Gott og gagnlegt 2
40 – GOTT OG GAGNLEGT 6. BEKKUR Þvottamerki Innkaup á fatnaði þarf að undirbúa vel. Vandaðu valið, veldu rétt og af skynsemi. Fatnaður kostar oft mikla peninga, þess vegna skiptir máli að fara vel með hann því þá endist hann lengur. Hvað er gott að hafa í huga áður en ný flík er keypt? Fatnaður nú á dögum er framleiddur úr hinum ýmsu efnum. Sum efni þola ekki þvott, önnur mega ekki fara í hreinsun og einhver þarf að handþvo. Þess vegna er mikilvægt að kynna sér leiðbeiningarnar sem fylgja fötunum okkar áður en við þvoum þau. Þvottaleiðbeiningar eru festar innan í fötin á litlum miðum, annaðhvort í hálsmáli eða í hlið neðan við handveg á peysum og bolum en í streng á buxum og pilsum. Ef við fylgjum leiðbeiningum frá framleiðanda þá endist flíkin betur. Skýringamyndir á þvottaleiðbeiningum eru svipaðar í öllum Evrópulöndum. Anna keypti flotta, dýra kuldaúlpu í ljósum lit. Hún var ánægð með úlpuna og notaði hana mikið. Úlpan varð fljótt óhrein enda ljós á litinn. Anna ætlaði að setja úlpuna beint í þvottavélina en það var ekki hægt, því á þvottaleiðbeiningunum stóð að það mætti ekki setja úlpuna í þvottavél, hún verður alltaf að fara í hreinsun. Ef þið ætlið að kaupa nýja peysu þá er gott að hafa í huga: • Vantar mig svona peysu núna? • Hvað stendur í þvottaleiðbeiningunum? • Má setja peysuna í þvottavél? • Hvert er notagildið? • Mun ég nota þessa peysu mikið? • Get ég notað þessa peysu við annað sem ég á?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=