PRJÓN 9 Saga prjónsins Egyptar voru líklega þeir fyrstu sem náðu valdi á prjónalistinni. Elsta varðveitta prjónverkið sem fundist hefur eru sokkar frá því á 5. eða 6. öld. Talið er að prjónaðferðin hafi komið með aröbum til Evrópu. Í upphafi voru prjónar úr tré eða beinum en síðar úr málmi. Fyrst var prjónað fram og til baka með tveimur prjónum. Á 13. öld lærði fólk að prjóna í hring með fjórum eða fimm prjónum. Í fyrstu voru prjónaðar vörur dýrar enda gerðar úr fíngerðu silki-, bómullar- eða hörgarni. Prjónakunnátta barst til Íslands á 16. öld. Á 17. og 18. öld voru ullarvörur mikilvægar útflutningsvörur en eftirspurn minnkaði síðan á 19. öld. Undir lok 19. aldar voru stofnsettar tvær ullarverksmiðjur hér á landi: Álafoss í Mosfellssveit og Gefjun á Akureyri. Þar var m.a. framleiddur plötulopi sem notaður var í íslenskar lopapeysur. Upphaf íslensku lopapeysunnar má rekja til aukinnar sjósóknar í byrjun 20. aldar þegar gerðar voru prjónaðar peysur fyrir sjómennina. Á fjórða og fimmta áratugnum voru lopapeysur með munsturbekkjum yfir axlir og herðar vinsæl söluvara fyrir ferðamenn. Íslenska lopapeysan þekkist helst á áberandi munsturútliti og sauðalitum. Fyrirmyndir af munsturbekkjum eru sóttar til gamalla munsturbóka (sjónabækur), munsturprjónaðra vettlinga og til íslenskrar náttúru. Lopapeysuprjónið hefur frá fyrstu tíð verið mikilvæg tekjulind fyrir íslensk heimili. Peysan er vinsæl söluvara vegna þess að fljótlegt er að prjóna hana á grófa prjóna auk þess er ullarlopinn frekar ódýrt hráefni. Vöruheitið „Íslensk lopapeysa“ varð að veruleika eftir að útflutningur á handprjónuðum peysum jókst á árunum eftir 1960. Íslenska lopapeysan er verndað afurðaheiti. Hér er yfirlit yfir þá sértæku þætti sem einkenna hefðbundna „Íslenska lopapeysu“: • Ullin sem notuð er í handprjónaðar íslenskar lopapeysur er klippt af íslensku sauðfé • Í peysuna er notuð nýull (ull sem ekki er endurunnin) • Peysan er prjónuð úr lopa, s.s. plötulopa, léttlopa, Álafosslopa o.s.frv. • Hringprjónað berustykki með munsturformum og/eða munsturbekkjum frá herða- eða axlalínu að hálsmáli • Peysan er handprjónuð á Íslandi • Peysan er prjónuð í hring.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=