Græna bókin

SIGRÚN ELDJÁRN

SIGRÚN ELDJÁRN

GRÆNA BÓKIN ISBN 978-9979-0-3014-0 Hljóðbók má hlaða niður af vef mms ©2012 texti og myndir: Sigrún Eldjárn Umbrot og kápuhönnun: Sigrún Eldjárn Ritstjóri: Sylvía Guðmundsdóttir 1. útgáfa 2012 önnur prentun 2018 þriðja prentun 2020 fjórða prentun 2025 Miðstöð menntunar og skólaþjónustu Kópavogi Prentvinnsla: Litróf ehf. – umhverfisvottuð prentsmiðja

EFNISYFIRLIT BEYGLA . . . . . . . . . . .......... 5 SKILABOÐ . . . . . . . . . ......... 8 UNA . . . . . . . . . . ........... 11 GRÆN BÓK . . . . . . . . ........ 15 RAUÐUR POKI . . . . . . . ....... 18 GESTIR. . . . . . . . . . .......... 23 ÁSI . . . . . . . . . . . ............ 27 STEINAR . . . . . . . . . .......... 30 FURSTI . . . . . . . . . . .......... 34 ÁRÁS . . . . . . . . . . ........... 38 Í GARÐINUM. . . . . . . . ........ 43 RUGL . . . . . . . . . . ........... 48 GIMSTEINAR. . . . . . . . ........ 52

5 BEYGLA Ævar hendist inn um dyrnar. Hann skutlar skólatöskunni á gólfið og fleygir jakkanum sínum í hrúgu á stól. Húfan flýgur alla leið inn í stofu og lendir þar á lampaskermi. Svo æðir hann beint inn í eldhús og opnar ísskápinn. Hvað ætli sé nú til? Hann er alveg ó-trú-lega svangur!

6 Beyglur! Hann skellir einni í brauðristina. Á meðan beyglan hitnar tekur hann villt trommusóló á allar skáphurðirnar. Síðan smyr hann beygluna með rjómaosti og skellir pepperoni og salatblaði ofan á. Hellir barmafullt glas af mjólk. Mmmmmm! Ævar hlammar sér niður við eldhúsborðið og bítur stóran bita. Æðislegt! Hann flettir í gegnum dagblað. Kíkir á myndasögurnar og les nokkrar fyrirsagnir.

7 Ævar nennir ekki að lesa meira. Hann dembir í sig síðasta sopanum úr mjólkurglasinu. Svo lokar hann blaðinu og rís á fætur. Það er ekki fyrr en þá sem hann sér miðann á ísskápshurðinni. Mótmæli í Frakklandi Köttur varð fyrir bíl Arabískum gimsteinum stolið Léttskýjað á morgun Feitasti maður Japans deyr

SKILABOÐ Á miðanum stendur skýrum stöfum: Ohh! Hann var alveg búinn að steingleyma að það væri von á Unu. Í sumar var Ævar heilar tvær vikur í heimsókn hjá henni í sveitinni. Hann skemmti sér mjög vel. En það eru liðnir margir mánuðir síðan. Nú langar Ævar helst að vera með vinum sínum úr skólanum. 8

9 Þar að auki er hann núna skotinn í henni Beggu. Honum finnst hann varla þekkja Unu lengur. Það verður bara vandræðalegt að hitta hana aftur hérna í borginni. Ævar lítur á klukkuna. Korter í þrjú! Nei, þetta gengur ekki upp! Hann er búinn að mæla sér mót við krakkana bak við sjoppu eftir smástund. Þau ætla að rölta saman niður í bæ, kjafta og kíkja í búðarglugga.

10 Ævar nennir alls ekki að hanga hér heima og bíða eftir Unu. Hann er heldur ekki tilbúinn að sitja og spjalla við sveitagellu núna. Hvað töluðu þau aftur um í sumar? Kannski kindur og hrossaskít? En hvað getur hann gert? Mamma er í vinnunni til klukkan fimm. Hann má alls ekki hringja í hana á meðan. Hann gæti ef til vill sent henni sms. Eða ætti hann kannski að fara út og láta eins og hann hafi ekki séð miðann? Já, auðvitað! Best að gera það bara! Hann byrjar í flýti að klæða sig aftur í jakkann. Einmitt þá er dyrabjöllunni hringt! Ef hann hefði verið aðeins fljótari og komið sér út í tæka tíð þá hefði allt farið á annan veg.

11 UNA Fyrir utan dyrnar stendur Una. Ævar starir á hana. Hann var alveg búinn að gleyma hvað hún er sæt! Kannski meira að segja sætari en Begga. Nú man hann líka allt í einu hvað hún var skemmtileg í sumar. Hann finnur hvernig honum hitnar í kinnunum. Hann hlýtur að vera orðinn eldrauður í framan. Ohh! En vandræðalegt!

12 HÆ!

13 Og bólurnar tvær á hökunni? Voru þær farnar eða eru þær þar ennþá? – Hæ, segir Una og brosir. Tennurnar eru hvítar og önnur framtönnin pínulítið skökk. Alveg mátulega mikið. Stuttklippt, svart hár og brún augu. Gleraugun hennar eru appelsínugul. Var hún annars nokkuð með gleraugu í sumar? Og var hún ekki með sítt hár? – Ætlarðu ekki að bjóða mér inn? spyr hún glaðlega. Ævar hrekkur við. – Jú, jú! Auðvitað! Komdu inn! Hann hikar aðeins. – Þú ert örugglega Una, er það ekki annars? spyr hann svona til öryggis. – Þú ert svolítið öðruvísi … – Júh! Láttu ekki svona! Auðvitað er ég Una, svarar hún hlæjandi. Ævar opnar nú dyrnar upp á gátt og lætur jakkann sinn detta á gólfið. Una gengur inn og lítur forvitin í kringum sig.

14 Ævar veit ekki alveg hvað hann á að gera næst. Hvernig talar maður eiginlega við stelpu sem er bara allt í einu komin inn til manns? Og er þar að auki svona sæt? Ekki nein stífmáluð gella heldur bara einhvern veginn glaðleg og geislandi. Svo er hún í skemmtilegum fötum.

15 GRÆN BÓK Ævar lítur á Unu. – Ertu svöng? spyr hann hikandi. – Viltu kannski beyglu? – Já, takk, ég er glorhungruð! svarar Una og hengir úlpuna sína á snaga í forstofunni. Hún leggur bláan bakpoka frá sér á gólfið. Ævar útbýr beygluna fyrir Unu. Hann vandar sig alveg sérlega mikið við verkið og er ánægður með útkomuna. Hann gjóar augunum á klukkuna. Hún er orðin meira en þrjú. Krakkarnir hljóta að vera farnir að bíða eftir honum.

16 Eða kannski eru þau bara farin niður í bæ. En hvað með það? – Heyrðu! Á ég að segja þér svolítið? segir Una og bítur í beygluna. – Ég fann dálítið skrítið á rútustöðinni. Ég ætlaði sko að henda bananahýði í ruslafötu þegar ég kom út úr rútunni. En þá sá ég bók! Í ruslinu! Hún opnar bakpokann og dregur upp plastpoka. Úr honum tekur hún þykka græna bók.

17 – Sjáðu bara! Ég fór auðvitað með hana beint í miðasöluna. En konan þar varð bara fúl! Hún sagði að þetta væri ógeðslega subbulegt rusl og að ég ætti að henda því strax. En ég hendi aldrei bókum. Þær eru alltof merkilegar til þess! – Má ég sjá, segir Ævar og tekur við bókinni. – Ertu búin að kíkja í hana? – Nei, en passaðu þig. Það er bæði tómatsósa og sinnep á henni, segir Una. – Og smá steiktur laukur. Það lá nefnilega hálfétin pylsa ofan á henni í ruslinu. Ævar tekur borðtusku og strýkur gumsið af. Svo opnar hann bókina! Má ég sjá!

18 RAUÐUR POKI Ævar starir á síður bókarinnar. Hann hefur aldrei sé neitt þessu líkt. Honum hefur reyndar aldrei gengið vel að lesa bækur. Stafirnir fara alltaf að þvælast grunsamlega mikið um síðurnar þegar hann er búinn að lesa nokkur orð. Þá á hann erfitt með að fylgja söguþræðinum. En hann sér samt strax að stafirnir í þessari bók eru ekkert venjulegir. – Hvað stendur eiginlega þarna? spyr hann hissa. – Getur þú lesið þetta? Una svarar ekki strax.

19 Mmmm!

20 Una er með munninn fullan en nú hættir hún að tyggja og starir líka á síðurnar. – Heyrðu mig! Þetta eru ekki neinir venjulegir stafir, segir hún svo og kyngir bitanum. – Þetta eru bara alls konar krullur og krúsidúllur! Ætli þetta sé arabíska? Ævar opnar bókina á nokkrum stöðum og alls staðar eru þessi skrítnu tákn. En þegar hann opnar hana í miðjunni rekur hann í rogastans. Una þrífur af honum bókina. Ha? Bíddu nú við!

21 Þau sjá að það hefur verið skorið lítið ferhyrnt gat í gegnum allar síðurnar sem eftir eru. Þær eru auk þess límdar saman þannig að ekki er hægt að fletta þeim. – Þetta er eins og leynihólf! segir Una. – Inni í bókinni! – Sjáðu, það er eitthvað hérna ofan í því! Ævar tekur með tveimur fingrum um pínulítinn rauðan taupoka og lyftir honum upp úr hólfinu. Una horfir á hann full eftirvæntingar. – Gáðu hvað er í honum! Fljótur! segir hún.

22 En þá er dyrabjöllunni hringt í annað sinn! Það er líka barið á hurðina! Mjög fast! Ævar lætur pokann falla í hólfið og skellir aftur bókinni. Hann hikar en opnar svo dyrnar. Hann er næstum oltinn um koll þegar lítill strákur með bangsa í fanginu ryðst inn.

23 GESTIR – Ási! segir Una hissa. Litli drengurinn hleypur beint til systur sinnar. Á eftir honum koma þrjár reiðar manneskjur askvaðandi inn í íbúðina. – Hvar er bókin? hrópar konan sem er fremst. Þau æða um alla íbúðina. – Heyrðu! Er þetta ekki hún? spyr langur og slánalegur karl. Hann bendir á grænu bókina sem liggur á borðinu. – Taktu hana Siggi! segir hann svo skipandi röddu við unglingsstrák sem rýkur strax til og hrifsar bókina af borðinu. – Fljótir nú! Drífum okkur! segir konan. – Nú látum við okkur hverfa!

24

25 – Þið haldið ykkur saman! segir karlinn við krakkana og svo flýta þau sér út. Una, Ævar og Ási horfa þrumu lostin á eftir þeim. – Hvað var nú þetta? segir Ævar loksins. – Og hvað ert þú að gera hér, Ási? spyr Una bróður sinn. – Æi, Una, mig langaði svo rosalega að koma með þér að heimsækja Ævar. Ég laumaðist inn í farangursgeymsluna í rútunni og faldi mig bak við ferðatösku, segir Ási skömmustulegur. – En ég hossaðist alveg ógeðslega mikið á leiðinni. Ég fékk illt í rassinn. Svo þegar ég slapp loksins út þá varst þú bara horfin. Ási snöktir.

26 Tárin renna niður kinnarnar og hann þrýstir bangsanum sínum fast að sér. Una hringir strax í pabba sinn og mömmu og lætur þau vita að Ási sé með henni. Þeim dauðbregður þegar þau heyra um ferðalag drengsins. Þau héldu að hann hefði farið að veiða með afa sínum. Ég fékk illt í rassinn!

27 ÁSi – Svo kom þetta fólk æðandi og fór að róta í ruslatunnunni, útskýrir Ási. – Þau töluðu við miðasölukonuna og voru alveg bálreið! Þegar þau sáu mig þá réðst þessi Siggi á mig. Hann spurði hvort ég þekkti stelpuna með appelsínugulu gleraugun. Ég sagðist einmitt vera að leita að stelpu með þannig gleraugu. Þá neyddu þau mig til að segja hvert þú hefðir farið. – Já, en hvernig vissirðu það? spyr Una. – Þú ratar ekkert hér í borginni. – Sko, ég veit alveg að mamma hans Ævars heitir Sigurlína. Ég sagði þeim það.

28 Ég veit líka að hún er trésmiður. Þá fundu þau hana bara í símaskránni. En hvað er annars svona merkilegt við þessa grænu bók? spyr Ási. Hann sýgur upp í nefið og þurrkar tárin úr augunum. – Þetta er ekki nein venjuleg bók, segir Ævar. – Það er sko leynihólf inni í henni og þar er lítill rauður poki. Kannski er eitthvað merkilegt í honum. En nú er fólkið búið að taka hann og þú ert sloppinn frá þeim.

29 Vonandi fáum við þá að vera í friði. Una verður skrítin á svipinn. – Nei! Þau fengu sko ekki pokann. Því ÉG er með hann! Hún dregur rauða pokann upp úr vasanum. Hún sýnir þeim hann sigri hrósandi. Ævar horfir hissa á hana. Una reynir að losa hnútinn á bandinu sem lokar pokanum. Þegar henni tekst það loks hvolfir hún úr pokanum á stofuborðið. Þau trúa ekki sínum eigin augum!

30 STEINAR Á hvítum dúknum liggja gimsteinar! Marglitir glitrandi steinar af ýmsum stærðum! Þeir sindra og ljóma í ljósgeislanum. Krakkarnir hafa aldrei séð annað eins! – Vá, maður! segir Ási. – Ótrúlegt! segir Una. – Er þetta hægt? spyr Ævar, því hann er alls ekki viss um að svona fallegir steinar geti verið til í raun og veru. Svo man hann allt í einu eftir svolitlu! Hann rýkur fram í eldhús og sækir dagblaðið. Hvað var hann aftur að lesa áðan? Hann flettir hratt í gegnum blaðið. Jú, þarna stendur það. – Sjáðu, segir hann og réttir Unu blaðið.

31 Ótrúlegt! VÁ!

32 Hann veit að hún er fljótari að lesa. – Arabískum gimsteinum stolið, les Una. – Síðdegis í gær var mjög verðmætum eðalsteinum stolið frá arabískum fursta sem hér er á ferð. Til stóð að sýna þá almenningi á skartgripasýningu í Perlunni en … Ævar grípur í handlegginn á henni. – Þetta eru áreiðanlega þeir! En hvað gera óþokkarnir þegar þeir uppgötva að leynihólfið er tómt! Þau hljóta að koma aftur! æpir hann. Í sama bili er dyrabjöllinni hringt enn einu sinni!

33 Börnin líta skelkuð hvert á annað. Una herðir upp hugann og læðist að hurðinni. Hún leggur augað við gægjugatið og kíkir út. Hún hrekkur við. – Má ég líka sjá! suðar Ási. En hann er of lítill, hann nær ekki upp í gægjugatið. Svo er honum líka svakalega mál að pissa. Hann verður að hlaupa fram á klósett. Ævar kíkir líka út. Honum bregður í brún því gegnum gatið á hurðinni sér hann mann með klút á höfðinu og band um ennið. – Þetta hlýtur að vera sá sem á gimsteinana, segir hann. – Arabíski furstinn! Það eru nú ekki margir á ferli hér með svona búnað á hausnum. Bjallan hringir aftur og það er líka bankað.

34 FURSTI – Verðum við ekki að opna dyrnar? spyr Ævar. – Jú, ætli það ekki, svarar Una. Hún hleypur að stofuborðinu og sópar steinunum aftur ofan í pokann. Svo opna þau dyrnar. Fyrir utan stendur feitur maður með mikið svart skegg. Auk höfuðbúnaðarins er hann klæddur síðri hvítri flík. Hann brosir og segir eitthvað sem þau skilja alls ekki. – Hvað viltu? spyr Ævar. Honum líst ekkert sérstaklega vel á þennan mann. Maðurinn segir eitthvað aftur og réttir fram lófann. Ævar gjóar augunum til Unu. – Við verðum víst að láta hann hafa gimsteinana. Þetta hlýtur að vera arabinn sem á þá.

35

36 Una gengur til mannsins og réttir honum pokann. Hann tekur við honum fegins hendi, kíkir ofan í og brosir út að eyrum. Svo kveður hann. Um leið og hann veifar í kveðjuskyni kemur Ási fram af klósettinu. Hann sér framan í arabíska manninn rétt áður en dyrnar lokast á eftir honum. – Hvað! æpir hann. – Var það þessi sem var fyrir utan dyrnar? Létuð þið hann nokkuð fá gimsteinana?

37 – Jú, hann fékk þá. Þetta var arabíski furstinn og hann á þá. – Nehei! Þetta var sko ekki neinn fursti! Þetta var hann Siggi, strákurinn sem kom hérna áðan með fólkinu! Sáuð þið ekki að hann var bara með gerviskegg og í slopp? Með handklæði á hausnum og kannski með púða á bumbunni! Eruð þið brjáluð? Una og Ævar líta hvort á annað. Er þetta rétt hjá Ása? Hann sá fólkið auðvitað miklu betur en þau. – Flýtum okkur! hrópar Ævar. – Eltum hann! Náum pokanum af honum! Þau gefa sér engan tíma til að fara í útiföt heldur geysast út á götu og svipast um. Siggi er horfinn! Í hvora áttina fór hann? – Við skiptum liði! segir Ævar við Unu. – Ég fer til hægri og þú til vinstri! – En ég? Hvert fer ég? spyr Ási. En þá eru bæði Una og Ævar horfin!

38 ÁRÁS Una hleypur til vinstri alveg út að horni. Hún svipast um en sér ekkert. Hún kemur að litlu torgi. Þar sér hún loks fólk sem hún kannast við. Það eru karlinn og konan sem komu heim til Ævars og tóku grænu bókina. Þau eru að bíða eftir Sigga. En hvar er hann? Hann er með gimsteinana! Una hefur engan áhuga á þessu fólki en hún vill finna Sigga og hrifsa af honum rauða pokann. – Heyrðu! segir konan allt í einu og bendir. – Þarna er dökkhærða stelpan með appelsínugulu gleraugun! Þau koma æðandi til Unu. – Hvað ert þú að gera hér? spyr konan ströng á svip. Hvar er Siggi … nei, ég meina … hvar er arabinn?

HVAR ER SIGGI? 39

Ævar hleypur til hægri og út að næsta götuhorni. Þá sér hann flaksandi hvítan kjól í fjarska. Þarna er hann þá, svikarinn, hugsar Ævar. Með gerviskegg og bumbu og handklæðisdruslu á hausnum. Og með gimsteinana í litla rauða pokanum í skítugri krumlunni! Ég skal sko ná honum! Hann tekur sprettinn á eftir honum. Siggi virðist ekki vera neitt að flýta sér. Hann labbar hægt og rólega. 40

41 Ekki líður á löngu þar til Ævar nær honum. Hann hendir sér aftan á Sigga, þrífur í hvíta kjólinn og togar í handklæðið og skeggið. – Þarna náði ég þér, þjófurinn þinn! æpir Ævar. Siggi hrasar og dettur. Hann snýr sér við og horfir á Ævar. En þá sér Ævar að þetta er alls ekki Siggi! Þetta er stór karl með alvöruskegg og bumban á honum er líka alveg ekta! Höfuðfatið er ekki gamalt handklæði heldur alvöru arabaflík! Í sömu andrá koma tveir svartklæddir menn askvaðandi. Þeir grípa Ævar og halda honum föstum! Annar þeirra talar í talstöð. Eru þeir nokkuð að kalla á lögregluna?

42 Karlinn sem Ævar felldi í götuna rís á fætur með erfiðismunum. Hann lagar á sér kjólinn og höfuðfatið og dustar af sér rykið. Hann er eins og þrumuský á svipinn. Ævar er dauðskelkaður. Hvað hefur hann gert?

43 Í GARÐINUM Ási sér Unu hlaupa til vinstri og Ævar til hægri. Hann sér þau hverfa fyrir horn. En hvert á hann að hlaupa? Hann hefur aldrei áður komið til borgarinnar. Hann ratar ekki neitt og er hræddur um að villast. Hann ætlar því aftur inn til Ævars en dyrnar eru læstar. – Hvað gerum við nú? spyr hann bangsann sinn. Honum heyrist bangsi segja að þeir skuli bara fara inn í garð. Þeir geti beðið þar þangað til Una og Ævar komi aftur með gimsteinana og grænu bókina. En þegar Ási og bangsi koma inn í garðinn sjá þeir strax að þar er einhver. Einhver sem liggur á hnjánum og rótar í moldinni.

44 Við hliðina á honum í grasinu er hvít drusla og gamalt handklæði í hrúgu. Þar er líka gerviskegg og púði. Ási sér strax hver þetta er! Hann læðist alveg hljóðlaust nær og felur sig inni í runna. Ási teygir höndina ofurvarlega út úr runnanum. Honum tekst að krækja í hvíta kjólinn og breiða hann yfir sig. Svo stekkur hann fram úr runnanum með bangsa á lofti og æpir eins draugalega og hann getur.

45 Siggi stirðnar af hræðslu þegar hann sér illa andann. Hann stekkur á fætur og rekur upp öskur. Svo baðar hann út öllum öngum og hleypur út úr garðinum. Ási fer á eftir honum. ÉG ER ILLUR ANDI FRÁ ARABÍU!

46 Nú gerist margt í einu! Una kemur æðandi með vonda karlinn og konuna á eftir sér. Siggi og Ási hlaupa beint í flasið á þeim. HJÁLP!

47 Um leið kemur Ævar úr hinni áttinni. Með honum er einn arabískur fursti og tveir lífverðir sem halda fast um axlirnar á Ævari. Loks kemur lögreglubíll á fleygiferð og bremsar beint fyrir framan húsið!

48 RUGL Þegar karlinn, konan og Siggi sjá lögguna verða þau hrædd og reyna að laumast burt. En það tekst þeim ekki því það eru fimm lögreglumenn í bílnum. Það tekur dágóða stund að útskýra málin og greiða úr flækjunni. Smátt og smátt kemur sannleikurinn í ljós. Skötuhjúin viðurkenna að hafa sent Sigga, son sinn, til að stela gimsteinum furstans. Þau höfðu komist að því að þeir væru geymdir inni í grænni bók. Siggi stal bókinni og faldi hana í ruslatunnu á rútustöðinni. Þegar þau ætluðu svo að sækja bókina var hún horfin! Þau spurðu konuna í miðasölunni.

49 Hún sagði þeim að stelpa með appelsínugul gleraugu hefði komið til hennar með ógeðslega subbulega græna bók í fórum sínum. Stuttu seinna hittu þau lítinn strák með hor í nös sem var að leita að systur sinni. Í ljós kom að systirin var einmitt með appelsínugul gleraugu. En þegar þau loks náðu grænu bókinni af fjandans stelpunni þá voru gimsteinarnir ekki lengur í henni.

50 Stelpan hafði greinilega stolið þeim sjálf! Þá dulbjó Siggi sig sem arabískan fursta og fór til að sækja steinana. – Við vorum svo vitlaus að við létum hann fá þá, segir Una. – En svo ætluðum við að reyna að ná þeim aftur, bætir Ævar við. Hann lítur á arabíska furstann. – Ég hélt að þessi arabíski fursti væri Siggi og þess vegna réðist ég á hann. En svo er hann ekki Siggi. Hann er alvöru, ekta arabískur fursti. Það er hann sem á gimsteinana! Lögreglumennirnir eru alveg ringlaðir. – Þetta er nú meira ruglið! segir einn þeirra. – Og hvar eru þessir frægu steinar þá niðurkomnir núna? – Já, segir Una. – Hvar er litli rauði pokinn sem ég lét þig fá? Svaraðu því! Þau líta öll á Sigga. – Ég er sko ekki með hann! segir hann og glottir. – Leitið á mér ef þið trúið mér ekki.

51 HVAR ER POKINN?

52 GIMSTEINAR Arabíski furstinn skilur ekki neitt í neinu. Lífverðirnir reyna að útskýra málið á arabísku. En það er nú ekkert auðvelt. Furstinn er ennþá reiður og gefur Ævari illt auga. Honum fannst ekki gott að láta fella sig í götuna. Ási hefur ekkert verið að fylgjast með öllu þessu þvargi. Hann situr á tröppum hússins og reynir að hreinsa moldina framan úr bangsanum sínum. Hann er orðinn ansi skítugur. Mega bangsar fara í þvottavél?

53 Allt í einu heyrir hann að fólkið er að tala um litla rauða pokann. Siggi segist ekki vera með hann. Enginn veit hvar hann er. Ási hugsar sig um. Hvað var Siggi eiginlega að gera í garðinum áðan? Það er bara eitt sem kemur til greina. – Ég veit hvar pokinn er, segir Ási. Þau líta öll á litla drenginn með skítuga bangsann. – Komið þið með mér. Ég skal sýna ykkur! Nú fer öll hersingin á eftir Ása inn í garð. Ævar, Una, Siggi, karlinn, konan, arabíski furstinn, tveir lífverðir og fimm lögreglumenn. Ég veit hvar pokinn er!

54 Ási sýnir þeim staðinn þar sem Siggi var að róta í moldinni. Lögreglan grefur litla rauða pokann upp. Á meðan laumast Siggi burt. Konan réttir Unu grænu bókina og svo laumast hún líka út úr garðinum með karlinum sínum. Arabíski furstinn verður glaður þegar hann fær grænu bókina og rauða pokann með gimsteinunum aftur. Svo glaður að hann skellihlær. Hann opnar pokann og tekur þrjá dýrmæta steina upp úr honum. Hann gefur Unu einn grænan stein, Ævari einn rauðan, og Ása einn bláan. Því næst flýtir hann sér burt með lífvörðum sínum. Skartgripasýningin í Perlunni er alveg að byrja.

55 VÁ!

56 Lögreglubíllinn ekur af stað. Á næsta götuhorni hirða þau þjófana og fara með þá á stöðina. – Jæja, svona er þá lífið hér í borginni! segir Una og brosir til Ævars. – Er þetta svona á hverjum degi? Ævar hlær. – Ekki á hverjum degi en kannski svona tvisvar til þrisvar í viku! Hann vonar að Una verði lengi hjá þeim. Hann er að minnsta kosti alveg ákveðinn í að bjóða henni í bíó í kvöld. Hann er reyndar nokkuð viss um að bíómyndin verður ekki nærri jafnspennandi og dagurinn þeirra í dag!

SIGRÚN ELDJÁRN GRÆNA BÓKIN Græn bók í ruslatunnu. Er eitthvað dularfullt við hana? Hvað er ofan í litla rauða pokanum? Una og Ævar lenda í fleiri ævintýrum. Hvernig endar þetta eiginlega? Skemmtileg og spennandi saga eftir Sigrúnu Eldjárn. Sjálfstætt framhald af sögunum Óboðnir gestir og Svaðilför í berjamó. Hljóðbók má hlaða niður af vef MMS. 40365

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=