Varúð - Hér býr jötunn

49 „Kötturinn hennar …, “ byrja ég en hætti við að minnast á Mörtu. Vonandi hefur hún komist upp úr sprungunni og hringt í björgunarsveitina. „KÖTTUR!?“ öskrar Greipa hátt. „Ég vil engin loðkvikindi í mínum vistarverum.“ „Nei, veistu ég skil það mjög vel,“ svara ég heiðarlega. „Ég skal fylgja kettinum heim til sín. Bara um leið og við finnum hann.“ Ég á erfitt með að halda í við Greipu. Hún er svo stórstíg að hvert skref er næstum því tveir metrar. „Svona nú smælingi! Áfram gakk!“ „Ég er að reyna,“ svara ég, móður og másandi. Loks gefst Greipa upp á að bíða eftir mér og snýr sér við. Hún mælir mig út með augunum og gengur alveg upp að mér. Allt í einu kippir hún mér upp og heldur mér undir öðrum handleggnum. Svo arkar hún af stað. Sterkir armar jötunsins halda mér föstum. Mér líður eins og hún ætli að kremja í mér öll innyfli. Á sama tíma er ég reyndar dálítið feginn að geta hvílt þreytta fæturna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=