Fullorðnir mega aldrei meiða

33 VIÐBRÖGÐ EF ÁHYGGJUR VAKNA Hér eru nokkur hagnýt ráð um hvernig gott er að eiga samtal við barn sem vill segja frá og/eða barn sem þú óttast að hafi orðið fyrir broti. Þú getur einnig fengið ráð um hvernig á að fylgja samtalinu eftir og hlúa að barninu. Samtal við barn sem vill segja frá Ef barnið hefur treyst einhverjum fullorðnum fyrir frásögn sinni er ráðlegast að sami einstaklingur fylgi málinu eftir og eigi frekari samtöl. Þetta getur verið erfitt samtal fyrir barnið. Gættu þess að finna stað þar sem aðrir sjá ekki til og þið getið talað saman án truflana. Ef þú hefur ekki tækifæri til að eiga samtal um leið og barnið á frumkvæði að því þarf að ákveða tíma fyrir það með barninu sem allra fyrst. Það er mikilvægt að þú gerir barninu alveg ljóst að þú viljir gjarnan spjalla og heyra hvað það hefur að segja, en að þú getir það ekki nákvæmlega núna. Þú verður að gefa góða skýringu sem er skiljanleg barninu. Þegar samtalið við barnið fer fram er mikilvægt að þú hlustir mjög vel og af athygli. Leyfðu barninu að leiða samtalið. Þegar barn segir frá er þitt hlutverk að veita frásögninni athygli. Jafnvel þótt barnið hafi átt frumkvæði að samtalinu getur verið erfitt fyrir barnið að segja frá því sem hann eða hún vill koma á framfæri. Ef samtalið reynist barninu of erfitt geturðu hjálpað því með því að lýsa því sem þú veist nú þegar (hvort sem það er það sem barnið sjálft hefur sagt/teiknað/ skrifað eða eitthvað sem þú tókst sjálf(ur) eftir). Þú getur líka hjálpað barninu með því að endurtaka það sem það segir og hvetja það til að segja nánar frá. Á vef Mennamálastofnunar má finna vefinn Stopp ofbeldi! og þar eru leiðbeiningar um það hvernig hægt er að snúa sér ef þú hefur áhyggjur af barni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=