Hér býr umskiptingur

Umskiptingar koma fyrir í þjóðsögum, bæði íslenskum og erlendum. Í sögunum taka foreldrar eftir því að barnið þeirra verður allt í einu mjög óþægt. Barnið hagar sér svo illa að foreldrarnir þekkja það varla og halda að eina útskýringin sé að einhver hafi tekið barnið þeirra og sett umskipting í staðinn. Í flestum sögum er umskiptingurinn gamall álfur. Til þess að fá barnið aftur dugar ekkert minna en að hýða (rassskella) umskiptinginn duglega. Sumir telja að sögunum hafi verið ætlað að hræða foreldra til að sinna uppeldi barnanna sinna betur. Í sögunni Átján barna faðir í álfheimum er þriggja ára barn skilið eftir eitt heima á bænum og þannig tekst álfkonunni að taka það og skilja karlinn sinn eftir í staðinn. Mörgum þjóðsögum og ævintýrum er ætlað að fá fólk til að passa sig. Sagan um Rauðhettu á til dæmis að hvetja börn til að gæta sín á ókunnugum og fara eftir fyrirmælum foreldra sinna. Í gamla daga þótti fólki ekkert að því að rassskella börn ef þau hlýddu ekki. Þá var líka lítil sem engin þekking á alls kyns eiginleikum, skerðingum, fötlunum og röskunum sem gætu útskýrt hegðunarvanda. En af því að enginn vissi hvað það var fannst fólki líklegra að álfur hefði tekið barnið þeirra og sett umskipting í staðinn. Í dag vitum við betur og skiljum að börn eru jafn ólík og þau eru mörg. Við vitum líka að þegar barn hagar sér illa er það oft af því að barninu líður illa. Líðan hefur mikil áhrif á hegðun og besta leiðin er að vera til staðar fyrir barnið og hjálpa því í gegnum tilfinningarnar, frekar en að rassskella og skamma það. Það er aldrei í lagi að beita börn ofbeldi eða koma illa fram við þau. Þrátt fyrir að fólk viti betur gera fullorðnir samt oft mistök og þurfa gjarnan hjálp til að vanda sig betur. Ýmsir aðilar passa upp á réttindi barna og gera sitt besta til að börn þurfi ekki að búa við ofbeldi. Ef einhver er vondur við þig eða barn sem þú þekkir er best að hringja í 112 eða senda skilaboð í gegnum vefsíðuna Barnaheill.is. Kveðja, Bergrún Íris HVAÐAN KOM SAGAN?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=