Hér býr umskiptingur

BERGRÚN ÍRIS SÆVARSDÓTTIR ARÚÐ – VARÚÐ – VARÚ

Umskiptingar koma fyrir í þjóðsögum, bæði íslenskum og erlendum. Í sögunum taka foreldrar eftir því að barnið þeirra verður allt í einu mjög óþægt. Barnið hagar sér svo illa að foreldrarnir þekkja það varla og halda að eina útskýringin sé að einhver hafi tekið barnið þeirra og sett umskipting í staðinn. Í flestum sögum er umskiptingurinn gamall álfur. Til þess að fá barnið aftur dugar ekkert minna en að hýða (rassskella) umskiptinginn duglega. Sumir telja að sögunum hafi verið ætlað að hræða foreldra til að sinna uppeldi barnanna sinna betur. Í sögunni Átján barna faðir í álfheimum er þriggja ára barn skilið eftir eitt heima á bænum og þannig tekst álfkonunni að taka það og skilja karlinn sinn eftir í staðinn. Mörgum þjóðsögum og ævintýrum er ætlað að fá fólk til að passa sig. Sagan um Rauðhettu á til dæmis að hvetja börn til að gæta sín á ókunnugum og fara eftir fyrirmælum foreldra sinna. Í gamla daga þótti fólki ekkert að því að rassskella börn ef þau hlýddu ekki. Þá var líka lítil sem engin þekking á alls kyns eiginleikum, skerðingum, fötlunum og röskunum sem gætu útskýrt hegðunarvanda. En af því að enginn vissi hvað það var fannst fólki líklegra að álfur hefði tekið barnið þeirra og sett umskipting í staðinn. Í dag vitum við betur og skiljum að börn eru jafn ólík og þau eru mörg. Við vitum líka að þegar barn hagar sér illa er það oft af því að barninu líður illa. Líðan hefur mikil áhrif á hegðun og besta leiðin er að vera til staðar fyrir barnið og hjálpa því í gegnum tilfinningarnar, frekar en að rassskella og skamma það. Það er aldrei í lagi að beita börn ofbeldi eða koma illa fram við þau. Þrátt fyrir að fólk viti betur gera fullorðnir samt oft mistök og þurfa gjarnan hjálp til að vanda sig betur. Ýmsir aðilar passa upp á réttindi barna og gera sitt besta til að börn þurfi ekki að búa við ofbeldi. Ef einhver er vondur við þig eða barn sem þú þekkir er best að hringja í 112 eða senda skilaboð í gegnum vefsíðuna Barnaheill.is. Kveðja, Bergrún Íris HVAÐAN KOM SAGAN?

VARÚÐ HÉR BÝR UMSKIPTINGUR Bergrún Íris Sævarsdóttir

VARÚÐ, HÉR BÝR UMSKIPTINGUR ISBN 978-9979-0-2863-5 © 2023 Bergrún Íris Sævarsdóttir © 2023 Teikningar: Bergrún Íris Sævarsdóttir Ritstjóri: Sigríður Wöhler Yfirlestur og álit: Andri Már Sigurðsson ritstjóri Málfarsyfirlestur: Ingólfur Steinsson 1. útgáfa 2023 Menntamálastofnun Kópavogi Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Prentmiðlun ehf/ Lettland Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, án skriflegs leyfis höfundar, myndhöfundar og útgefanda.

Persónur 4 Við rúllum þessu upp 7 Hráar lummur 11 Loksins eitthvað ætt 17 Er unglingaveiki smitandi? 20 Eins og Lína langsokkur 25 Hvað þýðir þetta? 30 Heimsins besta draugafæla 34 Röddin í klettinum 41 Eins og á bolludaginn 46 Ísbláu augun 51 Nafn mitt er … 56 Bara í þykjustunni 61 Mér er drullusama 64 Slímugt skötuvatn 69 EFNISYFIRLIT

4 PERSÓNUR MARIUS Marius er jákvæður og brosmildur lestrarhestur. Hann er kurteis, ljúfur og frábær stóri bróðir. MARTA Marta er utan við sig og verulega óþolinmóð. Henni leiðist lærdómur, nema þegar hún vinnur hópverkefni með Mariusi. Marta er hugrökk og lætur ekkert stoppa sig. ÞÓR Þór er fjögurra ára orkubolti og ofurkrútt. Hann lítur mikið upp til Mariusar, stóra bróður síns en vill ekki alltaf hlýða honum.

5 HVÆSI Hvæsi er klikkaður köttur sem kemur Mariusi og Mörtu í eintóm vandræði. Hann er með hvassar tennur og stingandi gul augu sem virðast geyma hættuleg leyndarmál. ÁLFARNIR Hjónin Álfdís og Álfmundur eiga átján börn en langar í eitt í viðbót. Helst langar þau í hjálpsaman ungling sem getur aðstoðað þau með yngri börnin. LÁRA Lára er mamma Mörtu. Hún er morgunfúl en hressist strax eftir fyrsta kaffibollann. Lára kann vel við Marius, besta vin Mörtu, enda er hann mjög indæll drengur.

6

7 VIÐ RÚLLUM ÞESSU UPP „Enn eitt verkefnið. Ég nenni þessu engan veginn,“ dæsi ég þreytt. Ég loka bókinni og treð henni ofan í skólatösku. Taskan er full af nestisboxum og krumpuðum verkefnum. „Hugsaðu jákvætt, Marta, það er léttara.“ Marius brosir þegar hann sleppir orðinu. Ég þoli ekki hvað hann er alltaf jákvæður. Það getur ekki verið heilbrigt að brosa svona mikið. Munnvikin teygja sig hátt upp undir augu. Einn daginn hlýtur andlit Mariusar að festast í risastóru jóker-brosi. „Þetta verður mjög skemmtilegt verkefni, Marta. Við megum meira að segja velja okkur þjóðsögu! Ég á sko íslenskar þjóðsögur í sex bindum!“ Ég ranghvolfi augunum ósjálfrátt. Gat skeð að Marius væri sérfræðingur í þjóðsögum, eins og flestu öðru. Það eina sem hann er lélegur í er að vera snöggur út eftir skóla.

8 „Komdu, Marius. Tíminn er löngu búinn,“ segi ég óþolinmóð. Ég bíð á meðan hann gengur frá eftir sig og raðar bókum og blöðum í snyrtilegan stafla. Í skólatösku Mariusar eru engin úldin epli eða blautir vettlingar. Þar er allt snyrtilega flokkað, strokið og fínt. Bækur Mariusar hafa ekki eina einustu krumpu. Samt hefur hann lesið þær allar, spjaldanna á milli. Ég skil ekki hvernig hann hefur tíma til að hafa allt í röð og reglu. Herbergið hans er eins og bókasafn og það er ekki einu sinni ryk í hillunum. Mamma setti bókahillu í herbergið mitt fyrir nokkrum árum. Þangað fara bækurnar sem ég fæ í jólagjöf. Hillan og bækurnar eru gráar af ryki enda les ég frekar lítið. Reyndar vildi ég oft óska að ég hefði gaman af því að lesa. Stundum langar mig að lesa vinsælu jólabækurnar. Ég verð bara svo ringluð. Stafirnir dansa á síðunni og ég skil ekki löngu orðin. Stundum held ég að rithöfundar noti löng orð bara til að fylla upp í fleiri blaðsíður. Ætli þeir fái borgað fyrir hverja blaðsíðu? hugsa ég með mér.

9 Allt í einu átta ég mig á því að ég hef staðið yfir Mariusi í margar mínútur. Mig langar að komast út, enda fáránlegt að vera lengur í skólanum en ég þarf. „Drífðu þig!“ segi ég við Marius. „Ég kem eftir smá stund,“ svarar hann. „En fyrst ætla ég að bjóða kennaranum aðstoð við að sópa gólfið.“ Ég fórna höndum og gefst upp á biðinni. Svo hleyp ég út á skólalóð, illa klædd eins og venjulega. Ég hef týnt sjö húfum það sem af er skólaárinu en mér er alveg sama. Ég elska að finna vindinn feykja hárinu til og frá. Loks skilar Marius sér út á skólalóðina. „Mikið var,“ segi ég og geng af stað heim á leið. Við Marius erum alltaf samferða heim. Hann á reyndar oft í vandræðum með að halda í við mig. Ég hleyp hraðar en allir í skólanum eða að minnsta kosti flestir. Marius er meira fyrir hægan takt. Hann vill taka eftir blómunum og umhverfinu. Við komum að blokk Mariusar. Hann býr á fimmtu hæð í rauðu blokkinni á horninu. Marius býr með foreldrum sínum og Þór litla bróður sínum. Foreldrar þeirra eru mikið í vinnunni og Marius hjálpar þeim

10 að passa Þór á meðan þau eru í burtu. Þór situr úti í glugga og veifar til okkar. Hann er bara fjögurra ára og ætti ekki að príla uppi í gluggakistunni. Þór ræður bara ekki alltaf við orkuna í sér. „Sjáumst við á morgun?“ spyr Marius. „Já, við verðum að vinna hópverkefnið,“ segi ég. „Ég kem með bækurnar. Engar áhyggjur. Við rúllum þessu upp.“ Marius kveður með bros á vör en ég er ekki jafn bjartsýn og hann. Ég veit samt að með góðri hjálp Mariusar get ég gert flest. Meira að segja hrút-leiðinleg hópverkefni um íslenskar þjóðsögur.

11 HRÁAR LUMMUR Ég vakna ekki fyrr en klukkan tíu morguninn eftir. Marius er ekki enn kominn. Það er mjög óvanalegt enda er hann mesti morgunhani sem ég þekki. Hvæsi stekkur upp í rúmið mitt og hringar sig saman til fóta. Ég lít á símann en Marius hefur ekki hringt. Ég staulast fram í eldhús og sæki mér morgunkorn í skál. Svo sest ég á eldhúsbekkinn og skófla í mig. Það er enn heilmikil mjólk eftir þegar ég klára úr skálinni svo ég fæ mér ábót. Ef ég fengi að ráða væri morgunkorn í öll mál. Já, og grillaðar samlokur. Ég elska grillaðar samlokur með miklum osti. Mamma sagði að ég mætti bara setja tvær ostsneiðar, því hann kosti svo mikið. Svo bjó ég einu sinni til almennilega samloku handa henni og þá skipti hún um skoðun. Ég klára úr skálinni og set hana í vaskinn. Reyndar missi ég hana í vaskinn svo það glamrar í glösum og hnífapörum.

12 „Beint í vélina, elskan,“ segir mamma allt í einu. Hún stendur úfin fyrir framan mig og nuddar stírurnar úr augunum. Mömmu þykir gott að sofa út en hefur greinilega vaknað við lætin í mér. „Hvar er Marius okkar?“ spyr hún og teygir úr sér. „Ekki kominn,“ svara ég og sé að mamma er hissa. „Nú, það er skrítið. Ég var að hugsa um að skella í lummur og eggjahræru. Hann vill kannski borða með okkur.“ Ég segi aldrei nei við tvöföldum morgunverði, sérstaklega ekki þegar lummur eru annars vegar. Mömmu finnst mjög gaman að elda fyrir Marius því hann er svo kurteis. Hann gengur alltaf frá eftir sig, beint í uppþvottavélina. Svo býðst hann líka til að hjálpa og þurrka af. Ég veit að mamma elskar mig en stundum held ég að hún myndi skipta mér út, ef það væri í boði að ættleiða Marius. Viltu ekki hringja í hann?“ spyr mamma, greinilega spennt að fá draumadrenginn í heimsókn. Ég teygi mig í símann og hringi í Marius sem svarar eftir nokkra bið.

13 „Huh,“ rymur í honum. „Hæ … uuu … ertu að koma?“ „Ugh,“ svarar Marius, jafn hranalega og fyrr. „Mamma er að baka lummur. Sjáumst við eftir smá?“ segi ég með spurnartón í röddinni. Ég fæ þó ekki svar því Marius hefur skellt á. Undarlegt, hugsa ég og klóra mér í höfðinu. Hann hlýtur að hafa sofið yfir sig. Tuttugu mínútum síðar er barið fast á hurðina. Hvæsa bregður við lætin og flýr undir sófa. Þegar ég kem til dyra stendur Marius illa til reika fyrir framan mig. Hárið er úfnara en vanalega og hann er með bauga undir augunum. Svo heilsar hann ekki heldur gengur rakleitt inn og sparkar af sér skónum. „Sæll, Marius minn,“ kallar mamma innan úr eldhúsinu. Marius rymur eitthvað óskiljanlegt og hlammar sér á sófann. Svo gerir hann nokkuð mjög skrítið. Hann lyftir fótunum upp á sófaborðið og hallar sér aftur. Sjálf hef ég fæturna oft upp á borði. Ég hef hins

14 vegar aldrei séð Marius haga sér svona. Mamma tekur ekki eftir því sem á sér stað inni í stofu. Til þess er hún of önnum kafin við að steikja lummur. Ilmurinn berst okkur og ég finn munnvatnið spretta fram. Skyndilega heyrast háværar drunur, líkt og jarðskjálfti hristi húsið. „Var þetta garnagaul í þér?“ spyr ég steinhissa. „Já, hvað með það?“ svarar Marius. Svo lyftir hann annarri rasskinninni upp frá sófanum og rekur við. Prumpinu fylgir svo skelfileg lykt að matarlystin hverfur á stundinni. Um leið hleypur Hvæsi undan sófanum eins og eldibrandur. „Oj … Marius,“ segi ég og held fyrir nefið. „Þú gætir allavega sagt afsakið.“ „Þú getur bara sjálf sagt afsakið,“ segir Marius og stendur upp. Hann gengur inn í eldhús og ég fylgi undrandi á eftir. „Þetta kemur rétt bráðum, krakkar mínir,“ segir mamma.

15 Hún er með svuntu yfir náttfötunum og dillar sér í takt við nýjasta lagið hennar Beyoncé. Ég skammast mín oft fyrir mömmu. Sérstaklega þegar hún dansar. Eflaust myndi ég roðna ofan í tær ef ég væri ekki svona hissa á Mariusi. Hann er greinilega mjög svangur. Hávært garnagaulið glymur í litlu eldhúsinu. Svo virðist hann líka byrjaður að slefa af hungri. „Eigum við ekki bara að bíða frammi í stofu?“ spyr ég og ætla að fylgja Mariusi úr eldhúsinu. Marius svarar engu. Hann teygir sig fram hjá mömmu, að logandi heitri pönnunni. Svo tekur hann lummurnar og treður þeim upp í sig, öllum í einu. Mamma starir furðu lostin á Marius. „Þær … þær voru ekki tilbúnar. Þær voru hálf-hráar. Þú færð bara í magann, vinur,“ segir mamma með spaðann á lofti. „Meira,“ segir Marius frekjulega og grípur skálina með deiginu.

16 Hann er við það að hella upp í sig úr skálinni en mamma nær að stöðva hann. Hún slítur skálina frá Mariusi svo það slettist í andlit og hár þeirra beggja. Svo sendir hún mér illt augnaráð, eins og ég hafi gert eitthvað af mér.

17 LOKSINS EITTHVAÐ ÆTT „Ertu með bækurnar?“ spyr ég þegar Marius er loks hættur að borða. Mamma er farin í sturtu til að skola deigið úr hárinu. Marius hefur hvorki þakkað fyrir sig né þurrkað sér í framan. Sultan lekur af hökunni niður á gólf. „Hvaða bækur?“ hnussar í Mariusi. „Æ, þú veist, þarna bindin. Áttirðu ekki sex bækur um þjóðsögur fyrir mig?“ „Áttu ekki meira að borða?“ spyr Marius á móti og veður í ísskápinn. „Gaur, ertu ekki að grínast?“ spyr ég og get ekki falið hvað ég er hneyksluð. „Hvers konar matur er þetta?“ segir Marius og mokar út úr ísskápnum á gólfið. Hann rífur fram jarðarber, mangó, kíví og ástaraldin. Svo þefar hann af þeim og kastar þeim frá sér.

18 „Jæja, loksins eitthvað ætt!“ hrópar Marius og heldur lifrarpylsu og blóðmör á lofti. Hann heldur báðum höndum um keppina og starir á þá gráðugum augum. Því næst slítur hann umbúðirnar af með tönnunum. Svo byrjar hann að háma slátrið í sig. „Ókei, vá hvað þú varst svangur,“ segi ég gáttuð. Marius kyngir síðasta bitanum af slátrinu og ropar hátt. „Ég er farinn,“ segir hann og gengur rakleitt að anddyrinu. „En skórnir … ?“ byrja ég en kemst ekki lengra. Marius skellir á eftir sér hurðinni. Hann er rokinn út á sokkaleistunum, án þess að kveðja. Eftir stend ég svo hissa að ég veit ekki hvað snýr upp eða niður. Mamma kemur fram á sloppnum og rennir bursta gegnum hárið. „Er Marius farinn?“ spyr hún hissa.

19 Ég næ ekki að svara. Mamma er komin inn í eldhús og rekur upp vein. „Martaaa! Hvað hefurðu gert við ávextina?“ „Það var ekki ég,“ reyni ég að segja en mamma öskrar svo hátt að hún heyrir ekki orð. „Það er eins gott að þú þrífir þetta upp eftir þig! Ég vil að eldhúsið sé tandurhreint þegar ég er búin að blása á mér hárið. Og þú skalt sko borða hvern einasta ávöxt! Veistu hvað ástaraldin kostar? Það var ekki flutt, mörg hundruð kílómetra, til Íslands, til þess að þú gætir hent því í gólfið!“

20 ER UNGLINGAVEIKI SMITANDI? Um kvöldið er mér illt í maganum. Kannski af því að ég borðaði heilt ávaxtasalat upp úr gólfinu. En kannski verkjar mig af því að besti vinur minn kom í heimsókn og hagaði sér eins og algjör asni. Hann hefur ekki enn svarað neinum skilaboðum frá mér. „Viltu popp?“ spyr mamma og réttir skálina að mér. Á laugardagskvöldum horfum við alltaf á bíómynd saman. Klukkan er orðin margt og myndin að klárast en ég hef ekkert fylgst með. Ég veit hvorki hvað neinn heitir né um hvað söguþráðurinn snýst. „Nei takk,“ svara ég dauf í bragði. Mamma setur upp skrítinn svip. Hún er ekki vön því að ég sé svona kurteis. Hún er ekki heldur vön því að ég vilji ekki popp með bíómyndinni. „Er allt í lagi, Marta mín?“ spyr mamma. „Já … eða nei. Eiginlega ekki,“ svara ég og bít tönnunum saman.

21

22 „Hvað er að ljúfan?“ „Það er … Það er út af Mariusi. Hann var svo skrítinn áðan. Þú hlýtur að hafa tekið eftir því. Hann lét bara eins og algjört fífl.“ „Fífl er nú dálítið sterkt orð Marta mín.“ Ég vissi það. Mamma skilur þetta ekki. Alveg eins og hún skilur ekki að það var ekki ég sem henti ávöxtunum í gólfið. Hún myndi aldrei trúa neinu slæmu upp á draumadrenginn Marius. „Hann var bara ógeðslega dónalegur og frekar leiðinlegur. Svo gleymdi hann skónum sínum! Hver strunsar bara út á sokkunum?“ Mér er orðið heitt í hamsi. Ég verð enn reiðari þegar ég sé að mamma berst við að halda hlátrinum niðri. „Ég þekki nú eina stelpu sem gleymir oft að vera kurteis. Hún fer líka mjög oft út á sokkunum eða tánum jafnvel!“ Mamma hallar sér nær mér og tekur utan um mig með báðum handleggjum.

23 „Æi, mamma! Við erum ekki að tala um mig! Við erum að tala um Marius!“ Ég krosslegg hendur og losa mig undan faðmlaginu. Mér finnst ekki gott að láta knúsa mig þegar ég er pirruð. „Marta mín,“ segir mamma og horfir djúpt í augun á mér. „Hann Marius er að verða unglingur. Þetta er bara það sem gerist. Þegar ég var unglingur var þetta kallað unglingaveikin.“ „Unglinga-veiki?“ spyr ég og hrukka ennið. „Hvernig veiki er það? Er ekki hægt að bólusetja fyrir henni? Er hún smitandi? Hvað ef ég smitast?“ Mamma hlær. Svo dregur hún djúpt andann og reynir að finna réttu orðin til að útskýra hormóna og breytingar unglingsáranna fyrir mér „Þetta er ekki alvöru veiki en stundum fara efni í líkamanum sem kallast hormónar í algjört rugl. Þá haga unglingar sér oft mjög undarlega.“ Byrjar þetta hormónatal, hugsa ég og ranghvolfi augunum. Ég man þegar mamma varð skyndilega loðin og byrjaði að góla á tunglið. Þá sagði Marius

24 að það væri bara út af hormónum. Mamma var vissulega á eins konar breytingaskeiði … hún var bara að breytast í varúlf! Hún reynir að knúsa mig aftur. Í þetta sinn er ég svo djúpt hugsi að ég stöðva hana ekki. „Við skulum fara að hvíla okkur, Marta mín. Marius verður örugglega hressari í fyrramálið.“ Á morgun er sunnudagur. Þá hef ég allan daginn til að komast að því hvað amar að Mariusi. Hvort hann er bara dæmigerður unglingur eða hvort eitthvað dularfullt sé í gangi.

25 EINS OG LÍNA LANGSOKKUR Næsta morgun dríf ég mig á fætur og fæ mér morgunmat. Ég gríp skóna hans Mariusar og geng af stað. Rauð blokkin blasir við mér og ég fæ sting í magann. Vonandi er Mariusi batnað, hugsa ég en ýti hugsuninni strax frá mér. Þór kemur til dyra og togar mig inn fyrir. Hann er algjört krútt, þessi orkumikli strákur með fallega rauða hárið. Yfirleitt er Þór hress og glaður en í dag virðist hann dapur. „Hvað er að?“ spyr ég og beygi mig niður að honum. „Marius vill ekki leika við mig,“ segir Þór með skeifu. „Hvar eru foreldrar þínir?“ spyr ég og hrukka ennið. „Þau fóru í búðina. Marius á að passa mig en hann vill bara sofa.“ Þór lýsir því fyrir mér hvernig Marius hefur látið síðan í gær. Hann hafi borðað úr öllum skúffum og skápum. Svo hafi hann ropað og rekið við svo undir tók í húsinu. Nú liggur hann víst öfugur í rúminu, með skítugar tærnar á koddanum, og neitar að

26 vakna. Það sýður á mér. Ég er svo reið að mig langar að öskra á Marius. Það er eitt að hann sé dónalegur við mig en hann má ekki vera vondur við Þór. Ég veit að Marius elskar Þór meira en allt og myndi gera hvað sem er fyrir hann. Það er eitthvað mjög skrítið í gangi. „Farðu aðeins að leika með legóið,“ segi ég við Þór og sendi hann inn í herbergið sitt. Svo geng ég rakleitt að herbergi Mariusar og opna dyrnar ákveðin. Inni er allt eins og það á að vera. Í hillunum er fræðibókunum raðað eftir nafni höfundar. Marius er eins skipulagður og hann er duglegur að lesa og læra. Skrifborðið er snyrtilegt og ekki eitt einasta nammibréf að sjá. Það eina sem stingur í stúf eru föt Mariusar. Yfirleitt myndi hann brjóta þau saman á kvöldin. Nú liggja þau hins vegar krumpuð á gólfinu. Ég lít á rúmið og sé að Þór hafði sagt satt. Á koddanum liggja langir fæturnir eins og Marius sé að þykjast vera Lína langsokkur. Höfuðið og restin af búknum er einhvers staðar undir þykkri sænginni. Ég sé hvernig sængin lyftist upp og niður í takt við háværar hroturnar.

27 „Marius,“ segi ég og bíð eftir að hann vakni. Næst ýti ég við honum en ekkert gerist. Eftir nokkrar tilraunir gefst ég upp. Loks dreg ég gluggatjöldin frá og hleypi sólinni inn. „GÓÐAN DAGINN!“ hrópa ég um leið og ég kippi sænginni af Mariusi. Hann hrekkur í kút og grípur með báðum höndum fyrir augun, til að verjast dagsbirtunni. „Hvað heldurðu að þú sért að gera stelpuskjáta?“ spyr Marius illur.

28 „Stelpuskjáta?“ endurtek ég hissa. Ég veit ekki einu sinni hvað skjáta þýðir en mig grunar að það sé ekki fallegt. „Æi, Marius. Hættu að láta svona. Nennirðu að koma á fætur. Þór vill leika við þig. Hann bíður inni í herbergi, með allt legóið sitt.“ Loks tekst mér að sannfæra Marius um að fara fram úr. Hann fer þó ekki inn til Þórs, heldur rakleitt í eldhúsið. Sjálf gæti ég alveg borðað meira svo ég bið Marius að grilla handa mér samloku. „Grilla samloku?“ spyr hann eins og ég hafi beðið um eitthvað verulega framandi. „U, já,“ svara ég hneyksluð og bendi á brauðpokann á borðinu. Marius ætlar greinilega ekki að vera góður gestgjafi svo ég sé um mig sjálf. Ég sæki ost og kokteilsósu í ísskápinn og sting samlokugrillinu í samband. „Vilt þú líka?“ spyr ég brosandi. „Mætti ég þá frekar biðja um súra hrútspunga?“

29 Er Marius klikkaður? Það borðar enginn súra hrútspunga. Allavega enginn yngri en sjötíu ára. „Geturðu ekki fundið til almennilegan mat stelpa?“ frussar Marius út úr sér og sest við eldhúsborðið. Þar með fæ ég nóg. Ég tek samlokuna úr grillinu og loka því með látum. „Þú ert eitthvað ruglaður. Ég er farin heim. Heyrðu í mér þegar þú ert orðinn Marius aftur.“ Ég knúsa Þór áður en ég fer. Hann þarf vonandi ekki að vera lengi einn með Mariusi fýlupúka. Á leiðinni heim borða ég hálfeldaða samlokuna. Brauðið er varla volgt og osturinn náði ekki að bráðna. Eins svekkjandi eins og það er, þá er enn verra að vinur minn hafi gengið af göflunum. Ég vil fá Marius til baka. Kurteisa, brosmilda og jákvæða Marius. Það er eins gott að þessi blessaða unglingaveiki líði hratt hjá.

30 HVAÐ ÞÝÐIR ÞETTA? Mér finnst ekki gaman að læra ein og ég veit varla hvar ég á að byrja. Ég gleymdi að fá bækurnar lánaðar hjá Mariusi svo ég nota netið til að leita að þjóðsögum. Áhugalaus skima ég yfir nokkrar sem ég kannast við síðan ég var lítil. Ég renni augunum yfir Gilitrutt og Búkollu. Svo staldra ég við skrítinn titil. „Átján barna faðir í álfheimum,“ segi ég upphátt og hnykla brýnnar. Hvernig ætli það væri að eiga átján börn? Eru einhverjar íbúðir í Álfheimum nógu stórar fyrir svona stóra fjölskyldu? Ég hef komið í ísbúðina í Álfheimum og man ekki eftir að þar séu mjög stór hús. Aðallega blokkir. Kannski þarf svona stór fjölskylda að eiga heila blokk. „Hvað ertu að brasa, Marta mín?“ spyr mamma sem stendur í dyragættinni. „Ég er að læra,“ svara ég og sé að mamma rekur upp stór augu.

31 Hún gengur til mín og gægist á tölvuskjáinn yfir öxlina á mér. Það er greinilegt að hún þarf að sjá það með eigin augum að einkadóttirin geti lært. „Ú, ertu að lesa um álfa og umskiptinga, en skemmtilegt.“ Um leið fatta ég að í þessari sögu eru álfheimar ekki gata í Reykjavík. Ég ætti kannski að lesa aðeins hægar, hugsa ég og byrja upp á nýtt. Mamma fer fram og ég reyni að einbeita mér við lesturinn. Sagan fjallar sem sagt um bóndakonu sem skilur þriggja ára barn eftir eitt heima. Það væri aldrei gert í dag. Konan yrði pottþétt handtekin, hugsa ég með mér og les áfram. Þegar hún kemur aftur er barnið öskrandi og hrínandi, eins

32 og svín. Mér finnst það reyndar ekki skrítið, enda var enginn að hugsa um það. Textinn í sögunni er gamaldags og flókinn og ég skil ekki nema helming. „Mamma!“ kalla ég í uppgjöf. „Viltu hjálpa mér?“ Mamma les með mér og útskýrir söguna. Nágranni konunnar segir að barnið hennar sé umskiptingur. Það þýðir að það hafi verið skipt um barn! Ég skil ekkert og finnst þessi saga alveg fáránleg. Lýsingarnar á barninu eru samt áhugaverðar. Fyrst var það voða rólegt og ljúft en varð svo allt í einu algjör dólgur. „Var krakkinn ekki bara svangur?“ spyr ég mömmu. „Tja, jú eða veikur. Fólk í gamla daga hafði litla þekkingu á fæðuóþoli eða hinum ýmsu kvillum. Ef einhver hagaði sér öðruvísi en fólk var vant var auðvelt að kenna álfunum um.“ „Hélt fólk þá að álfarnir hefðu skipt barninu út?“ „Já, eða komið í stað barnsins. Eins og í þessari sögu. Álfarnir eiga saman átján börn. Svo tekur álfkonan barn bóndakonunnar og skilur karlinn eftir í staðinn. Hún hefur greinilega verið komin með nóg af honum,“ segir mamma og hlær.

33 „En … þekkir bóndakonan ekki barnið sitt? Myndi hún ekki taka eftir því að það væri kominn einhver gamall karl í staðinn?“ „Tja …,“ byrjar mamma og klórar sér í höfðinu. „Álfarnir eru kannski líka hamskiptingar. Það þýðir að þeir geta skipt um ham … svipað og varúlfar.“ Ég velti þessu fyrir mér í nokkra stund. Þæga og ljúfa barnið var tekið og grófur og dónalegur karl kom í staðinn. Samt leit hann alveg eins út og barnið. Skrítið. Mér var hugsað til Þórs, ef einhver kæmi bara og skipti honum út fyrir fúlan álfakarl. Úff ég vildi ekki hugsa þessa hugsun lengur og ýtti henni frá mér. „Hvernig bjargaðist svo barnið? Hvað þýðir þetta?“ spyr ég og les hluta sögunnar fyrir mömmu. Þyki þér þá orðtök sveinsins undarleg og ískyggileg, skaltu strýkja hann vægðarlaust, unz eitthvað skipast um. „Eh, já … Sko. Orðið „strýkja“ þýðir að flengja. Það væri nú ekki gert í dag, held ég. Bóndakonan á sem sagt að slá umskiptinginn ef hann segir eitthvað undarlegt. Þá kemur álfkonan og skilar barninu.“

34 HEIMSINS BESTA DRAUGAFÆLA Ég er engu nær um raunverulega merkingu sögunnar. Mér finnst algjörlega fáránlegt að lemja lítið barn, hvort sem það er dónalegt eða ekki. Til þess að klára verkefnið verð ég að fá hjálp Mariusar. Þetta er líka hópverkefni sem við eigum að vinna saman. Ég lít á klukkuna og sé að hún er farin að nálgast hádegi. Vonandi er Marius búinn að borða og orðinn eins og hann á að sér að vera. Ég er þó enn dálítið smeyk um að það sé eitthvað dularfullt í gangi. „Ertu að fara Marta mín?“ spyr mamma innan úr eldhúsi. „Ég var að vona að þú gætir verið heima og passað upp á Hvæsa meðan ég skýst aðeins í búð. Hann hefur verið svo hvumpinn síðan í gær.“ Hvæsi … Hann er heimsins besta draugafæla. Í öllum okkar yfirnáttúrulegu ævintýrum hefur Hvæsi komið okkur Mariusi til bjargar.

35 „Ég tek hann bara með mér,“ svara ég og sæki kattabúrið. Mamma virðist hissa en skiptir sér ekki af mér á meðan ég lokka Hvæsa í búrið. „Bless á meðan,“ hrópa ég og hleyp af stað. Það hefur enn ekki verið dregið frá í herbergi Mariusar. Þór situr í glugganum á sínu herbergi og virðist dapur. Ég vinka til hans og sé þá að það lifnar aðeins yfir honum. Þegar ég kem upp hleypur Þór í fangið á mér og neitar að sleppa. Hann er með ljótt klór, þvert yfir andlitið. Hann hefur greinilega grátið lengi því augun eru rauð og bólgin. Þetta litla krútt á ekki skilið svona framkomu frá stóra bróður sínum. Þór getur alveg verið pirrandi en Marius hefur aldrei meitt hann áður. „Marius er vondur,“ segir Þór með tárin í augunum. Ég legg búrið frá mér og faðma Þór að mér. Allt í einu sé ég hvar Marius nálgast með undarlegt glott á andlitinu. Um leið byrjar Hvæsi að berjast um í búrinu. Hann hvæsir hátt og teygir klærnar út um þétta rimlana. Í mínum augum eru þetta nægar sannanir. Marius hlýtur að vera orðinn að skrímsli.

36 „Hvað gerðirðu við Þór?“ segi ég svo reið að ég titra. „Ekkert sem krakkinn átti ekki skilið,“ svarar Marius grimmur. Hvæsi reynir að naga sig gegnum rimlana og langar greinilega að ráðast á hann. Ég horfi á búrið og Marius til skiptis. Svo beygi ég mig niður og opna búrið. Hvæsi getur kannski kennt honum lexíu.

37 „Hvað ertu að gera?“ spyr Marius og það vottar fyrir ótta í rödd hans. „Ekkert sem þú átt ekki skilið,“ svara ég ákveðin. Svo hleypi ég Hvæsa út úr búrinu. Kötturinn stekkur í loftköstum í átt að Mariusi sem öskrar af hræðslu. Marius tekur á rás út um dyrnar og Hvæsi á eftir. Ég gríp Þór í fangið, því ekki get ég skilið lítið barn eftir eitt heima. Ekki miðað við söguna sem ég las áðan. Hvæsi er snöggur niður stigaganginn en ekki jafn snöggur og Marius sem er alltaf nokkrum skrefum á undan. Við Þór fylgjum á eftir en förum hægar yfir. Þegar við komum út úr húsinu skelli ég Þór á bakið á mér svo ég geti hlaupið hraðar. „Stoppaðu, Marius!“ hrópa ég á eftir vini mínum. Það er hálf kjánalegt að segja honum að stoppa. Hver hefur nokkurn tíma hlýtt þegar hann er á flótta og er sagt að stoppa? „Marius, gerðu það!“ kalla ég og finn að ég er að verða móð.

38 Þótt Þór sé lítill er hann er ansi þungur. Loks get ég ekki meir svo ég set hann niður og bið hann að hlaupa með mér. „En … Marius er vondur,“ segir Þór og neitar að halda áfram. „Ég veit. Marius er vondur. En við ætlum að bjarga honum. Ókei? Þú þarft að hjálpa mér Þór. Þú þarft að hlaupa rosa hratt. Geturðu það?“ Þór þurrkar tárin og brosir. „Bjarga Mariusi? Ég og þú saman?“ „Já, og Hvæsi,“ svara ég og brosi á móti. Við tökum á rás og litlir fætur Þórs koma á óvart. Hann hleypur næstum jafn hratt og ég. Við sjáum Hvæsa elta Marius inn þrönga götu. Þeir fara framhjá gömlu fiskbúðinni á horninu og í átt að hrauninu fyrir aftan innsta húsið. Ef við missum Marius á hraunsvæðið er ekki víst að við finnum hann aftur. Þar eru ótal krókar og kimar þar sem hægt er að fela sig. „Marius, stopp!“ hrópar Þór með sætu röddinni sinni.

39 Við nálgumst innsta húsið og um leið missi ég sjónar á Mariusi. Við Þór fetum okkur varlega yfir gróft hraunið. Ég rígheld í litla hönd Þórs því hér eru djúpar og hættulegar gjótur á hverju strái. Fram undan sé ég Hvæsa með kryppu á loðnu bakinu. Hann stendur grafkyrr fyrir framan stóran hraunklett og hvæsir lágt. „Hvað er að Hvæsi minn?“ hvísla ég þegar við komum nær. „Hvert fór Marius?“ Ég veit að kötturinn getur ekki svarað mér. Það er bara ekkert annað sem ég get gert. Við Þór svipumst um en Hvæsi stendur enn sem frosinn og starir á hraunklettinn. „Hvæsi,“ kalla ég án árangurs. Við Þór nálgumst hann aftur og ég horfi rannsakandi á klettinn. „Það er ekkert þarna,“ segi ég og dæsi. Um leið heyri ég skrítið hljóð. Það hljómar eins og rödd, djúpt úr miðjum klettinum. „Marius!“ segir Þór æstur.

40 Hann hlýtur að vera hinum megin! Ég gríp í hönd Þórs og við hlaupum aftur fyrir klettinn en grípum í tómt. „HJÁLP!“ heyri ég aftur kallað. Það er eins og röddin sé lokuð inni í hrauninu. „Marius! Hvar ertu!“ hrópa ég eins hátt og ég get. „HJÁÁÁLP! Ertu þarna?“ heyri ég kallað. Við Þór hlaupum hringinn í kringum klettinn en stoppum snögglega þegar við sjáum að Marius stendur ógnandi hjá Hvæsa. Kötturinn setur upp háa kryppu og bakkar í átt að okkur.

41 RÖDDIN Í KLETTINUM „Voruð þið að leita að mér?“ spyr Marius glottandi. Þór rígheldur enn í höndina á mér og Hvæsi virðist mjög var um sig. Við höfum bakkað alla leið upp að klettinum. Hart hraunið stingur mig í bakið. „HJÁLP! Ég kemst ekki út,“ heyri ég allt í einu skýrt fyrir aftan mig. Það er greinilega einhver þarna inni. Ég sný mér við og hrópa á móti. „Ertu inni í klettinum?“ „Ég er fastur!“ segir röddin æst. Allt í einu tekur Marius nokkur skref í átt að okkur. Hann setur upp stórt gervibros og réttir höndina að litla bróður sínum. „Komum heim,“ segir hann ákveðinn. Þór virðist ringlaður og lítur smeykur á mig. Hvæsi er byrjaður að klóra í klettinn af fullum krafti. Röddin hefur þagnað og nú berst sár grátur innan úr klettinum.

42 „Þið getið bara verið hér. Ég er farinn heim,“ segir Marius skyndilega og gengur í burt og við sjáum hann hverfa inn í fiskbúðina neðar í götunni. Við horfum á eftir honum niður hraunbreiðuna. Hvæsi klórar enn í klettinn og mjálmar ámátlega. Gráturinn hefur þagnað og nú heyrist aðeins lágvært snökt. „Marta, ég er hræddur,“ segir Þór og togar í mig. „Ég veit. Ég er líka hrædd,“ svara ég. Þetta er kannski ekki það besta að segja við lítið barn. Ég get bara ekki logið að honum. Sannleikurinn er sá að ég er skíthrædd. Hvað er málið með röddina í klettinum? Af hverju ætli Marius láti svona? Hann sem hefur alltaf verið svo brosmildur og indæll. Stundum jafnvel of brosmildur, svo óþolandi jákvæður að það hefur farið í taugarnar á mér. Allt í einu er hann algjör dóni og vondur við litla bróður sinn, sem hann elskar út af lífinu. Þetta gengur ekki upp … ekki nema, hugsa ég. Svo er eins og ég skilji allt. Marius er UMSKIPTINGUR! Ég sný mér við og lem fast á klettinn.

43

44 „Marius. Ert þetta þú?“ spyr ég og legg eyrað upp að köldu hrauninu. „Já … Marta … viltu hjálpa mér?“ svarar röddin klökk. Þór byrjar að hágráta þegar hann skilur að það er í raun bróðir hans sem er fastur inni í klettinum. „Þetta er allt í lagi,“ segi ég við Þór og faðma hann að mér. „Við björgum honum.“ Ég veit ekki enn hvernig ég á að standa við það. Það eina sem ég get gert er að reyna. Nú veit ég að Marius sem át allar lummurnar er ekki vinur minn. Hinn eini sanni Marius hefur verið tekinn og lokaður inni í álfakletti. Í staðinn fengum við dónalegan, gráðugan og glottandi álf sem er vondur við Þór og getur ekki hætt að borða. Fyrir ári síðan hefði ég ekki trúað því að umskiptingar væru til í alvöru. Nú veit ég hins vegar að vampírur og varúlfar eru allt um kring. Auðvitað hljóta álfar þá líka að vera raunverulegir. „Við björgum þér,“ segi ég við klettinn. „Engar áhyggjur. Ég er með áætlun.“

45 Ég tek Hvæsa í fangið og leiði Þór frá hrauninu og út götuna. Á leiðinni í rauðu blokkina spyr Þór svo margra spurninga að mig verkjar í eyrun. „Hvernig ætlum við að bjarga Mariusi?“ spyr Þór og saklaus augu hans tindra. „Sko … “ byrja ég, en svarið er ekki alveg ljóst. „Við finnum leið.“ „Hann má ekki vera fastur í stóra steininum,“ snöktir Þór aumur. „Nei, nei. Við náum honum út.“ „Vondi Marius er bara ljótur og á að fara heim til sín.“ „Algjörlega,“ segi ég og kreisti lófa Þórs. „Við sendum hann heim til sín. Beint aftur til álfheima.“ Á leiðinni rifja ég upp þjóðsöguna sem við mamma lásum. Í þeirri sögu tókst bóndakonunni að fá barnið sitt aftur með því að flengja umskiptinginn með vendi. Ég er ekki alveg til í að rasskella Marius, jafnvel þótt þetta sé ekki hann í raun og veru. „Við reddum þessu,“ segi ég og reyni að hljóma eins hughreystandi og ég get.

46 EINS OG Á BOLLUDAGINN Þegar við komum inn á stigaganginn finnum við ógeðslega vonda lykt. „Eru að koma jól?“ spyr Þór hissa. Um leið og Þór sleppir orðinu man ég hvaðan ég kannast við lyktina. Einhver í blokkinni er að elda skötu, eins og mamma fær sér á Þorláksmessu. Eftir því sem við komum ofar verður lyktin sterkari. Á fimmtu hæð er hún orðin næstum óbærileg. Ég kúgast og dreg peysuna upp fyrir nefið. „Ullabjakk,“ segir Þór og rekur út úr sér tunguna. „Sammála,“ segi ég og gref nefið dýpra í peysuna. Hvæsi er orðinn órólegur. Líklega skynjar hann að við nálgumst umskiptinginn. Hann sveiflar skottinu æstur til og frá og þefar af hurðinni. Þór tekur í hurðarhúninn en kemst ekki inn. „Það er læst,“ segi ég og banka en enginn kemur til dyra. Við heyrum umgang og pottaglamur fyrir innan dyrnar. Skötulyktin er stæk og það er augljóst

47 að umskiptingurinn er á kafi í eldamennsku. Ég banka hærra og lem dyrnar svo af öllu afli. Loks kemur hann til dyra og starir á okkur grimmu augnaráði. „Hleyptu okkur inn,“ skipa ég og ýti umskiptingnum til hliðar. Ég fer létt með að komast fram hjá honum. Við Þór hlaupum rakleitt inn í barnaherbergi. Hvæsi eltir okkur á harðastökki. Þegar inn er komið horfi ég til skiptis á bröndóttan köttinn og leikskólabarnið. Þeir stara á mig á móti, eins og þeir bíði fyrirmæla. „Sko varðandi næstu skref … “ Risastór augu Þórs bíða spennt eftir því að ég útskýri hvernig við munum bjarga Mariusi. Ég dreg andann djúpt og segi Hvæsa og Þór söguna um átján barna föðurinn í álfheimum. „Álfarnir eru búnir að koma upp um sig. Við vitum að Marius er inni í steininum. Það eina sem við þurfum að gera er … að flengja umskiptinginn.“ Þór hlær og tekur fyrir munninn.

48 „Eins og á bolludaginn?“ spyr hann flissandi. „Já, nákvæmlega. Eins og á bolludaginn,“ svara ég hikandi. „Ég vil rasskella vonda Marius!“ segir Þór glaður í bragði. Við fikrum okkur hægt að herbergisdyrunum og opnum fram á gang. Ólyktin er svo mikil að það líður næstum yfir mig. Frammi í eldhúsi stendur umskiptingurinn og slafrar í sig skötu, beint úr pottinum. „Hvernig er maturinn?“ spyr ég rólega og horfi á hann moka upp sig. Umskiptingurinn notar plastsleif með regnbogamynstri til að veiða stykkin úr pottinum. Hann gleypir þau í sig með roði og beinum. Svo heldur hann sleifinni uppi og sveiflar henni í hring fyrir ofan höfuð sér. „Þessi er skrítin,“ segir hann og heldur áfram. „Nú er ég hundgamall og á átján börn í álfheimum. Samt hef ég aldrei séð jafn litríka sleif og þessa hér.“

49 Þór hefur haldið sig fyrir aftan mig en stígur nú fram. „Vá, má ég sjá?“ spyr Þór og virkar allt í einu alveg ófeiminn. Umskiptingurinn dregur annað augað í pung. „Tja, ætli þú megir ekki skoða hana,“ segir hann og glottir. Þór grípur um sleifina með báðum höndum. „Mjög litrík og flott,“ segir Þór með krúttlegu röddinni sinni. Umskiptingnum bregður illilega þegar Þór slær hann allt í einu í rassinn með sleifinni. „Hvurslags?“ hrópar hann og kippist við. Þór er þó hvergi nærri hættur. „BOLLA, BOLLA!“ hrópar Þór hátt og lemur áfram með sleifinni. Umskiptingurinn gerir sig líklegan til að flýja en Hvæsi hefur stillt sér upp í dyragættinni með klærnar úti.

50 „Af hverju lemurðu mig? Ég er Masíjus, bróðir þinn. Þekkirðu mig ekki?“ Þór setur hendur á mjaðmir og svarar umskiptingnum fullum hálsi. „Þú ert vondur! Þú veist ekki einu sinni hvað hann heitir! Hann heitir MARIUS! Og ég vil fá hann aftur heim!“ Umskiptingurinn hrökklast upp að veggnum. Hann reynir að skýla á sér rassinum fyrir frekari barsmíðum. Um leið glymur í dyrabjöllunni svo við hrökkvum í kút.

51 ÍSBLÁU AUGUN Dyrasíminn hangir á veggnum frammi á gangi. Ég lyfti tólinu varlega. „Hver er þar?“ spyr ég en fæ ekki svar. Þór er kominn út í glugga og kallar innan úr herbergi. „Marius er kominn! Konan heldur á honum!“ Ég ýti á takkann og hleypi Mariusi og konunni inn í húsið. „Marius er að koma!“ segir Þór og valhoppar glaður fram. Hann ullar á umskiptinginn sem stendur í eldhúsinu og nuddar á sér rassinn. Við opnum fram á gang og hjartað slær nú svo hratt að mig verkjar í brjóstkassann. Vonandi verður þetta bara eins og í sögunni. Mig langar bara að álfkonan skili Mariusi og taki karlinn sinn. Ekkert drama og ekkert vesen. Til öryggis gríp ég

52 í Þór og held honum þétt að mér. Hann sýndi mikið hugrekki á meðan hann flengdi umskiptinginn. Ég er samt hrædd um hann og vil helst ekki sleppa honum úr augsýn. „Skilaðu Mariusi!“ hrópar Þór niður ganginn. Ég sussa á hann því ég vil ekki fæla álfkonuna burt. Loks sé ég hvar hún kemur, klædd í bláan kjól, með blómakrans í fallega fléttuðu hárinu. Álfkonan heldur á Mariusi í fanginu, líkt og hann sé lítið barn. Hún er sterklega byggð og töluvert hærri en mennskar konur. Fegurð álfkonunnar er dáleiðandi og í smástund gleymi ég að vera hrædd við hana. Hún heldur Mariusi þétt að sér og hann virðist dauðskelkaður. Þegar álfkonan er komin upp síðasta þrepið starir hún á Þór. „Ójafnt höfumst við að,“ segir hún og setur í brýnnar. „Ég dilla bróður þínum en þú lemur karlinn minn!“ „Eigum við þá ekki að skipta til baka?“ segi ég og held Þór enn þéttar að mér. Álfkonan lítur loks af Þór og sendir mér í staðinn illt augnaráð. Ísblá augun eru gullfalleg en mér finnst

53

54 sem þau gætu skotið leysigeislum. Marius horfir á mig biðjandi augum og vill greinilega sleppa úr sterkum faðmi álfkonunnar. „Ertu komin að sækja mig?“ heyri ég kallað innan úr eldhúsi. Um leið heyri ég að kötturinn hvæsir. Hann passar vel að umskiptingurinn komist ekki fram fyrr en Mariusi hefur verið skilað. Álfkonan tekur skref í átt að dyrunum. Hún er rúmir tveir metrar á hæð og mjög ógnvekjandi. Ég dreg andann djúpt og stíg í veg fyrir hana. Ég hef ekki hugmynd hvaðan ég fæ hugrekkið til þess. Það eina sem ég veit er að ég er komin með alveg nóg af þessu rugli. „Skilaðu Mariusi fyrst,“ segi ég og vona að hún taki ekki eftir því hvað röddin skelfur. Álfkonan hlær og horfir á mig eins og ég sé pínulítill maur. Eins og hún gæti kramið mig með þumalfingrinum. „Hver ert þú sem talar svona við mig?“ spyr hún.

55 „Hver er ég? Ég heiti Marta og er besta vinkona Mariusar. Annars ættir þú frekar að kynna þig, þar sem þú ert gestur á annarra manna heimili.“ Ég krosslegg hendurnar meðan ég bíð eftir svari. Þór hangir í peysunni minni og er greinilega hræddur við stóru konuna.

56 NAFN MITT ER … „Jahá,“ segir álfkonan og hlær. „Ætlarðu þá að bjóða mér inn ef ég segi þér hvað ég heiti?“ „Sjáum til.“ Ég er skíthrædd um að stælarnir í mér muni gera hana reiða. Sem betur fer er eins og hún beri meiri virðingu fyrir mér þegar ég er föst fyrir. Hún leggur Marius frá sér en heldur enn í hann með annarri hendinni. „Nafn mitt er Álfdís,“ segir hún og strýkur hinni hendinni niður eftir síðri fléttunni. „Bóndi minn heitir Álfmundur og saman eigum við átján börn.“ „Ókei, frábært. En af hverju tókstu Marius?“ „Já,“ heyri ég Þór segja fyrir aftan mig. „Akkuru tókstu stóra bróður minn og settir vondan kall í staðinn?“ Marius hefur enn ekki sagt orð en nú sé ég að hann langar ekkert meira en að faðma Þór að sér. Hann

57 teygir fram hendurnar en Álfdís ýtir honum til baka. „Getum við vinsamlegast fært okkur inn fyrir? Það væri gott ef fleiri manneskjur myndu ekki sjá mig.“ Ég hugsa málið og sný mér svo að Þór. Hann kinkar til mín rauðhærðum kollinum. „Jæja þá,“ segi ég. „En bara í smá stund. Og svo tekurðu Álfmund með þér aftur til álfheima.“ Álfdís samþykkir það. Svo tekur hún Marius undir annan handlegginn eins og hvern annan farangur. Við færum okkur inn og lokum á eftir okkur. „Sjáðu kallinn!“ hrópar Þór og bendir inn í eldhús. Álfmundur líkist Mariusi ekki lengur. Nú er hann hávaxinn með rauðar augabrúnir og mikið skegg sem nær niður á bringu. Fötin hans eru úr fallegu dökkgrænu silki. Á breiðum öxlunum hangir þykk skikkja með gylltu blómamynstri.

58 Álfmundur virðist feginn að sjá konuna sína en Hvæsi passar enn að hann komist ekki út úr eldhúsinu. „Viltu fá karlinn þinn aftur eða ekki?“ spyr ég og reyni að hljóma örugg. „Æ, helst ekki,“ svarar Álfdís og dæsir. „Ha?“ segir Álfmundur hissa. „Veistu … það var bara ágætt að losna við þig í tvo daga. Þú gerir ekki neitt nema að skófla í þig mat og leysa vind!“ Allt í einu stöndum við krakkarnir í miðju hjónarifrildi. Álfarnir rífast og þræta um heimilisstörf og eitthvað sem hún kallar þriðju vaktina. „Við eigum ÁTJÁN börn Álfmundur! Hvernig á ég að sinna þeim öllum og elda ofan í þig líka? Ég þurfti bara smá hjálp! Svo rakst ég á þetta mannabarn, hann Marius. Hann sinnir litla bróður sínum af svo mikilli ást og umhyggju. Ég vissi að hann gæti passað vel upp á börnin okkar. Ef það þýddi að ég þyrfti að fórna þér í staðinn, þá varð það bara að vera þannig.“

59 Álfmundur virðist sleginn yfir orðum Álfdísar og klórar sér hugsi í skegginu. „Ég veit að ég ét mikið … en þú eldar bara svo góðan mat,“ segir hann og strýkur á sér kviðinn. „Það er eitthvað annað en þetta mannfólk. Það treður sig út af brauði og berjum í öll mál.“ „Veistu það, Álfmundur … þetta er í fyrsta sinn síðan við kynntumst sem þú segir eitt fallegt orð um eldamennskuna mína. Yfirleitt kyngirðu bara, ropar og heimtar meira.“ Það er greinilegt að hjónin hafa aldrei átt svona heiðarlegt samtal áður. Álfmundur er steinhissa og reynir að malda í móinn. „Elskan mín. Það að ég biðji um meira merkir einmitt að mér finnst maturinn góður. Þú hlýtur að skilja það.“ „Stundum væri ágætt að fá að heyra það. Mig langar að þú segir að þú kunnir að meta allt sem ég geri fyrir þig.“ Álfkonan heldur Mariusi enn kyrfilega föstum undir handleggnum. Hann horfir ráðvilltur á mig.

60 „Afsakið, mætti ég kannski … “ byrjar Marius og reynir að losa sig. „Hvað?“ spyr Álfdís hranalega. „Ég þarf að fara á klósettið … “ svarar hann vandræðalegur. Álfkonan leggur hann frá sér. Marius virðist frelsinu feginn. Hann teygir úr stirðum líkamanum. Svo gengur hann fram hjá mér og hvíslar lágt. „Marta, komdu. Ég þarf að tala við þig.“

61 BARA Í ÞYKJUSTUNNI Álfahjónin eru of upptekin við að þræta til að taka eftir því þegar við laumumst í burtu. Ég, Þór og Marius höfum læst okkur inni á baði ásamt Hvæsa. Hann stekkur upp á vaskinn og fær sér að drekka úr krananum. „Hvað ef við losnum aldrei við þau?“ spyr Marius. „Hvað ef þau halda bara áfram að rífast. Eða, hvað ef hún ákveður að taka mig aftur með sér til baka.“ „Nei!“ ítrekar Þór. „Hún má ekki taka Marius.“ „Iss, nei. Ég leyfi það ekkert,“ svara ég hneyksluð. „Það hlýtur að vera einhver leið til að fá þau til að sættast.“ Við brjótum heilann í smástund. Svo fæ ég frábæra hugmynd. „Ég veit!“ segi ég spennt. „Hún vill fá þig til að hjálpa til með börnin af því að þú ert svo góður stóri bróðir.“ „Uuu, já,“ svarar Marius ringlaður.

62 „Besti bróðirinn,“ segir Þór og faðmar Marius fast. „En hvað ef … og gefðu þessu séns. Hvað ef þú værir ekki góður stóri bróðir? Hvað ef þú værir bara svaka leiðinlegur og vondur við Þór fyrir framan Álfdísi?“

63 „Ah, ég skil. Sniðugt,“ segir Marius og brosir. „Nei, Marius er ekki vondur,“ segir Þór og setur upp skeifu. „Auðvitað ekki,“ segi ég og strýk Þór um kollinn. Svo beygi ég mig niður og horfi djúpt í stóru augun hans. „Það væri bara í þykjustunni. Þú og Marius leikið smá leik, skilurðu? Marius ætlar að leika vonda karlinn. Svo þegar álfarnir fara þá er leikurinn búinn.“ Þór hlustar vel á allt sem ég segi. Svo lítur hann á Marius. „Marius ætlar bara að plata álfana? Þú ert ekki vondur í alvöru?“ „Einmitt,“ svarar Marius. „Þú skilur þetta alveg Þór. Þú ert svo klár strákur.“ „Ég er mjög klár,“ svarar Þór og skælbrosir.

64 MÉR ER DRULLUSAMA Hvæsi stekkur ofan af vaskinum og stillir sér upp við dyrnar. Hann er greinilega jafn spenntur og við að reka álfana út. Við opnum fram og um leið byrjar Marius að öskra og skammast í Þór. Álfdís og Álfmundur hætta samstundis að rífast og líta hissa á bræðurna. Þór skrúfar frá gervitárunum. Þetta er svo sannfærandi að í smástund held ég að hann sé að gráta í alvöru. Svo lítur þetta krútt á mig og blikkar mig brosandi áður en hann heldur áfram að gráta. „Þú ert bara vondur,“ skælir Þór og hniprar sig saman á gólfinu. „Mér er drullusama hvað þér finnst,“ segir Marius. „Þú ert bara lítill og leiðinlegur krakki. Svo ertu líka ógeðslega heimskur.“ Þetta er líklega það erfiðasta sem Marius hefur nokkurn tíma þurft að gera. Hann hefur aldrei

65 sagt ljótt orð um neinn, hvað þá litla bróður sinn. Því miður er þetta það eina sem getur mögulega virkað. Vonandi bjargar þetta honum frá því að vera barnapía fyrir átján álfa og læstur inni í kletti að eilífu. „Hvers konar munnsöfnuður er þetta eiginlega?“ spyr Álfdís og setur hendur á mjaðmir. Hvæsi stillir sér upp og loðin kryppan rís hátt upp í loft. Kötturinn er tilbúinn að verja okkur með kjafti og klóm ef þess þarf.

66 „Æ, þú varst kannski ekki búin að kynnast Mariusi nógu vel,“ segi ég við Álfdísi. „Hann er sko rosalega grimmur, sérstaklega við börn.“ Þór kjökrar með leikrænum tilþrifum og Marius segir honum að þegja. Álfahjónin virðast gleypa við lyginni og stara steinhissa á okkur. „Sagði ég ekki?“ segir Álfmundur. „Það er ekkert varið í þetta mannfólk. Þau eru óæðri verur. Sjáðu þau bara.“ Álfdís mælir okkur út með augunum. „Já, reyndar eru þau ansi rytjuleg og ljót.“ „Virkilega ljót,“ samsinnir Álfmundur. „Alls ekki jafn glæsileg og þokkafull og þú, ástin mín.“ Álfdísi bregður og lítur á karlinn sinn. „Meinarðu það?“ spyr hún og fallegt bros leikur um rauðar varirnar. „Auðvitað, gullið mitt,“ segir Álfmundur og tekur utan um konuna sína. „Fyrirgefðu að ég segi það ekki nógu oft. Þú ert stórkostleg og ég er mjög þakklátur fyrir þig og allt sem þú gerir.“

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=