Um víða veröld - Heimsálfur klb.
60 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Indónesía Indónesía er eyjaklasi um 17.000 eyja sem teygja sig um 6.000 km vegalengd meðfram miðbaug. Indónesíueyjaboginn myndaðist þar sem hafsbotnshluti Indlands- og Ástralíuflekans gengur undir hafsbotnshluta Evrasíuflekans. Röð virkra eldfjalla myndaðist á jaðri Evrasíuflekans sem liggur ofan á sem síðar mynduðu eldfjallaeyjar með síendurteknum eldgosum. Undan vesturströnd eyjabogans er djúpsjávartrog, Jövutrog, þar sem mesta dýpi er 7.450 m. Á eyjaboganum er jarðskjálfta- og eldvirkni ein sú mesta í heiminum og er þar að finna einar hættulegustu eldstöðvar á jörðinni, sem eru þekktar fyrir kröftug eldgos í gegnum söguna. Þar má finna um 200 eldfjöll, flest virk. Í Indónesíu er rakt hitabeltisloftslag og þar eru einir mestu hitabeltisregnskógar í heiminum. Dýralíf er þar mjög fjölskrúðugt. Þar eru heimkynni órangútan sem sagður er standa manninum nær en nokkur önnur apategund. En á tungumáli heimamanna þýðir „orang“ maður og „orang utan“ skógarmaður. Fyrstu Evrópubúarnir komu til Indónesíu árið 1512. Það voru portúgalskir verslunarmenn sem voru að leita eftir verslun með krydd. Í kjölfarið fylgdu hollenskir og breskir verslunarmenn. Árið 1602 var Hollenska Austur-Indíafélagið stofnað og Hollendingar réðu brátt lögum og lofum á svæðinu. Til Austur-Indía sóttu þeir krydd sem þeir fluttu með sér aftur heim til Hollands. Sem glöggt vitni um mikilvægi kryddverslunarinnar nefndu þeir einn eyjaklasann Kryddeyjar (nú Maluku-eyjar), og helstu eyjarnar í eyjaklasanum kenndu þeir við múskat, pipar og kanil. Hollenska Austur-Indíafélagið varð gjaldþrota árið 1800. Hollendingar settu þá á stofn nýlenduna Hollensku Austur-Indíur. Árið 1949 losnaði Indónesía endanlega við afskipti Hollendinga og varð sjálfstætt ríki. Nábýlið við eldfjöllin hefur kostað mörg mannslíf en hinn frjósami eldfjallajarðvegur sem verður til þar sem aska fellur hefur leitt til þess að þar er auðvelt að rækta, enda er landbúnaður mikill og hrísgrjónarækt ein sú mesta í heiminum. Á þéttbýlustu eyjunum teygja hrísgrjónastallarnir sig upp allar fjallshlíðar. Indónesía er eitt þéttbýlasta land í heimi. Á þéttbýlustu eyjunni, Jövu, er íbúaþéttleiki t.a.m. um1000 íbúar á km 2 . Þrátt fyrir það eru tveir þriðju hlutar eyjarinnar ræktaðir. Iðnaður hefur farið vaxandi í landinu og snýr aðallega að frekari nýtingu náttúruauðlinda og vinnslu jarðefna sem unnin eru úr jörðu. Iðnaður verður sífellt fjölbreyttari og er talsvert flutt út af alls kyns vefnaði, fatnaði og skófatnaði. Matvælaframleiðsla er einnig mikil, sem og ferðaþjónusta og iðnaður tengdur henni. Í Indónesíu búa margar ólíkar þjóðir sem tala ólík tungumál. Höfuðborgin, Jakarta, er staðsett á eyjunni Jövu. Indónesía er fjölmennasta land múslima og í Jakarta er stærsta moska heims. Vegna hinna fjöldamörgu eyja Indónesíu hafa megináherslur í samgöngumálum verið að bæta ferjusamgöngur. Hamfaraeldgos Eldgosið í Krakatá árið 1883 er eitt þekktasta eldgos á sögulegum tíma. Þá sprakk fjallið nánast í loft upp. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist þúsundir kílómetra í burtu. Eldfjallið er á Rakataeyju í Súndasundi, sem er á milli eyjanna Súmötru og Jövu. Eldský æddu 40 km leið yfir sundið og eyddu strandbyggðum á Súmötru. Þegar fjallið hrundi saman mynduðust miklar flóðbylgjur í sundinu sem kostuðu 36.000 manns lífið. Tveir þriðju hlutar eyjarinnar sukku í hafið í hamförunum. Eldfjallið Tambora á einni af Litlu-Súndaeyjum gaus einu mesta hamfaragosi sem sögur fara af árið 1815. Öskuryk sem barst um allan heim gerði það að verkum að veðurfar kólnaði tímabundið og á norðurhveli jarðar var talað um árið 1816 sem árið þegar sumarið kom ekki. Þúsundir manna fórust í eldskýjum sem urðu í gosinu og úr hungri og sjúkdómum sem fylgdu í kjölfarið. Merapi á eyjunni Jövu er eitt virkasta eldfjallið á Indónesíu. Þar sem það er á einu þéttbýlasta svæði landsins er nákvæm vöktun eldfjallsins og gott skipulag almannavarna er mikilvægt. Fjallið veldur reglulega miklum hörmungum í byggð og hefur gert eins langt aftur og skráðar heimildir ná.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=