BERGRÚN ÍRIS SÆVARSDÓTTIR ÚÐ – VARÚÐ – VA
VARÚÐ HÉR BÝR VAMPÍRA Bergrún Íris Sævarsdóttir
HÉR BÝR VAMÍRA ISBN 978-9979-0-2478-1 © 2020 Bergrún Íris Sævarsdóttir © 2020 Teikningar: Bergrún Íris Sævarsdóttir Ritstjóri: Sigríður Wöhler Yfirlestur og álit: Andri Már Sigurðsson ritstjóri, Dagný Birnisdóttir bókasafnsfræðingur Málfarsyfirlestur: Ingólfur Steinsson 1. útgáfa 2020 Menntamálastofnun Kópavogi Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Prentmiðlun ehf. – Lettland Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, án skriflegs leyfis höfunda, myndhöfunda og útgefanda.
EFNISYFIRLIT Persónur 4 Gestur á leiðinni 7 Húsið í næstu götu 11 Leðurblökubank 15 Í dimmu, dimmu húsi 19 Mörg hundruð ára gömul manneskja? 27 Úlfaköngulóin 33 Efri hæðin 39 Inni í kistunni 44 Skærgul augu 49 Beit hann þig? 53 Ískalda höndin 60 Ísskápurinn 66 Gulu augun og beittu tennurnar 71
4 PERSÓNUR MARTA Marta er vinsæl og vinamörg. Á erfitt með skapið í sér og gleymir oftast að vera kurteis. Æfir körfubolta en er mjög lágvaxin. HVÆSI Brjálaði kötturinn sem mamma hennar Mörtu tók að sér fyrir nokkrum vikum. Alltaf hvæsandi og þolir ekki fólk. LÁRA Mamma Mörtu. Hún reynir að vera þolinmóð en þarf að anda djúpt þegar hún talar við Mörtu.
5 MARIUS Pabbi hans er frá Rúmeníu en Marius hefur alltaf búið á Íslandi. Les mjög mikið og ætlar að starfa sem rannsóknarlögreglumaður í framtíðinni. CARMILLA Stórundarleg kona í næstu götu. Sést næstum aldrei og fólk þorir yfirleitt ekki nálægt húsinu.
6
7 GESTUR Á LEIÐINNI „Ertu ekki að grínast mamma!? Er Marius á leiðinni hingað? NÚNA?“ Mér er sjóðheitt í framan af reiði. Ég skil ekki hvernig mömmu datt í hug að gera þetta. Án þess að spyrja mig! „Marta mín! Auðvitað bauð ég honum í heimsókn. Kennarinn segir að það sé besta leiðin. Svo honum líði betur í bekknum. Þegar hann kemur skalt þú gjöra svo vel að biðja hann afsökunar.“ Mamma stendur í dyragættinni með hendur á mjöðmum. Það þýðir yfirleitt að málið sé útrætt. Eftir það er engin leið að fá hana til að skipta um skoðun. Ég verð samt að reyna. „Hann ætti nú frekar að biðja mig afsökunar á því að vera svona ógeðslega asnalegur.“ „Þetta gengur ekki lengur Marta! Nú hættir þú að stríða þessum indæla dreng.“
8 Indæla? Ég á mörg orð yfir Marius en indæll er ekki eitt af þeim. „Ég er þá farin elskan. Passaðu að missa köttinn ekki út.“ Hvæsi liggur í horninu og starir á mig. Ég skil ekkert í því af hverju mamma fékk sér ekki bara lítinn sætan kettling í staðinn fyrir þetta grimma dýr. Gul kattaraugun brenna sig inn í mig eins og leysigeislar. Ég fer inn í eldhús, sæki mér kakómalt í skápinn og haframjólk í ísskápinn. Kannski væri sniðugast að slökkva öll ljós og draga fyrir gluggana. Þá heldur Marius að enginn sé heima og lætur mig í friði. Nei, mamma myndi skamma mig. En fyrst að mamma er ekki heima get ég fengið mér meira kakó. Svo mikið að úr verður dísæt leðja á botni glassins. Ég kem mér fyrir í sófanum. Um leið og ég finn uppáhaldsþáttinn minn hringir dyrabjallan.
9 Dæmigert, hugsa ég pirruð og reyni að leiða hjá mér háværa bjölluna en það er erfitt. Ég hækka í sjónvarpinu til að yfirgnæfa gestinn en hann neitar að fara. Nú er barið svo fast á hurðina að ég get ekki meira. Ég legg frá mér kakóglasið og þramma fram í anddyri. Enn einu sinni er bankað af miklum krafti. Ég ríf í hurðina og opna upp á gátt. „Hvað!?“ garga ég á gestinn. Fyrir framan mig stendur Marius. Þessi lappalangi strákur með dökka hárlubbann. „Mamma … mamma …“ „Hva, er ég orðin mamma þín núna? Ég heiti Marta, ekki mamma.“ „Nei, sko. Uuu … mamma þín sagði að …“ Ég er kannski aðeins of vond við hann. „Ég veit, ég veit. Komdu inn. Passaðu bara að hleypa kettinum ekki út.“ Um leið og ég sleppi orðinu finn ég grófan feld Hvæsa strjúkast við lappirnar á mér. „Nei!“ hrópa ég hátt en það er of seint.
10 Hvæsi hefur stokkið í þremur hoppum frá horninu. Fram hjá skóskápnum, yfir stígvélin og út á milli fóta Mariusar. „Hvað hefurðu gert?“ segi ég og hvessi augun á Marius. „Ég? Hvað gerði ég?“ Marius klórar sér klaufalega í höfðinu. „Þú hleyptir honum út! Hvæsi er inniköttur bjáninn þinn!“ Ég veit vel að ég á ekki að kalla fólk bjána. En nú er Hvæsi horfinn út á götu og það er allt Mariusi að kenna. „Ömm … eigum við ekki bara að sækja hann?“ spyr Marius og brosir bjánalegu brosi. „Komdu þá,“ segi ég pirruð. Ég gríp appelsínugulu strigaskóna mína og smeygi mér í þá án þess að reima. Sem betur fer er sól og peysuveður. „Hei, við eigum eins skó.“ Marius bendir niður á skóna sína. „Nei. Alls ekki. Þínir eru bláir,“ svara ég og skelli hurðinni á eftir okkur.
11 HÚSIÐ Í NÆSTU GÖTU „Þarna!“ hrópar Marius. Ég lít til hægri. Hvæsi situr sultuslakur á horninu á gangstéttinni. Hann gjóar augunum letilega í átt að okkur. „Við þurfum að fara mjög varlega að honum,“ segi ég ákveðin við Marius. „Ekki tala hátt og … æ, láttu mig bara um þetta.“ Hvæsi sleikir á sér hægri loppuna með lokuð augu. Ég er komin í færi og ætla að taka köttinn í fangið.
12 Um leið galopnar hann augun og sendir mér illt augnaráð. Svo sprettur hann af stað, fyrir hornið og inn næstu götu. „Oh,“ dæsi ég örg og held á eftir honum. Ég hleyp eins hratt og ég get. Marius nær samt að taka fram úr mér. Ekki skrítið kannski, hann með þessar löngu lappir. Þær kæmu sér vel í körfuboltanum. Ég hef æft körfu síðan ég var fimm ára. Síðustu ár er bara eins og allir stækki nema ég. Sumar vinkonur mínar eru orðnar jafnháar og þjálfarinn! Það er sama hvað ég borða mikið af hafragraut og brokkolí. Ég hækka bara ekkert! „Ég held ég sjái hann,“ kallar Marius hátt. „Ekki garga svona! Þú hræðir Hvæsa!“ Mig langar mest að sparka í Marius en sleppi því. Seinast þegar ég sparkaði í hann var ég hundskömmuð af kennaranum. Mamma var líka reið og setti mig í tölvustraff. Stundum verð ég svo reið í fótunum. Þá verð ég að sparka í eitthvað. Yfirleitt eitthvað mjúkt,
13 eins og sófa. Ef það er ekkert mjúkt nálægt sparka ég í vegg. Það er verra því veggir eru svo harðir. Þá meiði ég mig stundum. Þegar ég var lítil gaf mamma mér risastóran bangsa sem ég mátti sparka í, ef ég varð reið. Svo tætti ég hann í sundur og bómullin fór út um allt. Mamma var ekki ánægð. Loks næ ég Mariusi. Hann stendur innst í götunni og horfir starfur á húsið fyrir framan sig. „Soldið draugalegt?“ segi ég og hann kinkar kolli. „Kötturinn þinn fór þangað inn!“ „Inn í garðinn?“ spyr ég hissa. Í kringum draugalega húsið er stór og mikill garður. Grasið hefur ekki verið slegið í mörg ár. Það er engin leið að sjá hvar grasflötin byrjar og runnarnir enda. Þetta er allt flækt saman, arfi, gras og runnar. Ég sé Hvæsa hvergi. „Nei … ekki inn í garðinn.“ Marius dregur andann djúpt. „Hann fór inn … í húsið!“
14
15 LEÐURBLÖKUBANK Augu mín leita frá gróðurflækjunni að eyðilegu húsinu. Þetta er elsta og skrítnasta húsið í hverfinu. Neglt hefur verið fyrir alla glugga með gömlum spýtum. Líklega hefur enginn búið í húsinu í mörg ár. „Ég f … f … fer ekki inn í þetta hús,“ segir Marius skjálfandi röddu. „Víst. Þú slepptir kettinum mínum út. Við verðum að sækja hann.“ Marius hugsar sig um. „Hann hlýtur að skila sér aftur.“ „Ætlar þú að segja mömmu minni að þú hafir týnt besta vini hennar?“ „Ha? Er kötturinn besti vinur mömmu þinnar?“ Marius horfir á mig eins ég sé asni. Ég verð að útskýra þetta.
16 „Æi, sko … Það er ekki langt síðan pabbi flutti út. Það fyrsta sem mamma gerði var að fá sér kött. Pabbi er nefnilega með ofnæmi fyrir öllum dýrum. Hún valdi auðvitað gamlan fress sem einhver á netinu vildi ekki eiga lengur. Ég hefði sjálf viljað krúttlegan kettling. Mamma sagði hins vegar að ef við tækjum ekki Hvæsa yrði hann svæfður. Þá fékk ég samviskubit og hætti að kvarta. Mamma hélt það yrði notalegt að kúra með honum í sófanum á kvöldin. Hann gæti veitt henni félagsskap og minnkað einmanaleikann. Ég heyrði hana segja þetta í símann við ömmu.“ „Ókei,“ svarar Marius. „Krúttlegt.“ „Nei, þetta er ekkert krúttlegt. Hvæsi hefur nefnilega aldrei viljað kúra hjá henni. Hann klórar bara og hvæsir. Mamma elskar hann samt mjög mikið. Hún talar sko meira við hann en mig. Þess vegna segi ég að þau séu bestu vinir.“ Marius sendir mér svona samúðarsvip. Eins og hann vorkenni mér. Ég þoli ekki þegar fólk vorkennir mér. „Hvað?“ spyr ég snúðug. „Það er ekki eins og þú eigir marga vini sjálfur.“
17 „Nei … það er rétt,“ svarar Marius og horfir niður. Nú myndi mamma segja mér að biðjast afsökunar. En hún myndi fyrst segja mér að sækja Hvæsa. Það er mikilvægara en afsökunarbeiðnin. „Við þurfum að fara inn í húsið,“ segi ég ákveðin. Marius strýkur höndinni eftir rammgerðu grindverki. Háar járnstangirnar voru einhvern tíma svartmálaðar en eru farnar að flagna. Hver stöng er eins og spjót, með beittum oddi. Kannski á grindverkið að vara fólk við. Hingað er enginn velkominn.
18 Nema pósturinn. „Mér líst ekki á þetta,“ segir Marius hikandi. „Vertu ekki svona mikil skræfa. Það á enginn heima í þessu húsi. Sækjum hann bara.“ „Ókei, en ef einhver kemur til dyra þá talar þú.“ Það ískrar í hliðinu þegar ég ýti því inn. Gróðurinn hefur næstum gleypt gangstíginn að tröppunum. Á hurðinni er ryðguð póstlúga en ekkert nafn. Á miðri hurð sé ég hurðabankara. Hann er svartur og skrítinn í laginu, eins og leðurblaka. Kannski er þetta gamalt skraut síðan á hrekkjavökunni. Ég teygi mig upp og lyfti gylltum málmhring frá leðurblökunni. Þegar ég læt hana detta aftur heyrist þungt högg og dyrnar opnast hægt. Við Marius horfum furðu lostin hvort á annað. Ég ýti gamalli hurðinni aðeins lengra inn með öðrum fætinum. Það marrar óþægilega í hjörunum. „Halló …“ segi ég með spurnartón í röddinni. „Er einhver hér?“
19 Í DIMMU, DIMMU HÚSI Fyrir innan hurðina er myrkur. Ég fálma eftir höndinni á Mariusi og toga hann á eftir mér. Skrítin lykt tekur á móti okkur. Lykt af raka og spýtum, eins og í gömlum sumarbústað. „Ertu brjáluð? Við getum ekki bara vaðið inn,“ segir Marius og kreistir á mér höndina.
20 „Jú, jú. Húsið er mannlaust. Hurðin opnaðist bara af sjálfu sér þegar ég ætlaði að banka.“ „Æ … Marta. Ég sé ekkert.“ „Bíddu,“ segi ég og tek upp símann minn. Svo kveiki ég á vasaljósinu. „Vó … þetta hús er örugglega hundrað ára,“ segir Marius þegar ég beini ljósinu í kringum okkur. Gólfið er dökkgrátt. Veggirnir eru viðarklæddir og loftið sömuleiðis. Nú skil ég lyktina. Húsið minnir á sumarbústað. Nema að hér er hátt til lofts og allt er hálf gráleitt. Anddyrið er tómlegt og á snögunum hangir ekkert. Hvorki húfa, jakki né trefill. Ef ég byggi hér væru skór á víð og dreif um gólfið og skólataskan fyrir hurðinni. Mamma þolir ekki hvernig ég kasta öllu frá mér þegar ég kem heim. Ég hef reynt að útskýra fyrir henni að það taki því ekki að ganga frá. Ég mun nota fötin og töskuna strax aftur næsta dag. Einu sinni tók ég meira að segja tímann á því hvað ég var lengi að ganga frá útifötunum. Svo margfaldaði ég tímann með 7 og
21 aftur með 52. Niðurstaðan var ótrúleg! Með því að ganga ekki frá spara ég mér 13.832 sekúndur á ári. Það eru 230 mínútur eða næstum fjórir klukkutímar! Ég get gert svo margt betra við fjóra klukkutíma en að hengja upp föt og raða skóm. „Sjáðu Marius. Engir skór, ekkert fólk. Okkur er öruggt að fara inn.“ Marius fitjar upp á nefið. Svo opnar hann stóran viðarskáp innar í anddyrinu. „Hvað er þá þetta?“ spyr hann sigri hrósandi. Inni í skápnum hanga tvær svartar gólfsíðar kápur. Önnur er þykk og loðfóðruð, væntanlega vetrarkápa. Hin er mikið þynnri og léttari. Á gólfi skápsins standa fjögur skópör í röð. „Hver gengur eiginlega í svona skóm?“ spyr ég og gríp eitt parið. Þetta eru upphá leðurstígvél með oddmjórri tá. Fjólublá stígvélin eru reimuð frá tá og upp með örmjóum reimum. „Líklega kona með sérstakan smekk. Reimarnar eru eins og lakkrís,“ segir Maríus og sleikir út um.
22 „Þú ert bilaður,“ svara ég og set skóna niður. „Nei, ég er bara svangur. Mamma þín sagði að ég fengi köku heima hjá þér. Svo talaði hún líka um kakó.“ Um leið og hann sleppir orðinu heyri ég garnagaulið í sjálfri mér.
23 „Drífum okkur bara að finna Hvæsa. Þá getum við farið heim og fengið okkur köku.“ Ég stíg inn á gang með breiðum stiga upp á efri hæðina. Þetta hús gæti verið mjög fallegt ef það væri ekki svona illa farið. „HALLÓ!“ segi ég hærra. Einhver hlýtur að eiga kápurnar og skóna. En við fáum ekkert svar. „Ertu viss um þetta?“ segir Marius og hikar. „Láttu ekki svona. Skiptum liði og finnum Hvæsa.“ „NEI, ekki fara,“ vælir Marius og kemur nær mér. „Leitum saman.“ „Hefurðu alltaf verið svona mikill hræðslupúki? Ertu kannski líka hræddur við hryllingsmyndir?“ „Nei, alls ekki. Því ég horfi ekki á þær. Eru þær ekki allar bannaðar innan sextán?“ Marius tekur ekki eftir því að ég ranghvolfi augunum. Hann heldur áfram að tala á meðan við fikrum okkur skref fyrir skref inn í húsið. „Ég verð bara stundum stressaður. Í stressandi aðstæðum skilurðu. Það er til dæmis bannað að
24 fara inn til fólks í leyfisleysi. Mér finnst bara betra að fylgja reglum og vera kurteis.“ „Við erum mjög ólík,“ svara ég kuldalega. Ég þarf að finna köttinn og hef engan tíma fyrir almennilegheit. Marius er sem betur fer hættur að tala. En þegar hann þegir heyri ég marrið í gólfinu undan hverju skrefi. Við höldum okkur á neðri hæðinni. Í stigarýminu eru þrjár hurðir. Ein til vinstri, ein beint af augum, til hliðar við stigann og ein til hægri. „Veldu hurð,“ segi ég við Marius, eins og þetta sé leikur. „Ekki láta mig velja,“ svarar hann og horfir biðjandi augum á mig. Ég horfi á hurðirnar. Það er engin leið að vita hvað leynist í herbergjunum. Hurðin til vinstri hefur engan hurðarhún og er biksvört. Sú sem er beint af augum er undarlega smá og rauðmáluð. Til hægri er hins vegar tvöföld tréhurð með stórum glansandi hurðarhúnum.
25 „Þessi,“ segi ég og lýsi með ljósinu á símanum upp og niður eftir tvöföldu hurðinni. Við fetum okkur nær. Marius er kominn alveg upp að mér og andar svo hátt að ég heyri varla eigin hugsanir. Ég teygi höndina að öðrum hurðarhúninum og þrýsti niður. Hurðin opnast auðveldlega og við stígum inn …
26
27 MÖRG HUNDRUÐ ÁRA GÖMUL MANNESKJA? „Sérðu Hvæsa?“ spyr ég og held símanum þannig að ljósið lýsir upp herbergið. Við erum stödd í stórri stofu. Á miðju gólfinu er langt dökkt borðstofuborð. Við borðið stendur aðeins einn stóll sem minnir á hásæti. „Skrítið,“ segir Marius. „Bara einn stóll við svona stórt borð. Það hlýtur að þýða að hér búi bara ein manneskja. Sem fær mjög fáa gesti.“ „Mhm,“ samþykki ég og svipast um eftir Hvæsa. „Þessi manneskja er með alveg einstakan smekk,“ heldur Marius áfram. „Bæði borðið og stóllinn eru antíkmunir, líklega frá miðöldum.“ „Um hvað ertu eiginlega að tala. Hvað er antík?“ Mig langar ekkert að hlusta á fyrirlestur um húsgögn akkúrat núna. En það er fínt að Marius
28 einbeiti sér að gamla stólnum. Hann pissar þá ekki á sig af hræðslu á meðan. „Antíkmunir eru gamlir og verðmætir hlutir. Til þess að hlutur teljist antík þarf hann að vera að minnsta kosti hundrað ára gamall. Fólk er samt ekki alltaf sammála um hvað telst antík.“ „Einmitt“ svara ég áhugalaus og kíki undir sófann. „Þessi húsgögn gætu verið úr kastala frá miðöldum. Stóllinn er líklega hásæti, jafnvel krýningarstóll.“ Marius er kominn á flug. „Sjáðu gylltu ljónsfæturna … “ „Heyrðu,“ segi ég og stend upp af gólfinu. „Ert þú einhver stóla-prófessor?“ „Nei, kannski ekki. En ég hef mjög gaman af því að velta fyrir mér duldum vísbendingum.“ „Af hverju?“ spyr ég hissa. Sjálf myndi ég alltaf fara í körfu eða hanga í tölvunni, frekar en að pæla í húsgögnum frá miðöldum. „Ég ætla að verða rannsóknarlögreglumaður. Þá þarf maður að vera vel að sér í hinu og þessu. Hafa þekkingu á sem flestum hlutum.“
29 „Ókei … Sérðu margar vísbendingar hér inni?“ spyr ég hissa. Ég hefði haldið að Marius yrði bara áfram asnalegur þegar hann yrði stór. Rannsóknarlögregla er frekar kúl starf. Marius nuddar á sér hökuna og skimar yfir stofuna. „Sjáðu hér,“ segir hann og gengur að borðstofuskáp. „Þessi skápur er miklu yngri en borðið. Líklega smíðaður á Íslandi fyrir meira en 100 árum. Ef við erum heppin gætum við fundið fangamark smiðsins undir einhverri hillunni.“ „Fangamark?“ spyr ég forviða. Marius notar svo mörg skrítin orð að mig svimar. „Já, skammstöfunin á nafninu hans.“ „Af hverju hans? Hvernig veistu að það er karl sem smíðaði skápinn?“ „Húsgagnasmiðir voru flestir karlar á þessum tíma. Hér er þetta,“ segir Marius og bendir mér undir tréhillu. Vasaljósið lýsir upp stafina H.S.
30 „Hvernig veistu það samt? H.S. gæti alveg staðið fyrir Halldóra Sigurðardóttir eða Halla Stefánsdóttir.“ „Já, það er svo sem rétt hjá þér. Hitt var bara algengara. Í öllum þeim bókum sem ég hef lesið …“ „Það er ekkert allt rétt sem stendur í bókum,“ svara ég pirruð. „En ókei. Hvaða vísbendingu gefur þessi skápur þér?“ „Borðið og stóllinn eru frá því í eldgamla daga, jafnvel 13. öld. Væntanlega smíðuð í útlöndum. Ekki á Íslandi allavega. Íslendingar bjuggu enn í torfkofum þegar þetta var smíðað. Konan sem býr hér kann að meta gamla hluti. Kannski er hún safnari. Hún á allavega nóg af peningum. Svona hlutir kosta mjög mikið í dag.“ Mér finnst erfitt að vera sammála Mariusi svo ég reyni að malda í móinn. „Kannski … Nema hún sé sjálf mörg hundruð ára gömul. Kannski keypti hún hlutina þegar þeir voru nýir. Áður en þeir urðu rándýr antík.“ „Hvernig manneskja er mörg hundruð ára gömul?“
31 spyr Marius og hlær vandræðalega. „Meinarðu draugur eða eitthvað þannig?“ „Sérðu fleiri vísbendingar?“ spyr ég og vona að ég hafi ekki hrætt hann of mikið. Marius lítur í kringum sig. Svo gengur hann að bókahillu með nokkrum gömlum bókum. „Það er ekkert ryk á hillunum. Það þýðir að bækurnar eru lesnar reglulega. Bókakápurnar eru hins vegar orðnar gular og sjúskaðar. Þetta eru mjög gamlar bækur.“ „Já já, ég veit. Það er allt rosalega gamalt hér inni.“ „Nei, ekki allt,“ svarar Marius og gengur að litlum kertastjaka. „Sjáðu þetta sprittkerti. Það er í plasti. Sú sem býr hérna keypti kertin á þessari öld.“ „Einmitt,“ segi ég og reyni að sýnast áhugasöm. „Hún ætti nú að kaupa sprittkerti með áli, frekar en plasti. Það væri umhverfisvænna.“ „Eða bara sleppa kertunum alveg,“ svara ég. „Jú, eða það. En ál utan af þremur sprittkertum dugar í eina drykkjardós.“
32 „Vó … ertu viss?“ „Já, ég sá það á sýningu hjá Sorpu. Ef maður safnar saman áli utan af þúsund kertum er hægt að búa til reiðhjól úr álinu.“ Ég missi þráðinn og ákveð að leita að Hvæsa og koma mér út. Það er greinilegt að hér býr kona sem gæti komið heim hvenær sem er. Skyndilega heyri ég hljóð berast frá ganginum. „Heyrðirðu þetta?“ „Hvað … “ „Hlustaðu,“ segi ég og sussa á Marius.
33 ÚLFAKÖNGULÓIN mjá … Seinna mjálmið heyrist enn betur. Þetta er Hvæsi! Við Marius þjótum fram á gang en köttinn er hvergi að sjá. Gangurinn er bæði mannlaus og kattarlaus! Svo sjáum við nokkuð mjög undarlegt. „Voru þessar dyr ekki lokaðar áðan?“ spyr Marius hissa. „Jú … sjáðu!“ segi ég spennt. Fyrir innan rauðu hurðina glittir í bröndótt skottið á Hvæsa. Við göngum nær. Dyraopið er lítið og Marius þarf að beygja sig til að komast inn. MJ ÁÁÁ!
34 Við erum næstum dottin því fyrir framan okkur er ekki herbergi heldur brattur stigi. Tröppurnar liggja niður í dimman og kaldan kjallara. Ég sný mér við og sé stjarfan augnsvip Mariusar. Svo kveiki ég aftur á vasaljósinu í símanum. „Vá, sjáðu alla köngulóarvefina.“ Marius strýkur höndinni í gegnum hárið á sér og togar út klístraða hvíta þræði. „Vonum bara að þær séu ekki stórar …“ svara ég og held áfram niður stigann. „Köngulær á Íslandi eru aldrei stórar. Ekki eins og í Rúmeníu.“ „Hefurðu komið þangað?“ spyr ég hissa. Fólk sem ég þekki fer yfirleitt bara í ferðalög til Tenerife eða Danmerkur. „Ég er þaðan. Pabbi minn er sko rúmenskur. Við förum oft í heimsókn til ömmu í Rúmeníu.“ „Vá, kúl. Og hefurðu séð risastórar köngulær heima hjá henni?“ spyr ég um leið og við stígum úr neðstu tröppunni. Hvar er Hvæsi eiginlega?
35 Marius hlær. „Ekki heima hjá henni en úti í náttúrunni já. Stærsta köngulóin er stundum kölluð rúmenska tarantúlan en hún er ekki tarantúla. Hún er í raun úlfakönguló.“ Mér finnst nafnið úlfakönguló frekar ógeðslegt. Ég sé fyrir mér tunglsljós og ýlfrandi úlf með átta fætur. Allt í einu er eins og hárið hans Mariusar hreyfist. Ég lýsi símaljósinu í átt að andliti hans. Hann er með mikinn hárlubba, gróft og dökkt hár sem stendur í allar áttir. Ég hef þó aldrei séð hárlokkana hreyfast. Tveir þykkir hárlokkar teygja sig niður eftir enninu. „Hvað?“ spyr Marius og blæs upp, eins og til að feykja hárinu frá andlitinu. Hárlokkarnir halda áfram að hreyfast og svo bætist einn við. Svo annar! Allt í einu finnst mér ég sjá blika á svört augu í dökkum lubbanum. „Uuu … Þessar úlfaköngulær. Eru þær með röndóttar loðnar lappir og fjögur svört augu? „Já, einmitt. Svo þú hefur séð svoleiðis?“ spyr Marius og brosir.
36 „EKKI HREYFA ÞIG,“ segi ég ákveðin við Marius. Svo leita ég í vasanum að einhverju sem ég get notað. Ég dreg trélit upp úr vasanum og í einni snöggri hreyfingu sting ég trélitnum á bólakaf í hárið á Mariusi. Ég róta honum aðeins til og frá. Loks tekst mér að kippa köngulónni út. Hún skýst á gólfið og skríður inn í myrkrið. „Hvað ertu að gera?“ hrópar hann hissa.
37 „Það var risastór könguló í hárinu á þér. Þú hefur kannski tekið eina með þér frá ömmu þinni. Smyglað henni til landsins.“ Marius öskrar skrækum rómi. Hann klórar sér í höfðinu. Loks hefur hann fullvissað sig um að þar séu ekki fleiri köngulær. „Ég tók hana ekkert með mér frá Rúmeníu! Hún hlýtur að búa hér í þessu hræðilega húsi. Þú sást vefina!“ „Bættu þá rúmenskri könguló á vísbendinga- listann,“ svara ég annars hugar. Mig langar að finna Hvæsa og koma mér burt héðan. Það er ekki þægilegt að vera stödd í kjallara heima hjá ókunnugri konu. Einhvers staðar í myrkrinu leynist könguló í hefndarhug. Í kringum okkur eru dæmigerðir hlutir sem maður finnur í kjallara. Fullt af kössum, gömul þvottavél og stórir tómir rammar. Marius les upphátt það sem skrifað hefur verið á kassana. Ég er pínu pirruð að hann sé ekki að leita að Hvæsa en nenni ekki að skamma hann.
38 „Hei, Marta, hér er heill kassi með skikkjum. Og á þessum kassa stendur Ljósmyndir, 1826–1890. Skrítið,“ segir Marius og nuddar á sér hökuna. „Myndavélin var fundin upp aðeins tíu árum fyrr. Þessi kona er svaka safnari. Og þetta: Kertastjakar úr kastalanum. Hvaða kastala? Þetta er allt mjög dularfullt.“ „Já, svaka dularfullt,“ tek ég undir. Svo gægist ég á bak við þvottavélina. Enginn Hvæsi þar. Síminn minn pípir og sýnir 20% rafhlöðu. Vasaljósið tæmir rafhlöðuna hratt svo ég verð að vera snögg að finna köttinn áður en síminn deyr. „Hér er heill kassi merktur TANNKREM FYRIR AUGNTENNUR – en skrítið! Hver þarf sérstakt tannkrem …“ Allt í einu byrjar rödd Mariusar að skjálfa. „Marta, við ættum að fara. Hvað ef konan sem býr hérna er … “ Hátt þrusk heyrist úr einu horninu. Marius snarþagnar. Eitthvað loðið strýkst við fótinn á mér og svo sé ég Hvæsa stökkva upp stigann, þrjú þrep í einu.
39 EFRI HÆÐIN Ég gríp í Marius og toga hann upp tröppurnar. Þegar upp er komið sé ég Hvæsa á hlaupum í rauða stiganum sem liggur upp á efri hæðina. Aftur pípir síminn minn hátt. Rafhlaðan er alveg að klárast. „Ert þú með síma … þú veist, með vasaljósi?“ „Nei, ég á bara takkasíma. Marta … við verðum að fara. Ég held við … við séum … séum heima hjá vampíru.“ Ég bíð eftir að Marius segi djók og fari að hlæja. En það gerist ekki. Honum virðist fúlasta alvara. „Þú hefur geggjað ímyndunarafl,“ svara ég brosandi. Ég ætla að labba upp en Marius grípur í höndina á mér. „Hugsaðu málið Marta. Leðurblakan á útidyrunum, miðaldahúsgögn, eldgamlar ljósmyndir, könguló frá Rúmeníu og sérstakt tannkrem fyrir augntennur?
40 Vísbendingarnar benda allar til þess að hér búi vampíra.“ „Hvað hefur köngulóin frá Rúmeníu að gera með vampírur? Og síðan hvenær ert þú vampíruséní? Þú sem ert hræddur við hryllingsmyndir.“ „Þú veist hvaðan Drakúla kemur, er það ekki?“ spyr Marius og horfir hissa á mig. „Úr sjónvarpinu og bíómyndum. Hvað meinarðu?“ „Drakúla er frá Transylvaníu í Rúmeníu. Amma sagði mér söguna af honum þegar ég var lítill. En það eru til fleiri vampírusögur sem sumir segja að séu byggðar á sönnum atburðum. Margir Rúmenar halda að það séu enn til vampírur í dag. Fólk sem nærist á blóði annars fólks.“ „Bíddu, ha? Og hvað, trúir þú á vampírur?“ „Ég trúi ekki á þær en ég trúi því að þær geti verið til. Margir Íslendingar trúa á tilvist álfa, ekki satt? Þetta er eins.“ Mér finnst erfitt að springa ekki úr hlátri. Bullið sem vellur upp úr Mariusi er bara svo fyndið. Ég reyni samt að stilla mig.
41 „Marius slakaðu á. Vampíran er ekki heima núna og við sáum Hvæsa fara upp á efri hæðina. Svo nú skulum við sækja hann. Ókei?“ Marius hikar en samþykkir loks að fara með mér upp. Á veggnum hanga gamlar myndir í skrautlegum römmum. Við förum hægt upp og ég kemst ekki hjá því að virða myndirnar fyrir mér á leiðinni.
42 „Sjáðu bara,“ segir Marius og röddin skelfur. „Það eru vampírur á öllum myndunum!“ „Hvað með hestinn? Er hann líka vampíra?“ spyr ég og brosi. „Æ, Marius. Láttu ekki svona. Konan sem býr hérna hefur bara rosa mikinn áhuga á vampírum. Þess vegna safnar hún þessu drasli. Hættu að hafa áhyggjur.“ Þegar upp er komið mætir okkur skenkur með fjölmörgum kertastjökum. Í þeim eru rauð kerti. Bráðið kertavax hefur lekið niður á stjakana líkt og rauðir blóðdropar. Á skenknum er líka lítil silfurskál og ofan í henni örsmá askja. Ég opna öskjuna og brosi. „Jááá! Eldspýtur,“ segi ég sigri hrósandi. Í sama mund pípir síminn minn í síðasta skiptið áður en það slokknar á honum. Marius grípur í mig og nú stöndum við hönd í hönd í myrkrinu. „Slepptu,“ bið ég og reyni að losa höndina. „Af hverju?“ spyr Marius og kreistir fastar. „Slepptu bara, ég þarf að nota báðar hendur.“ „Ókei, fyrirgefðu,“ segir Marius vandræðalega.
43 Ég tek upp eldspýtu og strýk henni eftir einni hlið öskjunnar. Blossinn lýsir upp hendurnar á mér. Nú sé ég betur hvað ég er að gera. Þegar ég hef kveikt á tveimur háum kertum rétti ég Mariusi annan stjakann. Við svipumst um á ganginum í daufri skímunni frá kertaljósinu. Loks sé ég skottið á Hvæsa skjótast til hægri. „Þessa leið,“ skipa ég og Marius eltir hikandi. Þegar við komum fyrir hornið sé ég, mér til skelfingar, að Hvæsi er á hraðri leið upp á háaloft.
44 INNI Í KISTUNNI „Ég fer á undan,“ segi ég hughreystandi við Marius. Ef ég væri hérna ein væri ég eflaust mjög stressuð. Bara það að Marius sé hræddari en ég virðist gera mig enn hugrakkari. Þegar ég sting höfðinu upp í gegnum stigaopið finn ég ískulda mæta mér. Þetta háaloft er eins og frystiklefi. Ég finn gust í andlitinu og kertaljósið flöktir. „Ertu að koma?“ spyr ég og gægist niður á Marius. „Er engin vampíra þarna uppi?“ „Nei, auðvitað ekki. Komdu!“ Ég reisi mig við og held kertaljósinu frá mér til að lýsa upp háaloftið. Þetta er ósköp hefðbundið háaloft sýnist mér. Pappakassar og gömul húsgögn, eitthvað af svörtum ruslapokum. Köngulóavefirnir eru það hræðilegasta. „Kisi, kis … “ hvísla ég inn í myrkrið. Ég veit samt að það mun ekki virka. Hvæsi er ekki köttur sem kemur þegar kallað er á hann.
45 „Sérðu Hvæsa?“ spyr Marius lágt. „Nei. Sérð þú hann?“ spyr ég á móti og get ekki falið pirringinn í röddinni. „Ég sé … könguló.“ „Já, passaðu bara að bjóða henni ekki gistingu. Köngulærnar halda að hárið á þér sé hreiður.“ Það brakar í gólfinu. Þakið er úr gömlum og fúnum spýtum. Ég teygi mig upp í loft og finn að spýturnar eru hálf rakar viðkomu. Nema þetta sé bara kuldinn. Það er samt svo heitt úti og það hefur ekki rignt í marga daga. Undarlegt, hugsa ég með mér og beini kertinu upp í loftið til að lýsa betur. Marius grípur andann á lofti. Í einu horninu eru ótal lítil augu í myrkrinu. „Fleiri köngulær?“ spyr ég og reyni að virðast róleg. „Ma … Marta. Þetta eru leðurblökur!“ segir Marius og togar í mig. Í fyrsta sinn síðan við komum inn finn ég fyrir dálitlum ótta. Svo heyrum við lágt mjálm.
46 „Hvæsi,“ segi ég og lýsi í kringum mig. „Hvæsi, hvar ertu?“ Mjálmið virðist koma innan úr stórum dökkum kassa. “Þarna inni,“ segir Marius og rígheldur í mig. Fyrir framan okkur er langur kassi upp á rönd. Stórt trébox, frekar undarlegt í laginu. „Hvað ef þetta er kista. Svona vampírukista,“ spyr Marius stressaður. „Það er þá bara í stíl við allt hitt. Ég sagði þér það. Konan sem býr hérna safnar vampírudóti. Þetta gæti þess vegna verið úr hrekkjavökubúð. Hún hefur örugglega pantað þetta á netinu.“ Nú mjálmar Hvæsi enn hærra. Það fer ekki á milli mála að kötturinn minn er lokaður inni í vampírukistu. Lokið á kistunni er þakið þykkum köngulóarvefjum. Ég toga ermina á peysunni yfir höndina og teygi hana fram til að opna kistuna. Þurr mold hrynur fram á gólfið. Inni í kistunni sé ég Hvæsa. Hann malar makindalega í fanginu á … VAMPÍRU!
47
48 Marius sleppir af mér takinu og gerir sig líklegan til að hlaupa í burtu. Ég loka kistunni og sný mér við. „Marius! Þú mátt ekki fara! Ekki skilja mig eftir. Ég verð að taka köttinn minn. Vampíran er hvort eð er dauð. Eða steinsofandi.“ „Hvað ef hún vaknar?“ spyr hann og titrar af hræðslu. „Hún vaknar ekkert, við förum rosalega varlega.“ „Má ég ekki bara bíða niðri?“ Marius horfir biðjandi augum á mig og krossar sig í bak og fyrir. „Ég vildi að við værum með hvítlauk, eða hamar og meitil“ segir hann stressaður. „Við þurfum hvorki hvítlauk né vopn til að drepa vampíruna! Það eina sem ég þarf að gera er að ná Hvæsa úr fanginu á henni án þess að hún vakni.“ „Má ég allavega draga frá, þannig að sólin breyti vampírunni í ösku ef hún kemur út úr kistunni.“ „Það er enginn gluggi hérna Marius. Bíddu bara í tröppunum. Þá geturðu náð í hjálp ef hún vaknar.“
49 SKÆRGUL AUGU Ég toga ermina aftur fram yfir höndina og opna kistulokið. Hvæsi malar enn ánægjulega. Ég hef aldrei séð hann svona afslappaðan. Það er eins og honum líði virkilega vel hjá vampírunni. Betur en hjá okkur mömmu að minnsta kosti. Hann sem er alltaf með fastan grimmdarsvip á andlitinu er nú næstum brosandi. Kistan er klædd að innan með rauðu silki og virðist nokkuð þægileg. Sjálf vampíran er greinilega í fastasvefni. „Taktu hann bara“ hvíslar Marius frá stigaopinu. „Ég er alveg að fara að taka hann,“ hvísla ég á móti. „Ég ætla bara aðeins að skoða hana … “ „Skoða vampíruna?“ spyr Marius hneykslaður. „Heyrðu, Marius! Hversu oft á ævinni sér maður alvöru vampíru!? Ég er bara að leggja hana á minnið.“
50 „Viltu ekki bara taka mynd?“ hvíslar Marius enn hærra. „Ég get það ekki. Síminn minn er dauður!“ Hár vampírunnar er dökkgrænt og liðað. Klippingin minnir mig á hárið hennar Völu í hinum bekknum. Ég verð að muna að segja Völu frá hári vampírunnar. Húðin er furðu föl, næstum blágrá. Sem er kannski ekki skrítið. Hún er líklega ekki með eðlilegt blóðstreymi um líkamann. Varirnar eru vínrauðar, í stíl við kuflinn. Undan hárinu stingast uppmjó eyru. „Hei, Marius, eyrun eru alveg eins og á álfi!“ „Viltu gjöra svo vel að taka köttinn og koma,“ segir Marius og er hættur að hvísla. Ég horfi á Hvæsa og veit ekkert hvernig ég ætla að ná honum. Önnur hönd vampírunnar heldur undir Hvæsa. Hin höndin liggur ofan á honum. Neglur vampírunnar eru langar og glansandi með rauðu naglalakki. Þær minna þó frekar á klær en fallegar neglur. Ég anda djúpt og legg kertastjakann frá mér á gólfið. Svo teygi ég fram hendurnar. Fyrst leyfi ég
51 Hvæsa að þefa af mér. Þetta fer illa ef hann kippist við. Kötturinn er enn rólegur svo ég smeygi annarri höndinni undir hann. Ókei. Ég get þetta, hugsa ég og dreg hann hægt að mér. Allt í einu hvæsir kötturinn hátt og læsir klónum í mig. Um leið sé ég að vampíran glennir upp augun. Undir augnlokunum leynast skærgul augu sem læsast á mér. „MARTA! Komdu!“ hrópar Marius æstur. Ég reyni að kippa Hvæsa til mín. En vampíran ætlar ekki að sleppa kettinum. Hún starir á mig og glottir. Það glansar á beittar augntennurnar í daufu kertaljósinu. „Sæl … frú vampíra,“ segi ég hikandi röddu. Mamma hefur lengi reynt að segja mér að kurteisi sé besta vopnið. Með því að vera kurteis komist ég langt í lífinu. Það sakar ekki að reyna það núna. „Má … má ég fá köttinn minn?“
52
53 BEIT HANN ÞIG? Í dágóða stund líður mér eins og við séum í störukeppni. Ég og vampíran. Hún svarar engu en starir bara beint í augun á mér. Jafnvel þótt ég reyni það get ég hreinlega ekki hreyft mig. Ég er dofin í fótunum og get ekki einu sinni litið undan. Gulu augun hennar eru næstum logandi eins og kertalogi. Svartir augasteinarnir þenjast út og dragast saman til skiptis. Mér finnst augun hennar svo … falleg. „Marta á ég að sækja hjálp … Marta?“ spyr Marius hræddur. Ég get ekki svarað honum. Það er eins og ég sé dáleidd. Algjörlega á valdi vampírunnar. Þegar hún opnar munninn sé ég tennurnar enn betur. Þær eru skjannahvítar og flugbeittar. „Sæl Marta. Ég heiti Carmilla,“ segir vampíran og brosir.
54 Loksins blikkar hún augunum. Ég nýti tækifærið og slít augun af henni. Um leið er eins og doðinn gufi upp. Mér líður aftur eins og venjulega. Ég lít framan í hana en gæti þess að horfa ekki beint í augun á henni. Þess í stað horfi ég ýmist á rennislétt ennið eða fíngert nefið. „Hæ … hérna … Má ég fá köttinn minn?“ Mér að óvörum réttir Carmilla hendurnar fram og lætur mig fá Hvæsa. Hann er hins vegar ekki ánægður. Hann brýst um og klórar mig. Svo stekkur hann til baka, beint í fang Carmillu. „Oh, Hvæsi,“ segi ég vonsvikin. „Af hverju lætur hann svona?“ „Honum líður vel hjá mér,“ segir Carmilla glottandi. „Við eigum ýmislegt sameiginlegt.“ Forvitni mín er vakin. Hún hefur greinilega ekki neitt illt í huga. Annars væri hún löngu búin að bíta mig eða reka okkur í burtu „Ertu vampíra í alvörunni?“ hrekkur upp úr mér. „Marta!“ mótmælir Marius og tvístígur í tröppunum.
55 „Má ég ekki spyrja?“ segi ég og lít aftur í átt að Carmillu. Hún snýr sér að Mariusi og horfir beint í augun á honum. „Komdu nær vinur, ekki vera hræddur.“ Ég sé hvernig Marius gengur til okkar með augun límd á Carmillu. Það er eins og hann sé ekkert hræddur. „Varstu að dáleiða Marius?“ spyr ég vampíruna ásakandi. „Bara smávegis, svo hann slaki á. Hann var eitthvað svo skelkaður drengurinn. Marius segirðu að hann heiti. Það er ekki íslenskt nafn eða hvað?“ „Nei,“ svarar Marius óhræddur. „Það er rúmenskt.“ „Nú, nú? Ég átti einu sinni rúmenskan vin, Vlad Tepes. Hann er nú óttalegt flón. Þið kannist kannski betur við hann sem Drakúla. Það þýðir litli dreki. Frekar hallærislegt nafn ef þið spyrjið mig.“ „Þekktirðu Drakúla?“ spyr ég og get ekki falið aðdáunina í röddinni.
56 „Já og þekki enn. Hann sendir mér reglulega vinabeiðni á Facebook. Ég samþykki hann nú aldrei. Svo skrifar hann mér tölvupósta. Hann er alltaf voða skotinn í mér greyið. Ég hef bara engan áhuga. Hann á erfitt með að skilja það. Eflaust eitthvað tregur. Orðinn lúinn elsku kallinn. Samt er hann yngri en ég! Merkilegt hvað við eldumst misvel, bæði mannfólk og vampírur.“ Ég er með svo margar spurningar að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Tölvupóstur? Facebook? Alvöru vampíra sem þekkir Drakúla! Drekkur hún blóð eins og hann? Ég ætla að spyrja hana meira út í Drakúla en Marius er fyrri til. „Ert þú frá Rúmeníu? Eins og Drakúla? Eins og ég?“ Það vottar fyrir gleði í augum Mariusar. Eins og hann hafi hitt framandi frænku. „Nei, reyndar ekki,“ svarar Carmilla. „En ég bjó þar í nokkur ár, skömmu áður en ég kom hingað. Ég er upprunalega frá Styríu í Austurríki.“ Carmilla stígur út úr kistunni og stappar af sér mold. „Hvað er málið með moldina?“ spyr ég og klóra mér í höfðinu.
57 „Ég veit!“ segir Marius. „Þetta er mold úr heimalandinu, er það ekki?“ „Jú, rétt hjá þér drengur. Fósturjörðin er með mér, hvar sem ég sef. Komið hingað kæru börn, fáið ykkur sæti.“ Carmilla sest niður í gamlan sófa. Hvæsi kemur sér betur fyrir í fanginu á henni. Rykið þyrlast upp en við þorum ekki annað en að setjast. „Breytti Drakúla þér í vampíru? Þú veist, beit hann þig?“ spyr ég, spennt að komast að.
58 Carmilla hvessir á mig augun og virðist mjög móðguð. „Æi. Getum við ekki talað um eitthvað annað en þennan spjátrung. Hann er alls ekki merkilegasta vampíran þótt hann sé kannski frægastur.“ „Ókei,“ segi ég og hugsa. „Af hverju fluttirðu til Íslands?“ Carmilla strýkur Hvæsa sem malar ánægjulega. „Þetta er betri spurning. Mig langaði að sjá heiminn svo ég kvaddi heimahagana í Austurríki. Síðan þá hef ég búið víða, til dæmis Bretlandi, Sri Lanka, Kongó, Rúmeníu og Danmörku. Loks valdi ég Ísland út af löngu vetrunum hér. Það er svo notalegt að þurfa ekki að hafa áhyggjur af sólarljósi í marga mánuði. Veturnir eru dýrðlegir. Á sumrin leggst ég hins vegar í dvala. Ég var rétt nýsofnuð þegar þið vöktuð mig. Hafði varla sofið nema í sjö daga. Yfirleitt get ég sofið allt sumarið án þess að fá máltíð.“ „Máltíð?“ spyr ég en sé strax eftir því. Ég er ekki viss um að ég vilji heyra svarið.
59 „Já, þú hlýtur að vita um hvað ég er að tala stelpa,“ segir Carmilla og skýtur gulu augunum beint á mig. „Er öðruvísi bragð af blóði Íslendinga?“ spyr Marius kjarkaður. Hann er greinilega enn undir áhrifum Carmillu og krafta hennar. „Iss. Ég er löngu hætt að nenna að veiða mannfólk. Fólk vælir bara og grenjar. Tuðar eitthvað um fjölskylduna og segist ekki vilja deyja. Ég er orðin svo ljúf í ellinni. Hef þetta ekki lengur í mér.“ Marius virðist steinhissa. „En hvað borðarðu þá?“ „Ég drekk enn þá mannablóð. Við skulum bara segja að ég hafi mínar leiðir.“ Carmilla lítur á mig og virðist mæla mig út. Svo læsir hún augun á hálsinn á mér og sleikir út um.
60 ÍSKALDA HÖNDIN „Engar áhyggjur vina,“ segir Carmilla þegar hún sér óttablandinn svip á andlitinu á mér. „Ég er ekki enn orðin svöng. Ykkur ætti að vera óhætt.“ Allt þetta tal um mat veldur því að garnirnar í mér gaula. Ég finn að ég verð að skipta um umræðuefni áður en Carmilla finnur líka fyrir hungri.“ „Eru þetta líka vampírur?“ spyr ég og bendi á leðurblökur í loftinu. „Hah, nei! Þetta eru nú bara nokkur kríli sem fylgdu mér frá Rúmeníu. Við vampírurnar erum ekki mikið fyrir að breyta okkur í leðurblökur. Það er helst Drakúla. Hann vill alltaf vera svo spes. Sjálf breyti ég mér í kött, svona þegar þörf er á. Kettir eru svo tignarlegir. Svo vitrir og sjálfstæðir.“ Carmilla horfir niður á Hvæsa sem malar og nuddar trýninu í lófann á henni. „Þið verðið að afsaka hvað ég er lélegur gestgjafi.
61 Ég fæ aldrei fólk … í heimsókn. Fer ágætlega um ykkur?“ Carmilla strýkur beinaberum höndunum yfir slitinn og rykugan sófann. „Já, já, mjög vel. Hvenær komstu til Íslands?“ spyr Marius rólegur, enn undir álögum dáleiðslunnar. „Það er nokkuð langt síðan, rúm hundrað ár eða svo“ svarar Carmilla brosandi. „Ég var stödd í veislu í kastala Kristjáns tíunda Danakonungs. Þegar fólkið hætti loks að dansa heyrði ég konunginn tala við nokkra vini sína. Hann lýsti Íslandi sem skelfilega dimmu og köldu skeri. Svo sagði hann að margir hefðu veikst og dáið Frostaveturinn mikla fyrr sama ár. Þá sperrti ég aldeilis eyrun. Konungurinn sagði að strax næsta morgun ætti skip að sigla til Íslands með mikilvæga pappíra. Ísland ætti að verða fullvalda þjóð og sjá um sig sjálf. Ég breytti mér umsvifalaust í svartan kött og hljóp af stað niður á bryggju. Ég fann skipið, stökk um borð og kom mér fyrir. Undir þiljum auðvitað, svo morgunsólin fyndi mig ekki. Nokkrum dögum síðar var ég komin í höfn, til þessa dásamlega dimma lands.“ „Varstu köttur allan tímann?“ spyr ég hissa.
62 „Já. Það er ekki auðvelt en við vampírurnar getum verið í dýraham í nokkrar vikur. Það var þægilegra að ferðast þannig. Ég gat gengið um án þess að vekja grunsemdir. Það kippti sér enginn upp við að sjá mig á vappi. Kettir voru oft hluti af áhöfnum í gamla daga. Þeir sáu um að halda skipinu hreinu af músum og rottum. Ég lét þær reyndar eiga sig. Nagdýrablóð er svo óspennandi. Svo lítið magn í hverju dýri sjáiði til.“ „En … hvað varstu gömul árið 1918?“ spyr Marius forvitinn. Mér finnst merkilegt hvað Marius veit margt. Eins og það hvaða ár Frostaveturinn mikli var og hvenær Ísland fékk fullveldi. Þetta er líka góð spurning. Carmilla virkar yngri en mamma mín. Hún hefur ekki eina einustu hrukku í andlitinu. „Það gilda ekki sömu reglur um vampírur eins og ykkur mannfólkið,“ segir Carmilla ákveðin. Hún strýkur ískaldri hönd niður eftir kinninni á mér. „Þið fæðist krumpuð og ef þið eruð heppin þá verðið þið krumpuð aftur, áður en þið deyið. Skynsamlegast væri að fagna þessum fallegu krumpum. Þær merkja að þið hafið lifað lengi,
63 elskað, grátið og hlegið. En þið mannverurnar eruð kjánar. Þið reynið að þurrka krumpurnar burt með alls konar kremum. Stroka lífið burt úr andlitinu.“ Mér finnst eins og röddin í Carmillu bresti. Ef hún gæti grátið myndu einmitt núna leka tár niður kinnarnar. En ekkert kemur. „Við hvað vinnurðu?“ spyr Marius allt í einu, eins og til að létta stemninguna. „Ó, elsku drengur. Þú spyrð svo skemmtilegra spurninga,“ segir Carmilla og brosir. „Fljótlega eftir að ég kom til landsins fékk ég vinnu í kirkjugarði. Þar starfa ég sem næturvörður á veturna. Þetta er fínasta starf. Launin duga fyrir nauðsynjum og félagsskapurinn er fínn.“ „Eru margir að vinna þar á nóttunni?“ spyr Marius hissa. „Nei, bara ég,“ svarar Carmilla. „En, þú sagðir að félagsskapurinn … “ byrjar Marius en svo er eins og hann átti sig. „Mesta fjörið í kirkjugörðum er upp úr miðnætti. Það getur oft orðið mjög glatt á hjalla.“
64 Carmilla blikkar okkur og stendur upp. Hún leggur Hvæsa í fangið á mér. Loks er kötturinn orðinn rólegur og mótmælir ekki nýju fangi. Vampíran teygir úr sér og lætur braka hátt í hálsinum. Um leið og hún snýr sér frá Mariusi rofna álögin. Hann grípur hræddur í höndina á mér. Ég tek fyrir munninn á honum svo hann öskri ekki af skelfingu. „Passaðu þig bara að horfa ekki beint í augun á henni,“ hvísla ég lágt. Marius kinkar kolli og ég losa höndina frá munni hans. Við fylgjumst með Carmillu sækja lítinn kúst og fægiskóflu í eitt horn háaloftsins. Svo hefst hún handa við að sópa moldinni aftur upp í kistubotninn. Við Marius stöndum hægt og rólega upp af sófanum. Skref fyrir skref fikrum við okkur nær opinu. Ef við náum þangað eigum við kannski möguleika á að komast niður tröppurnar óséð. Skyndilega snýr Carmilla sér við og starir beint á okkur. „Hvað segiði krakkar, viljiði kannski vera í mat?“
65 Við Marius lítum hvort á annað. Hann sleppir ekki takinu af hönd minni og kreistir nú lófann svo fast að mig verkjar. Ég á í mestu vandræðum með að halda á Hvæsa með annarri hendinni. „Viljum við vera í mat … eða viljum við vera í matinn?“ spyr ég hikandi. Carmilla hlær, fyrst lágum og dimmum rómi, svo hærra. Hún hlær svo hátt að leðurblökurnar vakna. Þær slá vængjunum svo það smellur í glansandi feldinum. Leðurblökurnar slíta sig frá loftinu og fljúga hringi í kringum Carmillu. Vængjasláttur og tryllingslegur hlátur vampírunnar fylla háaloftið. Marius sleppir höndinni á mér og hleypur í ofboði niður tröppurnar. Ég brölti niður eins hratt og ég get en mér dauðbregður þegar ég sé hvað bíður okkar í síðustu tröppunni.
66 ÍSSKÁPURINN „Hve … Hve … Hvernig komstu hingað niður?“ stamar Marius. Fyrir framan okkur stendur Carmilla með krosslagðar hendur. „Mundu Marius. Ekki horfa í augun á henni“ hvísla ég að honum og toga hann til mín. Ég þarf að halda ró minni og koma okkur á neðri hæðina. Nær útidyrunum. „Þú varst eitthvað að tala um mat … Hvar er eldhúsið?“ spyr ég og reyni að hljóma óhrædd. „Einmitt. Ég heyrði garnagaulið í þér áðan. Og vesalings drengurinn lítur út fyrir að hafa ekkert borðað í allan dag. Hann er svo sljór og slappur til augnanna. Fylgið mér.“ Um leið og Carmilla færist nær skenknum kviknar sjálfkrafa á hverju einasta kerti og gangurinn lýsist upp. Síð skikkjan hefur þau áhrif að það er líkt og
67 Carmilla svífi niður rauðklædda stigann á neðri hæðina. Þegar niður er komið birtist logi á hverju kerti og húsið er baðað gulri birtu. Carmilla stansar við svörtu hurðina, þá einu sem við áttum eftir að fara inn um. Hún ýtir henni upp og horfir á okkur Marius. „Á eftir ykkur börnin góð.“ Nú eru góð ráð dýr. Útidyrnar eru næstum í seilingarfjarlægð. Við þurfum bara að hlaupa gegnum anddyrið og þá erum við frjáls. Ég finn að Marius er að hugsa það sama því hann mjakar sér hægt og rólega nær anddyrinu. „Enga vitleysu krakkar mínir. Þið fúlsið ekki við matarboði,“ segir Carmilla. Svo þýtur hún á ljóshraða og heldur höndunum út eins og til að koma í veg fyrir að við förum. „Þessa leið kjánar.“ Carmilla stjakar við okkur með kræklóttum fingrum alla leið að eldhúshurðinni. Í eldhúsinu kviknar strax á nokkrum kertum. Carmilla ýtir okkur niður á harðan bekk. Við vegginn stendur tvöfaldur ísskápur. Hvað gæti vampíra þurft að kæla? hugsa ég með mér og
68 naga á mér neðri vörina. Marius hefur líklega smitað mig af hræðslunni. Ég sem hélt ég væri ekki hrædd við neitt. Carmilla opnar ísskápinn með snöggri hreyfingu. Í hverri hillu ísskápsins eru gegnsæir pokar, fullir af blóði. „Sjáðu Marius,“ segi ég og anda léttar. „Hún þarf ekki að drekka blóðið úr okkur. Hún á fullan ísskáp!“ „Já, elskan mín góða. Ég er með góð sambönd í blóðbönkum víða um heim. Þeir senda mér afgangsblóð, það sem sleppur ekki í gegnum skimun. Hér er til dæmis franskt blóð. Þetta þykir mjög fínn árgangur.“ Carmilla lyftir upp einum pokanum. „En ég get víst ekki boðið ykkur þetta. Nei, það dugar ekki. Mannabörn vilja pítsur eða pylsur, hamborgara og þannig lagað.“
69 „Við þurfum ekki neitt …“ byrja ég en Carmilla stöðvar mig. „Engar áhyggjur, við pöntum bara á netinu. Skemmtilegt þetta internet, það er hægt að panta allan fjandann.“ Carmilla heldur enn á blóðpokanum á meðan hún dregur upp síma. Hún pikkar eitthvað inn með bognum þumalfingrinum. „Svona, ekki lengi gert. Ein margaríta á leiðinni.“ Það hvarflar að mér að líklega sé þetta skrítnasti dagur sem ég hef lifað. Ég vona bara að þetta verði ekki sá síðasti. Carmilla veltir pokanum í höndum sér. „Skrítið. Ég sem hélt að ég yrði ekki svöng fyrr en í haust. Nú gæti ég alveg hugsað mér nokkra dropa. Verst hvað þetta blóð er orðið gamalt.“ Carmilla skýtur augunum á mig. Marius er staðinn upp og farinn að tvístíga um gólfið eins og hann gerir þegar hann er stressaður. Hvæsi bærir á sér í fanginu mínu en er samt nokkuð rólegur miðað við aðstæður.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=