64 Efni og áhöld – Nota má hvaða efni sem er en hafa í huga að útsaumurinn henti efninu. – Velja garn sem hentar efni og sporum. – Velja nál með hvössum oddi fyrir flatsaum og með rúnnuðum fyrir krosssaum. Garn og efni fyrir útsaum Útsaumur krefst handlagni og er tímafrek vinna og þess vegna mikilvægt að velja efni og garn af góðum gæðum. Handunnin útsaumsverk eru dýrmæt og er hefð fyrir því að þau erfist á milli kynslóða. Efni og garn þarf að velja í samræmi við sporin sem á að sauma. Fyrir útsaumsspor sem byggja á reiknuðum þráðum er valið efni með sama fjölda þráða í uppistöðu og ívafi á hvern sentimetra (einskefta). Þar sem uppistöðu- og ívafsþræðir eru jafngrófir er sami fjöldi þráða í báðar áttir á hvern sentimetra. Fyrirmyndir fyrir krosssaum eru t.d. settar upp í rúður og hefur hver litur ákveðið tákn. Upphafsstafir í útsaumi Að sauma út upphafsstafi í textílverk þýðir að útsaumsverkið tilheyri ákveðnum aðila. Hefð hefur verið fyrir því að handsauma upphafsstafi í t.d. sængur- og koddaver, dúka og handklæði. Skemmtilegt er að útfæra sína eigin upphafsstafi til að merkja með. Að skipuleggja útsaum með upphafsstöfum Upphafsstafir á textílverkum þurfa að sjást vel og vera auðlesnir en einnig virka sem skraut. Val á efni ræður útlitinu. Garnið, stafagerðin og sporgerðir þurfa að fara vel saman á efninu. Í gróf efni eru helst notuð útsaumsspor sem byggja á reiknuðum þráðum í efninu (krosssaumur). Í þunn og þéttofin efni er hægt að vinna með bogadregnar línur og form (afturstingur, varpleggur og flatsaumur). Hafa þarf í huga hvar staðsetja á upphafsstafina. Staðurinn þarf að vera sýnilegur en þó ekki t.d. fyrir miðju koddaveri eða of langt úti við kant. Best er ef mögulegt er, að sauma út upphafsstafina áður en lokið er við að sauma og ganga frá verkinu. Að færa munstur yfir á efni Teiknið fyrirmyndina á blað. Límið blaðið í glugga eða á ljósborð. Leggið útsaumsefnið ofan á með réttuna upp og dragið fyrirmyndina í gegn með vel ydduðum blýanti. Krosssaumsmunstur eru teiknuð á blað með rúðum. Síðan er saumað beint í efnið, ein rúða samsvarar einu krosssaumspori.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=