Gullvör

3 Gullvör – leiðsögn um lönd tungunnar Ágætu nemendur grunnskólans. Þegar þið fáið þessa bók í hendur er rétt að þið gerið ykkur grein fyrir því að þið kunnið mest af efni hennar nú þegar. Málfræðin er til staðar í höfðinu á ykkur og hefur verið þar frá því að þið lærðuð að tala. Þið beygið fallorð og sagnorð allan daginn og gerið það hárrétt. Hvers vegna er þá verið að láta ykkur lesa þessa bók? Til að skýra það skulum við byrja á að skoða brot úr kvæði eftir skáldið Tómas Guðmundsson. Hann hugsar sér að hann standi á fjallstindi og horfi yfir landið: Rifja upp og reyna að muna fjallanöfnin: Náttúruna. Leita og finna eitt og eitt. Landslag yrði lítilsvirði, ef það héti ekki neitt. Getið þið ímyndað ykkur hvernig væri að lifa í þessu landi ef fjöll, dalir, ár og vötn og önnur fyrirbæri í náttúrunni hétu ekki neitt? Hugsið ykkur að bæirnir í sveitinni væru nafnlausir. Hvað ef göturnar í borginni hefðu ekkert heiti? Hvernig gengi ykkur þá að vísa til vegar eða útskýra hvar þið eigið heima? Göturnar væru þarna vissulega en engin leið er að tala um þær ef nöfnin vantar. Án þeirra værum við nánast mállaus ef við ætluðum að ræða um umhverfi okkar, nær eða fjær. Landslagið verður að heita eitthvað. Það er rétt hjá Tómasi. Gullvör þjónar þeim tilgangi að kenna ykkur heiti á alls konar fyrirbærum í landslagi tungu- málsins. Til að geta notið leiðsagnar á slóðum íslenskunnar verðið þið að þekkja nöfnin á hugtökunum. Tökum sem dæmi algeng hugtök eins og frumlag og umsögn. Til að þekkja frumlag verðið þið að þekkja orðflokka og kunna fallbeygingar og engin leið er að vita hvað umsögn er án þess að þekkja hætti sagna. Til að læra erlend tungumál verðið þið að læra málfræði þeirra. Það yrði mun erfiðara ef þið væruð ekki þá þegar búin að læra heitin á hugtökum íslenskrar málfræði. Og þannig mætti lengi telja. Í skólaumhverfinu er ekki nóg að kunna að tala rétt. Þið verðið líka að geta greint það sem þið segið niður í einingar og kunna skil á hinum ýmsu breytingum sem þessar einingar taka í meðförum ykkar. Málfræðin er í höfðinu á ykkur, eins og fyrr kom fram, en ykkur vantar nöfnin á hugtök- unum til þess að geta talað um þau og lýst þeim og tekið svo leiðbeiningum. Ég vona að Gullvör verði ykkur til gagns og þið njótið kunnáttunnar þegar þið komið í framhaldsnám. Ef þið kunnið skil á því sem þessi bók hefur að geyma mun það létta ykkur leiðina gegnum framhaldsskólann og í sumum tilvikum líka gegnum háskólann. Um leið og ég fylgi bókinni úr hlaði með þessum fátæklegu orðum óska ég ykkur góðs gengis á þeirri vegferð. Grafarvogi í maí 2018. Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=