Um víða veröld - Heimsálfur klb.
64 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Senegal Senegal er land í Vestur-Afríku við Atlantshafið. Gambía, minnsta landið á meginlandi Afríku, liggur frá Atlantshafi um 300 km upp með Gambíufljóti, umlukt Senegal. Nafn landsins er dregið af Senegal- fljótinu, sem myndar norður- og austurlandamærin. Höfuðborgin Dakar er staðsett á Grænhöfða sem er vestasti tangi Afríku. Landið er í vesturhluta hins þurra Sahelsvæðis. Þar er hitabeltisloftslag með regntíma frá maí til ágúst. Inn til landsins getur hitinn hæglega farið yfir 50 °C yfir þurrkatímann. Gróðurfar einkennist af savanna. Fyrir nýlendutímann skipaði Senegal stóran sess í allri Vestur-Afríku. Þaðan stunduðu Evrópumenn linnulausa þrælaflutninga yfir Atlantshafið og var eyjan Gorée við hafnarmynni Dakar miðstöð þræla- verslunar á 17. og 18. öld þegar þrælaflutningar frá Afríku stóðu sem hæst. Senegal var frönsk nýlenda frá árinu 1815 til 1960 og þess vegna er franska opinbert tungumál í landinu. Langstærstur hluti þjóðarinnar vinnur við landbúnað og þá aðallega sjálfsþurftarbúskap. Iðnaður er kominn vel á veg í Senegal. Matvæla-, vefnaðar- og leðuriðnaðurinn vinnur úr landbúnaðarafurðum. Efnaiðnaður er talsverður þar sem áburður er framleiddur úr fosfatinu sem unnið er úr jörðu. Senegal liggur vel við sjó, sem gert hefur Dakar að helstu hafnarborg Vestur-Afríku. Dakar-rallið sem er ein frægasta og erfiðasta torfærukeppni í heimi tengist Senegal. Leiðin á milli Parísar og Dakar er ekin utan vega við erfið akstursskilyrði á mörgum dagleiðum. Undanfarin ár hefur keppnin verið haldin annars staðar vegna óstöðugs stjórnmálaástands í þeim Afríkulöndum sem ekið hefur verið um. Tungumál Tungumál í Afríku eru fjölbreytt eins og menning þeirra þjóða sem þau eru sprottin úr. Tungu- málasvæði eru ekki bundin við landamæri ríkja enda eru töluð um 2000 tungumál í álfunni. Þessi mikli málafjöldi leiðir til þess að tvítyngi og fjöltyngi eru mjög útbreidd. Sem dæmi er talaður fjöldi tungumála í Nígeríu og Kamerún. Í flestum ríkjum Afríku eru einnig töluð Evrópumál sem eiga rætur sínar að rekja til nýlendutímans. Sem dæmi er enska víða töluð í austurhlutanum og franska í vesturhlutanum. Í dag eru þau opinber tungumál margra Afríkuríkja. Tungumál sem eiga hins vegar uppruna sinn að rekja í Afríku skiptast í fjórar málaættir. • Afró-Asíumál eru töluð um alla norðanverða Afríku og ná suður til svæðanna sunnan Sahara. • Nílar-Saharamál eru töluð í miðhluta Sahara, austur til Tansaníu. Fjöldi tungumála er mikill en þau eru oft svo ólík að efast er um skyldleika þeirra. • Níger-Kongómál er stærsta málaættin í Afríku, ef ekki í heiminum, ef talinn er fjöldi tungumála sem tilheyrir henni. Hún nær yfir mestalla Afríku sunnan Sahara. • Khoisanmál eru töluð í suðurhluta Afríku og er sú málaætt sem á fæsta mælendur. Mörg tungumál í málaættinni eiga á hættu að deyja út. Ný tungumál verða til og önnur deyja út. Talið er að minnsta kosti 300 tungumál í Afríku séu í mikilli útrýmingarhættu og að önnur 200 séu nær útdauð eða horfin með öllu. Á sama tíma verða til önnur tungumál vegna utanaðkomandi áhrifa eða þjóðfélagslegra breytinga.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=