BERGRÚN ÍRIS SÆVARSDÓTTIR RÚÐ – VARÚÐ – VAR
Kæri nemandi! HVAÐAN KOM SAGAN? Varúðar-bækurnar segja frá ævintýrum Mörtu og Mariusar og nú bætist Þór í hópinn. Með því að láta litla bróður Mariusar heita Þór, eins og þrumu- guðinn, fór hugmyndaboltinn að rúlla. Norræn goðafræði er nefnilega stútfull af spennandi persónum og hugmyndum. Hver sem vill getur nýtt þær í sínar eigin sögur. Norræn goðafræði segir frá goðum og vættum ásatrúar. Eins og í öllum góðum sögum þurfa hetjurnar að hafa óvini til að berjast við. Til eru sögur um blóðuga bardaga milli goða og jötna. Þeir berjast þó ekki bara því stundum verða goð og jötnar ástfangin og eignast afkvæmi. Þór er til dæmis 75% jötunn, af því að amma hans var jötunynja. Samband goða og jötna er því flókið og efni í margar spennandi sögur. Í Eddukvæðum má finna söguna um hinn upprunalega Mökkurkálfa! Þar er sagt frá risastórum leirþurs sem pissar á sig af hræðslu. Það fannst mér bráðfyndið og efni í heila bók! Svo er til sagan um systurnar Greip og Gjálp sem berjast ásamt pabba sínum við Þór. Þrumuguðinn sigrar í þeirri baráttu og Greip deyr … en ég hugsaði með mér: „Hvað ef hún deyr ekki!?“ Töfraspurningin „HVAÐ EF?“ getur nefnilega hjálpað til við að búa til alveg nýjar sögur! ÞURS Á ÞRIÐJUDEGI … Í norrænni goðafræði eru óskýrar línur á milli „góðu“ og „vondu kallanna“. Það eiga jú allir sínar góðu og slæmu hliðar. Goðin eru stundum eigingjörn og grimm og jötnar geta komið goðum til bjargar og framið hetjudáðir. Jötnar vernda náttúruna með kjafti og klóm. Þeir eru stórir, óhugnalegir og jafnvel dálítið ljótir. Sonur minn segir reyndar að enginn sé ljótur, þeir hafi bara „sinn stíl“. Guðir og jötnar geta bæði verið góðir og vondir, sjálfselskir og hjálpsamir, brosmildir eða brjálaðir í skapinu. Allt blandast í einn hrærigraut, bæði í goðafræði og raunheimum. Ég held að inni í okkur öllum rúmist goð og gyðjur, jötnar, þursar og tröll. Suma daga minni ég helst á latan leirþurs. Þá er ég úfin og ómöguleg og þramma um með (ímyndað) þrumuský yfir höfðinu. Aðra daga vakna ég hress og kát og kem miklu í verk með bros á vör. Sama manneskjan getur verið eins og þurs á þriðjudegi en sem guð/gyðja næsta morgun! Það sem skiptir mestu máli er að dæma sig og aðra aldrei út frá einum vondum degi. Ég má vera alls konar og þú líka! Kveðja, Bergrún Íris
VARÚÐ HÉR BÝR JÖTUNN Bergrún Íris Sævarsdóttir
VARÚÐ, HÉR BÝR JÖTUNN ISBN 978-9979-0-2578-8 © 2021 Bergrún Íris Sævarsdóttir © 2021 Teikningar: Bergrún Íris Sævarsdóttir Ritstjóri: Sigríður Wöhler Yfirlestur og álit: Andri Már Sigurðsson ritstjóri, Magdalena Berglind Björnsdóttir grunnskólakennari Málfarsyfirlestur: Ingólfur Steinsson 1. útgáfa 2021 Menntamálastofnun Kópavogi Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Ísafoldarprentsmiðja ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja Bók þessa má eigi afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta til eða í heild, án skriflegs leyfis höfunda, myndhöfunda og útgefanda.
Persónur 4 Snúður og læti 7 Hann er bara óviti 10 Göngustígurinn 14 Niður í dýpið 17 Hvar er Þór? 21 Iðandi ormar 24 Erum við örugg hérna? 27 Eltum slóðina 32 Það býr einhver hér 34 Óþægilegur felustaður 38 Slefandi skrímsli 41 Hver ert þú? 44 Arkað af stað 48 Annað mannabarn 51 Við læðumst þá bara 56 Andlitið í veggnum 59 Rætur og lauf 62 Er ég þrumuguð? 64 Dramatíski leirþursinn 67 Ég er að sökkva 70 Kartöflumús eða kjötsúpa? 73 Sprungan fyllist 75 Marta er ekkert vond 77 EFNISYFIRLIT
4 PERSÓNUR MARIUS Marius er lestrarhestur með áhuga á öllu undir sólinni. Hann er varkár og ábyrgur stóri bróðir og yfirleitt mjög jákvæður. MARTA Marta er óþolinmóð og oft frekar pirruð. Hún er líka ákveðin og óhrædd, jafnvel í ógnvekjandi aðstæðum.
5 ÞÓR Þór er þriggja ára orkubolti sem lætur ekkert stöðva sig. Hann hefur engan tíma til að hlusta eða hlýða Mariusi, stóra bróður sínum. GREIPA Jötunynjan Greipa er óvættur úr jötunheimum. Greipa þráir að hefna sín á þrumuguðinum Þór sem drap systur hennar og föður. HVÆSI Hvæsi er klikkaður köttur sem kemur Mariusi og Mörtu alltaf í vandræði. Hann er með hvassar tennur og stingandi gul augu sem virðast geyma hættuleg leyndarmál.
6
7 SNÚÐUR OG LÆTI „Hvert næst Marius?“ spyr Þór og horfir á mig stórum augum. Andlit hans er þakið súkkulaði eftir stutt stopp í bakaríinu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem okkur er hent út vegna látanna í litla bróður mínum. „Við getum klárað snúðinn heima hjá Mörtu. Hún býr í næstu götu.“ Ég strýk lubbann frá andliti Þórs. „Á hún djús? Mig langar í djús. Nei, kókómjólk eða heitt kakó! Með sykurpúðum!“ Þór valhoppar glaður eftir stéttinni. Hann hefur steingleymt því hvernig karlinn í bakaríinu skammaði okkur fyrir örfáum mínútum. Tárin eru þornuð og atvikið því bara súkkulaðihúðuð minning. „Hún á örugglega eitthvað að drekka. Allavega vatn. Sjáðu, hér er húsið hennar. Þetta græna.“ Við Þór leiðumst upp stigann. Pínulítil höndin hverfur næstum í lófa mínum.
8 „Einn, tveir og … banka!“ segi ég og blikka Þór. Svo bönkum við leynibankið okkar í takt. Bankið hljómar eins og takturinn í uppáhaldslaginu hans. Þrisvar hratt, tvisvar hægt og þrisvar hratt. Marta kemur til dyra. Augu hennar leita frá mér og niður að bróður mínum. „Ertu ekki að djóka, Marius?“ Ég veit ekki hvers vegna Marta er í svona vondu skapi. Sólin skín, fuglarnir syngja og það er enginn með lús í skólanum! Hvað gæti verið að angra hana í þetta skiptið? Ég reyni að brosa eins smitandi brosi og ég get. Kannski hressist hún eitthvað við það. „Blessuð, Marta. Má ég kynna þig fyrir Þór, litla bróður mínum?“ spyr ég. Svo ýti ég Þór inn í anddyrið á undan mér. „Þetta er ekki leikskóli, sko!” segir Marta snúðug. „Áttu dót?“ hrópar Þór. Hann sparkar af sér skónum og hendir húfunni á gólfið.
9 Svipur Mörtu segir mér að hún sé ekki mjög ánægð með heimsóknina. Ég beygi mig eftir skóm Þórs og raða þeim upp við vegginn. Húfuna legg ég á litla kommóðu í anddyrinu. „Æ … Þór er dálítið fjörugur. Þú verður að afsaka lætin í honum. Pabbi þurfti að vinna svo ég bauðst til að passa.“ „Bauðstu bara til þess? Færðu ekki einu sinni borgað?“ spyr Marta en bíður ekki eftir svari. Við fylgjum slóð af mylsnu inn eftir ganginum. Í herbergi Mörtu hefur Þór komið sér fyrir undir sæng. Hvæsi liggur þétt upp við hann og malar. Geðstirður kötturinn er ekki vanur að vera svona kelinn. Honum líst greinilega vel á hálfétinn snúðinn sem liggur á sænginni. Á ljósu rúmteppi Mörtu eru nú dökkbrúnir súkkulaðiblettir. Hún dæsir og kippir í öxlina á mér. „Marius! Krakkinn getur ekki verið hérna. Ekki ef hann ætlar að skíta allt út! Við verðum að fara með hann út á róló eða eitthvað.“ „Já, það er kannski best,“ samsinni ég.
10 HANN ER BARA ÓVITI „Marta! Áttu kókómjólk?“ hrópar Þór um leið og hann stendur upp. Svo byrjar hann að hoppa í rúminu. Hvæsa bregður og stekkur á fætur. Ég gríp Þór í miðju hoppi en Hvæsi lætur sig hverfa fram á gang. „Rólegur Þór,“ segi ég eins blíðum rómi og ég get. „Skammaðu hann!“ segir Marta og sendir mér illt auga. „Hann er bara barn,“ segi ég og fylgi Þór fram á bað. Ég lyfti honum upp á vaskinn og læt vatnið renna rólega. „Fyrst hægri höndin … “ „SULLA!“ „Nei, nei, ekki sulla,“ svara ég en Þór nær taki á krananum.
11 Hann skrúfar frá vatninu af fullum krafti og skvettir framan í mig. Áður en ég veit af hefur Þór rennbleytt mig allan. Gólfið, veggirnir og spegillinn eru á floti. „Ókei, út núna,“ segir Marta pirruð. Ég ætla að teygja mig eftir handklæðinu til að þerra á mér andlitið en augnaráð Mörtu stoppar mig af. Hún fylgir okkur fram í anddyri. Fyrst hjálpa ég Þór að reima og renna upp úlpunni. Svo klæði ég mig í strigaskóna. Þegar ég stend aftur upp mæti ég enn einu sinni kaldri störu Mörtu. „Bróðir þinn er brjálaður,“ segir hún út um samanbitnar tennurnar. „Nei, nei, hann er bara svolítið … hress,“ svara ég og reyni að brosa. „Hann er nú bara þriggja ára.“ Það þýðir lítið að þræta við Mörtu en ég geri það samt. „Þú þarft bara að hafa stjórn á honum,“ segir Marta. „En … þriggja ára börn eru bara óvitar,“ svara ég.
12 Óviti er mikilvægt orð sem krakkar læra þegar þeir eignast systkini. Þegar Þór byrjaði að skríða breyttist hann úr litlu krútti í hættulegan óvita. Hann prílaði á öllu, nagaði legókubbana mína og togaði fast í hárið á mér. Á meðan ég reyni að útskýra orðið óviti fyrir Mörtu hangir Þór í hurðarhúninum. Hann býr til svo mikil læti að ég heyri varla eigin hugsanir. „KISA!“ hrópar Þór allt í einu. „Já, já, kisa,“ svara ég annars hugar. „Kisa úti!“ segir Þór og bendir út um galopnar dyrnar.
13 „Ó nei! Hvæsi!“ öskrar Marta. Hún klæðir sig í skó á methraða og hleypur af stað. Ég toga Þór út og reyni að halda í við Mörtu. „Elta kisu!“ segir Þór en hann fer of hægt. Ég beygi mig niður, tek bróður minn á bakið og hleyp eins hratt og ég get. „Hvert fór kötturinn?“ hrópa ég í átt að Mörtu. „Þangað, á göngustíginn!“
14 GÖNGUSTÍGURINN Við hægjum ferðina. Ef Hvæsi liggur hér í felum er best að fara varlega. Það er hvort sem er engin leið að hlaupa eftir þröngum göngustígnum. Hér var kannski einu sinni pláss fyrir gangandi fólk en með tímanum hefur náttúran tekið yfir. Risavaxin ösp varpar á okkur dökkum skugga. „Hvert fór sólin?“ spyr Þór og læsir handleggjum utan um hálsinn á mér. „Bak við stóra tréð,“ svara ég og bendi upp. Fyrir ofan okkur hanga sverar trjágreinar. Þær svigna og mynda þak yfir göngustíginn. Grófar rætur hafa brotið sér leið í gegnum grátt malbikið. Þess vegna hefur göngustígurinn bólgnað upp. Sprungan í honum miðjum minnir mig á sand- kökuna sem afi bakar alltaf á sunnudögum. Við læðumst innar eftir stígnum. Marta stoppar og beygir sig niður við útkrotaðan rafmagnskassa. Þór iðar á bakinu á mér og það er erfitt að halda honum kyrrum. „Sérðu Hvæsa?“ hvísla ég lágt að Mörtu.
15 „Uss Marius, ég er að leita,“ svarar hún höst. „Já, USS Marius!“ hermir Þór eftir Mörtu og hlær í eyrað á mér. „Hei Þór! Hættu þessum látum,“ segir Marta og hvessir á hann augun. „Marta, ekki … “ byrja ég en það er of seint. Þór byrjar að öskra af lífs og sálar kröftum. Það er líkt og skrúfað hafi verið frá garðslöngu. Tárin sprautast í allar áttir. Ég læt hann síga af bakinu. „Svona, svona. Þetta er allt í lagi,“ segi ég og strýk honum um hárið. „Hún var ekki að skamma þig.“ „Víst var ég að skamma hann,“ hnussar í Mörtu. Nú orgar Þór enn hærra og spennist allur upp. Marta stendur sem frosin og starir á Þór.
16 Hún hefur aldrei séð reiðiköstin hans áður. Það er ótrúlegt hversu mikil orka kemst fyrir í svo litlum líkama. Þór er bara þriggja ára en öskrar hærra en þungarokkari. Ég toga ermina fram yfir hægri höndina til að þurrka honum í framan. Tárin fossa án afláts niður á sprungið malbikið. „Marius … “ segir Marta lágt. „Hvað?“ spyr ég án þess að líta á hana. Þór er orðinn rauður í andlitinu af áreynslu. „Marius, sjáðu … jörðina.“ Það vottar fyrir ótta í rödd Mörtu. „Bíddu aðeins,“ svara ég og faðma Þór að mér. Hann andar hratt en hefur loks hætt að orga. Ég reisi mig við til að líta á Mörtu en hún er horfin. Þar sem hún stóð áðan er nú ekkert nema þykkur reykur. Hún hefur gufað upp!
17 NIÐUR Í DÝPIÐ Ég rígheld í Þór og reyni að átta mig á aðstæðum. Smám saman leysist gufan upp. Þá fyrst sé ég að sprungan í malbikinu hefur gliðnað í sundur! Jörðin hefur … gleypt Mörtu! „Förum heim núna,“ segir Þór, hás eftir öskrin. „Við verðum að finna Mörtu fyrst.“ En … hvað ef Marta datt ofan í sprunguna? hugsa ég skelkaður. Ætti ég að sækja mömmu hennar? Eða hringja á Neyðarlínuna? Slökkviliðið gæti sótt hana með stiga. Nema þetta sé verkefni fyrir Björgunarsveitina. Hugsanirnar hringsnúast í höfðinu á mér. „Hvar er kisa?“ spyr Þór og togar í mig. Ég dreg andann djúpt og færi mig örlítið nær sprungunni. Til að passa Þór held ég honum kyrrum fyrir aftan mig. Sjálfur hef ég ekki hugmynd um hvers vegna jörðin opnaðist. Ef það var jarðskjálfti þá fann ég ekkert fyrir honum! Það voru svo mikil læti í Þór. Kannski
18 missti ég bara af skjálftanum. Hvít gufan blindar mig svo ég á erfitt með að sjá ofan í djúpa sprunguna. „Marta?“ kalla ég niður. „MARTA!?“ Vonandi hefur hún náð taki á steini, nálægt yfirborðinu. Þá verður lítið mál að kippa henni upp. Hún er reyndar ekki týpan sem bíður eftir að vera bjargað. Allra síst af mér! Marta er bæði hugrakkari og sterkari en ég. Það að hún sé hvergi
19 sjáanleg segir mér að hún sé djúpt niðri í jörðinni. Mjög djúpt og örugglega steinrotuð! Allt í einu finn ég eitthvað strjúkast við fótlegginn á mér. Hvæsi mjálmar og fikrar sig í átt að sprungunni! „Kisi!“ segir Þór glaður. Næstu sekúndur líða svo hratt að ég næ varla að blikka! Hvæsi fetar sig eftir brotnu malbikinu og hnusar af gufunni. Gul kattaraugun líta örsnöggt á mig. Svo hvæsir hann hátt og tekur dýfu niður í djúpa sprunguna. „Ég líka! Eins og kisi!“ hrópar Þór og slítur sig frá mér. Þór hoppar á eftir Hvæsa ofan í gufufyllta sprunguna. Ég næ ekki einu sinni að hugsa mig um heldur fer rakleiðis á eftir litla bróður mínum. Ég þori þó ekki að hoppa heldur fikra mig varlega, stein fyrir stein. Gufan er ísköld og rakinn læsir sig í fötin mín. „Þór, hvar ertu?“ kalla ég og held áfram að feta mig ofan í dýpið.
20 Ég vil ekki að trúa því að þetta sé að gerast í alvöru. Kannski er þetta bara draumur. En svo finn ég kuldann nísta inn að beini og veit að ég er glaðvakandi. „ÞÓR?!“ kalla ég aftur. Þegar ég ætla að stíga niður á næsta stein finn ég fast land undir fótum. Ég er kominn niður á botn. Hér er dimmt og rakt. Ég venst myrkrinu og get loks séð í kringum mig. En ég sé hvorki Þór, Mörtu né Hvæsa. Maginn á mér herpist saman í stóran hnút.
21 HVAR ER ÞÓR? Gjáin er djúp og fremur þröng. Ég fikra mig áfram eftir grófum jarðvegi. Hendurnar styðjast við ískalda steinveggina. Vonandi er Þór ekki hræddur. Þessi litli orkumikli drengur er reyndar aldrei hræddur. Hann hefur í raun aðeins tvær stillingar. Þór er alltaf annaðhvort mjög glaður eða rosalega reiður. Tilfinningar Þórs fara aldrei fram hjá fólki. Þegar hann gleðst er eins og sólin skíni og auðvelt að hrífast með. Fólk hlær og klappar þegar Þór dansar og syngur. En þegar hann reiðist líður mér eins og svört ský hylji sólina. Öskrin minna á háværar þrumur og það er næstum eins og augun skjóti eldingum. Amma kallar hann oft Þór þrumuguð. Allir eru sammála um að nafnið fari honum vel. Afi segir hins vegar að Þór verði að læra að stilla skap sitt. Það sé ekki sanngjarnt fyrir aðra í fjölskyldunni að búa við þessi köst hans. Ég skil vel hvað afi meinar. Stundum væri ágætt ef Þór
22 gæti verið rólegur. En hann er bara þriggja ára og oftast fyndinn og skemmtilegur. Það bætir upp fyrir bræðisköstin. Ég finn aftur sting í maganum. Hvar er Þór? „Halló! Heyrið þið í mér?“ kalla ég inn í myrkrið. Ekkert svar berst. Ég píri augun til að reyna að sjá betur. Það er erfitt að átta sig á lengd ganganna. Þegar ég held að ég sé kominn að enda þeirra kvíslast þau í tvær áttir. Til vinstri er leiðin mjög þröng. Steinarnir sem standa út úr veggjunum eru hvassir og grófir. Mér finnst ólíklegt að Marta,
23 Þór og Hvæsi hafi farið þessa leið. Leiðin til hægri virðist töluvert breiðari. Ég stíg varlega inn í hvíta gufuna og veifa henni frá mér með höndunum. Það kæmi mér ekki á óvart ef Þór væri bara að fela sig. Hann gerir það í hvert sinn sem við förum í búð eða á bæjarhátíðir. Þá nýtir hann hvert tækifæri til að stríða mér og foreldrum okkar. Hann felur sig í fatarekkum, undir runnum eða bak við tré. Í fyrra klifraði hann meira að segja upp í barnavagn í miðri skrúðgöngu. Við leituðum dauðhrædd að honum og það var ekki fyrr en að barnsgrátur heyrðist úr einum vagninum að Þór fannst þar, alsæll. Eigandi vagnsins var ekki jafn sáttur enda hafði Þór rifið af honum snuðið og stungið því upp í sig. „Þór,“ kalla ég. „Engan feluleik núna … Segðu mér hvar þú ert!“ Þá heyri ég þrusk innan úr myrkrinu. Ég anda léttar, feginn að hafa loks fundið Þór. Ég ætla að stökkva fram og grípa hann í fangið en mér bregður. Manneskjan fyrir framan mig er ekki Þór …
24 IÐANDI ORMAR „Marta,“ segi ég og get ekki falið vonbrigðin í röddinni. „Marius! Vá, hvað ég er fegin að sjá þig! En … hvar er Hvæsi?“ „Er þér alvara? Hugsarðu bara um þennan heimska kött? Hvað með Þór?“ spyr ég hneykslaður. „Já, þú meinar. Er hann líka hérna niðri?“ „Já … Marta, hann er bara þriggja ára. Það er svo dimmt. Hvað ef hann er meiddur?“ Ég finn augun fyllast af tárum. Marta tekur utan um mig og segir eitthvað en ég heyri ekki orð. Það eina sem ég heyri eru mínar eigin ærandi hugsanir. „Við verðum að finna hann,“ segi ég og sýg upp í nefið. „Já, já. Auðvitað finnum við hann, og Hvæsa líka,“ segir Marta ákveðin. „Þetta getur ekki verið svo stórt svæði!“ Sprungan er líklega ekki nema 20 metra löng, en hver veit hvert þessi hliðargöng leiða. Vatn dropar
25 af grjóti veggjanna. Göngin eru lokuð og við sjáum ekki lengur til himins en þó er ekki niðamyrkur. Hvít gufan virðist upplýst og það glampar á dropana. „Hvaðan kemur ljósið?“ hugsa ég upphátt en efast um að Marta hafi veitt því nokkra athygli. „Hvaða ljós?“ „Bara … birtan? Það ætti að vera alveg dimmt hérna niðri.“ Við göngum innar og sjáum græna bletti á víð og dreif um veggina. Ég geng alveg upp að þeim og skoða þá betur. „OJ!“ hrópa ég og hrökklast aftur á bak. „Hvað nú?“ spyr Marta hneyksluð. „Það … iðar allt.“ „Hvað meinarðu iðar?“
26 „Ljósið er á hreyfingu. Þetta eru óteljandi litlir … skríðandi ormar,“ segi ég og hrylli mig. „Nauh! Glætan,“ segir Marta og kemur nær. Skyndilega klæjar mig alls staðar. Ég klóra mér hratt á höfðinu, hnakkanum og jafnvel inni í eyrunum. „Marta, ekki fara nálægt þeim,“ segi ég og toga hana frá veggnum. „En þeir eru snilld! Þeir eru eins og lifandi vasaljós. Það þarf ekki einu sinni rafhlöðu!“ Á meðan ég klóra mér dáist Marta að ljósormunum. Við gætum ekki verið ólíkari. Hún elskar allt sem er skrítið og hættulegt. Hana langar til dæmis í fallhlífarstökk þegar hún verður eldri. Það myndi ég aldrei gera! Ég er oftast rólegur en hún veður yfirleitt áfram, án þess að hugsa. Þau Þór eru reyndar ansi lík, þegar ég hugsa út í það. „Getum við haldið áfram að leita að bróður mínum?“ spyr ég argur. „Hei, sjáðu!“ segir Marta og snýr sér við.
27 ERUM VIÐ ÖRUGG HÉRNA? Marta hefur tekið upp ílangan stein þakinn ótal ljósormum. Nú heldur hún steininum uppi eins og kyndli. „Finnst þér þetta ekki töff?“ spyr hún, ánægð með sig.
28 Töff er kannski ekki rétta orðið. Ljósið virkar vissulega mjög vel. Mig langar bara ekki að leiða hugann að iðandi ormunum. „Jú, þetta er rosa flott,“ svara ég en held mig í öruggri fjarlægð. „Nú sjáum við miklu betur!“ Marta veifar steininum og býr til ljósrákir út í loftið. Gufan hörfar og loks sé ég almennilega í kringum mig. Við erum stödd í nokkuð breiðum göngum. „Vá, hvað þetta er skrítinn staður!“ segir Marta hátt. „Ég meina, vissir þú að það væru göng hérna, undir göngustígnum?“ „Auðvitað vissi ég það ekki,“ svara ég hranalega. „Við erum líka komin langt frá göngustígnum. Erum væntanlega undir hrauninu, bak við leikskólann. Það er að segja ef við höfum haldið stefnunni í norðvestur síðan ég fann þig.“ „Norður, vestur, bla bla,“ hnussar í Mörtu. „Það var reyndar ÉG sem fann ÞIG!“ „Hvað meinarðu Marta! Þú varst týnd, ég var að bjarga þér.“
29 „Einmitt … “ svarar hún kaldhæðnislega. „Hver bað þig um að bjarga mér?“ Þetta er samtal sem ég nenni ekki að taka þátt í. Marta getur verið svo … pirrandi. „Ég var ekki einu sinni að reyna að finna þig. Bara Þór.“ „Nákvæmlega. Þór, litla bróður ÞINN. Það var hann sem kom okkur í þessi vandræði!“ „Reyndar var það kötturinn þinn sem slapp út … eins og alltaf þegar eitthvað hræðilegt gerist.“ „Það er óþarfi að kenna Hvæsa um allt,“ segir Marta og horfir á mig. „Þór hleypti honum út! Hann sullaði líka vatni út um allt og klíndi súkkulaði í rúmið mitt.“ Við fikrum okkur lengra inn göngin. Marta lýsir í kringum sig. Ég horfi niður fyrir mig á hraunklöpp og reyni að sjá fyrir mér eldgosið sem bjó þennan undarlega stað til. „Hugsaðu þér Marta. Hér rann logandi hraun fyrir mörg þúsund árum.“ „Mhm … “ samsinnir Marta án þess að líta á mig.
30 „Fyrst kom hraun sem byrjaði að storkna. Svo kom nýtt og enn þá heitara hraun í gegn ... “ „Marius … Þarftu að halda fyrirlestur núna?“ grípur Marta fram í fyrir mér. „Nei, nei … en þetta er mjög áhugavert.“ „Þér finnst þetta áhugavert,“ segir Marta og gjóar til mín augunum. „Vissirðu að nýja hraunið frussast í gegnum það gamla. Þannig myndast göng, eða hellir, undir hrauninu sem var byrjað að storkna.“ Marta svarar engu og ranghvolfir bara augunum. Ég held áfram að tala. Það er betra að hugsa um hraun en að ímynda sér allt það hræðilega sem gæti hafa komið fyrir Þór. „Þess vegna er hraunþak yfir okkur og þessi svaka göng hér.“ „Einmitt,“ ansar Marta en ég efast um að hún sé að hlusta. „Svo gæti þakið bara hrunið yfir okkur … “ segi ég til að ná athygli Mörtu.
31 Marta stoppar og snýr sér að mér. „HA!? Gæti grjótið dottið niður?“ „Marta … kommon,“ segi ég og hlæ. „Göngin hafa staðið í örugglega fimm þúsund ár.“ „En … Þú sagðir að þau gætu hrunið!“ segir Marta og veifar höndunum til og frá. Nokkrir ljósormar detta af steininum. Ég bakka til að fá þá ekki á mig. Þeir iða á jörðinni, glóandi og klístraðir. „Ég var bara að grínast,“ segi ég afsakandi við Mörtu. „Ertu þá ALVEG viss um að við séum örugg hérna?“ „Já, já … eða nei. Ég er nokkuð viss um að göngin munu ekki falla saman. En hvort við erum örugg? Ég er ekki svo viss.“ Marta beygir sig niður og skefur ljósormana upp með steininum. Svo leggst hún skyndilega á hnén og pírir augun ofan í hraunið. „Ég sé slóð! Sjáðu!“
32 ELTUM SLÓÐINA Marta tekur eitthvað lítið og ljóst upp úr jörðinni og heldur því fyrir framan nefið á mér. „Finnurðu lyktina?“ Ég fitja upp á nefið. Hún heldur á einhverju sem líkist brauði en lyktin er sætari. Ég loka augunum. Það fer ekki á milli mála. Hún hefur fundið mylsnu af súkkulaðisnúð! „Sko, Marius, heil snúðaslóð! Nú finnum við Þór!“ Marta dustar rauðbrúnt ryk af buxunum og horfir ákveðin inn göngin. Mig langar að trúa henni og gleyma áhyggjunum. Ég geri mitt besta til að hugsa jákvætt. Mylsnan mun leiða okkur að litla bróður mínum sem er eflaust með súkkulaði út á kinn, alsæll í spennandi feluleik. „Hér er annar moli!“ segir Marta og ég fylgi á eftir. Við fikrum okkur hægt eftir ójöfnu hrauninu. Einn af öðrum leiða snúðamolarnir okkur eftir göngunum. Smám saman þrengja veggirnir að okkur.
33 Ég fæ gæsahúð frá tám og upp í hnakka. Það hefur kólnað. Allt í einu stöndum við fyrir framan risastórt hellisop. Frá því berst dularfull og köld birta. Gufan í loftinu breytist í hrím á veggjunum. Mér finnst eins og ég standi í kælinum í búðinni, með hroll inn að beini. „Úúú, hellir!“ segir Marta með uppglennt augun. Svo gengur hún inn í hellinn án þess að hika.
34 ÞAÐ BÝR EINHVER HÉR Ég elti Mörtu hikandi. Þór hlýtur að vera hér einhvers staðar. En hvar? Fyrir ofan okkur glitrar á ótal kristalla. Birtan frá ljósormum endurkastast í kristöllunum. Hellirinn er baðaður blágrænu ljósi. Upp úr gólfinu standa skrítnir dropasteinar. Mér bregður í brún þegar ég rek augun í stall sem líkist risastóru rúmi. Ofan á því er teppi úr grófu og skítugu strigaefni. Við hlið rúmsins er gamall trjábolur sem minnir á náttborð. Að mér læðist óþægilegur grunur. „Það … býr einhver hér,“ hvísla ég að Mörtu. „Vá, þetta er æði!“ segir hún og skoðar sig um. „Heldurðu að þetta sé svefnherbergið … og þarna eldhúsið?“ Marta virðist örsmá við hliðina á risavöxnum húsgögnum úr trjádrumbum og steinum. Hún prílar upp á einn drumbinn og grandskoðar hátt borð. Drumburinn er valtur og ég ætla að vara hana við en sleppi því. Það væri tímasóun að segja Mörtu að fara varlega. Hún myndi aldrei hlusta.
35 „Heldurðu að þetta sé Grýluhellir?“ segir hún og hlær. „Þá er nú eins gott að finna Þór. Grýla gæti verið svöng … “ Marta glottir en mér er ekki hlátur í hug. „Sjáðu þetta,“ segir Marta og rennir fingrinum eftir grófri borðplötunni. Ég geng hikandi nær borðinu. Í kaldri birtunni sést greinilega að ýmis tákn hafa verið rist í borðið. „Heldurðu að þetta séu rúnir?“ spyr Marta.
36 Hnúturinn í maganum hefur fært sig upp í háls. Ég á erfitt með að trúa því að Þór sé týndur í drungalegum helli. „Þór … “ kalla ég út í loftið. „Feluleikurinn er búinn núna … “ Ég fikra mig á milli hárra dropasteina og leita að litla bróður mínum. „Þú vinnur Þór! Ég gefst upp. Komdu nú heim,“ segi ég en röddin er við það að bresta. „Hvææææsi,“ kallar Marta hátt. Hingað til hefur mér tekist að halda tárunum inni en nú fæ ég nóg. „Geturðu PLÍS hjálpað mér að finna Þór! Kötturinn bjargar sér sjálfur!“ Ég er svo reiður út í Mörtu að mig langar að öskra á hana. „Vó, rólegur Marius. Við finnum þá bara báða! Mamma verður sko brjáluð ef ég kem ekki heim með Hvæsa.“
37 „Leitaðu þá bara að kettinum þínum. Ég ætla að finna litla bróður minn ef þér er sama.“ Marta muldrar eitthvað sem ég heyri ekki. Svo gengur hún inn ein af mörgum hliðargöngum úr hellinum. Ég er feginn að losna við hana. Mér á eftir að ganga miklu betur að leita nú þegar ég er einn. Nú þegar ég er aleinn og enginn að trufla mig. Aleinn í drungalegum hellinum …
38 ÓÞÆGILEGUR FELUSTAÐUR Hingað til hef ég látið Mörtu stjórna ferðinni. Nú þarf ég að treysta á sjálfan mig. Skoða staðreyndirnar í stað þess að hlaupa í blindni á eftir Mörtu. Ég renni yfir nokkrar vísbendingar í huganum. 1. Ég sá Þór hoppa niður á eftir Hvæsa. Hann hleypur hratt og er mjög hrifinn af kettinum. Það eru því góðar líkur á að þeir séu einhvers staðar saman. 2. Við eltum snúðamylsnuna hingað inn. Slóðin endaði í þessu rými. Þór er enn þá hér inni eða búinn að borða snúðinn upp til agna. Nema einhver sé búinn að borða Þór … 3. Hvæsi og Þór eru báðir litlir. Þeir geta falið sig í holum og undir húsgögnum. Ég þarf að leita á stöðum þar sem ég myndi sjálfur ekki fela mig. 4. Hvæsi vill gjarnan troða sér ofan í kassa, inn í skápa, leggja sig í hægindastól og … undir teppi!
39 Hvað ef þeir eru í felum undir rúmteppinu? Það fyrsta sem Þór gerði heima hjá Mörtu var að stökkva upp í rúmið og koma sér fyrir undir teppi. Jafnvel þótt hann hefði aldrei komið heim til hennar áður! Ég lít í átt að risastóru rúminu. Það er úr grjóti og teppið svo gróft að það hlýtur að rispa mann og klóra. Þetta getur ekki verið þægilegur felustaður. Ég tek stefnuna rakleitt að rúminu. Ég kippi með báðum höndum í teppið. Það er svo þungt að ég þarf að beita öllu afli til að draga það niður á gólf. „Þór!“ kalla ég hátt upp fyrir mig. „Ég fann þig! Komdu niður!“ Fyrir ofan mig sé ég móta fyrir hreyfingu en … þetta fyrirbæri er allt of stórt til að vera Þór. Allt í einu réttir hrúgan úr sér. Ég stend sem límdur við gólfið og reyni að skilja það sem ég sé. Hvorki Þór né Hvæsi leyndust undir teppinu heldur einhvers konar … tröll? Skrímsli? Stórvaxin veran nuddar augun groddalega, líkt og hún sé að reyna að vakna.
40 Ég fikra mig hægt á bak við dropastein og held áfram að stara á veruna. Ef ég þyrfti ekki nauðsynlega að finna Þór væri ég löngu flúinn. Ég myndi hlaupa eins hratt og ég gæti út úr hellinum og eftir hraungöngunum. Svo myndi ég klifra upp úr sprungunni og vona að skrímslið elti mig ekki heim.
41 SLEFANDI SKRÍMSLI En ég get ekki bara farið og skilið Þór eftir. Ég get ekki heldur yfirgefið Mörtu og Hvæsa. Skrímslið étur eflaust ketti í morgunmat. Varla börn, því ég hefði heyrt af því ef börn hefðu horfið sporlaust. Kettir eru hins vegar alltaf að týnast. Svo er auglýst eftir þeim í búðum og bókasöfnum. Í bakaríinu sá ég tvær auglýsingar um týnda ketti. Skrímslið hefur pottþétt étið fressköttinn Flóka og læðuna Loðdísi sem hurfu fyrir stuttu síðan. Ég hnipra mig saman og reyni að anda rólega. Nú geispar skrímslið svo ég sé upp í opinn kjaftinn. Þar leynast undarlega margar og beittar tennur. Þær raðast aftur eftir gráum gómnum, alla leið ofan í djúpt kokið. Tvær skögultennur standa út úr neðri góm. Ég sé engin kattahár í stórum kjaftinum svo ég held í vonina að hvorki Hvæsi né Þór hafi verið étnir. Skrímslið teygir úr sér og sveiflar dýrslegum fótum fram úr rúminu. Það hnussar út í loftið, líkt og það sé að leita að mér með stórum nösunum. Svo pírir
42
43 það svört augun allt í kringum sig og tekur þung skref í áttina að mér. Ég loka augunum og hnipra mig saman. Vonandi er þetta ekki skrímsli, heldur bara dýr sem enginn hefur fundið áður. Ég gæti orðið heimsfrægur. Dýrið yrði nefnt eftir mér. Marius Monstrum, eða Marius Taurus, því skrímslið minnir dálítið á naut. Dýr hafa alltaf svona latnesk nöfn. Þungt fótatak truflar hugsanir mínar. Ég heyri skrímslið nálgast og hellisgólfið titrar í hverju skrefi. Allt í einu hitnar mér á höfðinu. Andardráttur verunnar er heitur og hræðilega illa lyktandi. Pabbi er mjög andfúll á morgnana en þessi lykt slær öllu við. Skrímslið hnussar og smjattar út í loftið. Þykkt slef drýpur úr kjaftinum og lendir í hárinu á mér. Það lekur niður eftir hálsinum og ég lít upp, beint í augu slefandi kynjaverunnar.
44 HVER ERT ÞÚ? „EKKI ÉTA MIG!“ hrópa ég og stekk frá skrímslinu. Það starir á mig tómum augum og hallar höfðinu. Skrímslið mælir mig út, frá toppi til táar. Það sem ég geri næst kemur jafnvel sjálfum mér á óvart. Ég rétti fram höndina, eins og til að bjóða skrímslinu að þefa af henni. Það virkar allavega á hunda. „Sssh … “ segi ég sefandi röddu. Skrímslið stígur nær mér með nasirnar þandar. Ég reyni að anda rólega, sýnast öruggur og óhræddur. Hundar finna víst lyktina af ótta, og skrímsli eflaust líka. „Ssh … “ segi ég aftur. Mér dauðbregður þegar skrímslið opnar kjaftinn. Hvassar tennurnar eru svo nálægt hendinni á mér. Allt of nálægt. Ég kippi hendinni til baka en þá reisir skrímslið sig við og hefur upp raust sína. „HVER ERT ÞÚ?“ rymur það hátt og frussar á mig í leiðinni.
45 Mig verkjar í eyrun. Ég bjóst við ýmsu en ekki að skrímslið gæti talað. „Segðu til nafns,“ heimtar skrímslið og ég reyni að finna röddina. „Eh … Ég heiti Marius.“ Nú myndi Marta líklega spyrja skrímslið að nafni. Hún er svo hugrökk. En Marta er ekki hér svo ég verð bara að láta vaða. „En þú … ? Hvað heitir þú?“ Ég skelf af hræðslu á meðan ég bíð eftir svari frá skrímslinu. Það grettir sig og kemur enn nær mér. „Hvernig dirfist þú að vekja sjálfa Greipu?“ Einmitt … hún heitir sem sagt Greipa. Ég reyni að láta mér detta eitthvað gott svar í hug. Svar sem verður ekki til þess að Greipa éti mig í einum munnbita. „Ó, afsakaðu. Ég er að leita að bróður mínum. Hann er sko … hann er bara þriggja ára, algjör óviti. Ég skal finna hann og koma mér burt héðan. Þá getur þú farið aftur að sofa.“
46 Svarið virðist fara öfugt ofan í Greipu. Hún teygir fram stóran hramminn og potar í mig með einum fingri. Það er þó ekkert eins og pot. Meira eins og að vera kýldur af öllu afli. Mig verkjar í bringuna. „MANNABARN! Hvað hef ég eiginlega sofið lengi?“ spyr Greipa og klórar sér á loðinni hökunni. „Afsakaðu, en ég hef því miður engin svör við því. Ég skal bara finna Þór og láta mig hverfa.“ „Sagðirðu ÞÓR!?“ öskrar Greipa. Slefið slettist um allt. Hún rífur ákveðin í hettuna á peysunni minni og togar mig að sér og upp af jörðinni. Ég dingla í lausu lofti og á erfitt með að ná andanum. „Hvar er Þór, sá fúli fjandi? Ég þarf að eiga við hann orð! Hann drap bæði systur mína og föður!“ Ég reyni að svara en hettan þrengir að hálsinum á mér. Röddin er hás og aum, líkt og raddböndin hafi lent í blandara. „Eghh … “ Ég geri tilraun til að ræskja mig. „Minn Þór er bara þriggja ára! Settu mig niður.“
47 „Þór vill útrýma öllu mínu kyni. Ég á harma að hefna! HVAR ER HANN?“ Á meðan Greipa hristir mig dettur mér snjallræði í hug. Peysan er frekar stór. Með því að halda höndunum fyrir ofan höfuð næ ég að láta mig renna úr henni! Ég lendi á hraungólfinu. Þar stend ég á stuttermabol og skelf bæði af kulda og hræðslu. Ég gríp hvassan stein af jörðinni og held honum fyrir framan mig. Greipa hlær. „Heyrðu væni! Þótt þú sért hér í fylgd Þórs þrumuguðs ertu sjálfur bara aumur væskill.“ Þór þrumuguð? Heldur hún að litli bróðir minn sé af ásakyni? Eins og guðirnir í goðafræði!? Það þýðir að hún er ekki skrímsli … heldur jötunn!
48 ARKAÐ AF STAÐ Mér svelgist á. Ég bakka ofur varlega í átt að hellismunnanum. „Hvert þykist þú vera að fara,“ segir Greipa og hvessir augun. „Ég ætla ba … ba … bara …, “ stama ég stressaður. „Bara hvað? Ef þú ætlar að leita að Þór þá kem ég með!“ „Já, einmitt. Að sjálfsögðu,“ svara ég til að gera hana ekki reiða. Kannski er ágætt að hún hjálpi mér að leita. Þá getur hún séð með eigin augum að Þór er bara þriggja ára. Hann er enginn þrumuguð. Greipa þrammar á undan mér eftir göngunum. „Kallaðu á hann,“ skipar Greipa og ég þori ekki annað en að hlýða. „Þóóór!? Hvæsi?“ kalla ég hikandi. „Hver er þessi Hvæsi,“ urrar Greipa á mig.
49 „Kötturinn hennar …, “ byrja ég en hætti við að minnast á Mörtu. Vonandi hefur hún komist upp úr sprungunni og hringt í björgunarsveitina. „KÖTTUR!?“ öskrar Greipa hátt. „Ég vil engin loðkvikindi í mínum vistarverum.“ „Nei, veistu ég skil það mjög vel,“ svara ég heiðarlega. „Ég skal fylgja kettinum heim til sín. Bara um leið og við finnum hann.“ Ég á erfitt með að halda í við Greipu. Hún er svo stórstíg að hvert skref er næstum því tveir metrar. „Svona nú smælingi! Áfram gakk!“ „Ég er að reyna,“ svara ég, móður og másandi. Loks gefst Greipa upp á að bíða eftir mér og snýr sér við. Hún mælir mig út með augunum og gengur alveg upp að mér. Allt í einu kippir hún mér upp og heldur mér undir öðrum handleggnum. Svo arkar hún af stað. Sterkir armar jötunsins halda mér föstum. Mér líður eins og hún ætli að kremja í mér öll innyfli. Á sama tíma er ég reyndar dálítið feginn að geta hvílt þreytta fæturna.
50 Við höfum þrætt göngin í þó nokkurn tíma og kallað á Þór og Hvæsa til skiptis. Ég á erfitt með að átta mig á landslaginu hérna niðri. Mér finnst þó eins og við nálgumst sprunguna þar sem ég kom fyrst niður. „ÞÓÓÓR!“ kalla ég einu sinni enn. Um leið heyri ég einhvers konar stríðsöskur fyrir aftan okkur. Nokkrum grjóthnullungum er kastað í Greipu sem snarstansar. „SETTU HANN NIÐUR!“ öskrar röddin.
51 ANNAÐ MANNABARN Greipa snýr sér við. Þarna, í miðjum göngunum, með fullt fang af steinum, stendur Marta. Hún er brjáluð, hugsa ég með mér og klemmi aftur augun. „Annað mannabarn!“ frussar Greipa. „Slepptu vini mínum!“ segir Marta ákveðin og lyftir hendinni. „Annars kasta ég steininum beint í ennið á þér. Ég er sko að æfa körfu og handbolta! Ég er fáránlega hittin!“ Greipa hlær gruggugum hlátri, eins og illmenni í hryllingsmynd. Svo tekur hún skref í átt að Mörtu. Áður en ég veit af hefur hún
52 lyft henni upp. Nú heldur hún Mörtu undir hægri handlegg og mér undir þeim vinstri. Marta iðar og skipar henni að sleppa sér. Greipa kreistir hana fastar og Marta emjar af sársauka. „Jæja. Þá þurfum við bara að finna þrumuguðinn!“ muldrar Greipa og gengur áfram. Framundan glittir í dagsljós. Við nálgumst sprunguna og mér finnst sem loftið verði tærara. „BRUTUÐ ÞIÐ ÞAKIÐ MITT?“ hrópar Greipa æst. Ég ætla að biðjast afsökunar en Marta er fyrri til að svara. „Þetta var ekki okkur að kenna! Jörðin bara opnaðist!“ „Krakkaskammir! Þið fáið þetta borgað!“ Greipa herðir takið en beygir ekki í átt að sprungunni. Þess í stað tekur hún stefnuna í átt að litlum göngum. Þetta eru þrengri göngin. Þau sem ég ákvað að kanna ekki áðan. Mér fannst svo ólíklegt að nokkur myndi viljandi troða sér þessa leið. Þór gæti svo sem hafa elt Hvæsa í þessa átt þegar þeir höfðu farið inn og út úr helli Greipu.
53 Jötunynjan lætur takmarkað plássið ekki stöðva sig. Hún treður sér inn þröng göngin með okkur Mörtu sitt undir hvorum handleggnum. Hér eru ljósormarnir enn stærri og ekki glóandi grænir heldur eldrauðir. Í hvert sinn sem Greipa rekur mig utan í klístraðan grjótvegginn límast ormarnir við mig. Ég kúgast og ákveð að best sé að loka bara augunum. Greipa er annars hugar á meðan hún arkar lengra. Hún byrjar að syngja, ef söng má kalla. Rödd Greipu er dimm og rám. Söngurinn hægur en taktfastur. Ég skil ekki orð í textanum en finnst eins og hljóðin komi djúpt úr maga hennar. Hún kyrjar sömu myrku laglínuna aftur og aftur. Kannski er þetta einhvers konar töfraþula. Greipa er svo upptekin við sönginn og leitina að hún tekur ekki eftir því þegar Marta hvíslar nafn mitt. „Marius … Marius, horfðu á mig,“ endurtekur hún svo ég opna augun. „Hvað?“ hvísla ég á móti. „Hvað er eiginlega í gangi? Hvert ætlar hún með okkur?“ spyr Marta.
54 „Hún heitir Greipa,“ segi ég hikandi. „Hún heldur að litli bróðir minn sé þrumuguðinn Þór. Hún vill finna hann til að … drepa hann, held ég.“ Drepa hann. Orðin eru eins og slím í munninum á mér. Þau festast við kjálkann á leiðinni út úr munninum. Ég stífna og finn að óttinn spýtist út í hverja einustu taug líkamans. Öll bein, taugar, æðar og vöðvar eru skíthrædd. Marta virðist þó frekar hissa heldur en skelkuð. Hún hlær lágt. „Vá hvað hún er klikkuð. Litli bróðir þinn er enginn guð!“ „Nei, en hún heldur það. Við erum öll í stórhættu!“ „Þetta er bara einhver klikkuð tröllkerling. Um leið og hún finnur Þór og Hvæsa setur hún okkur niður. Þá hlaupum við bara í burtu. Þetta verður ekkert mál!“ „Ekkert mál? Hvað ef hún drepur okkur öll.“ „Iss, þetta reddast.“
55 „Marta, hún er ekki tröllkerling. Hún er jötunn, eða reyndar jötunynja! Það er sko miklu verra! Alveg eins og ljónynjur eru miklu grimmari en ljón … “ „Láttu ekki svona“ segir Marta. „Ég kasta bara grjóti í hana. Eða við látum hana elta okkur að sprungunni. Sólin skín á hana og hún breytist í stein!“ „Það eru nátttröll sem breytast í stein! Ekki jötunynjur djúpt neðan úr jörðinni.“ „Marius … Þú veist ekki allt. Þetta kemur bara í ljós!“
56 VIÐ LÆÐUMST ÞÁ BARA Smám saman breikka göngin og við nemum staðar. Greipa hefur borið okkur að öðrum enn stærri helli. Hellirinn er ekki ólíkur helli Greipu en allt er þrefalt stærra. Þarna er stærra rúm og stærra náttborð. Risastórir kistlar og kassar liggja á víð og dreif. Gömul grenitré liggja í stórum hrúgum. Í einu horninu er ryðgað bílhræ undir nokkrum reiðhjólum. Hjólin eru beygluð og flækt saman. Hellirinn minnir á ruslahaug, fullan af dóti og drasli. Sá sem býr hér fer greinilega upp á yfirborðið og tekur hluti úr mannheimum. Greipa leggur okkur frá sér. Það brakar í liðunum þegar ég teygi úr mér. Hálsrígurinn er ansi sár en ég er með hugann við annað. Hér, í þessum stóra helli, eru ótal felustaðir. Þór og Hvæsi gætu verið undir trjám eða inni í kössum. Möguleikarnir eru nær óteljandi og ég veit ekkert hvar ég á að byrja að leita. Ég gægist inn í einn pappakassann. „Gangið hljóðlega um. Ég vil ekki vekja leirþursinn,“ hvíslar Greipa.
57 „Hvað er leirþurs?“ spyr Marta, frökk að vanda. „Bjáni ertu,“ svarar Greipa. „Það segir sig sjálft. Leirþurs er þurs, búinn til úr leir. Þarf ég að stafa þetta ofan í ykkur?“ „Leirþurs. Frábært. Þá veit ég það,“ svarar Marta snúðug. „Það er alltaf gott að vita hvað ber að varast,“ segi ég og reyni að milda óþægilegt andrúmsloftið. „Leirþursinn Mökki var skapaður af jötnum,“ útskýrir Greipa. „Hann er rúmir hundrað metrar af kröftum og afli, mótaður úr mörgum tonnum af leir. Eina hjartað sem dugði til að lífga hann við var hjarta úr meri. Mökki er svo stór og sterkur að hann gæti kramið ykkur með litla fingri.“ „Einmitt. Við læðumst þá bara,“ segir Marta og ranghvolfir augunum. Hér er grjótið enn hvassara en frammi á gangi. Það virðist blóðrautt í birtu ógeðslegra ormanna. Mér gengi betur að leita ef ég myndi gera eins og Marta. Hún lýsir í kringum sig með steininum sínum, þöktum lýsandi ormum. Ég get bara ekki hugsað mér að koma nálægt þeim.
58 Bak við ruslahrúgur eru grófir veggir hellisins. Ein hliðin er töluvert ólík hinum. Steinarnir virðast ekki jafn hvassir, heldur ávalir, næstum mjúkir. Ég sé tvær kúptar bugður fyrir miðju veggjarins. Þær eru umluktar línum sem minna helst á hrukkur gamals manns. Allt í einu er eins og línurnar á veggnum hreyfist. Þær dragast frá miðjunni, krumpast og sléttast til skiptis. Dökkar rákir togast í sundur, undir þeim koma í ljós tvö stór augu! Veggurinn er þá ekki veggur, heldur ANDLIT! Það mótar fyrir flötu nefi nálægt gólfinu og það sem ég hélt að væru steinar reynast vera tennur. Greipa gengur upp að andlitinu og leggur hönd á kinn ófreskjunnar. „Góðan dag Mökkurkálfi …, “ segir hún og hrukkurnar ganga í bylgjum. „Mmmuahhhrrrgggg,“ heyrist í andlitinu og munnurinn opnast hægt.
59 ANDLITIÐ Í VEGGNUM Greipa strýkur stórum hrammi sínum rólega eftir andliti ófreskjunnar. „Svona, Mökki minn, alveg slakur,“ segir hún og andlitið lygnir aftur augunum. Ég stend sem frosinn en Marta hefur fært sig nær mér. „Töff tröll,“ segir hún lágt.
60 „Ég er ekki viss um að þetta sé tröll … “ svara ég en veit að þetta er hvorki stund né staður til að þræta við Mörtu. Greipa heldur áfram að klappa ófreskjunni sem er farin að mala svo hellirinn titrar. „Heyrðu, Mökki. Hefurðu nokkuð séð kisulóru hér niðri?“ spyr Greipa mjúkmál. Hingað til hefur Greipa verið mjög ákveðin og hvöss. Nú er hún hins vegar mild og blíð. Hún fer varlega að stóru andlitinu, strýkur því og sussar. Hún vill greinilega alls ekki að hann reiðist, hugsa ég og held niðri í mér andanum. „Mmmmuuuuuujááá … kiiiiisaaaaa og liddla baddn … nammi namm,“ heyrist frá ófreskjunni. Marta grípur í höndina á mér. Við þorum ekkert að segja. Ég vona bara að Mökki hafi ekki étið kisuna og litla barnið, Hvæsa og Þór, bróður minn. Augu mín fyllast af tárum. Ég kyngi en kökkurinn í hálsinum neitar að víkja. „Sástu kisu?“ spyr Greipa blíðlega.
61 „Mööööörggggh … Mökki geyma kisu og liddla baddn. Fá sér kvöldmat seinna,“ segir andlitið. Ég anda léttar. Ófreskjan hefur ekki étið þá. Að minnsta kosti ekki enn. Þeir eru á lífi. Við þurfum bara að finna þá og koma okkur héðan. „Allt í lagi, Mökki minn,“ segir Greipa og klappar andlitinu. „Hvar eru litla barnið og kötturinn?“ Marta kreistir á mér höndina þegar Mökki rymur hátt. „AAAA! ÉG Á ÞÁ! Minn matur! Ekki þinn!“ Greipa brosir. „Allt í lagi. Ég vil bara aðeins skoða þá. Svo máttu fá þér að borða.“ Marta sleppir takinu af mér og strunsar í átt að Greipu og andlitinu. „Hvæsi er sko kötturinn minn! Þú étur hann ekki!“ hrópar hún óhrædd. „Svo er bannað með lögum að borða börn!“ Greipu og Mökka bregður svo þau steinþegja. Um stund er dauðaþögn í hellinum. Þá heyri ég það … hljóðið!
62 RÆTUR OG LAUF Frá innsta horninu heyri ég dauft bank. Við lítum öll til hliðar, í átt að bílhræinu. Kannski var þessi bíll einhvern tíma hvítur en nú er hann þakinn rauðum taumum af ryði. Bankið heldur áfram. Ég sperri eyrun og legg við hlustir. Þrjú stutt – tvö löng – þrjú stutt. Þetta er bankið! Leynibankið okkar Þórs! Án þess að hika stekk ég að bílnum. Marta fylgir á eftir. Við rýnum inn um sótuga glugga en sjáum ekkert. „ÉG Á ÞETTA,“ öskrar andlitið. „Minn matur!“ Greipa reynir að róa Mökka. Hún sussar blíðlega á hann og klappar honum á kinnina. Það dugar þó ekki til því þursinn er orðinn reiður. Nú hristist hellirinn eins og stór jarðskjálfti ríði yfir. Marta hefur náð að opna eina bílhurðina. Hún prílar inn í bílinn og kallar á Þór og Hvæsa.
63 Höfuð Mökka brýst út úr hellisveggnum. Á eftir höfðinu fylgir þykkur háls og breiðar herðar. Svo kemur búkurinn, undarlegur í laginu. Hann er þakinn grjóti, drasli og ljósormum. Önnur öxlin vísar upp í hellisþakið. Þegar Mökki hreyfir sig hrynja steinar og mold úr loftinu. Ég horfi skelkaður upp í loft. Innan um grjótið glittir í trjárætur. Þetta gæti verið öspin á göngustígnum! Ræturnar hringa sig niður eftir handlegg Mökka. Getur verið að tréð sé handleggurinn hans? Mig hryllir við tilhugsuninni. Ég sé Mökka fyrir mér, fastan í hellinum, með laufi vaxinn handlegg upp úr jörðinni. Kannski hefur hann notað tréhandlegginn til að sækja allt þetta dót og drasl. Hann hefur hirt jólatré í janúar, tekið beyglaðan bíl af götunni og safnað saman týndum reiðhjólum … Þessu hefur hann komið fyrir ofan í jörðinni án þess að nokkur yrði þess var. En hvað með okkur? Verðum við líka hér … að eilífu … föst í þessari ruslahrúgu?
64 ER ÉG ÞRUMUGUÐ? Bankið heldur áfram. Takturinn er alltaf eins. Þrjú stutt, tvö löng, þrjú stutt. Mökki rymur og Greipa gerir sitt besta til að hafa stjórn á honum. „Skottið!“ hrópar Marta skyndilega. „Ha? Sérðu rófuna á Hvæsa?“ spyr ég vongóður. „Nei, ohhh! Marius! Hljóðið kemur úr skottinu … á bílnum!“ Í nokkrum skrefum fer Marta úr aftursætinu og upp á bílþakið. Hún ryður nokkrum reiðhjólum ofan af beygluðum bílnum. Svo hoppar hún aftur fyrir bílinn og opnar skottið upp á gátt. Hvæsi stekkur mjálmandi beint í fangið á Mörtu. Á eftir honum fylgir Þór. Elsku litli bróðir minn, með hálfan snúð í munninum og hendurnar bundnar með snæri. Ég gríp Þór í fangið, losa snærið og faðma hann að mér. „MINN MATUR!“ öskrar Mökki reiður. Við hrökklumst aftur á bak. Ég rígheld í Þór og Marta er með gott tak á Hvæsa. Við ætlum ekki að týna
65 þeim aftur. Greipa á fullt í fangi með að halda aftur af Mökka. Hann reynir að losa sig lengra út úr veggnum. „Sko, Mökki minn. Þú mátt eiga köttinn,“ segir Greipa ákveðin. „En ég á Þór!“ „ÞÓR?“ Augu Mökka stækka og honum svelgist á. „Eeeeeuuughhh … Greipa segja ÞÓR?“ „Já, Mökki minn. Þetta rauðhærða litla gerpi er hann sjálfur, Þór þrumuguð! Loksins fæ ég tækifæri til að hefna fjölskyldu minnar.“ Þór horfir undrandi á mig og fitjar upp á nefið. „Ha? Marius … er ég ÞRUMUGUÐ?“ spyr hann og augun tindra. Hvæsi er orðinn órólegur í fangi Mörtu. Við lítum hvort á annað og fikrum okkur hægt aftur á bak. Það er ekki svo löng leið að hellismunnanum. Sé leirþursinn í raun og veru hundrað og eitthvað metrar kemst hann varla út um göngin. Greipa hvessir augun á okkur Þór. Svo hefur hún upp raust sína og ræðst á Þór með ljótum orðum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=