Um víða veröld - Heimsálfur klb.

63 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Egyptaland Egyptaland á fimm þúsund ára menningarsögu sína að þakka ánni Níl. Í Nílardalnum þróaðist eitt af fyrstu menningarsamfélögum í heiminum. Vegna landfræðilegrar legu Egyptalands hafa Egyptar orðið fyrir áhrifum fjölmargra menningarstrauma sem gert hafa þjóðfélagið fjölþjóðlegt. Um landið liggur sjóleiðin milli Indlandshafs og Miðjarðarhafs og um það er eina landleiðin á milli Afríku og Asíu. Egyptaland á sér langa sögu í verslun og viðskiptum. Egyptaland er að mestu láglent. Fjalllendi er austan Nílar og á Sínaískaga, sem tilheyrir Asíu. Egyptaland er nánast ein eyðimörk, fyrir utan Nílardalinn sem er mjög frjósamur. Þar er næstum allt ræktanlegt land og þar býr næstum öll þjóðin. Loftslagið í Egyptalandi er heittemprað og sú litla úrkoma sem fellur í landinu er við strönd Miðjarðarhafsins. Reglulegir þurrkar eru í landinu og þar geta geisað miklir sand- stormar. Egyptaland nútímans er álitið efnahagslegt og menningarlegt stórveldi arabaheimsins. Þar eru landbúnaður og ferðaþjónusta mikilvægar atvinnugreinar. Iðnaður, sem aðallega er staðsettur í og við borgirnar Kaíró og Alexandríu, er fjölbreyttur. Umfangsmestur er textíl- og matvælaiðnaður. Starfsemi tengd ferðaþjónustu er einnig mikil og hafa Egyptar miklar tekjur af henni. Samgöngunetið í landinu er ekki víðfeðmt vegna hinna víðáttumiklu eyðimarka. Helstu samgöngu- æðarnar í Egyptalandi og lífæðar eru Nílarfljót og Súesskurðurinn. Níl hefur verið helsta samgönguæðin um lengri tíma, þar sem siglt hefur verið með varning upp og niður ána í þúsundir ára. Súesskurðurinn, sem grafinn var í gegnum Súeseiðið, var opnaður 1869 og tengir saman Miðjarðarhaf og Rauðahaf. Hann er ein mikilvægasta siglingaleið í heimi, þar sem hann styttir sjóleiðina milli Evrópu og Asíu mikið. Í kjölfar opnunar skurðarins jókst þýðing Egyptalands í heimsviðskiptum mikið. Verkefni 1. Hvaða lönd og höf liggja að Egyptalandi? 2. Hvað er helst ræktað í Egyptalandi? 3. Hvaða þýðingu hefur Níl fyrir íbúa Egyptalands? 4. Hvað er helst ræktað í öðrum löndum í norðanverðri Afríku? 5. Hverjar eru helstu iðngreinar í Egyptalandi og hverjar eru helstu framleiðsluvörurnar? 6. Hverjar eru helstu náttúruauðlindir í Egyptalandi? 7. Hversu stór hluti landsins er eyðimörk? 8. Hvaða þýðingu hafði opnun Súesskurðarins fyrir Egyptaland? 9. Hverjir grófu Súesskurðinn? 10. Hvað heita stærstu borgir Egyptalands?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=