kemst hún ekki neitt.“ Ég ber annað eyrað upp að hurðinni og heyri hávær matarhljóðin í mömmu. Hún smjattar og kjamsar á kattamatnum. Skömmu síðar berast okkur háværar hrotur. „Og ég anda léttar. Marius lítur á úrið sitt og geispar. „Það er enn nóg eftir af nóttinni. Við skulum reyna að sofna.“ Ég þoli ekki þegar mér er sagt hvað ég á að gera. Núna er ég hins vegar sammála. Ég er svo þreytt að ég gæti sofnað standandi. Við skríðum aftur upp í rúm. Ég vona bara að mig dreymi ekki fleiri skrímsli. Það er alveg nóg að mamma mín sé varúlfur.
39
40 HVAÐ ER Í GANGI? Næsta morgun hrekk ég upp við hávært bank. Ég nudda stírurnar úr augunum og teygi mig snöggt. Bankið heldur áfram og virðist koma innan úr íbúðinni. Undrandi fer ég fram á gang og man um leið atburði næturinnar. Rautt bandið er enn strekkt á milli hurðanna að svefnherbergi mömmu og geymslunnar. „Marta!“ hrópar mamma innan úr herberginu. „Hleyptu mér út!“ Ég losa bandið hikandi. „Hvað ertu að gera?“ hvíslar Marius sem stendur allt í einu við hliðina á mér. „Hleypa henni út!“ svara ég án þess að lækka róminn. „Ertu brjáluð? Hvað ef hún er enn í varúlfaham?“ Aftur bankar mamma og kallar. „Krakkar! Marius, ert þú þarna líka? Hurðin er eitthvað föst. Getið þið opnað fyrir mér?“
41 „Sko,“ segi ég pirruð við Marius. „Tunglið er farið og mamma er aftur orðin eðlileg.“ „Ertu viss?“ spyr hann og hrukkar ennið. „Nei … en við getum ekki haft hana læsta inni í allan dag,“ svara ég og losa bandið af húninum. Um leið kippir mamma upp hurðinni. Hún er úfin og þreytuleg en ansi ólík úlfinum sem við lokkuðum inn úr garðinum í nótt. „Hvað er eiginlega í gangi krakkar?“ spyr mamma þegar hún sér bandið sem liggur frá hurðarhúninum. „Marius gekk í svefni,“ segi ég hratt. „Ha?“ spyr mamma ringluð. Marius grípur orðið á lofti. „Já, afsakaðu þetta. Ég er sko í skátunum og mig var að dreyma alveg svakalega skemmtilegt skátamót. Við vorum að læra nýjan hnút … “
42 Við mamma virðumst jafn hissa á sögunni hans Mariusar. Ég vissi ekki að hann gæti logið svona, án þess að roðna eða svitna. „Jæja vinur,“ byrjar mamma. „Þú hefur þá vonandi fengið merki fyrir fínan hnút … þú veist, í draumnum.“ Marius hummar eitthvað og brosir. „Getur þú þá líka útskýrt af hverju það er kattamatur út um allt gólf í herberginu mínu?“ Eftir að hafa kennt svefngöngu Mariusar um kattamatinn sæki ég moppu og fötu með vatni. Ég hugsa til Hvæsa sem borðar svo snyrtilega að yfirleitt er ekki arða eftir af mat. Hér eru hins vegar slettur um allt gólf og upp á fataskáp. „Úff, hvað þetta er fast við gólfið … “ segir Marius og skrúbbar. „Ég er bara svo fegin að þetta virkaði,“ svara ég og bleyti skápinn. „En … hvað ef hún breytist aftur í nótt?“ spyr Marius.
43 „Við verðum að finna varanlegri lausn en kattamat og snæri.“ Ég þoli ekki hvað hann er raunsær. Mig langaði að gleðjast yfir því að mamma væri ekki varúlfur. Að minnsta kosti ekki þessa stundina. En nú finn ég sting í maganum og stressið verður að stórum hnút. „Komdu þá með lausn,“ svara ég og nudda þrjóskan blett af fataskápnum. „Kíkjum aftur í bækurnar. Við hljótum að finna einhverja leið til að bjarga mömmu þinni.“ Ég finn hvernig kvíðahnúturinn færir sig úr maganum og upp í háls. Ég kyngi og reyni að anda djúpt en það er erfitt. Lungun vilja ekki hleypa inn nema örlitlu lofti. Þau eru eins og blöðrur sem hafa verið blásnar upp og tæmdar svo oft að nú eru þær bara linar og lélegar. Marius tekur eftir því hvað ég er stressuð og réttir fram höndina.
44 „Hvað?“ spyr ég hissa. „Lánaðu mér tuskuna,“ svarar hann og brosir. Hann vindur báðar tuskurnar og leggur þær á fötuna. Svo leggur hann aðra höndina á öxl mína, eins og kennari og talar hægt og rólega. „Þetta verður allt í lagi.“ „En … “ byrja ég en kemst ekki lengra. Augun fyllast af tárum og mig langar að hverfa ofan í gólfið. „Við leysum þetta, Marta,“ segir Marius, svo öruggur að ég trúi honum næstum því. Þegar ég svara engu stendur Marius upp og teygir sig í fötuna. „Þetta verður ekki betra,“ segir hann og vísar til gólfsins. „Nú kíkjum við í bækurnar!“
45 ÞURRKAÐAR JURTIR Marius les sig í gegnum Handbók fyrir varúlfa- veiðimenn. Á meðan leita ég enn einu sinni á netinu. „Það er ekkert að marka þetta bull,“ hnussa ég pirruð og opna nýjan leitarglugga. „Hmm,“ hváir Marius annars hugar. „Ég verð að þrengja leitina. Þá fæ ég kannski skýrari niðurstöður. Hvað hét aftur varúlfa-tegundin sem við höldum að passi við mömmu?“
46 „Gamma … Eða mér finnst það svona líklegast.“ Ég slæ inn nokkur mismunandi leitarorð. „Hér er eitthvað, segir Marius og heldur bókinni uppi. „Til að drepa varúlf skal nota hníf úr alvöru silfri. Það er víst veikleiki varúlfa … silfur. „Marius … Ég ætla ekki að DREPA mömmu mína!“ svara ég og gapi. „Ah, nei. Það væri verra.“ Marius flettir yfir á næstu síðu. „Það er líka hægt að nota jurt sem heitir Bláhjálmur! Sé hún notuð í miklu magni deyr varúlfurinn en ef við notumminna magn afléttum við álögunum.“ „Þetta hljómar mjög hættulega. Hvernig vitum við hversu mikið magn er mátulegt?“ Ég finn hvernig röddin brestur örlítið. Mig langar ekki að gefa mömmu of stóran skammt af eitraðri plöntu. „Sko, Marta. Ef það er eitthvað sem þú getur treyst á, þá eru það hæfileikar mínir til að mæla rétt magn! Bæði í heimilisfræði og raungreinum. Það skiptir ekki máli hvort ég er með sýru eða sykur. Ég er afar nákvæmur.“
47 Þetta er reyndar rétt hjá Mariusi. Hann er svo nákvæmur að það er óþolandi að vera með honum í hóp. Það tók einu sinni tvær kennslustundir og allar frímínúturnar að baka pítsusnúða því hann vildi mæla allt þrisvar. „Það er þó einn vandi hér. Hvar finnum við þurrkuð blóm af Bláhjálmi? Ætli það sé til í búðinni, hjá kryddunum kannski? Já, eða í blómabúð? Nei, varla þurrkað,“ tuðar Marius. „Ú! Ég veit! Hvern þekkjum við sem á kofa með alls konar þurrkuðum jurtum?“ Bros birtist á andliti Mariusar þegar hann áttar sig á því um hvern ég er að tala.
48 KRUKKA NORNARINNAR „Nornin!“ hrópar hann upp yfir sig. „Einmitt! Nornin átti heilan HELLING af jurtum og dóti í alls konar krukkum! Við getum sótt það sem okkur vantar.“ „Hvað ef nornin hefur snúið aftur?“ Marius virðist mjög stressaður. Ég er það reyndar líka. Við losuðum okkur við nornina en kofinn hennar er samt óhugnanlegur staður. Við gætum auðvitað fengið fylgd, hugsa ég með mér og lít á köttinn sem kúrir á rúmteppinu. „Tökum Hvæsa með!“ tilkynni ég ánægð. „Hann verndaði okkur síðast!“ Við Marius klæðum okkur í skó og úlpur. Svo lyfti ég Hvæsa önugum upp úr rúminu. Hann er ekki sáttur við að fara. Ég klappa kettinum og sussa á hann. Loks róast Hvæsi örlítið en hefur þó annað augað opið með sinn dæmigerða fýlusvip á andlitinu.
49 Úti blæs vindurinn og við fáum hann beint í fangið þegar við opnum dyrnar. Miðaldra maður skokkar eftir gangstéttinni með smáhund í bandi. Hvæsi sperrist allur upp í fanginu á mér. Hann reynir sem betur fer ekki að sleppa. Loks komumst við að hrörlegum nornakofanum. „Ég ætlaði sko aldrei að koma hingað aftur,“ heyrist í Mariusi. „Ekki ég heldur … en takk fyrir að koma með mér,“ svara ég og sendi honum bros. „Auðvitað. Við erum saman í þessu,“ segir Marius og ýtir upp lúinni tréhurðinni. Inni mætir okkur kalt og rakt loft. Rykfallnar krukkurnar eru þaktar köngulóarvefjum. Á meðan ég leita að réttri krukku hvæsir kötturinn lágt. Ég strýk honum um loðið höfuðið. Hvæsi er ekki jafn grimmur og hann var þegar við fengum hann. Með því að klappa honum bara nóg hef ég náð að temja hann. Svolítið að minnsta kosti. Ef mamma verður varúlfur að eilífu get ég kannski tamið hana? Kannski yrði ég að hafa hana í stóru hundabúri yfir nóttina til öryggis. Tilhugsunin er svo vond að ég fæ sting í magann.
50 „Hérna!“ hrópar Marius og kippir mér úr hugsunummínum. „Fannstu það?“ „Já,“ segir Marius og heldur uppi grænni krukku. Aconitum napellus / Úlfsbani stendur skrifað með undarlegri skrift. Við hliðina á nafninu eru nokkrar rúnir.
51 „Eru leiðbeiningar?“ spyr ég en Marius hristir höfuðið. „Þetta er ekki eins og að kaupa djúsþykkni Marta,“ segir hann og ranghvolfir augunum. „En rúnirnar? Hvað segja þær?“ Marius rýnir betur í miðann. Svo göngum við með krukkuna að vinnuborði nornarinnar. Marius kveikir á stóru kerti sem lýsir upp borðið. Ég leita að uppskrift í stóru galdrabókinni. Marius teygir sig í rúnabók og reynir að ráða í gamalt letrið. „Ekkert hér,“ tilkynni ég og loka þykkri bókinni svo ryk þyrlast upp í loft. „Kannski … “ byrjar Marius og nær í stækkunargler. Ég held niðri í mér andanum á meðan Marius rennir stækkunarglerinu eftir síðunni. „Aha!“ segir hann og heldur fingri upp í loft. „Leiðbeiningar!“ „Ég sagði þér að það væru leiðbeiningar á krukkunni,“ segi ég dálítið pirruð.
52 „Æ, já. Fyrirgefðu, mér fannst það bara svo ólíklegt. Þú hafðir rétt fyrir þér. Hér er mynd af þremur skeiðum.“ „Bara einhverjar skeiðar?“ spyr ég hissa. „Við hliðina á tveimur skeiðum er hauskúpa. Það segir sig sjálft hvað það þýðir. Við hliðina á einni skeið er hins vegar hjarta. Það hlýtur að þýða líf.“ „Bara ... eins og í tölvuleik?“ „Já, ætli það ekki. Ég skil þetta allavega þannig. Við blöndum þessu eins og þykkni út í vatn.“ „Pant ekki ég!“ segi ég ákveðin. Desilítrar og annað svona mælidót er ekki mín sterkasta hlið. „Við leysum þetta. Nú höfum við að minnsta kosti það sem til þarf.“ Með fulla krukku af seyði göngum við heim á leið. Hvæsi liggur slakur í fanginu á mér, feginn að komast lengra í burtu frá kofa nornarinnar. Eftir því sem við nálgumst húsið okkar verður hann hins vegar stjarfur og setur
53 upp kryppu. Hann læsir klónum í úlpuna mína, sem er nógu þykk til að verja mig gegn klóri. „Hvaða bíll er þetta?“ spyr Marius og bendir á rauðan sportbíl í stæðinu fyrir framan húsið.
54 DOKTORINN Í HEIMSÓKN Bíllinn er merktur stórum stöfum: DOKTOR ÚLFHILDUR ALFA Við frjósum í sporunum. „Úlfhildur … “ segi ég skjálfandi röddu. „… og Alfa!“ bætir Marius við. Við áttum okkur á sama tíma. Dýralæknirinn sem mamma fór á stefnumót með er þá sökudólgurinn. Það var hún sem beit mömmu og breytti henni í Gamma-úlf! „Þú manst … hún getur stjórnað mömmu þinni.“
55 „Ekki ef við stöðvum þær báðar,“ svara ég og gjóa augunum á flöskuna í hendi Mariusar. „Ég vona bara að þetta sé nóg … “ segir Marius. „Enga svartsýni núna. Við höfum ekki tíma. Sjáðu himininn. Það er byrjað að dimma!“ „Hvernig gerum við þetta? Þær hljóta að vera á leiðinni á stefnumót. Við verðum að stöðva þær!“ Svarið kemur til mín um leið. Eftir að hafa glápt á alls konar væmna sjónvarpsþætti og bíómyndir í gegnum tíðina veit ég allt um svona stefnumót. „Þegar fólk vill hafa rosa rómó þá eru alltaf jarðarber!“ segi ég Mariusi. „Svo þarf auðvitað að vera súkkulaði líka. Við sköpum rómantíska stemningu í stofunni. Gefum þeim jarðarber og súkkulaði. Svo gerum við drykk úr jurtunum og bíðum eftir að þeim batni.“ Marius horfir á mig rannsakandi augum. Hann veit ekki jafn mikið um þessa hluti og ég. Hann hefur aldrei verið skotinn, hvað þá ástfanginn. Líklega hefur hann aldrei lesið bók eftir Þorgrím Þráinsson. Þess vegna skilur hann þetta ekki jafn vel og ég.
56 Ég opna útihurðina eins hægt og ég get. Samt heyrir mamma í mér. „Hæ, ástin mín! Ert þetta þú?“ hrópar mamma úr stofunni. Er þetta ég? Hvers konar spurning er þetta? Hver sem er gæti svarað þessari spurningu játandi. Það er engin furða að mamma lét breyta sér í varúlf. Hún er svo jákvæð og treystir öllum sem hún kynnist. „Hvað ef ég væri þjófur?“ kalla ég á móti. „Láttu ekki svona Marta. Komdu inn og heilsaðu!“ hrópar mamma aftur. Ég sparka af mér skónum og dreg Marius á eftir mér. Eigi ég að standa í þessu veseni vil ég ekki vera ein. „Hæ elskan,“ segir mamma aftur og knúsar mig fastar en venjulega. „Umm … hæ,“ muldra ég án þess að það heyrist því ég er klesst upp að bringunni á henni. „Þetta er hún Marta mín,“ segir mamma og heldur um axlirnar á mér. „Þið hittust nú aðeins í fyrradag.“
57 Hún snýr mér í hálfhring og heldur mér fyrir framan sig eins og verðlaunagrip. Ég horfi beint í dökk augu dýralæknisins. Þau mæla mig út, frá toppi til táar áður en hún opnar munninn. „Sæl,“ segir dýralæknirinn og brosir svo skín í flugbeittar tennurnar. „Úlfhildur heiti ég. Gaman að … kynnast þér.“ Ég treysti henni ekki einu sinni pínulítið, hugsa ég með mér. Hún ætlaði örugglega að segja „gaman að borða þig“ og gleypa mig svo í einummunnbita. Mamma býður Úlfhildi að fá sér te og býr sig undir að sjóða vatn. Marius sendir mér svip sem ég veit hvað þýðir. „U, já. Sko, mamma. Hvað segirðu um að þið Úlfhildur fáið ykkur sæti. Við Marius getum svo fært ykkur te og svona.“ Mamma horfir á mig furðu lostin og brosir svo út að eyrum. „Já takk, ástin mín,“ segir mamma og sest í sófann. „Voðalega er þetta vel upp alið hjá þér,“ heyri ég Úlfhildi segja um leið og hún kemur sér fyrir við hliðina á mömmu.
58 Þetta? hugsa ég pirruð. Af hverju talar fullorðið fólk stundum eins og börn séu hlutir?! Marius kippir í peysuna mína og dregur mig inn í eldhús. Við sjóðum vatn í katlinum og finnum til tvo bolla.
59 „Heldurðu að þetta virki,“ hvíslar Marius og opnar brúna flöskuna varlega og setur eina skeið af seyðinu í sitthvorn bollann. „Það er eins gott,“ svara ég og teygi mig í litla flösku af hunangi. Lyktin af seyðinu er sterk en ég vona að hunangið feli bragðið. Marius hrúgar jarðarberjum á fallegan bakka. Svo raðar hann súkkulaði inn á milli. „Þetta lítur út eins og fínasti réttur í fermingarveislu,“ segi ég og sendi Mariusi bros. „Ég hefði nú reyndar viljað bræða súkkulaðið og dýfa jarðarberjunum … “ „Marius … það er enginn tími. Sjáðu himininn,“ segi ég og bendi út um gluggann. Úti er tekið að dimma og stutt í niðamyrkur. Ég anda djúpt áður en ég geng af stað með bakkann í höndunum. Marius eltir mig með rjúkandi heita tebollana.
60 VILTU EKKI TE? „Má ekki bjóða ykkur jarðarber?“ spyr ég og legg bakkann niður eins og fínasti þjónn. „Ji, en glæsilegt! Hvers lags þjónusta er þetta?“ hrópar mamma upp yfir sig. Hún treður upp í sig stærsta jarðarberinu og hámar það í sig. „Tesopa?“ spyr Marius og réttir henni bollann. „Mhm, endilega,“ svarar mamma með fullan munninn. Ég held niðri í mér andanum þegar mamma tekur við bollanum.
61 „Úff, þetta er svo heitt. Best að bíða aðeins,“ segir mamma og leggur frá sér bollann. Doktor Úlfhildur Alfa tekur við bollanum sínum og leggur hann frá sér um leið. Enn hefur hvorug þeirra fengið sér sopa. Ég er á nálum. Tunglið er væntanlegt á himininn á hverri stundu! Þá verður mamma að varúlfi og dýralæknirinn líka. Ekki nóg með það! Dýralæknirinn er ALFA og gæti breytt okkur Mariusi í varúlfa með því að bíta okkur! Ég veit ekki einu sinni hvort við verðum að fullorðnum úlfum eða bara litlum krúttlegum hvolpum. Það er ekki til nægur kattamatur fyrir okkur öll! Auk þess getum við ekki opnað dósirnar með loðnum loppum. Þetta verður að virka. Þær verða að klára úr bollunum til þess að seyðið virki. Mamma er fyrst til að fá sér sopa. Hún kyngir og teygir sig í annan súkkulaðibita. Þær Úlfhildur sitja hlið við hlið í sófanum og spjalla. Við Marius höfum fundið okkur stað í hinum enda stofunnar. Við sitjum við borðstofuborðið með spilastokk á milli okkar og þykjumst spila. „Ég hef aldrei séð mömmu þína brosa svona,“ segir Marius með augun límd á mömmu.
62 „Hvað áttu við?“ spyr ég önug. „Bara … þú veist. Hún virðist svo glöð eitthvað. Hlær og brosir. Yfirleitt er hún svo þreytt. Alltaf nýkomin heim úr vinnu eða á leiðinni á fund.“ Hann hefur ekki rangt fyrir sér. Mamma er rjóð í kinnum og með glampa í augunum sem ég hef aldrei séð áður. Kannski af því að hún er varúlfur. En kannski af því að hún er hrifin af þessari konu. „Kannski verða þær samt kærustupar … eftir að þeim batnar,“ segir Marius vongóður. Ég veit ekki einu sinni hvort það er hægt að lækna þær báðar. Sama hversu kröftugt seyðið er þá er ekkert víst að það virki sem skyldi. Mamma fær sér annan sopa af drykknum, og svo þann þriðja. Það er erfitt að meta hvort þetta er að virka. Líklega komumst við ekki að því fyrr en í nótt. Úlfhildur hefur enn ekki drukkið úr sínum bolla. Hún strýkur dökkan sveip frá andlitinu og ég tek
63 eftir því að á höndum hennar eru lengstu neglur sem ég hef augum litið. Neglurnar eru langar og lakkaðar blóðrauðar. „Hvernig fer hún eiginlega á klósettið?“ hvíslar Marius að mér. Hann hefur greinilega tekið eftir því sama og ég. „Vi- viltu ekki te?“ spyr ég dýralækninn óörugg. Úlfhildur horfir á mig, með stingandi gráum augum. „Jú takk, bara á eftir,“ svarar hún án þess að snerta við bollanum. „Það er samt betra á meðan það er enn þá heitt,“ segi ég. Ég sé strax eftir því sem ég sagði. Úlfhildur hvessir loðnar brýnnar og virðist örg. Það síðasta sem ég vil gera er að reita varúlf til reiði. „Jæja, ástin mín. Viljið þið Marius ekki bara fara að spila?“ spyr mamma og brosir. Hún virðist ekki hafa hugmynd um að hér situr hún á móti varúlfi af Alfa-tegund og sötrar te eins og ekkert sé.
64 VARÚLFAVESEN Við Marius flýtum okkur inn í herbergið mitt og lokum hurðinni. „Hvað ef hún drekkur ekki seyðið?“ spyr Marius og virðist hræddur „Hvað ef það virkar of vel og … mamma deyr?“ segi ég þá á móti. „Það þýðir ekkert að spyrja bara endalaust hvað ef, hvað ef! Þetta mun virka! Svo verður aldrei neitt varúlfavesen aftur.“ „Ókei,“ svarar Marius skömmustulegur. „Förum aftur fram. Við þurfum að tryggja að allt sé eins og það á að vera.“ Ég gríp spilastokkinn með mér og teymi Marius á eftir mér. „Eruð þið komin aftur?“ spyr mamma og hagræðir sér í sófanum. „Það er þægilegra að spila við borðið,“ svara ég og við Marius setjumst í hæfilegri fjarlægð frá sófanum.
65 Mamma og dýralæknirinn sitja enn nær hvor annarri en áðan. Höndin á mömmu er líka komin upp á sófabakið, svona eins og hún ætli að snerta höndina á Úlfhildi. Ég veit ég ætti að óska þess að þær hefðu aldrei hist. Marius hefur samt rétt fyrir sér. Mamma brosir breiðar en ég hef áður séð hana brosa. Hún fiktar í hárinu á sér, hlær að hverju orði gráhærðu konunnar. Hún er alveg sæt svo sem en ég á erfitt með að sjá annað en blóðþyrstan varúlf. Úlfhildur gæti étið okkur öll ef hún vildi. „Rommý“ segir Marius allt í einu. Ég þoli ekki þegar hann vinnur mig. Þetta spil telst samt ekki með. Ég er annars hugar. Mamma fær sér annan sopa. Úlfhildur teygir sig að borðinu. Loksins, hugsa ég með mér en hönd hennar tekur ekki upp bollann heldur jarðarber. „Jarðarberin voru klúður,“ hvísla ég að Mariusi. „Við hefðum ekki átt að bjóða upp á neitt nema te. Þá væri hún búin að drekka það.“ „Það varst þú sem stakkst upp á þessu jarðarberja-súkkulaði dæmi!“ hvíslar hann til baka.
66 „Oh, ég veit,“ svara ég pirruð. Marius andar djúpt. Svo stendur hann allt í einu upp og gengur að sófaborðinu. „Mmm, má ég fá?“ spyr Marius en bíður ekki eftir svari. Hann setur þrjú jarðarber upp í sig í einu! Mamma og Úlfhildur stara furðu lostnar á hann þar sem hann hamast við að tyggja eins hratt og hann getur. Marius hefur varla kyngt þegar hann grípur síðustu fimm jarðarberin. Svo andar hann djúpt og horfir á berin í lófa sínum. Þau eru sérstaklega stór og enn með stilkunum. Þrátt fyrir það opnar Marius munninn og treður þeim öllum upp í sig. Ég er svo stolt af hugrakka vini mínum. Þarna stendur hann, fyrir framan tvær konur sem gætu á hverri stundu breyst í hungraða varúlfa. Hann er skíthræddur, ég veit það vel. Samt fórnar hann sér til að borða síðustu jarðarberin í von um að Úlfhildur fái sér þá te. „Varstu svona svangur, Marius minn?“ spyr mamma og hlær.
67 „Mhm,“ svarar Marius með troðfullan munninn og rautt slef lekur niður hökuna. Hann sest aftur á móti mér og tekur upp spilin sín. „Mér er illt í maganum,“ emjar Marius með eldrauðan munn. „En sjáðu, segi ég hughreystandi og gjóa augunum að sófanum. Úlfhildur hallar sér fram og teygir höndina að sófaborðinu. Mér til mikillar skelfingar fær hún sér ekki te … heldur súkkulaði. Þetta er eins og að horfa á fótboltaleik og vona að einhver hitti í markið en fótboltinn fer alltaf fram hjá og upp í stúku. Nú virðist Úlfhildur bara hafa áhuga á súkkulaðinu og lítur ekki við tebollanum. „Þú næst,“ segir Marius og strýkur sér um kviðinn.
68 „Ókei,“ svara ég og safna kjarki. Ég geng rakleitt að borðinu. Mamma lítur undrandi á mig. „Má ég fá?“ spyr ég en gef mömmu ekki færi á að svara. Þess í stað lyfti ég bakkanum upp. Þær horfa forviða á mig. Svo loka ég augunum, halla aftur höfðinu og skófla öllu af honum upp í mig. „Marta þó!“ hrópar mamma. „Hvað ertu að gera?“ Ég held ég hafi aldrei á ævinni borðað svona mikið nammi. Munnvatnið sprettur fram á meðan súkkulaðið bráðnar upp í mér. Á meðan ég reyni að tyggja horfir mamma á mig eins og ÉG sé villidýr en ekki hún. Ef hún aðeins vissi! Það sem ég þarf að leggja á mig til að bjarga málunum, hugsa ég með mér og strýk súkkulaði úr munnvikunum. „Takk fyrir mig,“ segi ég og reyni að brosa. „Hún er þó kurteis,“ segir Úlfhildur við mömmu og hlær.
69 Mamma skammast sín svo mikið að hún er orðin eldrauð í framan. Eða mér sýnist það. Það er orðið ansi dimmt í stofunni. Ég lít út um gluggann og sé ekkert nema myrkur. Nú megum við engan tíma missa.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=