Varúð - Hér býr jötunn
28 Töff er kannski ekki rétta orðið. Ljósið virkar vissulega mjög vel. Mig langar bara ekki að leiða hugann að iðandi ormunum. „Jú, þetta er rosa flott,“ svara ég en held mig í öruggri fjarlægð. „Nú sjáum við miklu betur!“ Marta veifar steininum og býr til ljósrákir út í loftið. Gufan hörfar og loks sé ég almennilega í kringum mig. Við erum stödd í nokkuð breiðum göngum. „Vá, hvað þetta er skrítinn staður!“ segir Marta hátt. „Ég meina, vissir þú að það væru göng hérna, undir göngustígnum?“ „Auðvitað vissi ég það ekki,“ svara ég hranalega. „Við erum líka komin langt frá göngustígnum. Erum væntanlega undir hrauninu, bak við leikskólann. Það er að segja ef við höfum haldið stefnunni í norðvestur síðan ég fann þig.“ „Norður, vestur, bla bla,“ hnussar í Mörtu. „Það var reyndar ÉG sem fann ÞIG!“ „Hvað meinarðu Marta! Þú varst týnd, ég var að bjarga þér.“
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=