Um víða veröld - Heimsálfur klb.
62 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Japan Japan er eyríki rúmlega 4000 eyja í Austur-Asíu. Honshu er langstærsta eyjan og er um 60% af flatarmáli landsins. Japan er almennt hálent en með láglendi við strendurnar þar sem stórborgirnar Osaka, Kyoto, Nagoya og höfuðborgin Tókýó eru staðsettar. Enga samfellda fjallgarða er að finna, heldur er mikið af stökum fjöllum með láglendi á milli. Þar er að finna yfir 200 eldfjöll, flest óvirk. Hæsta fjall Japans er hið fræga eldfjall Fuji (3776 m). Þar hefur ekki gosið frá árinu 1707. Undan austurströnd Japans og Kúrileyja eru ein dýpstu djúphafstrog í Kyrrahafinu, Japanstrog og Kúrileyjatrog, sem eru meira en 10.000 m djúp. Loftslag í Japan er milt og hagstætt til ræktunar. Í suðurhlutanum er loftslagið heittemprað með monsúnregni á sumrin en í norðurhlutanum er það temprað þar sem úrkoma fellur aðallega á veturna. Landbúnaður í Japan er víðast vélvæddur og háþróaður. Þrátt fyrir það eru Japanar nánast sjálfum sér nógir í hrísgrjónaframleiðslu en hrísgrjón eru þeirra helsta landbúnaðarafurð. Japanar eru meðal mestu fiskveiðiþjóða í heimi og stunda einnig hvalveiðar í óþökk margra ríkja. Síðustu áratugi hafa Íslendingar flutt mikið sjávarfang til Japans en Japanar borða meiri fisk en þekkist í nokkru öðru iðnvæddu ríki. Þrátt fyrir að lítið sé um verðmæt jarðefni í Japan er það í hópi þróuðustu iðnríkja í heimi. Japan er háð innflutningi á orkugjöfum eins og kolum og olíu og hráefnum til iðnaðarframleiðslu. Þrátt fyrir það hafa Japanar náð að byggja upp iðnaðarstórveldi og verið leiðandi á hátæknisviðinu, t.d. með framleiðslu bíla, tölva, ýmissa rafeindatækja og annars hátæknibúnaðar. Í verslun og viðskiptum eru þeir einnig stórir og er hagkerfið eitt hinna stærri í heiminum. Helsta iðnaðarsvæði landsins er með suðurströnd Honshu. Menningarlega eru Japanar einsleit þjóð og tala um 99% þeirra japönsku sem fyrsta tungumál. Þjóðin er vel menntuð og er þjónustustig hátt. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt og aukin vestræn áhrif í borgum nær Japan að varðveita sína einstæðu menningu, þjóðlega matargerð eins og sushi, formlega kurteisi og súmóglímuna svo eitthvað sé nefnt. Japanar eru langlífastir allra þjóða. Helstu trúarbrögð þeirra eru shinto-trú og búddismi. Í Japan er háþróað járnbrautarkerfi. Shinkansen eða „byssukúlulestin“ er ein sú hraðskreiðasta í heimi og hún gengur á milli borganna Tókýó og Osaka. Í Japan, sem er tæplega fjórum sinnum stærra en Ísland, búa um 128 milljónir manna. Íbúaþéttleiki er mikill eða rúmlega 300 íbúar á hvern ferkílómetra. Til samanburðar er íbúaþéttleiki á Íslandi rúmlega 3 íbúar á hvern ferkílómetra. Tókýó og nágrannaborgir mynda stærsta samfellda þéttbýlissvæði á jörðinni, með um 40 milljónir íbúa. Verkefni 1. Finndu hvað helstu eyjaklasar og stærstu eyjar Japans heita? 2. Nefndu nokkur strandhöf er liggja að Japan. 3. Hvað heita nágrannaríki Japan? 4. Hvað rækta Japanir til innanlandsneyslu og til útflutnings? 5. Hverjar eru helstu náttúruauðlindir Japana? 6. Hvernig myndirðu lýsa hinum dæmigerða Japana? 7. Hvað er byssukúlulestin? leitaðu meiri upplýsinga en er að finna í greininni. 8. Hvaða nágrannaborgir ásamt Tókýó mynda eitt stærsta samfellda þéttbýlissvæði á jörðinni?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=