113 ÝMSAR TEXTÍLAÐFERÐIR Vefnaður á pappaspjaldi Í vefnaðinn er notað stíft pappaspjald. Skerið raufar með jöfnu millibili uppi og niðri. Einnig er mögulegt að nota tréramma. Í uppistöðuna er notað sterkt bómullarband og í ívafið er notað þykkt garn eða mjóar efnislengjur (1-1,5 cm breiðar). Í vefnaðinn er tilvalið að endurnýta garn og efni. Ofið er með einskeftubindingu; einn undir og einn yfir og til skiptis í hverri umferð. Notuð er löng og gróf nál til að vefa með og gaffall eða gróf greiða til að þjappa ívafinu saman. Ívafslengjan á ekki að vera lengri en 0,6-1 m í einu en það fer líka eftir stærð verksins. Hægt er að sauma næstu efnislengju við með nál og tvinna eða láta enda skarast inni í vefnum. Efni og áhöld – stíft pappaspjald – hnífur til að skera skorur – bómullargarn í uppstöðu – límband – saumnál og tvinni – garn eða efni í ívaf – gaffall eða gróf greiða 1. Finnið fyrirmynd fyrir t.d. litarendur. Náttúru- og landlagsljósmyndir eru tilvaldar fyrir slíka hugmyndavinnu. 2. Teiknið upp tilbúna stærð, veljið garn eða efni og veljið liti í teikninguna. 3. Klippið stíft pappaspjald sem er 5 cm stærra á öllum hliðum en áætluð tilbúin stærð. Skerið 0,5 cm skorur í spjaldið uppi og niðri (lóðrétt) með 0,5-0,7 cm jöfnu millibili en skiljið eftir 5 cm í báðum hliðum. 4. Byrjið að líma endann á uppistöðubandinu við bakhlið á spjaldi með límbandi. Vefjið uppistöðuna utan um spjaldið í hverja rauf og spennið bandið jafnt. Í síðustu raufinni er bandið á bakhliðinni fært yfir í fyrstu skoruna að neðan á framhlið spjaldsins og hnýttur hnútur í fyrsta uppistöðuþráðinn. 5. Notið uppistöðubandið sem ívaf í byrjun, 6-8 umferðir en það er gert til þess að vefnaðurinn rakni ekki upp þegar verkið er tekið af spjaldinu. 6. Undirbúið og flokkið garnið eða klippið efnið í mjóar lengjur. 7. Notið grófa og langa nál til að vefa með. Strekkið ekki of mikið á ívafinu þannig að hliðar dragist saman. Látið ívafsgarnið (efnið) liggja í smá boga í uppistöðunni áður en ívafinu er þjappað saman. 8. Ef skipt er um garn er það gert í byrjun umferðar. Garn frá fyrri umferð er krækt utan um uppistöðuþráðinn og inn í sömu umferð, 5 -7 cm. Nýja garnið er fært inn í nýja umferð en endinn er kræktur um uppistöðuþráð og inn í sömu umferð, 5-7 cm. Það sama er gert þegar lokið er við að vefa. 9. Í lokin eru uppistöðubandið ofið inn í uppistöðuna (6-8 umferðir) en það er gert til þess að vefnaðurinn rakni ekki upp þegar verkið er tekið af spjaldinu. 10. Klippið þvert yfir uppistöðuþræðina á bakhliðinni og losið verkið varlega frá spjaldinu. Hnýtið hnúta á uppistöðuþræðina, tvo og tvo saman.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=