Um víða veröld - Heimsálfur klb.
4 Menntamálastofnun • 08970 Um víða veröld – Heimsálfur – Kennsluleiðbeiningar Inngangur Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 er: Hlutverk samfélagsgreinakennara að gefa nemendum tækifæri til að þroska hæfni sína til að eiga í innihaldsríkum samskiptum við aðra, veita þeim leiðsögn í lýðræðislegum vinnubrögðum og ljá þeim verkfæri til þess að þróa skilning sinn á sjálfum sér, öðru fólki og því umhverfi og samfélagi sem þeir hrærast í. Kennarinn á að hjálpa nemendum að skilja hugmyndir og hugsjónir sem liggja til grundvallar viðhorfum til umhverfis, auðlinda og sögu og gera þeim kleift að átta sig á samfélags- legum og siðferðilegum álitamálum. Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til að byggja upp orðaforða sinn, þjálfist í notkun hans og að beita honum við ólíkar aðstæður. Þær kennsluaðferðir sem stuðla að aukinni hæfni í samfélagsgreinum eru meðal annars: • Umræðu- og spurnaraðferðir sem þjálfa samræðu og gagnrýna hugsun. Efling gagnrýninnar hugsunar á sér stað í samræðu en hún er vettvangur þar sem nemendum gefst tækifæri til að fjalla um, hugleiða og ræða sín á milli, og við kennarann, um ákveðna þætti námsefnisins á markvissan, krefjandi og skapandi hátt. Það hentar vel að nemendur ræði saman í litlum hópum eða pörum til að allir verði virkir í umræðunni og síðan ræðir bekkurinn saman í heild og ber saman niðurstöðurnar. • Hóp- og paravinna getur alið af sér samkennd, samræður, tjáningu og dýpri skilning ásamt því að auka skilning á viðhorfum og skoðunum annarra og styrkir sjálfsmynd og eykur sjálfstraust nemenda. Markmiðið getur til dæmis verið að vekja nemendur til umhugsunar, fá þá til að skiptast á skoðunum eða rökræða, velta fyrir sér mismunandi hliðum tiltekins máls, kenna þeim að tjá sig og taka tillit til annarra. Mælst er til að nemendur fái ávallt tækifæri til að ræða um efnið sem unnið er með og að þeir vinni sem mest saman í litlum hópum eða pörum að lausn verkefna. Til eru ýmsar útfærslur af hópvinnu og má þar nefna söguaðferðina, þemanám og landnámsaðferðina . • Leitaraðferðir henta vel til að kynna nemendum vísindaleg vinnubrögð og veita þeim þjálfun í að afla upplýsinga og vinna úr þeim með skipulögðum hætti. Dæmi um slíkar aðferðir eru heimildavinna, vettvangsferðir og viðtöl. Vinna með heimildir er því stór hluti af kennslu samfélagsgreina og leggja þarf áherslu á upplýsingalæsi nemenda. Upplýsingalæsi er skilgreint þannig að einstaklingurinn geti fundið, staðsett, metið, skipulagt og notað upplýsingar á skilvirkan hátt við að fjalla um þau málefni og viðfangsefni sem fyrir liggja hverju sinni. • Leikræn tjáning og hlutverkaleikir eru einnig kennsluaðferðir sem æfa nemendur í að setja sig í spor annarra og takast á við ímyndaðar aðstæður, samfélagsleg málefni og álitamál. Kennsluhættir
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=