34 FULLORÐNIR MEGA ALDREI MEIÐA | MENNTAMÁLASTOFNUN 2023 | BARNAHEILL | 40343 Þitt hlutverk er að hlusta, styðja og hjálpa barninu að segja frá því sem það sjálft vill deila með þér, og meta því næst hvort þörf sé á að leita ráðgjafar og aðstoðar hjá öðrum aðilum. Gerðu barninu alveg ljóst að þú trúir því sem barnið er að segja og að það hafi verið rétt að segja frá. Í samtalinu við barnið skaltu spyrja opinna spurninga, til dæmis: „HVAÐ gerðist?“ og „HVER gerði þetta?“ Önnur leið til að spyrja er að hvetja barnið með því að segja: „Segðu mér meira frá þessu“. Upplýsingarnar geta auðveldað þér að meta hvort barnið er í bráðri hættu og að átta þig á því hvaða úrræðum er rétt að beita (t.d. hvort það liggur á að hafa samband við barnavernd/lögreglu). Gættu þess að spyrja ekki leiðandi spurninga, svo sem: „Var það mamma þín sem gerði þetta?“ Það er gott að skrifa hjá sér spurningarnar, svörin við þeim og atriði sem þú tekur sérstaklega eftir í samtalinu, annaðhvort á meðan eða strax og samtalinu lýkur. Gættu þess að greina á milli þess sem barnið segir og þínum túlkunum á því. Segðu barninu hvers vegna þú ert að skrifa hjá þér, til að vekja ekki óróa hjá því. Það getur líka verið gott að skrifa samantekt á samtalinu með barninu. Hafðu í huga að samtalið á helst að virðast sem eðlilegast í augum barnsins. Barnið finnur hugsanlega fyrir hræðslu og óöryggi þar sem þetta samtal er allt öðruvísi en þau samtöl sem þú hefur átt við barnið fram til þessa. Einnig er mjög mikilvægt að huga að líkamstjáningunni og sitja í stellingu sem gefur til kynna vináttu og opinn huga. Ef þér finnst óþægilegt að hlusta á það sem barnið segir gætirðu ómeðvitað sett upp efasemdasvip, hrukkað ennið og krosslagt handleggina. Barnið getur upplifað þetta sem tjáningu á höfnun og fengið á tilfinninguna að þú trúir ekki frásögninni. Gættu þess að nota ekki líkamlega snertingu nema þú hafir fengið skýrt samþykki hjá barninu fyrir snertingunni. Börn sem hafa orðið fyrir ofbeldi og kynferðisbrotum hafa oft ríka þörf fyrir að halda stjórninni yfir eigin líkama. Hvað gerðist? Hver gerði þetta? Segðu mér meira frá því.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=