Gott og gagnlegt 2

34 – GOTT OG GAGNLEGT 6. BEKKUR Þeim fjölgar stöðugt sem farnir eru að huga að umhverfisvernd. Þegar við förum í verslanir og ætlum að kaupa vörur sem eru umhverfisvænar þá er nauðsynlegt að þekkja helstu merki sem auðkenna þessar vörur. Vara sem er merkt með umhverfismerki verður að uppfylla kröfur sem tryggja að varan valdi minni neikvæðum umhverfisáhrifum en aðrar sambærilegar vörur. Umhverfismerki tákna að óháður aðili hefur vottað gæði hennar og umhverfisáhrif. Kröfurnar sem gerðar eru taka mið af allri sögu vörunnar, allt frá hráefnunum sem í henni eru og til úrgangs sem fellur til vegna hennar. Tvö umhverfismerki eru opinberlega viðurkennd hér á landi, það eru Svanurinn og Blómið. Það má segja að þessi tvö merki gegni sama hlutverki. Svanurinn er norrænt umhverfismerki og finnst á mörgum vörutegundum en Blómið er merki Evrópusambandsins og er á fáum vörutegundum hér á landi enn sem komið er. Þessi merki eiga að stuðla að sjálfbærri þróun sem þýðir að við eigum að skila jörðinni til barna okkar í sambærilegu eða betra ástandi en við tókum við henni . Umhverfis- og endurvinnslumerki Svanurinn er opinbert norrænt umhverfismerki og það merki sem mest er notað á Norðurlöndunum. Vörur sem hafa Svansmerkið eru betri fyrir umhverfið en aðrar sambærilegar vörur sem hafa ekki Svansmerkið. Blómið er evrópskt umhverfismerki og vörur merktar með Blóm­ inu eru betri fyrir umhverfið en sambærilegar vörur sem hafa ekki merkið. Það má því segja að Blómið og Svanurinn gegni sama hlutverki. Endurvinnsluhringurinn er alþjóðlegt endurvinnslumerki. Umbúðir sem eru merktar með þessu merki eru endurvinnsluhæfar eða að hluta til úr endurvinnanlegum efnum. Endurvinnslumerkið tryggir okkur þó ekki að sjálf varan sé endurvinnanleg eða að það megi nota hana aftur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=