Gullvör | Verkefnalausnir | 8672 | © Menntamálastofnun 2022 16 4.5.6 Myndir sagna Myndir sagna eru þrjár, germynd, miðmynd og þolmynd. Germynd er algengust og mest notuð. Miðmynd finnst með því að bæta -st aftan við ger- myndina: skipið fór (germynd) skipið fórst (miðmynd) Hér sést að sögnin breytir ummerkingu þegar miðmyndarendingunni er bætt við hana. Að farast er allt annað en að fara. Þetta gerist oftast þegar sögn tekur miðmyndarendingu. Þolmynd er af allt öðru tagi en hinar tvær því að hún er samsett af tveimur sögnum (eða fleiri). Þolmynd myndast með hjálparsögnunum að vera eða verða að viðbættum lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Að sumu leyti er óheppilegt að um hana skuli venjulega vera fjallað um leið og um germynd og miðmynd, en þetta hefur alla tíð verið gert og við því er lítið að gera. hesturinn var sóttur húsið er málað Rétt er að benda á að sagnorðin í þessum dæmum standa hvert fyrir sig í germynd. Það er eingöngu samsetningin sem er þolmynd. Oft er hægt að breyta germyndarsetningum í þolmynd og öfugt: drengurinn sótti hestinn (germynd) hesturinn var sóttur af drengnum (þolmynd) Eins er oft hægt að breyta miðmynd í germynd og öfugt: Jón kyssti Gunnu (germynd) Jón og Gunna kysstust (miðmynd) Í bókinni er farin sú leið að kenna um germynd og miðmynd í 6. kafla en þolmyndin er geymd fram í 7. kafla. Þetta er gert til að auðvelda kennsluna. Hugmyndin er að nemendur læri um germynd og miðmynd í 9. bekk og læri svo um þolmynd í 10. bekk. 4.5.7 Beyging sagnorða Sagnir hafa þrenns konar beygingu: sterka, veika og blandaða. Til að skoða beygingu sagna þarf að kynna til sögunnar hugtak sem kallast kennimynd. Kennimyndir sagna þjóna því hlutverki að gefa innsýn í það hvernig sögnin beygist. Þær eru eins konar notkunardæmi, leiðarvísir um það hvernig sögnin beygist, gefinn upp í þremur eða fjórum orðum (sjá auk þessa tilvitnun í Höskuld Þráinsson hér á eftir). Sterkar sagnir hafa fjórar kennimyndir: 1. 2. 3. 4. bíta beit bitum bitið 1. 2. 3. 4. nema nam námum numið
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=