Handbók í textíl

63 ÚTSAUMUR Löng hefð hefur verið fyrir því að skreyta fatnað og annan textíl með útsaumi. Dýrmætan eldri útsaum er helst að finna í tengslum við kirkjulegar hefðir. Lita- og munsturval í útsaumi ræðst helst af menningu og hefðum á hverjum stað og tíma og smekk þeirra sem sauma út, jafnt karlar sem konur. Útsaumur var talinn til listgreina á miðöldum, sérstaklega vegna þess dýrmæta hráefnis sem notað var eins og silkigarn, málmþræðir, perlur og eðalsteinar. Ákveðin munstur, eins og lífstréð og áttablaðarósin, má finna í ólíkum menningarheimum. Einnig eru ýmis útsaumsspor alþjóðleg (flatsaumur, keðjuspor og krosssaumur) og útsaumsefni (hör, bómull, ull og silki). Þó finna megi samsvörun í sporum og efnum eru útsaumsverk frá mismunandi menningarstöðum mjög frábrugðin hvert öðru. Líklegt er talið að útsaumur hafi verið stundaður hér á landi frá upphafi landnámsbyggðar. Á heimilum var aðallega saumað út í rúmteppi, rúmtjöld og söðuláklæði. Ríkulegan útsaum má helst finna í búningum kvenna, gömlum sparivettlingum og dúkum. Notað var íslenskt ullarband í jurta- og sauðalitum og innfluttir silki-, hör- og málmþræðir. Útsaumsefnin voru aðallega ofin ullarefni og innflutt hörefni. Gömlu útsaumssporin voru refilsaumur, glitsaumur, skakkaglit, gamli krosssaumurinn (fléttusaumur), augnsaumur, blómstursaumur og krosssaumur. Útsaumur hefur haldist sem mikilvæg handavinna og fyrirmyndir að munstrum koma nú úr ýmsum áttum, s.s. munsturbókum bæði íslenskum og erlendum, einnig er leitað fyrirmynda í náttúrunni. Helst er saumað út í púða, dúka, töskur, koddaver, veggmyndir og fatnað. Saga útsaums Hluti af Riddarateppi sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands. Hluti af söðuláklæði sem varðveitt er á Þjóðminjasafni Íslands.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=