Um víða veröld - Heimsálfur klb.

57 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Ítarefni Sádi-Arabía Ríkið Sádi-Arabía, nánast eins og við þekkjum það í dag, var stofnað árið 1932. Á 19. öld sameinuðust arabískir þjóðflokkar með það að markmiði að varðveita „tærleika íslam“ . Þá bjuggu í landinu hirðingjar sem stunduðu sjálfsþurftarbúskap, ræktuðu úlfalda, sauðfé og geitur. Nánast eina lífsviðurværið var landbúnaðarframleiðslan. Árið 1938 fundust miklar olíulindir í landinu sem gjörbreytti efnahagsgrundvelli landsins úr fátæku hirðingjasamfélagi í ríkt olíusamfélag. Sádí-Arabía er upphafsland íslam og eru þar tvær helgustu borgir þeirra trúarbragða, Mekka og Medina. Múhameð spámaður, boðberi íslam, fæddist í Mekku en hraktist til Medinu þar sem hann aflaði sér fylgismanna, múslima, en svo kallast fylgjendur íslam. Arabíuskaginn er að mestu leyti háslétta og víðáttumikil eyðimörk, eiginlega framhald af Saharaeyði- mörkinni en aðskilinn frá henni af Rauðahafi. Þar ríkir eyðimerkurloftslag þar sem dægursveifla hitans getur farið úr 50 °C á daginn, undir frostmark á nóttunni. Í suðurhlutanum er að finna eina stærstu sand- eyðimörk í heimi, Rub al-Khali (Tómi hlutinn). Eiginlegar ár og vötn eru ekki til í landinu. Helstu gróður- svæði er að finna í vinjum og er ein slík, þar sem höfuðborgin Riyadh er staðsett. Rauðahaf liggur að landinu í vestri og Persaflói í austri. Upp af vesturströndinni rís hár fjallgarður, Hejaz sem hallar til austurs. Austurhluti skagans er láglendur. Olíuvinnsla og olíutengdur iðnaður er undirstaða efnahagslífsins. Sádi-Arabía er stærsti útflutningsaðili olíu í heiminum og leiðandi í OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja. Olíulindirnar eru aðallega í austur- hluta landsins, sunnan Íraks og Kúveit, og neðansjávar í Persaflóa. Ghawar-olíulindin er talin vera stærsta olíulind heims og er áætlað að um ¼ af olíu þeirri sem notuð er í dag komi þaðan. Með olíugróðanum var áhersla lögð á að efla iðnað í landinu. Iðnþróuninni var sérstaklega valinn staður í og við borgirnar, Al-Jubayl við Persaflóa og Yanbu við Rauðahaf. Einnig hefur verið lögð áhersla á að draga úr þörfinni fyrir innflutt vinnuafl, auka framleiðslu matvæla og bæta almenna menntun og heilbrigðisþjónustu. Fjármála- og tæknigeirinn eru mikilvægar þjónustugreinar sem þjóna aðallega olíuiðnaðinum. Í landinu hefur löngum verið mikil kvikfjárrækt, einkum sauðfé og geitur. Í seinni tíð hafa Sádar varið miklu fé í að efla ýmsa ræktun. Aukna eftirspurn eftir vatni leysa þeir með ferskvatnsvinnslu úr sjó. Vatnsveitan í Riyadh byggist á stórri ferskvatnsverksmiðju í Al-Jubayl við Persaflóa. Svarta gullið við Persaflóa Persaflói, oft nefndur Arabíuflói, er þekktastur fyrir auðugar jarðgas- og olíulindir, bæði á landi umhverfis flóann og grunnt undir hafsbotninum. Á stóru svæði þekur þykkur sandur olíurík setlög og er talið að þarna sé að finna um tvo þriðju hluta þekkts olíuforða í heiminum. Upp úr aldamótunum 1900 fóru menn að leita að olíu í Mið-Austurlöndum og var það 1908 sem fyrsta olíusvæðið fannst í Íran. Þá höfðu menn ekki hugmynd um hversu gríðarmiklar olíulindir voru í jarðlögunum á Persaflóasvæðinu. Stærstu olíulind jarðar, Ghawar, er að finna í austurhluta Sádi-Arabíu nálægt Persaflóa. Ghawar olíulindin er um 30 km að lengd og 280 km á breidd og þekur því um 8400 km². Sádi-Arabíska ríkisstjórnin lætur litlar upplýsingar í té um Ghawar, enda er hún helsta náttúruauðlind landsins. Olían var uppgötvuð árið 1948 og framleiðsla, eða dæling upp úr jörðu, hófst árið 1951. Olíulindirnar á Persaflóasvæðinu hafa oft leitt til átaka eins og raunin varð í Persaflóastríðinu 1990–1991 þegar Írakar réðust inní Kúveit. Margvísleg afskipti iðnríkja Vesturlanda hafa átt stóran þátt í átökum í þessum heimshluta, þau hafa beinlínis haft hag af ófriði þar. Þau skiptu, á sínum tíma, ríkjunum upp í þau sem við þekkjum í dag og styðja leynt eða ljóst tiltekin sjórnvöld eftir því hvað hentar best hverju sinni. Þarna vega olíuhagsmunir Vesturlanda þyngst.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=