Frelsi og velferð

b 84 FRELSI OG VELFERÐ : Deilur í Mið-Austurlöndum Barist gegn vestrænum áhrifum Í Mið-Austurlöndum voru margir óánægðir með fátækt og spillingu í heimalöndum sínum og fólki fannst leiðtogar landa sinna ekki gera nóg til að binda enda á hernám Ísraelsmanna á landi Palestínumanna. Smám saman varð það trúin sem sameinaði fólk í baráttu gegn eigin spilltu stjórnvöldum, Ísrael og Vesturlöndum. Múslimabylting í Íran Árið 1979 var gerð stjórnarbylting í Íran. Fólk var orðið þreytt á fátækt, miklum lífskjaramun og spilltum valdhöfum. Það jók óánægjuna að þjóðarleiðtogi Írana, Reza Shah Pahlavi keisari reyndi að umbreyta Íran eftir vestrænum fyrirmyndum með stuðningi Bandaríkjamanna. Vestrænir hlutir, auglýsingar og skemmtanir, urðu meira áberandi en trúin þokaðist í bakgrunn. Til að halda völdum hafði keisarinn leynilega lögreglu, SAVAK. Hlutverk hennar var að fylgjast með andstæðingum keisarans, handtaka þá, fangelsa og hræða til undirgefni. Íranir fengu smám saman nóg af stjórn keisarans og hrottalegum aðferðum SAVAK. Árið 1979 var keisarinn settur af og hinn heittrúaði erkiklerkur (ayatolla) Khomeini komst til valda. Eftir það voru allir skyldaðir til að fylgja íslömskum lögum. Körlum og konum sem voru ekki í hjónabandi var haldið aðgreindum. Konur urðu að ganga með blæjur. Áfengi var bannað og föstur fyrirskipaðar. Í augum íslamista voru Bandaríkjamenn og Ísraelar þjóðir sem unnu gegn íslam og Khomeini hvatti til heilags stríðs gegn þeim. Khomeini erkiklerkur (ayatolla) (1900–'89) var múslimskur trúarleiðtogi. Eftir að hann hélt uppi mótmælaaðgerðum gegn Íranskeisara á sjöunda tug aldarinnar var hann hrakinn í útlegð árið 1963. En árið 1979 kom hann til baka til Íran til að stjórna byltingu gegn keisarastjórninni. Islamismi er stjórnmálastefna sem vill skapa stjórnkerfi byggt á trúarlegum lögmálum múslima.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=