Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 2 Fyrri hluti Um bókina og notkun hennar Gullvör – gömul og ný Bók sú sem hér er fylgt úr hlaði er bæði gömul og ný. Hún kom fyrst út 1997 og hét þá Beygingafræði, en árið eftir, 1998, var hún endurútgefin undir því nafni sem hefur fylgt henni síðan. Hún heitir Gullvör og orðið beygist eins og vör: Gullvör – um Gullvör – frá Gullvör – til Gullvarar. Nafnið er hugsað út frá orðinu vör og vísar til tungumálsins sem bókin fjallar um og birtist á vörum þeirra sem það nota. Bókin hefur nú verið endurskoðuð og uppsetningu breytt. Ákveðið var að setja allt efnið í eina bók sem nemendur geta fengið við upphaf 8. bekkjar. Hún fylgir þeim til loka grunnskólans og efninu hefur verið raðað niður með tilliti til þess. Um það verður fjallað í köflunum sem fara hér á eftir. Lausnir við öllum verkefnum sem eru í bókinni er hægt að finna inni á vef Menntamálastofnunar. Málfræðikennsla í unglingadeildum Stundum má heyra skólamenn tala um það sem óyfirstíganlegt vandamál að málfræði sé svo leiðinleg að nemendur þjáist yfir því að þurfa að læra hana. Þetta er auðvitað firra. Ég kenndi málfræði í unglingadeildum grunnskólans í 25 ár og fátt hef ég unnið skemmtilegra. Stundum hitti ég þessa nemendur, áratugum eftir að leiðir okkar lágu saman í grunnskólanum, og þá rifjum við upp gamlar minningar eins og títt er. Oftar en ekki er þessum gömlu nemendum mínum eftirminnilegast úr íslenskunni hvað þeim fannst gaman í málfræði. Því að málfræðikennsla er eins og allt annað í lífinu. Það veldur hver á heldur. Ég vil sem langreyndur kennari miðla nokkrum heilræðum til þeirra sem kenna unglingum málfræði. 1. Kennið aldrei nema eitt í einu. Við erum að tala um unglinga sem eru að þroskast og þeir læra best þannig að taka fyrir eitt atriði í senn og ljúka því farsællega. Svolítið upphafnir af því að hafa lokið góðu verki snúa þeir sér að því næsta. Í verkefnunum í Gullvör eru orðin sem á að vinna með undirstrikuð. Ef nemendur eiga að greina stig lýsingarorða eiga þeir ekki að byrja á því að finna lýsingarorðin. Þeir eru að læra um stig lýsingarorða en ekki orðflokkagreiningu. Þetta á við um allar formdeildir málfræðinnar. 2. Þegar bekkurinn er búinn að ná sæmilega góðum tökum á verkefninu (einu í einu) er hægt að leggja mat á vinnuna, m.a. með því að leggja fyrir könnun, einfalda og auðskilda, sem allir ráða vel við, og gefa svo einkunn fyrir, segja svo við bekkinn: „Þið gerðuð þetta með sóma.“ Og nemendur fara heim og sýna einkunnina. „Sjáðu hvað ég fékk í málfræði!“ Nemendur hafa gaman af því sem þeir geta ráðið við. Þeim leiðist það sem er svo yfirgripsmikið og flókið að þeir geta ekki leyst það. 3. Kennari þarf að kunna vel það sem hann er að kenna og aldrei er lögð of mikil áhersla á góðan undirbúning. Á hitt skal bent að það er heldur ekkert athugavert við það að kennari segi við bekkinn: „Ég veit þetta bara því miður ekki.“ Svo má bæta við: „En ég skal fletta þessu upp fyrir þig.“ Hugmyndin um hinn óskeikula kennara sem allt veit og skilur er óraunhæf og ekki neinum til framdráttar. Kennari þarf að hafa gott safn af hinum ýmsu gögnum til að fletta upp vafaatriðum og það er gott fyrir nemendur að venjast því. Stundum er hægt að segja við þann sem spyr: „Þarna er bókin. Flettu þessu nú upp fyrir mig.“ 4. Hér að framan var talað um mikilvægi þess að kenna bara eitt í einu. Þegar kennt er um beygingarkerfi sagna í íslensku er sérdeilis mikilvægt að stíga varlega til jarðar. Sagnir breytast eftir persónum. Fyrst þarf að læra um persónurnar (þær hafa reyndar komið fyrir í fornafnakaflanum) og sagnorðin breytast eftir því með hvaða persónu þau standa. Næst kemur tala, eintala og fleirtala, og þá breytist allt aftur eftir því hver talan er. Þetta er nú gott og blessað. En svo kemur bara það þriðja: hættir; persónuhættirnir eru þrír og nú breytist allt eftir því hver hátturinn er, sérstaklega hleypur allur pakkinn á milli fram-
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=