Um víða veröld - Heimsálfur klb.

66 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Kanada Kanada nær yfir nyrðri helming Norður-Ameríku, allt frá Kyrrahafi í vestri til Atlantshafs í austri og á landa- mæri að Bandaríkjunum í suðri og norðvestri (Alaska). Það er næststærsta land í heimi á eftir Rússlandi. Einungis um einn tíundi hluti Kanada er byggður sökum óblíðra náttúruskilyrða og er landið eitt það strjálbýlasta í heimi. Kanada er land mikilla víðátta. Í vestri eru miklir fjallgarðar, Klettafjöll og Strandfjöll. Þar fyrir austan taka við frjósamar gresjur og enn austar, allt til Atlantshafs, er hinn jökulsorfni, láglendi Kanadaskjöldur. Í Norður-Kanada eru hin köldu, ísilögðu heimskautasvæði og í Íshafinu norður af meginlandinu er fjöldi stórra eyja. Mikill fjöldi stöðuvatna er í Kanada. Kanada er þekkt fyrir kalt loftslag, þó víða geti verið miklar hitasveiflur á milli sumars og vetrar. Á sumum svæðum getur sumarhiti farið í 30 °C og vetrarhiti niður undir –40 °C. Eftir því sem norðar dregur minnkar gróður. Frá hinum víðáttumiklu barrskógum sem teygja sig næstum óslitið á milli stranda taka við freðmýrar og enn norðar gróðurlaus norðurheimskautssvæðin. Nyrst í Kanada er heimskautaloftslag en sunnar er loftslag breytilegt. Við strendur Kyrrahafs og Atlantshafs er milt og rakt úthafsloftslag en meginlandsloftslag inn til landsins. Á 17. og 18. öld stofnuðu Englendingar og Frakkar nýlendur í austurhéruðum Kanada. Þeir áttu í hörðu nýlendukapphlaupi um loðskinn og gjöful fiskimið og fór svo að lokum að Frakkar þurftu að láta af hendi yfirráðasvæði sín eftir að hafa tapað stríði við Breta. Áhrifa beggja þjóða gætir enn og er franska aðalmál íbúa Québecfylkis í austanverðu Kanada og opinbert mál í landinu ásamt ensku. Í dag búa um 80% íbúa Kanada innan við 200 km frá landamærum Bandaríkjanna þar sem loftslag er temprað og land ákjósanlegt til ræktunar. Syðsti hluti Ontario- og Québecfylkja, St. Lawrencedalurinn, sem afmarkast af Vötnunum miklu og St. Lawrencefljóti, er lang-þéttbýlastur. Þar er höfuðborgin Ottawa og tvær stærstu borgirnar, Toronto, miðstöð verslunar, og Montréal, menningar- og stjórnsýslumiðstöð frönskumælandi Kanadabúa. Ísauðnir norðurhéraðanna eru að mestu óbyggðar. Ræktað land er aðallega að finna í gresjufylkjunum þremur, Alberta, Saskatchewan og Manitoba við landamærin í suðri. Mikið er þar ræktað af hveiti og nautgripum. Ávaxta- og grænmetisrækt er á afmörk- uðum landbúnaðarsvæðum í austur- og vesturhluta landsins. Hinir miklu barrskógar í landinu eru nýttir til timbur- og pappírsframleiðslu. Í strandbyggðum Kanada eru stundaðar fiskveiðar enda stutt á gjöful fiskimið. Í Atlantshafi hefur ofveiði á fiski þó leitt til takmörkunar á fiskveiðum til verndar fiskistofnum. Kanada er tæknilega þróað og iðnvætt ríki og það er ekki háð innflutningi á orku. Í landinu finnst nóg af kolum, olíu, jarðgasi og vatnsafli, og kannski þess vegna er orkunotkun á mann í Kanada ein sú mesta í heiminum. Iðnaðurinn er að langstærstum hluta í suðausturhluta landsins, við Vötnin miklu. Þar er m.a. blómlegur flugvéla- bíla- og hátækniiðnaður. Efnahagslíf Kanada er mjög háð því sem gerist í Bandaríkjunum, enda útflutningur Kanada langmestur þangað. Í konungssambandi við Bretland Kanada er lýðræðisríki í konungssambandi við Bretland. Það hlaut heimastjórn árið 1867, fyrst landa Breska heimsveldisins, en fullu sjálfstæði var ekki náð fyrr en árið 1982. Kanada er sam- bandsríki tíu fylkja og þriggja sjálfstjórnarsvæða. Í stjórnarskrá Kanada frá árinu 1867 er kveðið á um sjálfstæði fylkjanna en kanadíska alríkisstjórnin veitir hinum þremur svæðunum sjálfstjórn. Fylkin eru öll í suðurhluta landsins en sjálfstjórnarsvæðin eru norðan 60 breiddargráðu. Eitt þeirra, Nunavut er sjálfstjórnarsvæði Inúíta.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=