Gott og gagnlegt 2

GOTT OG GAGNLEGT 6. BEKKUR – 5 Næringarefni Líkami okkar er samsettur úr óteljandi örsmáum frumum. Þær eru svo smáar að við getum einungis séð þær í smásjá. Þær eru misjafnar að gerð allt eftir því hvaða hlutverki þær gegna í líkamanum. Alla ævi manns eru frumur líkamans að endurnýjast og að auki myndast stöðugt nýjar frumur hjá börnum og unglingum sem eru að vaxa og þroskast. Allar frumur líkamans eiga það sameiginlegt að þurfa næringu og súrefni sem við fáum í gegnum meltinguna og við öndun. Það sem við borðum fer í gegnum meltingarveg líkamans og þaðan út í frumurnar með blóð­ rásinni. Það sem líkaminn nýtir ekki losar hann sig við með svita, þvagi og hægðum. Flestar matvörur innihalda mismunandi næringarefni sem gegna ákveðnu hlutverki í líkamanum. Þegar við finnum til svengdar er líkaminn að segja að hann þarfnist næringar, en hann segir okkur ekki hvað við eigum að borða. Það er mikilvægt að velja vel og muna að við eigum aðeins einn líkama sem við þurfum að fara vel með. Börn og unglingar þarfnast u.þ.b. 50 næringarefna til þess að vaxa og þroskast eðlilega. Áður hafið þið lært að næringarefnin skiptast í orkuefni, vítamín, steinefni og vatn. Öll næringarefnin eru jafnmikilvæg en við þurfum mismikið af þeim. Engin fæðutegund inniheldur öll næringarefnin en við getum nýtt fæðuhringinn til að hjálpa okkur við að velja fjölbreytt fæði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=