Heimur í hendi - Geimurinn

10 Sólstjarna, fastastjarna, reikistjarna, halastjarna Orðið stjarna lýsir ljóspunkti á himni en greinir ekki milli sól- og fastastjarna, reikistjarna, dvergreikistjarna eða halastjarna. Það ruglar suma því þessi fyrirbæri eru ekki af sama toga. Sólstjarna og fastastjarna eru eitt og sama fyrirbærið. Þegar eðli þeirra er útskýrt er talað um sólstjörnur en fastastjörnur ef staðsetningu á himni ber á góma. Því þær virðast eiga fastan samastað á himinhvelfingunni. Reikistjörnur lýsa ekki af sjálfdáðum eins og sólin. Það er sólarljósið sem lýsir þær upp. Ástæðan fyrir því hve þær sýnast bjartar er að lofthjúpur eða yfirborð þeirra endurkasta miklu ljósi. Reikistjörnurnar Venus, Júpíter og Satúrnus eru mjög skærar, eins og björtustu fastastjörnur eða jafnvel bjartari. Meira að segja sést einkennislitur Mars sem er rauðleitur. Halastjörnur eru ekki stjörnur heldur lítil óreglulega löguð ísbrot sem er stundum líkt við skítuga snjóbolta því yfirborð þeirra er hulið ryki. Heitið vísar til hala sem myndast þegar þær fara nærri sólu. Þá gufar ís og ryk upp af þeim, streymir út í geiminn og myndar efnishala sem verður sjáanlegur í skini sólarljóssins. Flestar halastjörnur eru í ytra rými sól- kerfisins en margar eru á mjög aflöngum sporbrautum og koma inn í innra sólkerfið endrum og eins. Á þeim tíma sem reikistjörnurnar fengu nöfn var ómögulegt að vita hvað þær voru því sjónauka þarf til þess að greina það. Fimm bjartar „stjörnur“ sáust sem gengu ekki í takti fastastjarnanna heldur reikuðu hægt meðal þeirra. Síðar, eftir að sjónaukinn uppgötvaðist, fundust tvær reikistjörnur í viðbót, auk Plútó. Sá hnöttur er nú skilgreindur sem dvergreikistjarna enda afar lítill, reyndar minni en tunglið. Þetta er halastjarnan 67P/ Churymov Gerasimenko.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=