Gullvör - Kennsluleiðbeiningar

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 5 Full greining Það sem kallað er full greining, þegar öll orð í textanum eru greind út frá beygingarlegum einkennum, er tekið fyrir í 8. kafla. Þar er greiningartexti, heil saga sem hægt er að greina til hlítar. Auðvitað þarf ekki að greina allan textann. Hann er langur og best er að skipta honum niður, taka aðeins lítinn hluta í einu. Bent skal á í því sambandi að þar eru ekki gerðar kröfur til þess að smáorð séu greind í undirflokka. Þessi kafli er hafður á undan kaflanum um óbeygjanleg orð. Eftir að 7. kafla lýkur eiga nemendur að geta fullgreint fallorð og sagnorð. Óbeygjanleg orð þurfa nemendur auðvitað að læra einhvern tíma, en gefinn er sá möguleiki að fullgreina verkefni 8 þannig að þau óbeygjanlegu séu einfaldlega greind sem óbeygjanleg orð, skammstafað ób. Það þarf ekki að gera þetta allt í einu. Röð kaflanna Eins og komið hefur fram hér að ofan er ljóst að kaflarnir verða ekki teknir í röð þegar bókin er kennd. Gert er ráð fyrir því að í 8. bekk sé farið yfir kafla 2 og 5. Kaflar 3, 4, 6 og 7 bíða þar til í 9. og 10. bekk. Sama á við um aðra kafla í bókinni. Alls ekki er gert ráð fyrir að þeir séu teknir og kenndir hver á eftir öðrum í númeraröð. Þetta verður kennari að skipuleggja í upphafi skólaárs. Sá sem hér skrifar hefði getað hugsað sér að kenna 10. kafla, um hljóðbreytingar, strax í 8. bekk og hugsanlega líka 14. kafla, Sitthvað um orðin. Hafa ber í huga að málfræði er yfirleitt dálítið þung fyrir 8. bekk og má sem best spara hana þar til einu eða tveimur árum seinna. Eitt er rétt að skoða þegar kennslan er skipulögð. Vel er hægt að kenna sama kaflann tvö ár í röð. Þá gæti fyrri yfirferðin verið lausleg, hugsanlega tekinn hluti af kaflanum, og árið eftir er það rifjað upp og haldið áfram með efnið. Þetta gæti til dæmis átt við um 9. kafla, sem fjallar um smáorðin. Vel er hægt að kenna 8. bekk að þekkja nafnháttarmerki og upphrópanir og vinna tilheyrandi verkefni. Næsta ár má taka fyrir erfiðari hluti. Samtengingar og forsetningar eru snúnar fyrir þennan aldurshóp, best að skoða það efni í 10. bekk. Það skapar heppilegan sveigjanleika í yfirferðinni að hafa alla málfræðina í einni bók. Kennari getur þá gripið það sem hann kýs hverju sinni miðað við þann hóp sem hann er að kenna. Kafli um hljóðfræði, var upphaflega settur inn sem valmöguleiki ef kennari óskaði þess. Þessum kafla var sleppt í endanlegri útgáfu en hann er birtur hér aftar í kennsluleiðbeiningunum. Þar er farið yfir helstu þætti hljóðfræðinnar. Þessum kafla geta kennarar auðvitað sem best sleppt. Í þeim tilvikum, hins vegar, þar sem kennari hefur lokið yfirferð í vinnusömum bekk og enn er eftir eitthvað af skólaárinu, er tilvalið að kenna nemendum undirstöðuatriði hljóðfræðinnar. Það kemur þeim til góða í framhaldsskólanum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=