Heimur í hendi - Geimurinn

6 Siglt eftir stjörnum Fyrr á öldum notuðu sjófarendur ýmis frumstæð tæki til þess að rata á sjó. Þetta voru m.a. stjörnuskífur, Jakobsstafur eða krosstré. Sama hvert tækið var fólst gagnsemin í að staðsetja hæð stjörnu eða sólar yfir sjóndeildarhring og haga stefnu þannig að hún héldist í sömu hæð á meðan siglingunni yfir hafið stóð. Mælt var einu sinni á dag, þegar sólin var í hádegisstað en á nóttinni voru notaðar ákveðnar siglingastjörnur. Sérhverja þeirra var þó aðeins hægt að mæla einu sinni á nóttu, þegar stjarnan gekk yfir miðan næturhimininn. Einnig gat áttaviti sagt til um hvort skip barst af leið. Áttavitar komust þó ekki í gagnið fyrr en á 13. öld. Oft bárust skipin hundruð sjómílna af leið í siglingum yfir úthöfin þó reynt væri að halda stefnu, vegna hafsstrauma og veðra. Víkingar notfærðu ýmis náttúrufyrirbrigði í úthafssiglingum. Sjófarendur vissu hvernig ský myndast við fjöll og geta sést yfir langan veg. Þeir fylgdust einnig með hvölum og lit sjávar. Fuglar á flugi voru vísbending um skipið væri að nálgast land. Hrafna-Flóki var með hrafna um borð og sleppti þeim, þegar hann taldi sig nálgast Ísland, og elti þá. Siglingar voru helst yfir sumarið þegar stjörnur sáust ekki. Hvernig fóru þeir að? Ein tilgátan er sú að þeir hafi notfært sér svonefndan sólstein til þess að finna stefnu. Á átjándu öld fóru menn að nota hnitakerfi sér til aðstoðar og svokallaðan sextant. Það er sérstakt hornmælingatæki sem mælir hæð sólar eða stjarna yfir haffletinum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=