Gullvör - Kennsluleiðbeiningar

Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 4 Fallorð (2., 3. og 4. kafli) Á eftir inngangskaflanum koma þrír kaflar um fallorð. Þar hefur markvisst verið reynt að skipta efninu niður eftir þyngd. Kafli 2, Fallorð I, er einkum ætlaður 8. bekk og á að þjóna þeim sem eru að byrja að nema málfræði. Þar er tekið á nokkrum grunnatriðum fræðanna og reynt var að gera þá umfjöllun einfalda og skýra. Í Fallorð II, 3. kafla, sem er ætlaður 9. bekk, eru sett fram greiningaratriði fallorða og leiðbeint um það hvernig skuli greina fallorðin eftir beygingarfræðilegum einkennum þeirra. Þrjú atriði eru greind við greini og fornöfn, einnig við töluorð þar sem það er hægt, fimm atriði eru greind við nafnorð og sex við lýsingarorð en einu þeirra, sem heitir staða lýsingarorða, er frestað þar til í 4. kafla sem ber heitið Fallorð III. Reynslan er sú að staða lýsingarorða vill vefjast fyrir nemendum. Hér er því gerð tillaga um það að því verði frestað þar til nemendur hafa bætt við sig einu ári á þroskaleiðinni eða í sumum tilvikum sleppt. Það verður þó alltaf að vera ákvörðunaratriði hverju sinni og háð mati kennarans. Á bls. 23–24 er sagt frá beygingum lýsingarorða. Vert er að benda á að skoða betur dæmin um veika og sterka beygingu og skoða lýsingarorðin þar ef sú staðreynd vefst fyrir nemendum að öl lo. geti beygst bæði veikt og sterkt. Kafli 4, Fallorð III, tekur á ýmsum þyngri atriðum. Þar er umfjöllun um óreglulega beygingu nafnorða, rætt um kenniföll og uppflettimyndir nafnorða og lýsingarorða, beygingu nokkurra fornafna, mun á ákveðnum greini og ábendingarfornafni og sitthvað fleira í þeim dúr. Kaflinn er ætlaður 10. bekk og gert er ráð fyrir að þá séu nemendur í stakk búnir til að ná meiri yfirsýn yfir málfræðina og kynna sér til hlítar hinar erfiðari hliðar hennar. Á það skal bent, að víða í 4. kafla og reyndar á fleiri stöðum í bókinni eru nemendur hvattir til að rifja upp ákveðna kafla framar í bókinni. Mjög mikilvægt er að taka þær ábendingar alvarlega. Yfirferðin í 10. bekk er ekki síst hugsuð sem upprifjun og endurtekning á því sem farið var yfir í 3. kafla árið áður. Þegar kemur í 10. bekk hafa nemendur bætt við sig einu ári á lífsgöngunni og eiga að geta séð námsefnið frá árinu áður í nýju og skýrara ljósi. Í kaflanum um uppflettimyndir nafnorða á bls. 29 er verið að skoða beygingarendingar orða þegar leitað er að nafnorðum í orðabók. Vakin er athygli á því að í sumum sterkum karlkynsorðum getur verið óvissa um þgf. et. Þar kemur stundum -i á eftir orðinu, stundum ekki. Í sumum tilvikum er val um þetta. Sagnorð (5., 6. og 7. kafli) Í 5. kafla, sem heitir Sagnorð I, er fjallað um grunnatriði sagnorðabeygingarinnar. Sá kafli er ætlaður 8. bekk. Þar eru tekin fyrir einföldustu atriðin og reynt að gera þau auðskilin og aðgengileg. Nemendur 8. bekkjar eiga að ljúka við þennan kafla með þá vissu að þeir kunni innihald hans í þaula. Í 6. kafla, sem heitir Sagnorð II og er ætlaður 9. bekk, er farið yfir öll helstu greiningaratriði sagnorða. Í 7. kafla, sem kallast Sagnorð III, eru svo tekin fyrir ýmis þyngri og erfiðari atriði sem líklegt er talið að vefjist frekar fyrir yngri nemendum. Þar má nefna þolmynd sagna, sem var frestað í 6. kafla, blandaða beygingu sagna sem gengur út á núþálegar sagnir og ri-sagnir, ópersónulegar sagnir, orsakarsagnir og að síðustu afleiddar myndir sagna, sem heppilegt er að skoða til að bæta kunnáttu í stafsetningu (sjá Kennimyndirnar hjálpa bls. 59). Hvað 7. kaflann varðar þá á þar það sama við og sagt var um 4. kaflann og fallorðin. Í 7. kafla er verið að kenna erfiðustu þættina í greiningu sagnorða og ýmislegt fleira sem hefur reynst unglingunum erfitt. Sumu af því má sleppa ef það reynist hinum ungu heilum ofviða. Ítrekað skal hér mikilvægi þess að rifja vel upp það sem kennt var árið áður.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=