Gullvör

53 7. kafli Sagnorð III Í þessum kafla verður fjallað um þolmynd sagna . Þá er rætt um skrýtna reglu sem kölluð er þþ-reglan . Í 6. kafla var fjallað um sterka og veika beygingu sagna en í þessum kafla verður rætt um það sem kallað er blönduð beyging sagna og nær aðeins til 14 orða. Þá er hér umfjöllun um ópersónulegar sagnir , rætt er um orsakarsagnir , sem eru veikar sagnir dregnar af sterkum sögnum og að lokum er fjallað um afleiddar myndir sagna og sýnt hvernig hinar ýmsu orðmyndir eru dregnar af kennimyndunum. Sú þekking hjálpar ykkur til að stafsetja orð rétt. Þolmynd 7.1 Þolmynd er mynduð af tveimur sagnorðum . Í síðasta kafla var fjallað um germynd og miðmynd . Þolmynd er mynduð af tveimur sagnorðum sem hvort um sig stendur annaðhvort í germynd eða miðmynd (langoftast í germynd), annars vegar sögnunum að vera eða verða og svo lýsingarhætti þátíðar af aðalsögninni. Skoðum dæmi: Stúlkan verður borin heim. Húsið var málað . Laxinn er veiddur í ánni. Athugið að sagnirnar að vera og að verða, sem mynda þolmyndina, geta staðið með hjálparsögnum. Húsið hefur verið málað . Laxinn mun hafa verið veiddur í ánni. Sagnasambandið stendur eftir sem áður í þolmynd. 7.1.1 Þolmynd tekur með sér geranda sem framkvæmir eða hefur fram- kvæmt verknaðinn. Á undan honum fer forsetningin af. Gerandinn er þó ekki alltaf sýnilegur en við vitum að hann er á bak við það sem gerist. Einhver hefur framkvæmt (eða mun framkvæma) það sem fram kemur í sagnasambandinu. Setningin vegurinn var lagður stendur í þolmynd þó að ekki sé minnst á það hver lagði veginn. Stúlkan verður borinn heim af foreldrunum . Húsið var málað af málar- anum . Laxinn er veiddur af veiðimanninum . Ef þessi gerandi er ekki fyrir hendi (þó að hann sé ekki nefndur) er ekki talað um þolmynd. Ef við segjum Fuglinn er floginn er það enginn annar en fuglinn sjálfur sem framkvæmir verknaðinn og því ekki um þolmynd að ræða. Við getum

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=