Gullvör

35 Verkefni 4 H Finnið og flokkið fornöfnin í eftirfarandi texta: Ekki er nauðsynlegt að vinna allt verkefnið. Áður en þið hefjið verkið er rétt að rifja upp: Fornafnaflokkarnir eru sex. Þeir eru ábendingarfornöfn , spurnarfornöfn , afturbeygt fornafn , persónufornöfn , óákveðin fornöfn og eignarfornöfn . Þeir voru komnir að húsinu þegar ég sá þá. Sá sem gekk fyrstur var með grímu fyrir andlitinu. Hann virtist ekki líklegur til að sýna neina miskunn. Enginn þeirra var sérlega aðlaðandi. Allir voru þeir vopnaðir bareflum og hver þeirra bar nokkra steina í vasanum, sumir voru með hnúajárn. Sérhver undankomuleið virtist lokuð. Ég leit vandlega yfir hópinn. „Hver er fyrirliði ykkar?“ spurði ég. Sá grímuklæddi varð fyrir svörum: „Vér erum hér í forsvari,“ mælti hann og fyrnti mál sitt. Mér kom ráð í hug. „Hver ykkar er fljótastur að tína ber?“ spurði ég. Fáeinir úr hópnum hugsuðu sig um, aðrir virtust ekki hafa heyrt það sem ég sagði. „Mér hefur verið sagt að þið séuð of skjálfhentir af dópáti til að geta tínt ber,“ sagði ég háðslega. „Er þetta rétt?“ Það sló þögn á hópinn og brátt voru þeir allir komnir út í brekkuna fyrir austan húsið, hálfbognir og urrandi af vonsku. Þeir ætluðu að sanna fyrir mér að þeir gætu tínt ber. Því miður sá ég aldrei hvernig þeim gekk því að ég stakk mér inn og út um bakdyrnar og lét mig hverfa án þess að nokkur sæi. Upprifjun við 4. kafla: 1. Hvernig beygist orðið vetur? En orðið kýr? 2. Hver eru kenniföll nafnorða? 3. Hver er uppflettimynd nafnorða? 4. Hvað er eintöluorð? En fleirtöluorð? 5. Hver er uppflettimynd lýsingarorða? 6. Hvað einkennir hliðstæð lýsingarorð? En sérstæð? 7. Hvernig er afturbeygða fornafnið í nefnifalli? 8. Hvernig beygjast fornöfnin nokkur og ýmis í kvenkyni eintölu?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=