Gott og gagnlegt 3

24 GOTT OG GAGNLEGT 7. BEKKUR Neytendur Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Óvænt áföll og breytingar geta haft ófyrirsjáanleg útgjöld í för með sér. Áætlanir geta raskast. Þá er gott að eiga varasjóð og hafa farið vel með það fé sem aflast hefur. Það er aldrei of snemmt að fara skynsamlega með peninga og passa vel það sem ykkur áskotnast hvort sem er í formi vasapeninga eða greiðslu fyrir vinnu. Ef þið fáið vasapeninga er upphæðin líklega í samræmi við það sem foreldrar ykkar ætlast til að þeir séu notaðir í. Ef til vill fáið þið líka peninga í afmælisgjöf. Hvernig þið ráðstafið þessum peningum er góð æfing fyrir framtíðina. Þið þurfið að vera útsjónarsöm og hugsa ykkur um áður en þið eyðið þeim. Stundum er sagt „græddur er geymdur eyrir“, eða „það eyðist sem af er tekið“. Þetta er gott að hafa í huga. Við erum öll neytendur. Hvað felur þetta orð ­ í sér? Allir sem kaupa vörur eða þjónustu eru neytendur. Vöru og þjónustu sem er nauðsynleg fyrir heimilið þarf fjölskyldan að greiða fyrir með því fé sem hún aflar sér með vinnu utan eða innan heimilisins. Yfirleitt eru það fullorðnir fjölskyldumeðlimir, foreldrarnir, sem einvörðungu sjá um að framfleyta heimilisfólkinu þ.e. sjá um öll útgjöld og rekstur heimilisins. Mánaðarlega þarf að greiða fasta reikninga s.s. fyrir afnot af síma, rafmagni, hitaveitu, sjónvarpi og útvarpi. Við greiðum skatta til sameiginlegs reksturs í samfélaginu. Nauðsynlegt er að hafa tryggingar í lagi og borga iðgjöld af þeim. Við þurfum að borða og kaupa þarf hreinlætisvörur og bensín á bílinn. Auk þess þarf að greiða af lánum sem fjölskyldan hefur tekið vegna húsnæðis, bifreiðakaupa eða af námslánum. Margir nýta sér lánamöguleika til að kaupa húsbúnað eða til að fara í frí með fjölskyldunni. Allt eru þetta miklar fjárhæðir. Í boði eru ýmiss konar greiðslu- og lánakjör sem auðvelda fólki að eignast hitt og þetta en á endanum þarf að greiða upp lánin og þá oft með háum vöxtum. Margt sem foreldrar veita börnum sínum, umfram mat, klæði og húsnæði, kostar heilmikla peninga. Það þarf að greiða fyrir tónlistarskóla, íþróttaiðkun, ferðalög, sund, bíóferðir, skauta­ ferðir, keilu, vídeó, GSM-síma og margt fleira. Listinn gæti orðið ansi langur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=